13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

1. mál, fjárlög 1963

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja nokkrar brtt. við fjárl. fyrir árið 1963. Eru till. á þskj. 189.

1. brtt. mín er við 13. gr., Siglufjarðarvegur ytri, að í staðinn fyrir 400 þús. kr. komi 500 þús. Till. þessi er flutt í samræmi við það, sem áætlað er til Múlavegarins, en lagt er til, að til þess vegar verði veittar 500 þús. kr.

Í þessu sambandi má benda á, að íbúar Ólafsfjarðarkaupstaðar eru rúmt 1000 manns, en í Siglufirði eru búsettir um 2700 manns. Ef farið væri eftir höfðatölunni, eins og mér skildist að hv. 9. landsk. vildi álíta að væri rétt, sbr. ræðu hans í Ed. um daginn, ætti framlag til Siglufjarðarvegar að vera allt að þrisvar sinnum hærra en til Múlavegarins. Hins vegar er, eins og sagt hefur verið, áætlað að veita til Siglufjarðarvegarins ytri 100 þús. kr. lægri upphæð en til hins vegarins. Þennan samanburð, sem ég er að gera hér, ber á engan hátt að skoða á þann veg, að ég sé á móti því, að til Múlavegarins séu veittar 500 þús. kr., síður en svo. Ólafsfirðingum er sannarlega jafnmikil nauðsyn á því að komast í öruggt og gott vegasamband við aðalvegakerfi landsins sem Siglfirðingum, og ber að sjálfsögðu að hraða byggingu þess vegar, eftir því sem ástæður og efni leyfa.

2. brtt. mín er, að til hafnargerðar í Hofsósi verði veittar 100 þús. kr. í stað 50 þús. kr., eins og fjvn. leggur til. Íbúar Hofsóss hafa atvinnu sina aðallega af sjósókn. Þar eru gerðir út yfir vor-, sumar- og haustmánuði um 20 smærri og stærri bátar. Þaðan er frekar stutt á hin fisksælu mið Skagafjarðar og í hafinu þar fyrir utan. Í þorpinu eru dugandi sjómenn, sem sækja sjóinn af hörku og dugnaði, en hafnarskílyrði þar eru mjög erfið. En þegar kemur fram á haustmánuði, eru sjómennirnir í yfirvofandi hættu með báta sína. Er þess skemmst að minnast, að fyrir nokkrum árum fórust 3 dugandi sjómenn við að bjarga bát sínum alveg uppi í fjörusteinum, nokkra faðma frá neðstu íhúðarhúsum þorpsins. Slíkt slys, jafnhörmulegt og það var, hefði átt að ýta allharkalega við þeim aðilum, sem fara með hafnarmál, svo að gerðar hefðu verið ráðstafanir til úrbóta í hafnarmálum þessa þorps. Það skal þó tekið fram og þess getið, að hafnarbryggjan hefur verið lengd þar allmikið frá því, sem hún áður var. Samt sem áður er á engan hátt fullnægjandi aðstaða til útgerðar í þessu kauptúni. Til þess að höfnin í Hofsósi geti talizt sæmilega örugg, þarf að byggja annan garð fyrir innan hafnarbryggjuna, norðan við ána. Með því mundi skapast sæmilega góð höfn, sem duga mundi þessu þorpi um mörg ár, þar sem sjómennirnir gætu geymt báta sína án þess að eiga þá hættu yfirvofandi, þegar vond veður skella yfir á haustnóttum, að þeir slitni upp á legunni og þá reki upp í klappirnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég tel, að þarna séu mjög góð skilyrði til útgerðar og vinna beri að því að fá þarna alla aðstöðu stórbætta frá því, sem nú er.

