13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

159. mál, vinnuaðstaða og sumarhvíld barna og unglinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Margrét Sigurðardóttir, 1. varaþm. Alþb. í Reykjavík, var hér varamaður minn, meðan ég var á fundi í Norðurlandaráði, og flutti þá till., sem er á þskj. 290, um vinnuaðstöðu og sumarhvíld barna og unglinga. Ég leyft mér, herra forseti, að flytja hér þá ræðu, sem hún hefði kosið að flytja, ef hún hefði enn þá verið hér á þingi.

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir, fjallar um kosningu 5 manna nefndar, sem taki til athugunar aðstöðu barna og unglinga til eðlilegrar og heilbrigðrar sumarhvíldar og hæfilegrar og þroskandi vinnu þann tíma, sem þau eru ekki í skóla. Er til þess ætlazt, að n. geri nákvæmar athuganir á því, hvernig þessum málum er háttað, og leggi að loknum störfum þær athuganir ásamt till. til úrbóta fyrir Alþingi. Til frekari skýringar því, á hvern hátt framkvæmd þessarar till. er hugsuð, leyfi ég mér að vitna til grg., sem henni fylgir. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrsta verkefni slíkrar nefndar, sem hér er lagt til að kosin verði, yrði því að athuga, hvernig sumarvinnu barna og unglinga er varið, hve mörg stunda ákveðna vinnu, hvers konar vinnu og hve langur vinnudagur þeirra er. Þá fyrst, er nokkurt yfirlit er fengið í því efni, er unnt að gera sér grein fyrir, á hvern hátt framlag og frumkvæði ríkisins kæmi bezt að haldi. Þar getur orðið um ýmsar leiðir að ræða, t.d. rekstur vinnuskóla, að láta unglinga sitja fyrir um vinnu eða mynda heita vinnuflokka, sem vinna störf, sem þeim eru holl og heppileg, o.fl. Sömuleiðis kemur til álita, hvort ríkið hefði slíkan rekstur algerlega á sínum vegum eða aðallega yrði farin sú leið að atyrkja á myndarlegan hátt slíka starfsemi á vegum bæjarfélaga og kauptúna og félagasamtaka.

Einnig þyrfti að athuga, hvort hægt væri að annast einhvers konar miðlun um sumardvöl barna á sveitabæjum og þá jafnframt eftirlit með slíkri dvöl.

Þörfin á því, að athafnaþrá barna og unglinga sé virkjuð með einhvers konar vinnu, er viðurkennd hér á landi. Má heita, að það hafi verið grundvallarsjónarmið í uppeldismálum þjóðarinnar gegnum aldir. Í augum fjölda fólks er það grundvallarsjónarmið í uppeldismálum enn þá.

Það er þó nauðsynlegt að skilja, að eigi þjóðin að svara þeim kröfum, sem nútímaþjóðfélag gerir um langa og jafnframt stranga skólagöngu og sérhæfingu á ótalmörgum sviðum, og eigi hún jafnframt að halda því, sem hefur verið aðalsmerki íslenzkrar menningar, þ.e. traust alþýðumenning, þarf hún að búa mjög vel að æsku landsins. Þar nægir ekki fleiri og betri skólar og betri aðstaða kennara. Það þarf einnig að skipuleggja hin löngu, samfelldu „sumarfrí“, sem börn og unglingar hafa frá skólanámi. Þann tíma má ekki einungis nota til stritvinnu, sem að vísu forðar e.t.v. frá öðru verra og gefur peninga í aðra hönd, heldur þarf sá tími fyrst og fremst að notast til uppbyggingar andlegra og líkamlegra krafta, veita unglingum félagslegt uppeldi og siðferðisþrótt.

Í þeim tilgangi er annar liður þessarar till. fram borinn. N. ætti að athuga möguleika á að hefja starfsemi sumarbúða fyrir unglinga, svo að að því yrði stefnt, að skólabörn á 12 . –15 ára aldurs ættu slíkrar dvalar kost í nokkrar vikur árlega fyrir viðráðanlegt gjald. Í slíkum búðum yrðu börnin undir handleiðslu hæfra manna, t.d. kennara, iðkuðu leiki, íþróttir, gönguferðir og náttúruskoðun.“

Ég vildi enn fremur nú, þegar till. kemur til fyrri umr. í hv. sameinuðu Alþingi, fara nokkrum orðum um, hverjar ástæður eru fyrir flutningi hennar og hver tilgangurinn er.

