03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

181. mál, verðlaunaveiting fyrir menningarafrek vegna afmælis lýðveldisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér ásamt hv. 4. landsk. og hv. 4. þm. Austf. að flytja hér þáltill. um, að nokkru fé sé varið til þess að verðlauna menningarafrek í sambandi við 20 ára afmæli lýðveldisins.

Nú á næsta ári eru liðin 20 ár síðan lýðveldið var endurreist, og á því sama ári eru liðin 700 ár frá því, að allt Ísland gekk undir konung á sínum tíma. Ég held, að það sé rétt á slíkum tímamótum, að við undirstrikum nokkuð gildi íslenzks sjálfstæðis og þá fyrst og fremst íslenzkrar þjóðmenningar og reynum af hálfu Alþingis að gera nokkurt sérstakt átak til þess að efla hana og ýta undir þjóðrækni í okkar landi.

Okkar þjóðmenning er einhver elzta og merkilegasta menning heimsins. Við höfum átt í mikilli baráttu alla þá tíð, sem okkar forfeður hafa lifað í þessu landi, fyrir að varðveita hana. Við höfum staðið af okkur þær menningarlegu hættur, sem að okkur sóttu á sínum tíma, bæði á þeim tíma, sem latínan var hið drottnandi mál hjá yfirstétt Evrópu, og þann tíma, þegar tízkan sótti fram á Norðurlöndum og breytti öllum öðrum tungum Norðurlanda en okkar með þeim áhrifum, sem þýzki aðallinn hafði á 14. og 15. öld á danska tungu og önnur Norðurlandamál. Og nú stöndum við í svipaðri hættu vegna engilsaxnesku áhrifanna og það í því meiri hættu en fyrr, þar sem áhrifatækin nú á tímum eru orðin miklu voldugri og áhrifaríkari en nokkru sinni fyrr, eftir að útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og allt annað slíkt kom til sögunnar. Ég held, að það sé þess vegna alveg nauðsynlegt fyrir okkur að nota hvert tækifæri, sem okkur gefst, til þess að reyna á allan hátt að ýta undir þá sérstöku þjóðmenningu, sem við höfum átt, og reyna, eftir því sem frekast er unnt, að tengja þá menningu, sem nú er að vaxa upp í landinu, við okkar gömlu þjóðarerfð.

Það er, eins og oft hefur verið talað hér um áður, svo mikil hætta í sambandi við þá miklu byggðabyltingu, sem átt hefur sér stað í landinu, að rauði þráðurinn í okkar þjóðarerfð slitni, og þess vegna er nauðsynlegt, að við í hvert skipti, þó að það sé ekki meira en slík afmæli eins og þessi, notum tækifærið til að ýta undir alla þá, sem að okkar þjóðmenningu og afrekum á hennar sviði vilja vinna. Við eigum í baráttu einmitt um það á þessum árum og verður að öllum líkindum tekin endanleg ákvörðun eða ný um það á árinu 1964 að fá handritin heim, og það er engum efa bundið, að það er fylgzt alveg sérstaklega með því erlendis, hvernig okkur íslendingum gengur að efla okkar þjóðmenningu, hve vel okkur gengur að viðhalda virðingunni fyrir okkar þjóðarerfð. Og útlendingar, ekki sízt Danir og ég held nú máske sérstaklega þeir, sem voru okkur frekar óvinveittir í slíku efni, munu gera nokkuð með það, hve mikið við gerum sjálfir af því að sýna, að við viljum viðhalda okkar gömlu þjóðmenningu, efla hana og tengja þá nýju menningu, sem er að vaxa upp í landinu, við hana. Og ég held satt að segja, að okkur veiti ekki af að auka virðinguna fyrir okkar þjóð sem menningarþjóð út á við. Við erum smám saman að verða frægir — ef ég má nota orðið frægir — fyrir annað en menningu, eins og menn kynnast íslendingum oft nú á tímum. Það er meira bisnessinn, ef ég má nota það ljóta orð, það er meira fésýslan og hitt, hve miklu við oft vitjum skarta, og sú okkar stétt, sem mest leggur í það, — það er það, sem er að verða miklu meira áberandi en sú raunverulega menning. Yfirborðsmennskan er að verða svo sterk hér hjá okkur heima, að ef við getum lagt fram eitthvað til þess að efla okkar menningu meir, þá er það vissulega nauðsynlegt. Ég sé ekki betur en við höfum verið á þeim sviðum að dragast aftur úr upp á síðkastið. Við gerðum. meiri átök í þeim málum, meðan við vorum fátækari. Það voru stærri átök, sem við gerðum fyrir stríð, þegar við byggðum háskólann, heldur en við höfum gert í þeim efnum síðan. Og á sama tíma t.d., — ég hef getið um það hér áður í sambandi við annað, — þegar Norðmenn eru að byggja núna sinn stóra háskólabæ fyrir utan Osló, þá leggjum við með yfirborðsmennskunni, sem einkennir okkur, í háskólabíóið í staðinn fyrir þær tvær byggingar, sem nauðsynlegastar hefðu verið vegna vísindanna.

