31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

14. mál, raforkumál

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú um raforkumál, sem hér liggur fyrir á þskj. 14, er borin fram af þm. Framsfl. Till. samhljóða þessari var flutt á síðasta þingi, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa till., hún er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða áætlunum um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins, er miðist við það, að öll heimili hafi fengið rafmagn í síðasta lagi fyrir árslok 1968. Séu gerðar áætlanir um ný orkuver, aðalorkuveitur og dreifilínur um sveitir ásamt áætlunum um aðstoð við að koma upp einkastöðvum fyrir einstök heimili, sem eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leggja raflínur til þeirra frá samveitum, og sé aðstoðin ákveðin með hliðsjón af þeim stuðningi, sem veittur er íbúum samveitusvæðanna. Áætlunum þessum verði lokið fyrir 1. janúar 1963.“

Þannig er þessi till. okkar.

Árið 1954 hófst framkvæmd svonefndrar 10 ára áætlunar um rafvæðingu landsins, sem síðan hefur verið unnið að. Var áætlunin gerð samkv. viðauka við raforkulögin, sem Alþ. hafði samþykkt. Í grg., sem till. fylgir, er birt yfirlit um fjárveitingar úr ríkissjóði til raforkuframkvæmdanna síðan 1954. Tölurnar eru teknar úr ríkisreikningunum. Yfirlitið sýnir, að á árunum 1954–1961, að báðum meðtöldum, hefur ríkissjóður lagt fram til nýrra raforkuframkvæmda alls rúmlega 65.5 millj. kr. og til raforkusjóðs samtals 89.9 millj. Hæst voru ríkisframlögin árin 1957 og 1958, eins og skýrslurnar í grg. bera með sér. Kostnaður við þessar framkvæmdir sem aðrar hefur aukizt mjög síðustu árin. Hefði því verið full þörf fyrir aukin framlög frá ríkinu, en í þess stað hafa þau verið lægri árin 1959 –62 en 2 næstu árin þar á undan. Samkv. framansögðu hafa framlög úr ríkissjóði til nýrra raforkuframkvæmda og raforkusjóðs numið samtals rúmlega 155 millj. kr. á næstliðnum 8 árum, 19541. En á þessum 8 árum voru lagðar í stofnkostnað hjá rafmagnsveitum ríkisins og héraðsrafmagnsveitum ríkisins samtals 514.5 millj. kr. Lætur því nærri, að á þessu tímabili hafi ríkissjóður lagt fram um 30a/o af stofnkostnaði framkvæmdanna, en 70% verið fengið að láni.

Áður en þetta tímabil hófst, þ.e.a.s. í árslok 1953, var stofnkostnaður hjá rafmagnsveitum ríkisins og héraðsrafmagnsveitunum orðinn um 57.5 millj. kr. Samkv. reikningum raforkumálaskrifstofunnar var því heildarstofnkostnaður þessara fyrirtækja um síðustu áramót orðinn rúmlega 572 millj. kr. Þetta er samtala þeirra upphæða, sem í árslok 1961 var búið að leggja í virkjanir, orkuveitur, dísil- og hjálparstöðvar, landareignir, hús og áhöld hjá rafveitunum, þ.e.a.s. bæði hjá rafmagnsveitum ríkisins og héraðsrafmagnsveitum ríkisins. Við þessa tölu er þó það að athuga, að hér er ekki meðtalinn sá gengishalli, sem rafmagnsveiturnar hafa orðið fyrir í sambandi við gengislækkanir síðustu ára vegna erlendra lána, sem á þeim hvíla. Gengismunurinn er færður sem sérstakur liður á eignahlið efnahagsreiknings hjá rafmagnsveitum ríkisins, og var hann um síðustu áramót 130.6 millj. Sé þeirri upphæð bætt við bókfærðan stofnkostnað, koma út rúmlega 702 millj. kr. Hjá rafmagnsveitum ríkisins voru framkvæmdir langmestar árið 1958. Þá var varið til þeirra rösklega 93 millj., en hjá héraðsrafmagnsveitunum hafa framkvæmdirnar verið nokkuð svipaðar flest árin að undanförnu.

Um síðustu áramót höfðu 2429 sveitabýli fengið rafmagn frá samveftum, eftir því sem raforkumálaskrifstofan hefur upplýst, og þá höfðu tæplega 600 heimili rafmagn frá sérstökum vatnsaflsstöðvum. Af þessu sést, að allmikið er óunnið til þess að koma rafmagninu á öll heimili. Þegar birtar eru fréttir um það, hve margir landsmenn hafi fengið rafmagn, munu þeir oft taldir með, sem komið hafa upp mótorstöðvum. Margar þessar stöðvar eru litlar, oft aðeins til ljósa, og margir hafa sett upp slíkar smástöðvar á heimilum sínum í bili, meðan þeir bíða eftir rafmagni frá samveitum. Slík úrlausn er vitanlega alveg ófullnægjandi, og það gefur ekki rétta mynd af ástandinu, ef þau heimili, sem hafa aðeins sett upp slíkar mótorstöðvar, eru talin með þeim, sem hafa fengið raforkuþörf sinni fullnægt með línum frá samveitum eða sérstökum einkastöðvum, sem reknar eru með vatnsafli.

