13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður að þessu sinni, enda hafa ekki mörg tilefni gefizt til þess að svara þeim ræðum, sem hér hafa komið fram. Þó vil ég í örstuttu máli víkja að tveimur eða þremur atriðum, sem komið hafa fram hjá hæstv. fjmrh. og einnig að nokkru leyti hjá hv. frsm. meiri hl. fjvn.

Í því talnaflóði, sem hér hefur verið lesið á þingi, bæði undanfarna daga og einnig í dag, er ekki nema að vonum, að hv: alþm. taki fegins hendi hverjum þeim, sem vill taka þátt í leitinni að sannleikanum og leggja hér fram sitt orð til þess að hafa upp á því, sem réttast er og sannast. Því miður finnst mér, að undir þetta geti þó hæstv. fjmrh. ekki fallið, þar sem hann byrjaði ræðu sina á því að sýna fram á, að okkur hv. 3. þm. Vesturl. bæri ekki saman í okkar vitnisburði á móti ríkisstj., þar sem prósentutalan um hækkun fjárl. væri ekki sú sama, sem við nefndum hvor um sig. Og ég ætla hæstv. fjmrh. það ekki, að hann hafi ekki veitt því athygli, að ég miðaði í mínum samanburði við árið 1959, en hv. 3. þm. Vesturl. miðaði við árið 1958, en engu að síður leyfði hæstv. ráðh. sér að tala um þær tölur, sem við höfðum sett fram, eins og þeim ætti að bera saman, ef rétt væri reiknað. Þótt ekki væri annað en þetta atriði í ræðu hans, þá tel ég það sanna gersamlega, að erindi hans var ekki að leita sannleikans með þm. í þessu máli, heldur hef ég hann því miður grunaðan um það að hafa lagt á það meiri áherzlu og talið það henta sér betur að reyna að villa nokkuð um fyrir þm. um það, hvernig skilja beri þá hluti, sem nú eru að gerast í fjármálastjórn landsins.

Hann gerði hér — og hv. frsm. meiri hl. fjvn. einnig — aths. við vísitölu brúargerðarkostnaðar, sem vegamálaskrifstofan reiknar út, og töldu það vera ærið ómerkilega vísitölu, að því er mér skildist, og eiginlega væri það einhver prívatvísitala vegamálastjóra og vissi enginn maður, hvort hún væri miðuð við lengdarmetra í brúm, sem væru svo mjóar, að það gæti rétt skriðið einn bíll um þær, eða hvort þetta væri lengdarmetri í brúm, sem væru kannske með tvöfaldri akbraut og gangstéttum að auki. Ég er ekki heldur þeirrar skoðunar, að þessir hv. ræðumenn hafi í rauninni haldið, að fyrri vísitalan væri bara miðuð við mjóa brú og síðari vísitalan við breiða brú, svo rækilega hefur vegamálastjóri tekið það fram, þegar hann hefur gert fjvn. og vafalaust einnig rn. grein fyrir þessum hlutum, að af vegamálaskrifstofunnar hálfu væri ævinlega reiknuð út sama eða sams konar brú og hér væri þess vegna um að ræða þann kostnað, sem vegamálastjórnin yrði að bera uppi af sams konar brú frá ári til árs. Þessi vísitala segir, að hækkun brúargerðarkostnaðar á því tímabili, sem ég hef rætt um, 1958–1962, því að sjálfsögðu verður um útreikninga, sem byggjast á staðreyndum, að vera ári síðar með þá en fjárl., sem samin eru fyrir fram til árs, — á þessu tímabili hefur brúargerðarvísitalan stigið, ekki um 40%, eins og hæstv. fjmrh. taldi líklegt, heldur um 58% eða því sem næst. Það er einnig alveg rangt, að það fáist nokkur samanburður með því að taka annars vegar þær tölur, sem á fjárlögum eru lagðar fram, blanda við þær þeim tölum, sem fást með sérstökum skatti af benzíni og ekki eru á fjárlögum, og telja svo, að fjárlagabreytingin sé í samræmi við þetta sambland. Hér er hreinlega í því nál., sem ég hef gefið út, tekinn liður, sem er sambærilegur frá ári til árs öll þau ár, sem ég hef nefnt, það er kostnaðurinn við brúargerðir, eins og hann er skráður á fjárlögum hverju sinni. Aðrar breytingar eru að sjálfsögðu ekki til umr., þegar talað er um það, hvað skeð hefur um fjárlagaframlag.

Ég hirði ekki að rekja fleiri dæmi um þetta, en tel þau sýna nægilega, að hér hefur ekki verið farið með upplýsingar, sem eru til þess fallnar að bregða skýrara ljósi yfir þá hluti, sem gerzt hafa, heldur eru þær ræður, sem haldnar hafa verið í þessa átt, líklegri til að villa um fyrir þm. um það, hvað raunverulega er að gerast.

