17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (2872)

13. mál, síldarleit

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 13 flyt ég ásamt hv. 1. þm. Austf. og hv. 3. þm. Norðurl. v. till. til þál., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til þess, að síldarleit eigi sér stað altan ársins hring allt umhverfis landið.“

Á síðasta þingi flutti ég ásamt með sömu hv. alþm. till. til þál., er gekk út á það, að síldarleitarskipum yrði fjölgað í 3 fyrir Norður- og Austurlandi við í hönd farandi sumarsíldveiðar þá. Sú till. dagaði uppi, en engu að síður varð það úr, að síldarleitarskipin voru í sumar fyrir norðan og austan 3 í stað tveggja, sem þau höfðu verið flest undanfarandi sumur. Árangurinn af síldarleitinni eftir s.l. sumar er alveg óumdeilanlega mjög góður. Og ég minnist þess að hafa séð í einu Reykjavíkurblaðanna, ég held, að það hafi verið Morgunblaðið, í viðtali við einn af aflakóngum siðasta síldarsumars, að hann sagði eitthvað á þá leið, að hann teldi, að um helming síldaraflans á síðustu vertið mætti beint og óbeint þakka þeirri síldarleit, sem fór fram á síldarleitarskipunum þrem undir stjórn Jakobs Jakobssonar fiskifræðings. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það þess vegna eða hafa fleiri orð til þess að benda á, hversu síldarleitin í sjálfu sér er mjög mikils verð og gefur óumdeilanlega mjög góða raun, ef hún er rekin af nægilegum krafti og undir nægilega góðri stjórn.

Nú er það nokkurn veginn talið víst, að síld sé hér á miðunum umhverfis landið árið um kring. Og fiskifræðingar okkar hafa nokkra þekkingu á því þegar, hvar hún heldur sig á hverjum árstíma. Við höfum líka nú hin síðari árin bæði tekið í notkun miklu stærri og betri skip en algeng voru fyrir nokkrum árum, og við höfum þar að auki tekið í notkun veiðarfæri, sem gera það mögulegt að veiða síldina á hvaða árstíma sem er og jafnvel þótt veður séu nokkuð þung og vond. Maður hlýtur að mega ætla, að það hljóti að vera í því talsverður sparnaður fyrir útgerðina og jafnframt æskilegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að bátaflotinn þurfi ekki að skipta jafnoft um veiðarfæri á hverju ári eins og verið hefur til þessa. Flest úthöld hafa þurft að hafa sérstök veiðarfæri fyrir sumarsíldveiðarnar, annars konar veiðarfæri fyrir vetrarsíldveiðarnar, í þriðja lagi veiðarfæri fyrir þorskvertíð á vetrum og þar fram eftir götunum. Að sjálfsögðu er í veiðarfærunum bundið óhemjufé, sem nýtist ekki nægjanlega vel vegna þess, hvað þau eru lítið notuð eða stuttan tíma notuð úr ári hverju. Þegar því ástæða er til að ætla, að hægt sé og jafnvel hagkvæmara fyrir bátana að stunda sömu veiðarnar allt árið um kring, þá er ljóst, að það út af fyrir sig mælir eindregið með því, að við komum á síldarleit, er standi allt árið um kring og alts staðar umhverfis landið, þannig að bátaflotinn geti stundað þessar veiðar stöðugt og þá sem mest frá sínum heimahöfnum. Það mundi að áliti okkar flm. verka verulega í þá áttina að tryggja það, að fólkið flyttist ekki og tæki sig burt af þeim stöðum, sem hafa átt í erfiðleikum við að hamla á móti fólksflóttanum hingað til Suðvesturlandsins, og það ætti að geta gert þeim, sem síldaraflann kaupa og verka, mögulegt að borga jafnvel hærra verð fyrir hann til sjómanna og útvegsmanna, ef þeir gætu notað sínar dýru verkunarstöðvar lengri tíma úr ári en til þessa hefur tíðkazt.

Það verður að teljast eðlilegt, að ríkissjóður kosti starfsemi sem síldarleitina. Svo miklir þjóðfélagslegir hagsmunir eru við það tengdir, að síldveiðarnar gangi vel í landinu, að það réttlætir það, að ríkissjóður standi undir kostnaðinum af síldarleitinni.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál. Ég hygg, að um gagnsemi þess verði ekki deilt, og kostnaðurinn, sem af þessari starfsemi kann að leiða, þó að hún yrði stunduð allt árið, er hverfandi á móts við þá hagnaðarvon, sem því er samfara. Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að máli þessu verði að umr. lokinni vísað til hv. fjvn.