Ég held, að við þurfum alvarlega að taka okkur á í þessum efnum og 20 ára afmæli lýðveldisins væri tækifæri til þess að gera slíkt. Þess vegna höfum við flm. lagt til, að það yrði varið allmiklu fé, um 5 millj. kr., til þess að veita verðlaun á hinum ýmsu sviðum íslenzkrar menningar og til þess að ýta undir okkar listamenn, okkar vísindamenn, okkar rithöfunda á öllum þessum sviðum. Slík verðlaunaveiting er nú ein af þeim aðferðum, sem þjóðirnar tíðka meir og meir. Einnig Norðurlandaþjóðirnar eru í æ ríkara mæli að taka þetta upp, m.a. til þess á hentugan máta ekki aðeins örva sína listamenn, heldur líka kynna þá betur meðal þjóðanna. Jafnvel þar sem auðvaldið er máske sterkara, en a.m.k. gjöfulla en hér, þá er það víða, að einstakir auðmenn leggja fram stóra styrki til þess að reyna að efla þannig menningu síns lands og máske ekki örgrannt um, að þeim þyki um leið gaman að því að láta tengja nafn sitt við eitthvað fegurra en venjulega iðnaðarframleiðslu eða vopnaframleiðslu. Bæði Rockefeller og Nóbel hafa séð sér hag í því og fundið útrás fyrir sitt stolt í því að skapa stofnanir, sem eigi sérstaklega að vera til þess að efla menningu og vísindi viðkomandi þjóða og jafnvel annarra þjóða. Mér hins vegar verður ríkið; a.m.k. enn sem komið er, að gera slíkt. Og við höfum satt að segja verið í venjulegum framkvæmdum okkar skeytingarlausari, ef maður má nota það orð, um að nota tækifærið, þegar við erum að ráðast í framkvæmdir, til að ýta um leið undir listirnar. Ég held, að það sé minna um skreytingu í opinberum byggingum hjá okkur nú en var jafnvel fyrir 20–30 árum, kannske með tveimur undantekningum. Reykjavíkurbær hefur skreytt nokkuð af sínum barnaskólum mjög fallega, og Sogsvirkjunin hefur gert dálítið til þess að tengja listaverk við þær byggingar, sem reistar hafa verið á hennar vegum. En annars er það, sem þótti forðum daga, t.d. hjá Grikkjum, eitt það sjálfsagðasta í sambandi við allar opinberar byggingar, listaverkin, sem kosta ekki nema hverfandi lítið í samanburði við það, sem byggingarnar kosta, það er svo að segja horfið hjá okkur nú.

