29.01.1963
Sameinað þing: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

68. mál, laxveiðijarðir

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á síðari árum hefur aukizt mjög hér á landi áhugi á laxveiðum. Í samræmi við það hafa veiðiréttindi yfirleitt hækkað mjög mikið í verði. Þetta má telja hagstæða þróun í heild, þar eð hún veitir beendum auknar tekjur og laxveiðimönnum þýðingarmikla hvíld og útivist, en auk þess er hér um að ræða allmikla framleiðslu matvæla, sem að nokkru leyti eru verðmikill útflutningsvarningur.

Hins vegar hafa verið brögð að því, að jarðir haf verið keyptar upp eingöngu vegna laxveiðiréttinda og hafa síðan verið lagðar í eyði. Þegar um er að ræða slíkar jarðir í miðjum blómlegum landbúnaðarhéruðum, er um hættulega þróun að ræða. Verður framleiðslutap, sem stafar af því, að góðar jarðir eru ekki nýttar að fullu. Þó kann að vera, að hitt tjónið sé öllu ískyggilegra, að fólkinu fækkar, þar sem búskaparaðstæður eru góðar. Slík atvik hafa jafnan mjög slæm áhrif á annað fólk í þessum sveitum og draga að ástæðulausu úr trú þess á hérað sitt og atvinnuveg.

Þetta mál er engan veginn auðvelt úrlausnar. Þess vegna hefur þótt rétt að hreyfa því í því formi, að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt er unnt að koma í veg fyrir, að hlunnindajarðir, sérstaklega laxveiðijarðir, verði keyptar vegna hlunnindanna og síðan látnar leggjast í eyði. Með þessu lætur Alþingi í ljós áhyggjur sínar yfir þessari þróun og gerir tilraun til þess, að fundin verði leið til að koma í veg fyrir frekari atburði af þessu tagi.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til allshn.