3. brtt. mín er um, að tillag til Sauðárkrókshafnar hækki úr 350 þús. kr. í 450 þús. Sauðárkrókshöfn hefur verið í byggingu í fjöldamörg ár, eins og reyndar flestar hafnir landsins. Þær eru reyndar margar í byggingu og gengur frekar hægt að klára hverja eina út af fyrir sig. Byggður hefur verið garður norðan á eyrinni, og er hafskipabryggja meðfram garðinum. Það er sá galli á gjöf Njarðar, að á hverju ári berst mikill sandur inn með bryggjunni og gerir hana illnothæfa fyrir öll stærri skip. Á hverju ári verður því að eyða miklu fé við uppmokstur við bryggjuna og dugir þó engan veginn til. Mér er ekki fullkunnugt um, hvernig ráðamenn hafnarmála hugsa sér að bæta úr þessu ástandi, en hugsanlegt er, að það verði gert með því að lengja garðinn í austur og með því að byggja annan garð sunnan við þann garð, sem fyrir er. Með því mundi skapast ágæt aðstaða fyrir báta og skip, og væru þeir þar öruggir fyrir öllum veðrum.

Á Sauðárkróki er vaxandi útgerð og öll aðstaða í landi til vinnslu aflans hin ákjósanlegasta. Þar eru t.d. 2 allstór hraðfrystihús og beinamjölsverksmiðja. Það er mikill áhugi meðal íbúa Sauðárkróks fyrir aukinni útgerð og að hafnarskilyrði þar verði stórbætt frá því, sem nú er. Sauðárkrókur er vel í sveit settur. Hann er höfuðstaður hins fagra héraðs Skagafjarðar, og Skagfirðingar hafa þar öll sín aðalvíðskipti. Hann er sem sagt kaupstaður í fjölmennu byggðarlagi og er í örum vexti. Það liggur því mjög ljóst fyrir, að það er hin mesta nauðsyn, að hafnarskilyrði þar verði stórbætt frá því, sem nú er.

4. brtt. mín er um það, að framlag til hafnarmannvirkja á Siglufirði verði hækkað úr 350 þús. kr. í 500 þús. Siglufjörður er ein mesta útflutningshöfn landsins, t. d, mun útflutningurinn þaðan í ár ekki verða undir 300 millj. kr. Það gefur því auga leið, að það er mesta nauðsyn, að þar séu mikil og góð hafnarmannvirki. Á hverju ári koma til hafnar í Siglufirði á þriðja þúsund skip. Mér er ekki alveg kunnugt um, hver talan er í ár, en hún mun sízt hafa verið lægri en árið á undan, en þá var hún töluvert á þriðja þúsund. Allur þessi mikli floti þarf því mikið bryggjupláss og aðra þjónustu, sem þessar miklu skipakomur krefjast. Á síðari árum hefur verið gert allmyndarlegt átak með því, að hafnarbryggjan gamla austan og sunnan á eyrinni hefur verið endurbyggð og stækkuð allverulega. Því verki er enn ekki nærri lokið, en vonir standa þó til, að því verði lokið á næstu tveimur árum. Norðan á eyrinni var á sínum tíma byggður allmikill öldubrjótur með hafskipabryggju fyrir innan. Nú er þessi bryggja ásamt öldubrjótnum að brotna niður, og má segja, að hún sé, eins og hún er í dag, algerlega ónothæf. Verður því ekki hjá því komizt að endurbyggja þetta mannvirki nú þegar eða sem allra fyrst. Vitanlega kostar slík endurbygging of fjár, en vel að merkja, að um leið og öldubrjóturinn ásamt bryggjunni er lífsnauðsyn fyrir allt athafnalíf hafnarinnar, sem ekki er hægt að komast af án, er þessi öldubrjótur jafnframt varnargarður fyrir bryggjur síldarverksmiðja ríkisins og hafa þær því mjög mikilla hagsmuna að gæta. Væri öldubrjóturinn ekki, mundu svo að segja allar bryggjur síldarverksmiðja ríkisins vera í yfirvofandi hættu. Öldubrjóturinn dregur úr aðalkvikunni, og við það, að brimbrjóturinn var byggður, er nú í flestum veðrum hægt að athafna sig við bryggju síldarverksmiðja ríkisins. Það verður því ekki hjá því komizt að endurbyggja þetta mannvirki, bæði vegna þarfa Siglufjarðarhafnar við losun og lestun á vöruflutningaskipum, afgreiðslu á olíu til skipa og síðast og ekki sízt vegna öryggis síldarverksmiðja ríkisins.