Ég held þess vegna, að það væri ákaflega vel til fundið, að við reyndum á 20 ára afmæli okkar lýðveldis að nota það tækifæri til að örva nokkuð okkar listamenn og okkar vísindamenn á hinum ýmsu sviðum. Og við flm. leggjum til, að þetta sé á sviðum tónlistar, myndlistar og fagurra bókmennta, sviði sagnaritunar, sviði alls konar vísinda og hagnýtra rannsókna. Og sú upphæð, sem hér er lagt til að verja í þessu skyni, ætti að nægja til þess, að það væru nokkuð myndarleg verðlaun á öllum þessum sviðum. Við leggjum til, að menntamálaráði sé falið að ráða, á hvern hátt þessum verðlaunum sé úthlutað, ákveða þar reglugerð um, og í þeirri reglugerð mundi þá um leið verða ákveðið, hvernig bezt þætti að láta undirbúa þá verðlaunaveitingu, t.d. hvort þetta ætti að vera fyrir verk, sem unnin hefðu verið á lengri tíma, eða hvort það væri ákveðið, að frá því að slík samþykkt væri gerð, þá auglýsti menntamrn. slíkt, og þar kæmu til greina aðeins þau verk, sem unnin hefðu verið eða skilað væri á því tímabili, sem liði fram að 17. júní 1984. Þegar lýðveldið var stofnað, var að vísu ekki mikið um slíkt, en afur lítið þó og gaf nokkuð góðan ávöxt. Þó var því hagað þannig, það var að vísu ekki nema á sviði söngs og ljóða, að það var aðeins fyrir þau verk, sem unnin voru eftir að þessi ákvörðun var tekin, og ég held nú, að að ýmsu leyti væri það bezt að hafa þetta líka þannig, en það mundi sem sé menntamálaráð í samráði við menntmrh. ákveða. En engum efa er bundið, að slík verðlaunaveiting mundi verða til þess að örva mjög alla okkar lista- og vísindamenn á þessum ýmsu sviðum. Líka væri hægt að hafa þetta nokkuð mismunandi fyrir hin ýmsu svið, t.d. á sviði sagnaritunar, vísinda og hagnýtra rannsókna, þá gæti þetta veríð miðað við lengri tíma en bara tímann, sem liði fram að 20 ára afmælinu, þannig að til greina kæmu líka þau verk, sem menn hefðu verið að vinna að nokkurn tíma á undan, en á svíði t.d. tónlistar, myndlistar og slíkra listgreina væri það aftur á skemmri tíma. Þá mætti líka tengja þetta við skulum bara segja á svíði myndlistarinnar — við ýmislegt, sem snerti málverk úr okkar sögu. Ég býst við, að við Íslendingar séum fátækastir allra þjóða í Evrópu af málverkum úr okkar sögu. Það er ákaflega lítið til af slíku. Við, sem höfðum með það að gera að undirbúa lýðveldishátíðina, létum að vísu útbúa nokkur málverk, sem voru tengd okkar sögu. Sum af þeim tókust sæmilega, ekki öll, ekki heldur það þeirra, sem er hér niðri hjá okkur, og á þessu sviði erum við ákaflega fátækir, þannig að ef t.d. á því sviði væri eitthvað reynt að gera, þá væri þess verulega þörf. En erfiðleikinn er, að það er ákaflega fátt af okkar málurum, sem virðist hafa áhuga á slíkum málverkum, og máske annað, að það er svo þó segja ekkert af opinberum stofnunum, sem nokkurn tíma hefur sýnt áhuga á að vilja kaupa slíkt málverk. Það var nú svo, þegar við vorum einmitt að undirbúa lýðveldisstofnunina, að einmitt vissir abstraktmálarar, sem voru fengnir til þess að mála þá söguleg málverk, þeir gerðu raunverulega þau málverkin, sem máske voru einna bezt, og það í alveg klassískum stíl. Það er líka svo, að í sambandi við kvikmyndir mætti vafalaust reyna að laða fram, ef þar væri tengt saman að fá góðar myndir af því gamla og nýja Íslandi og reyna að tengja þetta listrænt saman, þá væri það sannarlega þess virði, að ríkið reyndi myndarlega að verðlauna slíka kvikmyndagerð. Við höfum máske sumir séð undanfarið hérna þær kvikmyndir t.d., sem Ósvaldur Knudsen hefur verið að taka og sýna, og sjáum, hvers konar raunveruleg söguleg afrek er verið að vinna fyrir okkur í þessu sambandi, bjarga fyrir okkur menningarlegum verðmætum, sem ella glatast. Og það væri ákaflega heppilegt að geta tengt við 20 ára afmæli lýðveldisins einmitt þess háttar list. Ég efast ekki um, að einnig þeir amatörar, sem eru að fást við slíkt, fengju kannske, þegar þeir fyndu einhverja uppörvun frá því opinbera, verulega góðar hugmyndir til að framkvæma verk á sviði slíkrar kvikmyndagerðar, sem gætu orðið okkur — og ekki sízt okkar börnum — sérstaklega kærkomin.

Við álítum þess vegna. flm., að það væri rétt fyrir okkur í tíma að athuga þetta. Það hefur oft viljað fara svo hjá okkur, þegar átt hefur að minnast einhverra sögulegra atburða, að það vs2ri kannske lítið orðið annað en nokkrar hátíðarræður, veizlur og þess háttar, þegar þar að kæmi, en minna aftur á móti um það, sem hefði um leið hagnýta þýðingu fyrir okkar menningu. Nú er raunverulega alveg á tvennan hátt tækifæri til þess að minnast annars vegar, þar sem er 20 ára afmæli lýðveldisins, og hins vegar, þar sem liðin eru 700 ár frá 1264. Ég vil þess vegna fyrir hönd okkar flm. leyfa mér að vona, að þessari till. verði tekið vel. Upphæðin er að vísu allhá, en þó vil ég minna á, að það eru 2 millj. kr. á hverju ári, sem nú eru látnar aðeins í sérstaka styrkí í sambandi við vísindarannsóknir, svo þó að ríkið einu sinni á 10–20 ára fresti leggi fram 5 millj. kr. til þess að verðlauna afrek á hinum ýmsu sviðum, er það raunverulega ekki sérstaklega stórt.

Við leggjum svo til, að að lokinni þessari fyrri umr. sé þessari till. vísað til hv. fjvn. Umr. (atkvgr.) frestað.