13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. 2. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þakkir til samnefndarmanna okkar fyrir störfin í fjvn., bæði til formanns n. og annarra nm., og tel, að samkv. eðli málsins hafi það samkomulag verið með ágætum.

Eins og fram er tekið í nál. okkar, er aðild okkar að till., sem meiri hl. hefur gert grein fyrir, eins og fyrr með þeim hætti, að við höfum óbundnar hendur um einstakar till., en um flestar þeirra er það að segja, að við stóðum að samþykkt þeirra, þótt við vildum í einstaka tilfellum láta ganga lengra en þar var gert.

Í einstaka þætti var lögð mikil vinna og öll störf n. yfirleitt, og þó að það hafi ekki tekizt sem skyldi, var það ekki af því að viljann skorti til þess að leysa úr, heldur dæmið erfitt á marga vegu. Mun ég svo láta þetta nægja almennt um störf nefndarinnar.

Þegar hæstv. fjmrh. lagði fjárlagafrv. fyrir á s.l. haustí, gat hann þess, sem kunnugt er, að þetta væri siðasta fjárlfrv. kjörtímabilsins, og vék þess vegna nokkuð almennt að kjörtímabilinu. Ég mun í því, sem ég segi hér á eftir, einnig halda mig aðallega við þetta.

Í fyrsta lagi vil ég minna á það, að þegar valdasamsteypa þessi varð til á haustmánuðum 1958, höfðu þeir áður lýst nokkuð viðhorfi sínu til fjárlagaafgreiðslu og þróunar í fjármálum ríkisins. Þetta kom mjög greinilega fram við 1. umr. fjárl. 1958, þegar núv. formaður Alþfl. sagði, að sú þróun væri uggvænleg og stefndi hreinlega í óefni, að fjárlög hækkuðu ár frá ári, og frsm. Sjálfstfl. við þá umr. lýsti því, að mikið mætti spara í ríkisrekstrinum, ef ekki skorti áræði og kjark. Nú hafa þessir tveir flokkar, sem svo lýstu sínu viðhorfi til fjárlagaafgreiðslu, farið með fjármálastjórnina í fimm ár, þegar þetta fjárlagafrv. er tekið með. Ég vil einnig minna á það, að þegar þeir gengu til kosninga haustið 1959, var stöðvunarstefnan sú stefna, sem þeir börðust fyrir, töldu sig hafa sýnt það í verki 1959 og þeirri stefnu yrði áfram haldið, ef þeir mættu ráða. Þessar yfirlýsingar er að finna í boðskap þeirra við kosningarnar, og út á þennan boðskap fengu þeir þann meiri hl., sem þeir hafa haft hér á hv. Alþingi síðan.

Í framhaldi af þessu vil ég nú gera samanburð á þróun fjármála á þessu tímabili. Ég vil taka það fram, að þegar ég vitna hér til niðurstöðutalna fjárl., bæði fyrir 1958 og 1959, þá er það tekið með, sem útflutningssjóður greiddi vegna niðurgreiðslna, svo að niðurstöðutölur fjárl. eru miðaðar við það í heild, sem nú er um þau efni.

1958 voru niðurstöðutölur fjárl. 882 millj. kr. Fjárlög hafa því hækkað á tímabilinu frá 1958 til þess, sem nú er að verða, þar sem þau verða hart nær 2 milljarðar og 200 millj., um nærri 150%, eða nákvæmlega um 145-146%. Hér með er ekki öll sagan sögð, því að ef gerður er samanburður á fjárl. hæstv. núv. ríkisstj., kemur í ljós, að þau hafa hækkað allverulega í tíð hennar. Þegar fyrstu fjárlög núv. ríkisstj. voru lögð fyrir hér á hv. Alþ., fjárlögin 1960, var greinilegt, þegar þau voru athuguð, að stefna hæstv. ríkisstj. var sú, að fjárlög þessi skyldu vera svo há, að þau mættu síðar lækka. Ástæðurnar til þess, að ég held þessu fram, eru tvær: Í fyrsta lagi, að það kom síðar í ljós, að fjárl, voru gerð upp með þeim hætti, að gengisbreytingin, sem gerð var í febrúarlok 1960, hefði staðið allt það ár. Þess vegna var reiknað með hærri tölum 2 fyrstu mánuði ársins en hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir. Enn fremur var bráðabirgðasöluskattinum, sem lagður var á seint á því þingi, einnig ætlað það hlutverk, að hann mætti lækka eða jafnvel fella hann niður síðar, þegar fjárl. lækkuðu hjá hæstv. ríkisstj. Þess vegna hlaut hann heitið bráðabirgðasöluskattur, vegna þess að það var ekki hugsunin þá að framlengja hann allt kjörtímabilið.