Fyrir allmörgum árum voru hafnar hafnarframkvæmdir við innri höfnina, sem er fyrir innan eyrina. Þær framkvæmdir hafa nú legið niðri að mestu leyti í mörg ár. Nú hefur verið byrjað þar á áframhaldandi framkvæmdum að nýju með því að moka upp höfnina og dæla inn fyrir járnþil, sem rekið var þar niður fyrir mörgum árum, en við það myndast allmikil uppfylling, því að mjög grunnt er þar fyrir innan og kemur land þar allt upp um fjörur. Á þessari nýju uppfyllingu skapast hin beztu skilyrði fyrir margs konar rekstur. M.a. er þar tilvalið að byggja þrjár eða fleiri síldarstöðvar, og hægt verður að koma þar fyrir aðstöðu fyrir þorskútgerð, sem vantar tilfinnanlega í Siglufirði. Eftir að innri höfnin hefur verið mokuð upp, verður þar ein öruggasta höfn, sem til er á landinu.

Á þessu, sem ég hér hef sagt, er það sjáanlegt, að miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í byggingu mannvirkja í Siglufjarðarhöfn á næstunni. En þrátt fyrir það, þó að Siglufjarðarhöfn hafi fengið allmiklar tekjur undanfarin 2-3 ár, segir það þó litið til þess að standa straum af þessum nauðsynlegu framkvæmdum. Fyrir því hef ég leyft mér að flytja brtt. þá, sem að framan getur, þó að ég sé þess fullviss og viti það fullvel, að slíkt framlag sé á engan hátt fullnægjandi miðað við aðkallandi framkvæmdir. Þess ber og að vænta, að Siglufjarðarhöfn fái riflega fjárveitingu úr hafnarbótasjóði til þessara framkvæmda, svo að hægt verði að sinna mest aðkallandi verkefnum.

Þá kem ég að síðustu brtt. minni, en hún er við 22. gr. XXII, að ríkisstj. sé heimilt að taka allt að 15 millj, kr. lán til þess að greiða kostnað við lagningu Siglufjarðarvegar ytri. Vegasambandið við Siglufjörð, eins og það er nú, er algerlega óviðunandi. Vegurinn liggur um Hraunadal og yfir Siglufjarðarskarð, liggur mjög hátt. Þarna uppi í háfjöllum er allra veðra von á öllum mánuðum ársins, og getur vegurinn lokazt á hvaða tíma sem er. Seinast í sumar lokaðist hann bæði í júlí og ágúst, þótt stutt væri. Því hefur verið að því unnið undanfarið, að nýr vegur yrði lagður út með Hvanneyrarhlið að vestan með jarðgöngum í gegnum fjallið Stráka. Þaðan er svo meiningin, að vegurinn liggi inn með Dalalandinu og á núverandi Siglufjarðarveg við svokallaða Heljartröð. Á allri þessari leið er frekar snjólétt og mundi því hinn nýi vegur verða opinn mikinn hluta ársins. Að sjálfsögðu kostar slíkur vegur mikið fé. Mitt álit er og margra annarra, að eina ráðið til þess að fá þennan nýja veg lagðan á ekki allt of löngum tíma sé lántaka til vegarins, og þeirri lántöku yrði auðvitað varið til þess að byggja veginn upp. Þessi vegur kemur til með að kosta um 20 millj. kr., sem mun ekki fjarri lagi að álykta. Þá mundi með núv. framlagi til vegarins samkv. till. fjvn. taka yfir 40 ár að leggja þennan veg. Auk þess verður svo vegurinn mun dýrari með því að vinna við hann í smááföngum, eins og nú er gert. Fyrir því tel ég hina mestu nauðsyn bera til þess, að hæstv. ríkisstj. fái heimild frá Alþingi til lántöku til vegarins, svo að hægt verði á næstu tveimur árum að ljúka við lagningu hans og koma með því einum mesta athafnabæ landsins í öruggt vegasamband við vegakerfi landsins. Um leið og slíkur vegur mundi verða hin mesta lyftistöng fyrir Siglufjörð og íbúa hans, yrði hann jafnframt til stórhagsbóta fyrir útsveitir Skagafjarðar og jafnvel fyrir alla Skagafjarðarsýslu. Eins og nú horfir, er yfirvofandi hætta á, að Fljótin, sem eru yzta byggð í Skagafirði, leggist í auðn. Á hverju ári flytjast þaðan margar fjölskyldur til annarra staða. En með komu hins nýja vegar mundi þetta gerbreytast. Í Fljótum eru hin beztu lönd til ræktunar og tilvalið að koma þar á fót mikilli mjólkurframleiðslu, en markaðsmöguleikar hafa verið mjög takmarkaðir. Ef aftur á móti væri komið á öruggt vegasamband við Siglufjörð, væri hægt að senda daglega mjólk, sem væri unnin og hreinsuð annaðhvort í mjólkurstöð á Siglufirði eða í Haganesvík. Annars er það mála sannast, að öll úthéruð Skagafjarðar mundu hafa stórkostlegt gagn af öruggu vegasambandi við Siglufjörð. Um það þarf ekki að deila. Þessa staðreynd gera íbúar þessara héraða sér fyllilega ljósa, og ég fullyrði það, að kjósendur í Siglufirði og aðrir íbúar þar ætlast beinlínis til þess af þm. sínum, að þeir vinni að lausn þessa stórmáls með festu og dugnaði.