Á hverju vori stendur mikill fjöldi íslenzkra foreldra og annarra forráðamanna barna á skólaskyldualdri frammi fyrir þeim vanda að sjá börnum sínum fyrir heppilegum viðfangsefnum næstu 4–5 mánuði. Hversu mikill vandi þetta er og hvort þetta yfirleitt er vandi, fer að vísu nokkuð eftir því, hvar börnin eru búsett. Í sveitum landsins mun þetta ekki skapa neinn vanda. Sveitabörnin taka á eðlilegan og heppilegan hátt þátt í störfum og athafnalífi heimila sinna, eftir því sem aldur og vinnugeta leyfir. Hins vegar er ástæða til að ætta, að sveitabörn hafi engu síður en kaupstaðabörn þörf fyrir hvíld og hressingu einhvern tíma sumarsins í frjálsum leik og félagslegri sambúð við jafnaldra sína. Að því leyti er tili. snertir það efni, varðar hún sveitir jafnt sem bæi.

Það er sérstaklega hér í Reykjavík og öðrum hinum stærri bæjum, sem tilfinnanlegur er skorturinn á heppilegum viðfangsefnum fyrir börn og unglinga, en viða úti á landi, t.d. í útgerðarplássum, þar sem allt iðar af starfi og lífi á vetrum, en atvinna leggst að miklu leyti niður á sumrum, er þetta starfsleysi barna og unglinga einnig tilfinnanlegt. Hér í Reykjavík hefur á s.l. hausti setið að störfum nefnd á vegum borgarstjórnar til athugunar og tillögugerðar um sumarvinnu unglinga. Niðurstöður n. hafa fyrir nokkru verið birtar. Kemur þar í tjós, að því nær allir unglingar á aldrinum 12–14 ára telja sig hafa gegnt ákveðnu starfi á s.l. sumri. Milli 30 og 40% dvöldu í sveit við störf, sem eru ekki nánar tilgreind, en hin gengu að vinnu hér í borginni. Börn telja sig yfirleitt hafa unnið 8 tíma daglega og mörg lengur. Þegar á heildina er lítið, virtust kaupgreiðslur til barnanna frekar lágar, og enn fremur kemur það í ljós, að börnin byrja að vinna mjög fljótlega eftir að þau hverfa frá námi og eru að störfum fram eftir septembermánuði eða fram undir eða fram að þeim tíma, sem þau hefja nám að nýju. Af þessum upplýsingum virðist mega ráða: Í fyrsta lagi: foreldrar una því illa og er bókstaflega ekki fært að hafa stálpuð börn heima án nokkurs ákveðins verkefnis. Í öðru lagi er greinilegt af því, hve mjög almennt börn ganga að vinnu, að þau una ekki heldur aðgerða- og iðjuleysinu. í þriðja lagi má ætla, að foreldrum sé það aðalatriði, að börnin fái verkefni, en launin skipti minna máli. Í fjórða lagi: vinnutími barna er almennt of langur.

Það er augljóst mál, að meðan skólaleyfin eru jafnlöng og þau eru í íslenzkum skólum, munu stálpuð börn og unglingar vinna einhvern tíma sumarsins. Á því er ekki heldur vafi, að erfiðisvinna er unglingum heppileg reynsla og hollur skóli. En þá þarf vinnuaðstaðan að vera góð, vinnan börnum ekki hættuleg heilsufarslega séð og vinnutíminn hæfilega langur, en því miður vantar mikið á, að svo sé.

till., sem hér liggur fyrir, er fram komin vegna þeirrar skoðunar, að það sé þjóðfélagsleg nauðsyn að tryggja, að þessum skilyrðum sé fullnægt. Það þarf að undirbúa og skipuleggja af alúð og fyrirhyggju störf, sem henta börnum, svo að foreldrar neyðist ekki til þess að láta börn sín vinna við óheppileg störf, vegna þess að annað var ekki fáanlegt. Reykjavíkurborg og nokkrir aðrir bæir landsins hafa sinnt þessum verkefnum að nokkru undanfarin ár. En hér er um vandamál að ræða, sem snertir beint og óbeint allt landið, og því eðlilegt, að ríkið leggi þessum málum myndarlega lið á þann hátt, sem heppilegastur þætti að athuguðu máli. Þá mundi einnig opnast leið til þess að koma til móts við fámennari staði, sem hafa ekki haft ástæðu til að halda uppi sumarvinnu fyrir unglinga, en hafa við þennan vanda að stríða.

