06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (3074)

136. mál, farþega- og vöruflutningaskip fyrir Austfirðinga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég álít, að það sé mikil nauðsyn á því að endurskoða strandferðirnar, og vafalaust er skipakostur sá, sem þær annast, ekki lengur hentugur né fullkominn og þyrfti að breyta þar til. Ég vil því taka undir þær óskir hv. frsm. fyrir þessari till., að n. sú, sem þessari uppástungu verður vísað til, tæki strandferðamálin til íhugunar og gerði till. um endurskoðun þeirra upp úr þeim till., sem lagðar hafa verið fram varðandi strandferðirnar nú á þessu þingi.

Ég vil leggja mikla og þunga áherzlu á eitt atriði í því sambandi, sem ég tel vera mjög mikilsvert, og það er, að kosin verði á Alþingi mþn. til þess að undirbúa og íhuga þessi mál og gera tili. um þau, en ekki verði sá háttur á hafður, sem nú er farið að tíðka til mikils tjóns fyrir málin, að ríkisstj. skipar efndirnar, velur í þær einvörðungu menn úr gæðingaliði sínu og bætir máske einhverjum embættismönnum við, sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert. En þeir, sem eiga ekki því láni að fagna að styðja ríkisstj. — eða fremur hafa ekki lent í því óláni að styðja hana, eru hvergi látnir koma þar nærri. Síðan, þegar búið er að skoða málin á þessa lund og aðeins sjónarmið þeirra, sem styðja ríkisstj., fengið að koma til greina og svo embættismannanna, þá er málunum venjulega kastað inn í þingið, og þeir, sem að þeim standa, setja metnað sinn í að taka ekkert til greina af því, sem aðrir þm. en þeir, sem stjórnina styðja, leggja til málanna. Þetta er að verða slíkt ófremdar- og vandræðaástand, að ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á því.

Alveg fram á síðustu ár var yfirleitt sá háttur hafður á, að man. voru kosnar í stærri mél, — það var að vísu ekki undantekningarlaust, en oftast gert þannig, að mþn. voru kosnar á Alþingi í hin stærri mál, og þá komu miklu fleiri sjónarmið til greina, og á allan hátt var það miklu lýðræðislegra en sá háttur, sem nú er á hafður. Ég skal t.d. í þessu sambandi benda á fyrirkomulagið á endurskoðun vegamálanna, sem eru einhver allra þýðingarmestu samgöngumálin á landi. Ég hugsa, að það sé algert einsdæmi á Íslandi, sem gripið var til hér nú fyrir ekki mörgum missirum, að setja niður n. til þess að endurskoða samgöngumálin á landi og haga henni þannig, að stjórnarandstæðingar væru rækilega úttlokaðir frá því að eiga þar nokkurn fulltrúa. Ég hugsa, að þetta sé hér um bil dæmalaust. Ég vil mjög eindregið skora á menn að breyta hér til og taka upp þann hátt að nýju að kjósa mþn. í þessi mál, eins og endurskoðun á samgöngumálum á sjó, þótt frá þeirri reglu hafi nú verið horfið um sinn í sambandi við ýmis málefni. Ég segi alls ekki, að það hafi verið allsherjarregla, sem aldrei hefur verið vikið frá, að hafa mþn. þingkosnar, en yfirleitt var það stefnan áratugum saman á Alþingi að haga því þannig, og ég held, að um mál eins og strandferðirnar væri lífsnauðsyn að hafa mþn., sem væri kjörin af Alþingi.

Hv. frsm. benti á, að óánægja hefði komið fram varðandi fyrirkomulag strandferða á Austurtandi. Þetta er hverju orði sannara. Það ríkir mikil óánægja, bæði út af ferðum Herðubreiðar og eins í sambandi við fyrirkomulag á siglingum hinna stærri skipa, og við höfum verið að reyna að fá lagfæringar á þessu, en þær tilraunir hafa nánast engan árangur barið. Því er borið við, að fjárveitingarnar til strandferðanna séu svo takmarkaðar, að það verði að miða ferðirnar við, að hallinn verði ekki meiri eða sem minnst umfram það, sem fjárl. gera ráð fyrir. Þetta er t.d. borið fram sem ástæða fyrir því, að Herðubreið er látin sigla austur um og síðan norður um í striklotu, að ég held frá Þórshöfn frekar en Raufarhöfn, viðkomulaust allar götur til Reykjavíkur í staðinn fyrir að láta hana snúa við og veita Austfirðingum þjónustu í bakaleiðinni. Það er ekki gert, heldur er hún látin sigla í striklotu frá annaðhvort Þórshöfn eða Raufarhöfn, að ég held, og beina leið til Reykjavíkur viðkomulaust. Og þegar við missiri eftir missiri reynum að fá þetta lagfært, þá, er sagt: Það er ekki hægt, því að það mundi auka hallann á skipinu að láta það fara eðlilega leið til baka aftur til Reykjavíkur og veita Austfirðingum þjónustu. Það fjármagn má ekki leggja fram. Það er bannað að fara þá leið, vegna þess að það sé of dýrt.

Þetta stafar af því, að fjárveitingar til strandferða hafa verið skornar stórkostlega niður, og þetta er mjög meinlegt og mjög bagalegt. Og ég vildi skora á þá, sem að þessari þáltill. standa t.d., sem eru félagar okkar þarna að austan, að þeir vildu vinna að því, að þangað til þessi mál eru komin til frambúðar í betra horf með nýjum skipum, þá reyni menn að beita áhrifum sínum til þess, að fjárveitingar til strandferðanna fáist auknar, þannig að skipin geti þjónað fólkinu á þá lund, sem eðlilegt getur tafizt. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta.

Ég tek undir með hv. frsm., að þær till., sem liggja frammi um strandferðir, endurskoðun á þeim, verði samræmdar, og ég legg mjög mikla áherzlu á, að það gæti orðið samkomulag um, að það yrði mþn. kosin í þessi mál. Og það er enn eitt, sem ýtir líka mjög undir, að mþn. verði kosin í þessi mál, að það eru miklar athuganir á þessum málum sífellt í framkvæmd, að því er ég bezt veit, á vegum ríkisstj. Og það eru kvaddir til erlendir sérfræðingar með ;meiru, og hefur á því gengið nú missirum saman, að slíkar skoðanir hafi farið fram. En ég legg þyngstu áherzlu á, að það, sem unnið hefur verið að þessu, og þær athuganir, sem kunna að hafa verið gerðar á þennan hátt af mönnum nú þegar, sem ríkisstj. kaan að hafa kvatt til, og t.d. erlendum mönnum, allt slíkt gangi gegnum hreinsunareld mþn., áður en til framkvæmda komi. Ég vil því enn einu sinni undirstrika nauðsyn þess, að það náist samkomulag um þá leið í málinu að kjása milliþinganefnd.