21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

249. mál, virkjunarmöguleikar Jökulsár á Fjöllum o.fl.

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tel skylt að þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Það er ekki gott að átta sig á því til hlítar, hvort svör þessi eru þannig, að hægt sé að álykta fullkomlega út frá þeim, hvernig málum er komið á veg. Ég lít svo á, þegar Alþingi hefur gefið út fyrirmæli, þótt í þál. sé, en ekki lagaformi, að þá sé embættismönnum ríkisins skylt að taka þau fyrirmæli til greina. Og þau fyrirmæli, sem Alþingi hefur þannig gefið um þau aðalvötn, sem í rannsókn eru, eru aðeins ein, um það, að hraðað sé virkjunarrannsóknum snerlandi Jökulsá á Fjöllum og athugun á því, hvernig horfir við að undirbúa þar virkjun til framleiðslu á útflutningsvörum. Ljóst er af svörum hæstv. ráðh., að meira kapp hefur verið lagt á það að rannsaka sunnanlands. Til þess hefur verið a.m.k. meira fé varið, og okkur, sem erum norður frá, hefur sýnzt, að slaknað hafi mjög á athugunum að því er snertir Jökulsá á Fjöllum upp á síðkastið. En við lítum svo á, að skylt sé, að sú athugun gangi a.m.k. jafnhratt og hinar, helzt á undan, og teljum, að fyrir því séu þau rök, að þingvilji hefur verið út gefinn um það. Ég t.d. harma það, hvað lítil áherzla hefur verið á það lögð að athuga um útflutningshöfn. Enn kemur það fram, eins og á fundinum í sumar, að helzt muni fyrirhugað, að höfn verði vestan Eyjafjarðar, og gert þá ráð fyrir að leggja rafleiðslur yfir fjallvegi og fjörð að þeim útflutningsstað. Til eru t.d. lón í Kelduhverfi við Fjallahöfn, þar sem fyrrv. eigendur Dettifoss höfðu hugsað sér útflutningshöfn. Þeir voru byrjaðir að láta rannsaka skilyrði þar, þegar fyrra stríðið skall á. Og það segja menn, sem fylgdust með þeirri rannsókn, að rannsakendur hafi sagt, að þeim sýndist þar álitleg aðstaða. Þangað er miklu styttra að fara og auðveldari leið. Og ég vil óska þess, að áður en gerður er samanburður til úrslita. á milli virkjunaraðstöðu og framleiðsluaðstöðu vegna þeirra virkjana, sem um ræðir hér, fullnaðarsamanburður og til úrslita, þá verði þessi skilyrði rannsökuð. Annars leyfi ég mér að vænta þess, að lögð verði áherzla á rannsókn Jökulsár til hlítar og að við megum treysta því, að það verði ekki slegið neinu föstu um stórvirkjun annars staðar, fyrr en skilyrði í sambandi við Jökulsá eru fullrannsökuð. Og tilgangurinn með fsp. byggist á þeirri hugsun. Við viljum gera kröfu til þess, að þál. frá 22. marz 1961 verði það virt af embættismönnum ríkisins.