13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

1. mál, fjárlög 1963

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 189 4 brtt. ásamt nokkrum þm. öðrum. Þessar till. eru allar þannig varnar, að það er óþarft að hafa um þær mörg orð, svo sjálfsagðar og eðlilegar eru þær.

Hin fyrsta þessara till., sem ég flyt ásamt hv. 1. og 4. þm. Norðurl. e. og 4. þm. Vestf., fjallar um það að hækka framlagið til skálda, rithöfunda og listamanna um nokkra upphæð. Það hefur lengi verið viðurkennt af Alþingi, að það sé eðlilegt að viðurkenna skáld okkar, rithöfunda og aðra listamenn, því að þjóðin á þeim það mikið að þakka, bæði að fornu og nýju, og það á að vera þess vegna bæði sæmd hennar og skylda að sjá um það, að þau framlög, sem veitt eru þessum mönnum, lækki ekki, heldur frekar hið gagnstæða. Því miður hefur heldur gengið aftur á bak í þeim efnum á undanförnum árum, a.m.k. ef þetta framlag er miðað við þá hækkun, sem almennt hefur orðið á útgjöldum ríkisins eða því fé, sem varið hefur verið til annarra framlaga og framkvæmda. Ef t.d. er litið á fjárlfrv. fyrir árið 1957, sem ég tel rétt að taka hér til samanburðar frekar en 1958, vegna þess að það er nokkur ágreiningur um það, hvernig útgjöldin þá skuli reiknuð, — en ef við tökum fjárl. fyrir árið 1957, þá eru rekstrarútgjöldin á rekstrarreikningi fjárl. það ár áætluð 720 millj. kr., en nú eru þau áætluð tæpar 2000 millj. kr., þannig að þau hafa nokkuð miklu meira en tvöfaldazt eða nær þrefaldazt á þessum árum. Árið 1957 í fjárl. er framlagið til skálda og listamanna áætlað 1.2 millj. kr., en ætti að vera, ef það hefði hækkað í sama hlutfalli og önnur útgjöld ríkisins, 3.3 millj. kr. Samkv. þeirri hækkunartill., sem fjvn. flytur eða meiri hl. hennar, á þetta framlag ekki að vera nú nema 2.1 millj. kr. eða það vantar m.ö.o. 1.2 millj. kr. á það, að þetta framlag sé jafnhátt og það var 1957, ef miðað er við önnur útgjöld ríkisins. Okkur, sem flytjum þessa till. um að hækka framlagið upp í 3.5 mill,j. kr., finnst það eðlilegt og sjálfsagt, að framlag til skálda og listamanna sé ekki látið dragast aftur úr öðrum framlögum og útgjöldum ríkisins, heldur sé það hlutfall a.m.k. látið haldast, sem þessir menn voru búnir að ávinna sér fyrir nokkrum árum. Ég held, að það sé líka mjög vel kunnugt þeim, sem hafa fylgzt með úthlutun skálda- og listamannalauna á undanförnum árum, hve mikil þörf þar er fyrir hækkun á þessu tillagi, ef á að veita þessum mönnum, skáldum og listamönnum, þá úrlausn, sem eðlilegt verður að teljast. Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi tillaga okkar fjórmenninganna fái sanngjarnar og góðar undirtektir hjá þm. almennt.

Hið sama er að segja um þá till., sem við flytjum um hækkun styrks til vísindamanna og fræðimanna, og tel ég mig því ekki þurfa að rökstyðja það frekar, heldur vísa til þess, sem ég áðan sagði um framlagið til skálda og listamanna.

Ég flyt enn fremur ásamt hv. 1. þm. Austf. till, um að hækka nokkuð framlagið til viðbótarhúsnæðis ríkísspítalanna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve mikill skortur er á sjúkrarúmi víð þessa spítala. Ég fer ekki að rekja þá sögu hér, því að hún er öllum hv. þm. kunn. Og þó að sú till., sem við flytjum um hækkun á þessu tillagi úr 6.5 millj. í 10 millj., verði samþ., hrekkur það að sjálfsögðu hvergi nærri til að bæta úr þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi um aukið fjármagn. En hins vegar mundi þessi hækkun þó hjálpa nokkuð til þess, að þetta viðbótarhúsnæði, sem nú er í smíðum, gæti komið fyrr að gagni en ella, og þess vegna ber að vænta þess, að þm. taki þessari till. vel.

Seinasta till.; sem ég flyt ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v., fjallar um það, að tekið sé upp nýtt tillag á 20. gr. fjárl. til nýs menntaskóla í Reykjavík, 5 millj. kr. Það er nú þannig ástatt í þessum málum, að Reykjavík býr enn við menntaskóla, sem reistur var fyrir meira en 100 árum og þá var ætlaður mörgum sinnum færri nemendum en þar stunda nám nú, og má öllum vera ljóst, hve algerlega ófullnægjandi það ástand er. Það hefur að vísu verið talað um að reyna að bæta eitthvað úr þeirri aðkallandi þörf, sem hér er fyrir hendi, með því að reisa smáhús eða skúra við menntaskólann. En þótt að því ráði væri horfið, mundi það hvergi nærri bæta úr þeim húsnæðisskorti, sem hér er fengizt við. Og það er alveg augljóst, að þeim, sem leita stúdentsnáms á komandi árum, hlýtur mjög að fjölga frá því, sem nú er, og þar af leiðandi verður ekki um aðra eðlilega lausn á þessu máli að ræða en þá, að reistur verði nýr menntaskóli hér í bænum. Þetta mál hefur fyrir nokkrum mánuðum eða vikum verið til meðferðar í bæjarstjórn Reykjavíkur að frumkvæði fulltrúa Framsfl. þar og hlotið einróma stuðning bæjarstjórnarinnar, þ.e. stuðning við það, að það verði byggður nýr menntaskóli hér í Reykjavík. Þar kom það fram í sambandi við þær umr., að hæstv. ríkisstj. mundi telja sig þessu máli hlynnta, þó að enn hafi ekki sá vilji sézt hér á Alþingi. En ég vænti þess, að hann komi fram, þegar þessi till. kemur til atkv., og það verði því veitt nokkurt byrjunarframlag í þá átt, að komið verði upp nýjum menntaskóla hér í bænum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að þessar hófsamlegu og sjálfsögðu tillögur fái góðar undirtektir hjá þingheimi. Og ég hygg, að það sé ekki heldur hægt að segja, að það sé neitt ábyrgðarleysi í því fólgið að samþykkja þessar eða fleiri hækkunartill., sem hér liggja fyrir, vegna þess að það er auðséð á afkomu ríkissjóðs á þessu ári, að ef ekki koma nein sérstök óhöpp fyrir á næsta ári, þá verður fjárhagsafkoman mjög góð og tekjur ríkissjóðs verulega miklu hærri en á þessu ári, vegna þess að það er fyrirsjáanlegt, að öll velta verður þá miklu meiri en nú. Þess vegna má fullyrða, að sú tekjuáætlun, sem gert er ráð fyrir í fjárl., er í allra hógværasta lagi, ef svo mætti að orði kveða, og þess vegna óhætt að hafa útgjöldin nokkru hærri en þau eru áætluð í fjárl. eins og er.