Hæstv. ríkisstj. hafði, eins og ég gat um áðan, eða stuðningslið hennar, talað um lækkun fjárl., og hugsunin var, að lækkun fjárl. færi fram með þeim hætti, að fyrst yrðu þau hækkuð verulega og síðan yrðu hennar eigin fjárlög lækkuð. Þannig átti að komast frá fyrirheitinu um lækkun fjárl. Ef þetta er svo athugað, kemur í ljós, að frá 1960 til þeirra fjárl., sem við erum að afgreiða nú, 1963, hafa fjárlög hækkað um 45–46%. Í tíð núv. hæstv. ríkisstj. sjálfrar hafa fjárlög hækkað um 45%. Og ef betur er athugað, kemur í ljós, að frá síðustu fjárl., fjárl. ársins 1962, koma þessi fjárlög til með að hækka um 25%, svo að ekki er nú skorið við neglur sér í hækkun fjárl.

Ef við lítum nokkuð aftur í tímann og kynnum okkur þróun fjármálanna síðustu áratugina, þá er til gamans hægt að geta þess, að fjárl. 1933, fyrir 30 árum, voru 12 millj. kr., fyrir 20 árum, 1943, voru þau 66 millj., og fyrir 10 árum voru þau 424 millj. kr. Fjárlög ársins 1953 eða fyrir einum áratug voru um 20 millj. kr. lægri en hækkun fjárl. verður frá 19621963. Og segi menn svo, að hér sé verið að skera við neglur sér. Þannig hefur þessi þróun verið stórstíg í meira lagi í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Nú mun hæstv. ríkisstj. og fleiri segja, að fjárlög hafi hækkað fyrr og þess vegna segi það ekki söguna alla, þó að vitnað sé til þess, hvað þau hafi hækkað á þessu 5 ára tímabili, sem núv. stjórnarflokkar hafa ráðið niðurstöðu fjárl. Nú skal ég sýna þessum hv. stjórnarflokkum fullkomna sanngirni. Þessu til samanburðar hef ég tekið hækkun fjárlaga á næsta 5 ára tímabili á undan, tímabilinu 1953—1958. Það var mikið rætt þá um hækkun fjárl., en hún er þó á því tímabili ekki nema um 108%. Nú er hún hins vegar tæp 150%. Sjá má af þessu, að fyrri met um hækkun fjárl. eru gersamlega út slegin.

Ef við athugum þetta mál nokkru nánar, þá mundu e.t.v. einhverjir hugsa sem svo: Hvernig hefur hæstv. ríkisstj. tekizt að tína saman fé til þess að mæta þessari hækkun fjárl.? Þess vegna mun ég næst snúa mér að því, hvað hefur gerzt, til þess að tekjur fjárl. mættu hækka svo sem raun ber vitni um.

Á tímabili hæstv. núv. ríkisstj. hefur hún fellt gengið tvisvar, í fyrsta lagi 1960 og í öðru lagi 1961. Þessar gengisbreytingar hafa auðvitað haft stórfelld áhrif á tekjuaukningu fjárl. Í sambandi við gengisbreytinguna 1960 lét hæstv. ríkisstj. sér ekki nægja að fella gengið, heldur lagði hún jafnhliða á nýjan, almennan söluskatt og viðbótarsöluskatt í innflutningi. Ekki er hér allt talið um þær álögur, sem hæstv. ríkisstj. lagði á í upphafi kjörtímabilsins, því að auk þessa hækkaði hún benzínskattinn allverulega, og hún tók til sín tekjustofna þá, sem útflutningssjóður hafði haft að verulegu leyti. Hæstv. ríkisstj. bjó þannig að í upphafi, eins og sýnt var við fjárlaga afgreiðslu 1960, að fjárlög og tekjur ríkissjóðs mundu hækka gífurlega vegna þess, hve álögur voru þá auknar. Síðar mun ég sýna fram á, til hvers þetta hefur leitt. En hæstv. ríkisstj. lét sér þetta ekki nægja. Síðar tók hún á 2. hundrað millj. kr. í sambandi við gengisbreytinguna 1961, sem var hækkun á vörubirgðum, er þá voru til í landinu. Og henni tókst að koma þessum tekjustofni inn í sjóð, sem hún stofnaði og ríkisábyrgðasjóður heitir. M.a. af þessum ástæðum tók hún út úr greiðslu ríkisreiknings árið 1961 38 millj. kr., sem áætlaðar voru á gjaldahlið fjárl. til að greiða ríkisábyrgðir. Þessi ríkisábyrgðasjóður var látinn annast ábyrgðagreiðslurnar, og ríkisstj. fékk svo þessar 38 millj. kr. til þess að ráðstafa á annan hátt.

