20.11.1962
Efri deild: 20. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

99. mál, framkvæmdalán

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft frv. það, sem hér liggur fyrir, til meðferðar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið fjölrituðum, bera með sér, hefur n. ekki getað náð fullkomlega samstöðu um afgreiðslu þess.

Það kom fram við 1. umr: málsins, að hv. stjórnarandstæðingar töldu sig ekki geta fallizt á frv, í þeirri mynd, sem það var lagt fram, þar eð ekki væru ákvæði í frv. um, að Alþingi hefði hönd í bagga um úthlutun lánsfjárins. Brtt. þær, er meiri hl. n. flytur, eru fluttar í þeim tilgangi að koma til móts við sjónarmið hv. stjórnarandstæðinga í þessu efni. Ekki hefur þó tekizt að ná í því efni fullu samkomulagi í n., þar eð fulltrúar hv. stjórnarandstöðuflokka í n, óska þess; að áhrif Alþingis á skiptingu lánsfjárins verði í nokkuð öðru formi en gert er ráð fyrir í brtt. þeim, sem meiri hl. flytur. Ég vænti þess þó, að brtt. okkar séu það spor í áttina til að brúa það bil, sem á milli er í þessu efni, að meiri háttar deilur um málið megi forðast við þær umr., sem eftir eru hér í hv. d. Um sjálfa lántökuheimildina skilst mér hins vegar að ekki sé ágreiningur.

Við Íslendingar höfum slíka þörf fyrir auknar framkvæmdir, að við getum ekki án þess verið að taka erlend lán til þeirra, ef fáanleg eru með sæmilegum kjörum. Að vísu er erlend skuldabyrði þjóðarinnar þegar orðin svo þung, að varúðar ber að gæta við töku nýrra lána, og mikils um vert, að lánum, sem tekin eru, sé eingöngu ráðstafað til framkvæmda, er hafi þá framleiðsluaukningu í för með sér, að líkur séu á því, að lánin geti gjaldeyrislega séð staðið undir sér. Varðandi skuldir Íslendinga við útlönd má upplýsa það, að þær námu í árslok 1961 2856 millj. kr. og höfðu lækkað um u.þ.b. 16 millj. frá því í árslok 1960, þannig að að því leyti virðast skuldirnar hafa náð hámarki í bili a.m.k. Hvað snertir greiðslubyrðina, þá er gert ráð fyrir, að hún verði á árinu 1962 553 millj. kr. Það mun vera milli 15 og 20% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar, þannig að hér er um allháa tölu að ræða, en þó má þess geta, að á næstu árum er gert ráð fyrir, að greiðslubyrðin fari minnkandi og verði árið 1970 komin niður í 180 millj, kr. En hvað sem öðru liður, er greiðslubyrðin það mikil, að ekki er rétt, að lán séu tekin til annarra framkvæmda en þeirra, sem gjaldeyrislega séð er von til að geti staðið undir sér. En ég lít svo á, að þær framkvæmdir, sem frv. gerir ráð fyrir að lánsfénu sé ráðstafað til og nefndar eru í frv., fullnægi áðurnefndu skilyrði.

Ég ætla svo, að það sé ekki ástæða til að orðlengja frekar um málið að svo stöddu, en tel þó að lokum rétt að benda á, að þó að okkur sé notkun erlends lánsfjár nauðsynleg, fáist það með viðunandi kjörum, má ekki missa sjónar á því, að framkvæmdir og framfarir hér á landi hljóta fyrst og fremst að verða háðar nægilegri innlendri fjármagnsmyndun. Erlent lánsfé hefur aldrei numið nema litlum hluta þeirrar fjárfestingar, sem í hefur verið ráðizt, þannig að meginundirstaða framkvæmdanna hlýtur alltaf að verða innlent lánsfé og það, hve miklar framkvæmdir er hægt að ráðast í, því undir því komið, að innlendri sparifjármyndun séu sköpuð sem hagstæðust skilyrði.