En að lokum vildi ég þó vekja sérstaka athygli á því, að hæstv. fjmrh. hefur hér í ræðu sinni viðurkennt það, að í undirbúningi sé að leggja á sérstakan nýjan skatt til vegagerðar. Það hefur ekki verið haft hátt um það, heldur hinu haldið fram, að hér geti allt saman gengið greiðlega og lipurlega, án þess að nokkrir nýir skattar komi til, og er þetta fyrsta opinbera viðurkenningin, sem á því hefur komið, að nú skuli enn ofan á þá auknu skattheimtu, sem verður til af því, að þeir skattstofnar, sem fyrir eru í landinu, skila nú inn hærri fjárhæðum en áður, koma til nýir skattar á næstunni. Það eru upplýsingar, sem gott er að vita um og fá hér viðurkennt að í uppsiglingu séu.

Ég læt svo útrætt um það, sem ég hefði helzt þurft að svara af því, sem hér hefur komið fram í ræðum þeirra hv. stuðningsmanna ríkisstj., sem hér hafa talið sig þurfa að vera málsvara fyrir þá fjármálastefnu, sem ríkir nú um íslenzkan ríkisbúskap og um þau fjárlög, sem hér eru í smíðum. En ég vildi þó, áður en ég vík héðan, leyfa mér að segja nokkur orð um till. eina, sem ég er flm. að ásamt hv. 2. þm. og 4. þm. Sunnl. Það er brtt. við 22. gr. fjárl. um, að þar komi inn nýr liður, að heimila ríkisstj. að taka allt að 25 millj. kr. lán til að ljúka undirbúningi og hefja brúargerð yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi.

Þeir, sem til þekkja, vita það, að þorpin þrjú á strönd Árnessýslu, Stokkseyri og Eyrarbakki annars vegar og svo Þorlákshöfn hins vegar, eru slitin í sundur af Ölfusá, og er ekki hægt að komast á milli Þorlákshafnar og hinna tveggja þorpanna nema því aðeins að fara mjög langan veg um Selfoss. Þetta er mjög bagalegt, vegna þess að mörg undanfarin ár hefur þróun gengið til þeirrar áttar, að það er hætt að vinna að hafnargerð á Stokkseyri og Eyrarbakka að mestu leyti, en Þorlákshöfn er hins vegar rísandi hafnarbær, sem þarf margra hluta með, ekki sízt vinnuafls, en þar eru hins vegar lítil húsakynni, allt of lítil til þess að hýsa allt það fólk, sem við þann útveg þarf að vinna, sem þar er þegar myndaður og á vafalaust eftir að vaxa í hlutfalli við væntanlega stækkun hafnarinnar þar. Það væri vísastur vegur til þess að gera afkomu fólksins í þeim þorpum, þar sem hafnarskilyrðin fara þverrandi og minna er sinnt um útgerð, eftir að höfn á nálægum slóðum opnast, betri og stærri en þessi tvö þorp, Stokkseyri og Eyrarbakkí, hafa haft, — þá væri það hinn mesti greiði við það fólk, sem þar býr, ef það gæti átt greiðan aðgang yfir til Þorlákshafnar til þess að stunda þar vinnu sína. Þá mundi þeim nýtast af íbúðarhúsum sínum og einnig mundi þá nýtast af þeim framleiðslutækjum, sem í landi eru, eins og t.d. frystihúsum og annarri fiskverkunaraðstöðu, sem er ekki sýnilegt annað en verði lítils virði, ef ekki kemst beinna og greiðara samband milli þessara staða en nú er. Auk þess er það ýmislegt í samgöngukerfi Suðurlands, sem krefst þess, að Ölfusá verði brúuð frammi við ósinn, og flestir munu sammála um, að það væri hin mesta samgöngubót, ef svo yrði gert. Fullnaðarrannsóknir á kostnaði við þessa brú í Óseyrarnesi eru að vísu ekki fyrir hendi, en það er margra manna grunur, að þarna sé hægt að byggja brú miklu ódýrar en menn gerðu sér hugmyndir um í upphafi, og miðað við þá nytsemi, sem slík brú mundi gera, bæði hvað snertir að tengja Stokkseyri og Eyrarbakka við Þorlákshöfn og einnig til almennra samgangna um neðanvert Suðurlandsundirlendið, þá er það ekki áhorfsmál, að þarna á að koma brú og hlýtur að koma brú.

Nú má e.t.v. segja, að ekki sé eins brýn þörf og áður að leggja til í fjárl., að ríkisstj. fái lántökuheimild til þess arna, því að e.t.v. gæti hugsazt, að eitthvað af því fé, sem ríkisstj. hefur þegar tekið að láni, 240 millj., gæti til þessa runnið. En ef svo er ekki, að þetta framlag rúmist innan þess ramma, þá er vert að gefa út nýja lánsheimild í þessu skyni, og það höfum við flm. þessarar till. lagt til og að lokið verði undirbúningi og framkvæmdir verði hafnar við þessa brúargerð.