Ekki er þó hér allt talið af þeim álögum, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið í framkvæmd á þessu kjörtímabili. Ýmsir smáskattar hafa einnig verið á lagðir, eins og gjald í sambandi við það, þegar ríkissjóður veitir ríkisábyrgð, 1% gjald er þar. Síðan var lagður á bændur í landinu sérstakur skattur á þessu kjörtímabili. Fleira af þessu tagi mun ég nú ekki nefna að sinni, en láta þetta nægja sem sýnishorn um þær álögur, sem ríkisstj. lagði sér til í upphafi, en hafa verið þess valdandi, að henni hefur tekizt að koma fjárl. svo upp sem raun ber vitni um.

Nú mun vera að því spurt, hvort með þessum hætti sé þá ekki betur frá fjárlagaafgreiðslu gengið og inn á fjárlög tekin meiri gjöld til ýmissa ríkistofnana en áður hefur verið, og þess vegna hafi ríkisstj, orðið að hækka útgjöldin og afla sér tekna til þess að vega á móti þessu. Rétt er að benda á nokkur dæmi í sambandi við þetta.

Allt fram til ársins 1960 lagði ríkissjóður pósti og síma til fé í uppbygginguna. Á fjárl. 1958 var þessi fjárhæð um 10 millj. kr. En síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, hefur þessi liður farið út af fjárl. Póstur og sími hefur verið látinn hækka svo þjónustugjöld sín, að stofnanirnar hafa staðið sjálfar undir uppbyggingunni. En þetta hefur þýtt það, að póstur og sími hefur á þessu tímabili með þeirri hækkun, sem nú er fram undan, hækkað sín gjöld um 70-80%. Þetta segir líka sína sögu um það, hversu háar álögur hafa verið á þjóðina lagðar.

Í framhaldi af þessu vil ég svo nefna annað dæmi, að Skipaútgerð ríkisins hafði á fjárl. 1958 milli 15 og 16 millj. kr. Á fjárl. yfirstandandi árs og fjárlfrv. því, sem nú er verið að afgreiða, hefur Skipaútgerðin ekki nema 10 millj. kr. Hvernig hefur Skipaútgerðinni verið ætlað að mæta þessu, að ríkissjóður styður hana minna en áður? Með því að hækka sín þjónustugjöld um 60–80%. Einnig þarna eru stórkostlega auknar álögur á þjóðina.

Fleiri dæmi mætti nefna. Rafmagnsveitur ríkisins hafa á þessu tímabili hækkað sín gjöld um 60—70%. Það er framhald á sömu stefnu hæstv. ríkisstj. að auka álögurnar á fólkið í landinu. Daggjöld á sjúkrahúsunum hafa einnig verið hækkuð á þessu tímabili um 60%. Þannig mætti halda áfram að telja, en þessi dæmi nægja til þess að sýna stefnu ríkisstj. í framkvæmd og það, að það eru ekki allar hækkanir taldar á fjárlögum.

Þá vil ég næst víkja að því, sem ríkisstj. hefur talið til síns ágætis og lagt mikla áherzlu á, að það bæri að meta áætlanir á fjárl. mjög nákvæmlega og bezt væri að fara sem mest eftir þeim. Nú vil ég víkja nokkuð að því, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt í framkvæmd að gera nákvæmar áætlanir fjárlaga.

Í sambandi við fjárlagaafgreiðslu fyrir yfirstandandi ár, 1962, bentum við á það hér á hv. Alþ., bæði í nál. og í umr, um afgreiðslu fjárl., að áætlun vegna niðurgreiðslna væri allt of lág. Við sýndum fram á það, að samkv. þeim áætlunum, sem þeir hefðu gert, sem bezt vissu, væri þessi áætlun um 70 millj. kr. of lág. Hæstv. ríkisstj. tók þetta ekki til greina, heldur áætlaði 300 millj. kr. til niðurgreiðslnanna, en auðvitað fara niðurgreiðslur nokkra tugi millj. kr. fram úr áætlun.

Á fjárl. fyrir 1962 var felld niður lögboðin greiðsla til atvinnuleysistryggingasjóðs. Ekki var þetta gert til þess að gera fjárl. raunhæfari. Nú hefur hæstv. ríkisstj. fallið frá þessu og hefur nú tekið þessa greiðslu upp og meira að segja byrjað að greiða fyrstu afborgun af því, sem vangreitt var í fyrra.

Skipaútgerð ríkisins hafa, eins og ég benti á áðan, verið áætlaðar 10 millj. kr. Þrátt fyrir þær hækkanir, sem hún hefur gert, varð rekstrarhalli Skipaútgerðarinnar um 17 millj. kr. á s.l. ári. Hvernig er með það mál farið? Samkv. ríkisreikningi eru umframgreiðslur á fjárl. rúmlega 31/2 millj. kr., en 31/3 millj. kr. geymdar til framtíðarinnar. Ekki veit ég, hvernig með það á að fara eða hvort það verður greitt á yfirstandandi ári. En þetta sýnir, að ekki er verið að leita eftir því að gera sem nákvæmastar áætlanir.

