19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2853)

228. mál, hafnarskilyrði í Kelduhverfi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þessa till. á þskj. 477 um rannsókn hafnarskilyrða í Kelduhverfi flytjum við allir þm. Norðurlandskjördæmis eystra og hv. 10. landsk. þm.

Fjallahöfn í Kelduhverfi varð löggiltur verzlunarstaður árið 1883, og oft hefur m.a. hér á Alþingi verið á þann stað minnzt sem lífhöfn á þessu svæði. Hins vegar er hér ekki um neitt þéttbýli að ræða. En í sambandi við umr. um virkjun Jökulsár á Fjöllum hefur mönnum sýnzt, að einn af þeim stöðum, sem kæmi til greina sem hafnarstaður vegna virkjunarinnar, væri Fjallahöfn, vegna þess að þangað er stytzt frá Dettifossi. Þar er mikið landrými, lágt land og slétt og jarðhiti fyrir hendi, sem raunar er enn lítt rannsakaður.

Nú fyrir nokkru var það upplýst hér á Alþingi, að kunnur útlendur sérfræðingur í hafnagerð og sérstaklega í sandburði með ströndum fram mundi dveljast hér í sumar á vegum hafnarmálastjórnarinnar. M.a. vegna þessara upplýsinga flytjum við þessa till., sem að henni stöndum, en það er svo, að í sambandi við hafnarstæði í Kelduhverfi þarf sérstaklega að athuga, hvort hætta geti verið þar á sandburði, og ef hún er til staðar, hvernig þá megi bægja henni frá. Till. er þess vegna að verulegu leyti bundin við komu þessa sérfræðings, sem er væntanlegur hingað á næsta sumri. Af þessari ástæðu leggjum við mikla áherzlu á það, ef verða mætti, en till. fengi afgreiðslu á þessu þingi, og er hér raunar ekki um mjög flókið mál að ræða. Ég geri því ekki till. um, að málinu verði vísað til n., þar sem það mundi verða til þess væntanlega, að till. yrði ekki afgr. á þinginu, en vildi fyrir hönd okkar flm. mælast til þess, að hún verði afgreidd.