Snemma á þessu þingi flutti hv. 1. þm. Norðurl, v. ásamt mér og hv. 5. þm. sama kjördæmis frv. til l. um lántöku vegna Siglufjarðarvegar ytri, að upphæð 15 millj, kr. Frv. var tekið fyrir til 1. umr. og að henni lokinni vísað til 2. umr. og fjhn. Síðan hefur náttúrlega ekkert heyrzt um þetta mál, og litlar líkur eru til þess, að það fái viðhlítandi afgreiðslu, ef miðað er við reynslu undangenginna ára. Tveir af þm. kjördæmisins hafa skrifað um málið og talið hina mestu nauðsyn þess að leysa vegamál Siglfirðinga á sem fljótastan og beztan hátt. Ekki skal ég draga það í efa, að þessir ágætu þm. séu allir af vilja gerðir til þess að leysa vegamál Siglfirðinga og Skagfirðinga, þótt þeir séu ekki sammála um leiðir til úrlausnar þessu mikla vandamáli, sbr. ummæli hv. 4. þm. Norðurl. v. um frv. hér í þessari hv. deild.

Ég vil svo að lokum aðeins minna á það, að fyrir síðustu kosningar lýstu allir frambjóðendur í Norðurlandskjördæmi vestra yfir, að þeir mundu vinna að framgangi þess, að Siglufjörður kæmist sem fyrst í öruggt vegasamband. En frómar yfirlýsingar og frómar óskir eru heldur léttar á metunum, ef ekkert annað kemur til, og ekki verður sagt, að árangurinn hafi orðið mikill enn sem komið er. Enn þá búa Siglfirðingar við algerlega ófært ástand í þessum málum og munu búa við sama ófremdarástandið næstu áratugi, ef áfram verður haldið sem nú horfir. En nú eru kosningar að vori. Ekki er ég í neinum vafa um það, að enn þá verða gefnar fagrar yfirlýsingar og frómar óskir í sama dúr og síðast. Hitt er svo annað mál, hvort Siglfirðingar og þeir Skagfirðingar, sem mestra hagsmuna hafa að gæta um það, að Siglufjörður komist í öruggt vegasamband, láti sér slíkar yfirlýsingar nægja. Þar hlýtur reynslan ein að skera úr.

Ég vil að lokum beina þeirri ósk minni til hv. þm., að þeir sjái sér fært að greiða þessum till. mínum atkv.