Í sambandi við þennan þátt vil ég nefna eitt dæmi enn. Það eru rafmagnsveitur ríkisins. Við fjárlagaundirbúning nú sótti raforkumálastjóri um það að fá 30 millj. kr. áætlaðar á fjárl, ríkisins vegna greiðsluhalla á rafveitum. Í sambandi við þetta mál er fróðlegt að minnast þess, að 1959, þegar núv. stjórnarliðar voru að breyta 10 ára áætluninni og fara inn á dísilstöðvarnar, fékk fjvn. í hendurnar skýrslu frá raforkumálastjóra og í samráði við ríkisstj., þar sem var sýnt fram á það í þessari skýrslu, að einmitt með þessum breytingum mundi takast að eyða greiðsluhallanum. Og samkv. þessari skýrslu átti rekstrarhalli rafveitnanna að vera enginn 1962 og 1963 1 millj. kr. Nú er fróðlegt að sjá, hvernig viðreisnarráðstafanirnar og fleiri framkvæmdir hæstv. ríkisstj. hafa verkað til áhrifa á þessa skýrslu. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá raforkumálæmbættinu, var rekstrarhalli á rafveitum ríkisins 4.2 millj. kr. á árinu 1958, 11.6 millj. kr. á árinu 1959, 17.1 millj. kr. 1960, 19 millj. kr. 1961 og áætlaður 25 millj. kr. 1962, sem nokkurn veginn er að verða þekkt tala. Og gert er ráð fyrir, að hallinn verði 30 millj. kr. 1963. Það, sem þegar er áfallið sem halli hjá rafveitum ríkisins, er 88 millj. kr. í árslok nú. 30 millj. eru fram undan. Og það er ekki hlustað á það að taka neitt tillit til þessara staðreynda í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Er þetta einn liðurinn í að gera fjárlög raunhæf og láta þau sýna rétta mynd? Hvernig á annars með þetta mál að fara? Hér er um að ræða staðreynd, sem ekki verður umflúin. Hvenær á að taka málið til afgreiðslu?

Það er fleira, sem má nefna í sambandi við hinar nákvæmu, raunhæfu áætlanir. Það er t.d. merkilegt umhugsunarefni, að mikið er rætt hér um framkvæmdaáætlun, sem eigi að koma til framkvæmda árið 1963, en í fjárlögum íslenzka ríkisins er hennar að engu getið. E.t.v. er það hugsun hæstv. ríkisstj., að framkvæmdaáætlunin byggist eingöngu á lántökum og þá fyrst og fremst á erlendum lántökum. En hinu er ekki að neita, að ekki hefði verið óeðlilegt, að einhver þátttaka af ríkisins hálfu hefði verið í sambandi við væntanlega framkvæmdaáætlun. Það má einnig benda á það, að fyrir dyrum stendur kauphækkun hjá opinberum starfsmönnum, og þýðir ekki á móti að mæla, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur í samkomulagi sínu við lækna staðfest, að hún gerir ráð fyrir þessu. Á engan hátt ætla þessi fjárlög upp á 2 milljarða og 200 millj. að mæta þessari hækkun. Ekki er þetta heldur til þess að gera áætlun fjárl. raunhæfari eða nær veruleikanum.

Eitt dæmi enn. Það er sagt frá því í blöðunum í dag, að hæstv. samgmrh. hafi ásamt fleiri embættismönnum keyrt nýjan vegarkafla á leiðinni Keflavík–Reykjavík, fyrsta steypta kaflann á þjóðvegum hér á landi. Það er það góða við þennan kafla, að það veit enginn um fjárveitingar til hans. Á fjárl. íslenzka ríkisins hefur engin fjárveiting átt sér stað til þessarar vegagerðar. Þó erum við að eltast við að leggja fjárveitingar til vegarkafla, sem kostar nokkra tugi þúsunda. Það hefur engin lántökuheimild átt sér stað eða verið samþ. hér á hv. Alþ. í sambandi við þessa framkvæmd. Þó hefur heyrzt, að lán hafi verið tekin. En hjá hverjum, á hvers vegum hafa þau verið tekin? Það er ekki gert ráð fyrir afborgunum eða vöxtum af þessum lánum, sem í þennan veg hafa farið. Þó er það kunnugt, að vegagerðin nú kostar nokkra tugi millj. kr. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. samgmrh., fyrst hann er hér víðstaddur, og hæstv. fjmrh.: Á hvers vegum er þessi vegagerð framkvæmd? A hvers vegum er hún? Hver hefur greitt kostnaðinn af henni? Hvaðan er það fjármagn komið? Hver er kostnaðurinn orðinn, sem áfallinn er? Og hvernig á að fara með málið í framtíðinni? Ég treysti því, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir þessu máli, svo að hv. alþm. þurfi ekki að vera að

frétta um það hér og hvar, hvað sé hér á ferðinni.