Ég hef rætt hér nokkuð þann vanda að sjá börnum og unglingum fyrir heppilegri sumarvinnu. En það er einnig önnur hlið á þessu máli, sem þarf athugunar við. Á ég þar við þá unglinga, sem vinna langan vinnudag við störf, sem einungis eru ætluð fullhörðnuðum verkamönnum. Mun slíkt aðallega tíðkast í sjávarplássum, þar sem sumarvinna er mjög mikil, en einnig hér í Reykjavík og vafalaust einnig á ýmsum sveitaheimílum. Slíkt byggist sjálfsagt að einhverju leyti á sárri nauðsyn fjölskyldna barnanna, en líka á því viðhorfi, sem sums staðar loðir við, að unglingar séu vinnukraftur, sem losni úr viðjum, er skólanum sleppi, og hann sé sjálfsagt að nýta til fullnustu. Vill oft gleymast undir þessum kringumstæðum, að hér sé um börn að ræða á viðkvæmum aldri. Viðhorf unglinga mótast líka oft með nokkuð sérstökum hætti við þessar aðstæður. í hinum óþroskaða og jafnvægislausa barnshuga myndast oft sú skoðun, að þar sem þeir vinni eins og fullorðnir menn og fái talsverða eða jafnvel mikla peninga í hendur, séu þeir menn með mönnum, sem enginn ráði við, og sjálfsagt sé að njóta þeirra skemmtana og lystisemda, sem á boðstólum kunna að vera. Ávöxtinn af slíkum viðhorfum og slíkum aðstæðum sjáum við stundum í líki ofurölva unglinga á skemmtisamkomum eða við heyrum frásagnir af spellvirkjum og annarri ósæmilegri framkomu fólks, sem er ekki komið af barnsaldri, svo sem verið hefur undanfarin ár í sambandi við verzlunarmannafrídaginn í ágústmánuði.

Sú nefnd, sem ynni að því að athuga og gera till. um sumarvinnu unglinga, þyrfti vissulega að hafa opin augu fyrir þessari hlið engu síður en hinni hliðinni, sem sýnir vöntun á störfum fyrir unglingana. En á það ber einnig að líta, að málið er ekki svo einfalt, að tillögur um sumarvinnu unglinga og framkvæmd þeirra leysi vandann. Hér þyrftu að koma til skýr og greinileg lagafyrirmæli um, hvaða vinnu börn mega ekki vinna og við hvaða skilyrði og hve langur vinnutími eða vinnudagur þeirra megi vera. Það er ótrúlegt sinnuleysi og ég vil segja ábyrgðarleysi, að ekki skuli hafa verið framkvæmd fyrirmæli barnaverndarlaganna um að gefa út reglugerð um vinnuskilyrði unglinga og aðbúð, lengd vinnudags, ortof þeirra o.fl. Er það alveg sérstaklega ámælisvert, þegar tillit er tekið til þess, að mörg undanfarin ár hefur verið skortur á vinnuafli og þess vegna ástæða til að óttast, að vinnukraftur unglinga sé misnotaður. Að láta það viðgangast, eins og á sér stað hér á landi, að unglingar vinni eftirlitslítið eða eftirlitslaust við hvaða vinnu sem er, á hvaða vinnustað sem er og svo langan vinnudag sem aðstæðurnar og þörf vinnuveitandans krefst, er ófremdarástand, sem er ekki samboðið nokkru menningarþjóðfélagi.

Sú trú, að líkamleg stritvinna sé heppilegasti uppalandinn til að gera Íslendinga færa um að búa í sínu harðbýla landi, er ein af okkar gömlu grundvallarskoðunum, sem þjóðfélagshættir 20. aldarinnar gera okkur nauðsynlegt að taka til rækilegrar endurskoðunar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að áður fyrr var lífsbarátta hér á landi svo hörð, að mikillar vinnu og jafnvel hvíldarlauss strits var krafizt af fólki í öllum stéttum og einnig af börnum. Það er einnig kunnugt, að þetta er breytt orðið. Fólk býr yfirleitt ekki við harðæri á íslandi lengur. Fjöldi manna veitir sér mikinn munað. Það hefur oft verið sagt, að það væru ekki sízt börn og ungt fólk, sem nytu þessara breyttu aðstæðna. Þetta er á vissan hátt rétt. Okkur, sem nú erum miðaldra fólk eða eldra, hættir við að bera saman þá aðbúð, sem okkar kynslóð átti í æsku, og þá, sem æskufólk, sem nú er að vaxa úr grasi, býr við, og virðist þá sem unga fólkið nú á tímum þurfi lítið annað að gera en að þiggja þær gjafir og gæði, sem við viljum gjarnan færa því. Þó sækir á sú spurning, hvort ekki hafi gleymzt þrátt fyrir góðan vilja mikilvæg atriði í aðbúð og uppeldi unga fólksins. Ýmsar staðreyndir geta bent til þess. Sennilega er þó sjaldnast við einstaklingana að sakast. Það er raunverulega svo, að börnin og unga fólkið, sem nú er að ná þroska, hefur almennt notið betri kjara en við þekktum í æsku. Það er raunverulega svo, að foreldrar þessara barna hafa fært þeim margvíslegar gjafir af mikilli ástúð og óeigingirni. Ég hygg, að vandkvæðið liggi í því, að ýmislegt, sem er nauðsynlegt til að skapa sér fótfestu í lífinu, er ekki lengur á færi einstaklinga, jafnvel ekki ástríkra foreldra, að veita börnunum. Það getur aðeins hin samfélagslega hjálp, þjóðfélagið sem heild, skapað þeim. Á meðan við ekki skiljum það og breytum eftir þeim skilningi, höfum við ekki handbær þau úrræði, sem að gagni mega koma ungum þegnum í íslenzku nútímaþjóðfélagi. Sú staðreynd, að bein erfiðisvinna er eina viðfangsefnið, sem það opinbera skipuleggur fyrir unglingana þann tíma, sem þeir ekki stunda nám, sýnir, að við erum ekki búnir að átta okkur á, hve uppeldisaðstæður og sá grundvöllur, sem uppeldi hvílir á, hefur gerbreytzt á síðustu áratugum. Nú erum við að ala upp æskufólk, sem langflest á fyrir höndum 10–20 ára skólanám og sumir enn lengra. Slíkt nám er vinna. Góður námsárangur næst ekki nema með mikilli atorku og einbeitni nemandans. Slík atorka krefst þróttar, andlegs og líkamlegs þróttar. Þann þrótt þarf að treysta og efla með nemendum, og tækifæri til þess gefst ekki sízt þann tíma, sem unglingarnir hafa frí frá sinni eiginlegu vinnu, nefnilega skólanáminu.

