12.12.1962
Sameinað þing: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

59. mál, vegabætur á Vestfjörðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Það er aðeins út af einu atriði, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., svokölluðu Bíldudalsbréfi. Hann vildi láta hv. alþm. skilja það svo, að ég væri meðsekur sér um þetta bréf, en saga þessa bréfs er í fáum orðum þessi:

Það var rétt áður en afgreidd voru fjárlög í fyrra, að það var hringt í mig frá Bíldudal og spurt að því, hvort ég hefði ekki fengið bréf þaðan um vegamál. Ég svaraði því, að ég hefði ekkert slíkt bréf fengið. Maðurinn segir mér þá frá því, að hann hefði sent hv. 1. þm. Vestf. bréf undirskrifað af 127 Bílddælingum, þar sem er áskorun til Alþingis um að leggja fé í Suðurfjarðaveg til að tengja hann við Dynjandisheiðarveg, og jafnframt sé boðið fram 50 þús. kr. framlag frá Bílddælingum, ef það komi myndarleg fjárveiting frá ríkinu. Þetta bréf fékk ég ekki. En þetta bréf fékk hv. 1. þm. Vestf., en lagði það aldrei fram, hvorki hér á Alþ. né á fundi okkar Vestfjarðaþm., og hann sagði ekki frá því heldur. Það eina, sem hann sagði á fundi okkar Vestfjarðaþm., var það, að Bílddælingar hefðu áhuga á að fá fjárveitingu í þennan veg. En bréfinu sagði hann ekki frá. Svo segir hann: Oddvitinn hefur staðfest, að hann hafi sent Sigurvin Einarssyni afrit af þessu bréfi. — Það er rétt, hann mun hafa sent þetta afrit, en bréfið bara kom ekki. Hefði ég fengið þetta bréf, þá hefði ég lagt það fyrir fundinn, ef hv. 1. þm. Vestf. hefði ætlað að bregðast trausti þeirra, eins og hann líka gerði.