Þegar fjárlög hækka svo gífurlega sem raun ber vitni um, og er þó mikið vantalið, þá er ástæða til, að um sé spurt, hvað veldur hækkuninni. Hefur meira fé verið varið til uppbyggingar í landinu, til að búa í haginn fyrir framtíðina, nú á þessu kjörtímabili en áður hefur verið? Skal nú nokkuð að því vikið.

Það eru fá mál í þessu landi, sem almenningur hefur jafnmikinn áhuga á og jafnmikla þörf fyrir og bætur í samgöngumálum. Vegagerðin hér á landi hefur verið mikið hagsmunamál og áhugamál fólksins. Á fjárl. 1958 hafði ríkissjóður 17 millj. kr. tekjur af benzínskatti. Nýbygging vega, þjóðvega, fjallvega og sýsluvega, er ríkissjóður lagði fé til, var þá rúmar 20 millj, kr. eða 3 millj. meira en skatturinn nam. Hvað hefur gerzt síðan? Á fjárlfrv. fyrir 1963 er gert ráð fyrir, að ríkissjóður hafi 63 millj. kr. í tekjur af benzínskatti. Hækkunin er 46 millj. kr. eða um 270%. Hver er hækkunin á nýbyggingum þjóðvega á sama tíma? Eftir að fjvn. hefur gert þær hækkanir, sem þar hafa verið gerðar, er hækkunin um 10.9 millj, kr. eða 54%. A sama tíma, sem ríkissjóður fær 270% hækkun á benzínskatti, fjárlög hækka um nær 150%, þá er 54% hækkun til nýbyggingar þjóðvega. En sagan er samt ekki öll sögð með þessu, því að á þessu tímabili hefur ríkissjóður haft í ríkari mæli tekjur af umferðinni í landinu en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru tolltekjur ríkissjóðs af nýjum innfluttum bifreiðum frá 1. jan. til septemberloka þessa árs 87.4 millj. kr. Hér er þó ekki um söluskatt að ræða, þar sem hann á við, og fleiri smáhluti, sem hér liggja fyrir utan. Ef við gerum nú áætlanir um það, sem eftir er af árinu í sambandi við þessar tekjur, og tökum svo aðra tekjustofna, sem ríkissjóður hefur af innfluttum bifreiðum, eins og benzínskattinn, þungaskatt bifreiða, innflutningsgjaldið, svo og tolltekjur af varahlutum til bifreiða og annað þess háttar, þá telst mér til, eftir því sem næst v erður komizt, miðað við fyrri ár, að hér sé um að ræða fjárhæð, sem nemur um 320 millj. En hvað er svo það, sem ríkissjóður greiðir til vegagerðanna í landinu aftur? Það er, eftir að breytingar hafa verið gerðar á fjárlagafrv., 120 millj. kr. Það eru 200 millj. kr., sem ríkissjóður kemur til með að hafa í nettótekjur af umferðinni í landinu. Á sama tíma, sem þetta gerist, verða menn að keyra vegagerðina áfram með skuldum og greiða sjálfir vextina. Um 15 millj. kr. mun nú vera búíð að vinna í vegum umfram fjárveitinguna. Byggðarlögin verða sjálf að greiða vextina, og það var óumflýjanlegt að láta þetta komast í framkvæmd vegna þess, hvað þörfin var brýn, og það mundi enginn fara að taka að sér vaxtagreiðslur, eins og þær eru núna, nema af knýjandi nauðsyn. Og einnig á sama tíma og þetta gerist er vegaviðhaldið í landinu svo gersamlega vanrækt, að það eru orðnar áhyggjur þeirra manna, sem við þessi mál fást, hvernig með verður farið, ef ekkí verður á stórkostleg breyting. Þetta gerist á sama tíma, sem fjárl. hækka gífurlega og ríkissjóður hefur meiri tekjur af umferðinni í landinu en nokkru sinni fyrr. Og það eru ekki nema sárafá ár síðan ríkissjóður fór að hafa tekjur af umferðinni til jafns við það, sem hann lagði henni.