Hin almenna skólaskylda er þjóðfélaginu vissulega mjög dýr starfsemi. Þó munu þeir vera fáir, sem telja ekki þeim peningum vel varið, sem til hennar renna. Með henni stígum við stórt spor til samræmds þjóðaruppeldis og treystum grundvöllinn að menningarþjóðfélaginu. Þó er það ljóst, að okkur hefur ekki tekizt að skapa uppvaxandi æsku þá þjóðfélagslegu aðstoð, sem fær sé um að vernda hana og gefa henni það mótvægi, sem hún þarfnast gegn upplausnaranda og ringulreið samtímans.

Starf umbótamanna í uppeldismálum, bæði sérfræðinga og áhugamanna, beinist mjög að því að veita börnum og unglingum holla tómstundaiðju, en hin löngu skólafrí íslenzkrar skólaæsku hafa menn ekki enn þá treyst sér til að skipuleggja í þeim tilgangi, að þau gegni ákveðnu hlutverki í þjóðaruppeldinu. Þar hefur hin gamla lausn á uppeldisvandamálin, vinnan, verið eina úrræðið. Það er ekki fullnægjandi lausn á vanda þessa aldursskeiðs að gefa unglingunum einungis kost á stritvinnu allan tímann, sem þeir eiga fri frá ströngu námi. Það er nauðsynlegt, að ríkið beiti sér fyrir stofnun og starfrækslu sumarbúða, sem allir unglingar ættu kost á dvöl í nokkrar vikur á hverju sumri. Slík starfsemi ætti að gefa unglingunum tækifæri til hvítdar og hressingar við þá tómstundaiðju og frjálsa leiki, sem þeim hentar, auk þess sem samvera og samstarf við jafnaldra er unglingum á aldrinum 12–15 ára sérstaklega mikilsvert. A þessu erfiða aldursskeiði þroska unglingsins, gelgjuskeiðinu, er börnum sérstaklega hætt við að leiðast á glapstigu. Það er því mjög þýðingarmikið, að þjóðfélagið veiti unglingunum heppilegt aðhald fram yfir þennan aldur. Með því að skipuleggja þetta væri unnið að því, að unglingarnir ættu kost á hollri og heppilegri vinnu nokkurn tíma síns langa skólafris og þeir ættu einnig völ á hressingardvöl í sumarbúðum, og þá væri hægt að segja, að þjóðfélagið gerði sér það ljóst, að ekki er nóg að halda uppi umfangsmikilli skólagöngu, heldur er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að hin almenna skólaskylda nái þeim tilgangi sínum að gagnmennta þjóðina. Má vera, að mörgum finnist að slíkt væri óhæfilega kostnaðarsamt til viðbótar hinu dýra fræðslukerfi. En hvað er dýrt, og hvað borgar sig? Slíkt er ekki alltaf einfalt reikningsdæmi, heldur matsatriði. Fyrir jafnfámenna þjóð sem okkur er varla nokkur fjárfesting betri en sú, sem eykur möguleikana á, að sem flestir unglingar megi verða að nýtum mönnum, og varla nokkur fjársóun verri en þegar mannsefni glatast vegna sinnuleysis þjóðfélagsins.

Herra forseti. Ég vil að lokum leyfa mér, þegar ég hef flutt þessa ræðu frú Margrétar Sigurðardóttur um þetta mál, að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði þessari þáltill. um vinnuaðstöðu og sumarhvíld barna og unglinga vísað til allshn.