Ég sá í blaði fyrir fáum dögum haft eftir hæstv. ráðh., að ætla mætti, að í árslok 1964 hefðu um 180 þús. landsmanna fengið rafmagnið. Ég er hræddur um, að þetta sé tekið eftir skýrslum, sem þannig eru gerðar, að þar séu talin með þau heimili, sem hafa fengið mótorstöðvar mismunandi stórar, en eins og ég sagði, þá tel ég, að þetta gefi ekki rétta mynd, ef slíkar stöðvar eru taldar með eða þau heimili eru talin með hinum, sem hafa fengið fullnægt sinni raforkuþörf. Þetta er í mörgum tilfellum aðeins ófullkomin bráðabirgðalausn, og mörg af þeim heimilum þurfa því — ég vil segja flest — að fá rafmagn, sem fullnægir betur þeirra þörfum en þessar mótorstöðvar.

Þau sveitaheimili, sem enn eiga eftir að fá rafmagn frá samveitum samkv. 10 ára áætluninni, munu skipta allmörgum hundruðum. Ekki verður talið, að framkvæmdum samkv. þeirri áætlun sé lokið, fyrr en rafmagn er komið frá samveitum um allar þær sveitir eða sveitahluta, þar sem meðallínulengd milli býla er ekki nema einn eða rúmlega einn km. Á sumum stöðum vantar orkuver og aðalorkuveitur, til þess að hægt sé að ljúka orkudreifingu um þessi svæði.

Að því þarf að vinna að ljúka framkvæmd 10 ára áætlunarinnar með þeim hraða, sem mögulegt er. Til greiðslu kostnaðarins þarf lánsfé eins og áður, og mikil þörf er að auka beinu fjárframlögin úr ríkissjóði, m.a. vegna þess að framkvæmdakostnaðurinn hefur aukizt mikið síðustu árin.

Þó að þannig sé töluvert enn óunnið við framkvæmd 10 ára áætlunarinnar, ætti að mega ljúka því á skömmum tíma. Það er því sjálfsagt að láta ekki lengur dragast að ganga frá nýrri áætlun um framhald rafvæðingarinnar. Og til þess að herða á því, að sú nýja áætlun verði gerð, er till. þessi flutt. Þar þarf að ganga miklu lengra en áður við dreifingu rafmagnsins, þannig að það verði lagt um byggðir, þó að meðallínulengd milli heimila sé miklu meiri en einn km. t till. okkar er ekki fram tekið, hve langt eigi að ganga

Í því að leggja raflínur um sveitir. En sjálfsagt er að fullnægja rafmagnsþörfinni með línum frá samveitum, að svo miklu leyti sem mögulegt er. Þegar búið er að gera uppdrætti að þeim byggðum, sem enn vantar rafmagnið, er hægt að sjá vegalengdir milli bæja á þeim svæðum, gera áætlanir um kostnað við raflínurnar og taka ákvarðanir um þær. Þó að sú verði aðalreglan, sem ég tel að eigi að vera, að leggja raflínur frá orkuverum og aðalorkuveitum um sveitirnar, eru einstök býli svo mjög afskekkt, að ekki eru tök á að veita þangað rafmagni frá samveitum kostnaðarins vegna, meðan ekki verða fundnar ódýrari aðferðir við orkuflutninginn, og þau heimili þurfa að fá rafmagn með öðrum hætti. Réttmætt er, að hið opinbera veiti til þess verulegan stuðning. Má í því sambandi benda á þá miklu aðstoð, sem ríkið hefur veitt með beinum fjárframlögum og á annan hátt til að fullnægja raforkuþörf þeirra, sem þegar hafa fengið rafmagnið.

Í till. er farið fram á, að áætlunum um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðinguna verði lokið á þessu ári og verði þær við það miðaðar, að öll heimili hafi fengið rafmagn í síðasta lagi fyrir árslok 1968. Þetta er takmarkið, sem sett er fram í till. Þeir menn, sem ekki hafa enn fengið rafmagnið, bíða óþolinmóðir, sem eðlilegt er, eftir því að fá vitneskju um, hvað gert verður í þessu máli, sem er þeim svo ákaflega þýðingarmikið. Við flm. till. leggjum áherzlu á, að þeir fái þá vitneskju um næstu áramót.

Þegar rætt er um það, hvort leggja eigi rafmagn um héruðin, er í raun og veru rætt um það, hvort byggð eigi að haldast þar eða ekki, svo mikilvægt er málið.

Segja má, að þessari till. væri fremur vinsamlega tekið á síðasta þingi, þó að hún hlyti þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Hæstv. ráðh., sem fer með raforkumál, sagði m.a. í þingræðu um málið 11. apríl s.l., að það væri æskilegt fyrir bændur, sem ekki hafa enn fengið rafmagn, að vita um það, hvenær þess sé von eða hvort þess sé von. Og hann sagði enn fremur, að áður en framkvæmd 10 ára áætlunarinnar verði lokið, sé nauðsynlegt, að framhaldsáætlun liggi fyrir, og æskilegt, að hún liggi fyrir sem fyrst. Þess væntum við flm. till., að hún fái ekki síður góðar undirtektir nú. Það verður að teljast eðlilegt, að raforkumálastjóri og raforkuráð geri hina nýju áætlun. Þeim aðilum var falið að gera 10 ára áætlunina á sínum tíma, og á raforkumálaskrifstofunni hefur verið unnið undirbúningsstarf, sem þurfti að vinna, til þess að unnt sé að gera nýju áætlunina.

Til þess að nýju áætluninni verði lokið á þessu ári, eins og farið er fram á í till., þarf að hafa hraðan á, og má því ekki dragast að taka ákvörðun um, að þannig skuli unnið að málinu. Rétt mun vera samkv. venju, að málið fái athugun í þingnefnd, og legg ég því til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn. til athugunar. Og ég vil fastlega vænta þess, að hv. n. hraði meðferð málsins og skili áliti um það hið allra fyrsta.