Ég ætla að nefna fleiri dæmi um það, að uppbyggingin í landinu er ekki þess valdandi, að fjárl. þurfi að hækka eins og raun ber vitni um. Á árinu 1958 var lagt til nýbygginga í raforkumálum, þ. e. framlag í raforkusjóð og til nýbyggingar rafveitna, 25 millj. kr. samtals. Nú eru þessar fjárhæðir 24 millj. 250 þús. eða lægri fjárhæð en lögð var í þessa málaflokka 1958, eftir að fjárlögin hafa hækkað um nærri 150%. Og ef raforkumálin í heild eru tekin, eins og fjárlagagr. segir, þá var niðurstaðan 30.3 millj. 1958, en 31.8 millj. núna. Það er um 4% hækkun.

Það má segja í sambandi við þetta um hæstv, samgmrh., að hann er hæverskur og hógvær maður í meira lagi og minni kröfumaður en við alþm. höfum gert ráð fyrir, að hann skuli hafa unað því, að svo stórir málaflokkar eins og þessir tveir væru svo gersamlega fyrir borð bornir á tímabili hæstv. ríkisstj. Hæverska og prúðmennska er góð, en hún á ekki alltaf við, og hér hentaði hún ekki. Mér er sagt, að raforkuráð sé nú búíð að samþ. framkvæmdir í raforkumálum upp á 95 millj. kr. Af þeim séu 75 millj. kr. í það, sem sé ógert af því, sem átti að vera lokið á þessu ári. Vonandi leysist þetta mál vel og farsællega á næstunni. En ljóst er af því, sem ég hef hér sagt í sambandi við raforkumálin, að þar verður ekki um stórstígar framkvæmdir að ræða eða vel um þau mál séð, nema betur verði á tekið en gert hefur verið af núverandi valdhöfum.

Ein stofnun í þessu landi hefur komið verulega við sögu atvinnumála, þ.e. sjóður sá, sem nú heitir atvinnubótasjóður. Á fjárl. 1958 hafði hann 13.5 millj. kr., en á fjárl. 1963 er ætlazt til, að hann hafi 10 millj. kr. Á sama tíma og þetta hefur gerzt, hafa fjárl. hækkað svo sem ég hef hér lýst og allt verðlag á þeim atvinnutækjum, sem sjóðnum er ætlað að lána til, stórkostlega. Það hafa komið fram í störfum þeirra manna, sem með þetta mál hafa farið, mikil vandkvæði að leysa úr þeim mörgu beiðnum, sem þangað hafa komið, og raunverulega eru nefndarmenn farnir að gera sér það ljóst, og það kom greinilega fram s.l. vor, að það að lána 200 þús. kr. í skip, sem kostar á 2. tug millj., er næstum broslegt. En þetta varð atvinnubótasjóðurinn að sætta sig við á yfirstandandi ári, vegna þess að hann skortir fé til þess að lána.

Ég hef hér að framan sýnt fram á það, að ástæðan fyrir hækkun fjárl. er ekki sú, að vel hafi verið séð fyrir framtíðinni, að uppbyggingin í landinu hafi verið svo mikil, að þess vegna hafi þau orðið að hækka sem raun

ber vitni um. Þess vegna verður að leita annarra skýringa til þess að finna ástæðu fyrir hækkun þeirra. Og ég hef einnig sýnt fram á það, að áætlun fjárl. til útgjalda er ekki heldur varlegri nú en verið hefur. Þá verður mönnum að spyrja: Hefur þá ekki verið við komið sparnaði á tímabilinu, eins og heitið var?

Mér telst til, að sparnaðarfyrirheitin, sem hafa verið gefin á tímabili hæstv. ríkisstj., séu um 59, og eitthvað af þessu hlýtur að hafa komizt í framkvæmd, þótt lítið fari fyrir því. Hæstv. fjmrh. gat þess í sinni fjárlagaræðu á s.l. hausti, að nú hafi skattakerfinu verið breytt með sparnað fyrir augum. Nú skal ég engu um það spá, hvernig sú breyting kann að reynast í framkvæmd, er af breytingum skattakerfisins leiðir. Hitt þykjast ýmsir menn sjá, að það leiði ekkí til sparnaðar. En gott er, ef svo væri, og skal ég ekki neitt um það segja. Ég tel það ekki sparnað, þó að fjárl. hafi lækkað við það, að póstur og sími hafi orðið að hækka sín gjöld. Ég tei það ekki heldur sparnað, þó að Skipaútgerð ríkisins hafi orðið að hækka sín gjöld og verði að geyma fjárhæðir, vegna þess að hún fær ekki fé til að greiða þær. Það er ekki sparnaður í mínum augum. Og nú er mér sagt, að minkarnir, sem reyndust þægir hæstv. ríkisstj. 1961, hafi nú sperrt upp skottið og væru nú miklu dýrari á árinu 1962, svo að það er litið útlit fyrir sparnað þar.

Nú langar mig til að spyrja: Hvað hefur nú komizt í framkvæmd af þessum sparnaðarfyrirheitum, sem er að finna í nál. meiri hl. fjvn. frá 1961?

Það er hér fyrst að fækka sendiráðum Íslands erlendis, t.d. að leggja niður sendiráð á Norðurlöndum og jafnvel lækka launagreiðslur til sendiherra og annarra starfsmanna sendiráða. Ekki minnist ég þess, að þessi afgreiðsla hafi farið fram í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Eitthvað man ég nú um það, að í fjárlagaafgreiðslunni 1962 voru laun verulega hækkuð við sendiráðið í Kaupmannahöfn. Ég held ég muni það rétt. Annað atriði á þessum sparnaðarlista er að draga úr opinberum veizlum. Ef til vill hefur þetta komizt í framkvæmd, gott væri að vita um það. Þriðja atriðið er að takmarka svo sem suðið er tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnur. Eitthvað mun nú hafa verið um það, að stjórnarandstæðingar hafi ekki verið látnir fara á þing Sameinuðu þjóðanna. Ég hygg, að það sé þá eini sparnaðurinn, sem þarna hefur komið fram. Svo er verið að tala hér um að fækka bifreiðum ríkis og ríkisstofnana. Hefur þetta komizt í framkvæmd? Hér er eitt atriði enn þá, viðvíkjandi endurskoðun ákvæða gildandi laga um embættisbústaði. Og margt er fleira á blaðinu, því að hér eru um 20–23 atriði. En satt að segja hef ég ekkí orðið var við, að mikið af þessu tilheyri raunveruleikanum.

En það er fleira, sem hefur komið við sögu hjá ríkissjóði heldur en þessi sparnaðarfyrirheit. Ég er hér með annan lista, sem ég hef verið að tína saman, og því miður mun ég nú ekki hafa fundið hér allt, sem hefur orðið. Það er listi um það, sem orðið hefur til af nýjum embættum, og fleira í útfærslu ríkisins. Þar er efst á blaði, nr. 1, Efnahagsstofnunin, sem mun vera allmyndarleg stofnun og sett var upp á s.l. sumri. Vafalaust á hún að vera til sparnaðar, en í fyrstu umferð held ég hún verði það ekki. Annað er saksóknarembætti. Það virðist blómgast allvel, og eru greiðslur til þess á fjárlagafrv. einhvers staðar á 2. millj. Forstjóri almannavarna er hér nr. 3. Hann mun hafa orðið til á yfirstandandi ári í þeirri von, að frv. um almannavarnir yrði svo afgreitt á þinginu síðar. Fjórða: borgardómurum í Reykjavík hefur verið fjölgað um fjóra. Bankaeftirliti hefur verið komið á, það fimmta. Sakadómurum í Reykjavík hefur verið fjölgað um 4 Sjöunda: bankastjórum hefur verið fjölgað. Áttunda: bankaráðsmönnum hefur verið fjölgað. Hagskýrslugerð hefur verið haldið uppi með allmiklum myndarskap. Tíunda: prófessorum við háskólann hefur fjölgað verulega á þessu tímabili. Fjölgað var í húsnæðismálastjórn, svo að Sjálfstfl. fengi þar tvo fulltrúa. Fjölgað var í n. til þess að úthluta listamannalaunum af sömu ástæðu. Fjórtándi liður hjá mér er kostnaður við utanstefnur, hefur farið sívaxandi. Fimmtán: kostnaðurinn til undirbúnings laga og reglugerða hefur stórhækkað. Fjölgað var mönnum í síldarútvegsnefnd. Annar kostnaður ráðuneytanna hefur einnig verulega hækkað. Síðustu dagana hafa blöðin skýrt frá því, að forstjóri hafi verið skipaður eða ráðunautur í víðskiptamálum, ríkisstj. hafi tekið sér ráðunaut í víðskiptamálum. Mér skilst, að hér sé nýtt embætti, og eru þá þessir liðir orðnir 19 hjá mér. Og ríkisskattstjóri er sá 20. Mér sýnist, að ef vel væri að gáð, þá mætti finna kannske eitthvað álíka marga liði í útfærslunni og boðað var að ættu að vera í sparnaðinum. En staðreyndin er, að þetta hefur komizt í framkvæmd, en hitt hefur gengið á ýmsa vegu.

Enda þótt hér sé af nokkru að taka, er samt greinilegt, að ástæðan fyrir hækkun fjárl., svo gífurleg sem hún er, er ekki öll fólgin í því, að sparnaði hafi ekki verið við komið og útþensla ríkisbáknsins aukizt. Ástæðan fyrir hækkun fjárl. svo stórkostlega er sú, að dýrtíðin í landinu hefur vaxið meira nú en fyrr. Stöðvunarstefnan í framkvæmd hefur reynzt dýrtíð. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, voru álögurnar, gengisfallið og aftur gengisfall, söluskattur og aftur söluskattur og fleiri aðgerðir hæstv. ríkisstj., með þeim hætti í upphafi þessa valdatímabils, að það hefur leitt til þeirrar dýrtíðar, sem er uppistaðan í hækkun fjárl. Hæstv. ríkisstj. mun telja það sér til ágætis, að hún hafi lækkað tekjuskattinn, og vegur það að einhverju á móti því, hve tollar hafa hækkað gífurlega. En við vorum upplýstir um það í fjvn., að útlitið væri nú þannig, að hinn breiði hópur væri að koma til með að greiða aftur tekjuskatt. Af hverju? Vegna þess, hvað krónurnar eru orðnar smáar og þeim hefur þess vegna fjölgað.

Ef við lítum á fjárl. sjálf og skyggnumst á áhrif dýrtíðarinnar á þau, þá kemur í ljós, að rekstrargreinarnar hafa hækkað um 105 millj. frá 1960. Framlag til trygginga hefur hækkað um 160 millj. kr. og niðurgreiðslur um 120. Hér er um að ræða fjárhæð upp á um 390 millj. kr. Þegar þetta er haft í huga, fara að verða ljósar ástæðurnar fyrir hækkun fjárl. Á árinu 1958 var 110—115 millj, kr. varið til niðurgreiðslna. Nú er 430 millj. kr. varið til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Þetta er greinilegur ávöxtur dýrtíðarinnar á þessu kjörtímabili. Og fjárl. í heild bera þess glögg merki, hvar sem litið er, hvernig dýrtíðin hefur v axið í landinu, og það er dýrtíðin í landinu, sem er uppistaðan í hinni gífurlegu hækkun fjárl., og af þeirri ástæðu er það svo, að uppbygging og annað, sem betur má fara, verður út undan.

Hér að framan hef ég lýst höfuðþáttunum í fjárlfrv. því, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Mun ég nú víkja nokkuð að þeim till., sem við flytjum í sambandi við fjárlfrv.

Við höfum leyft okkur að hækka tekjuáætlun fjárl. sem svarar því, sem við leggjum til um hækkun þeirra. Um tekjuáætlunina er það að segja, að í sambandi við till. okkar í fyrra gerðum við till. um breytingu á tekjuáætluninni, og því var mótmælt og talið, að óvarlega væri stefnt. Við sýndum fram á það þá, að svo var ekki, og reynslan hefur sýnt það. Tekjuáætlun okkar nú byggist á því, að sú áætlun, sem gerð er um innflutning, muni vera fulllág. Um það er hins vegar ekki gott að segja, hvernig þessi áætlun kann að standast, en útlit er þó fyrir, að svo muni verða.

En þær útgjaldatill., sem við flytjum, mætti með rétti segja að væru viðreisnartill. Við erum að reyna að gera tilraun til þess að reisa við, þar sem á hefur verið troðið á núverandi kjörtímabili. Þess vegna eru till. okkar um það að hækka til vega, til brúa, til hafna, til flugvalla, til fiskileitar, til íþróttasjóðs og iðnlánasjóðs. Þessar till. okkar eru nánast miðaðar við það, að þær séu nokkur viðreisn frá því, sem hæstv. ríkisstj. hefur farið með þessa málaflokka. Og það mun öllum ljóst, að það mun ekki vanþörf á því, að þar komi nokkur viðreisn til.

Enda þótt ekki sé ástæða til að vera bjartsýnn á afgreiðslu tillagna okkar hér á hv. Alþingi, hefur það nú sýnt sig, að hæstv. ríkisstj, og stjórnarliðar hafa nokkuð tekið tillit til þess, sem við höfum lagt til á fyrri árum, og í von um, að árangur náist, þó að síðar verði, eru þessar tillögur fluttar, og m.a. líka til að undirstrika hina brýnu þörf, sem þarna er á.

Herra forseti. Ég mun nú fara að stytta mál mitt. Ég hef hér í ræðu minni að framan gert grein fyrir stjórnarstefnunni og áhrifum hennar. Að síðustu vildi ég svo segja þetta í sambandi við fjárlögin: Áður fyrr voru fjárlög talin í milljónum kr. Nú eru þau talin í milljörðum. Áætlun fjárlaganna nú er ónákvæmari en verið hefur, og meira er geymt af útgjöldum til framtíðarinnar en áður hefur átt sér stað. Í þriðja lagi er minna varið til uppbyggingar í landinu en verið hefur um langt áraskeið, eins og í vegamálum, þar sem hlutfallstala milli fjár til vegagerða og fjárlaga er lægri nú en nokkru sinni fyrr. Höfuðeinkenni þessa kjörtímabils, sem nú er að enda, er dýrtíð og aftur dýrtíð og áframhaldandi dýrtíð.