13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

184. mál, endurskoðun laga um byggingarsamvinnufélög

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir góð svör við þeirri fyrirspurn, sem ég hef borið fram til hans. Það gleður mig að heyra, að unnið er að endurskoðun l. um byggingarsamvinnufélög, þótt ég verði að segja, að sú endurskoðun virðist ganga grátlega hægt eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf um gang málsins hjá þeirri n., sem málið hefur til athugunar.

Mér kemur það dálítið spánskt fyrir að heyra það upplýst, að staðið hafi mjög á svörum frá stærstu byggingarsamvinnufélögum landsins við þeim fyrirspurnum, sem n. sendi þeim. En ég vil þó ekki draga það í efa, að þar sé rétt með farið. En á hitt vil ég benda, að það er ómögulegt að fallast á, að n. geti setið og haldið að sér höndum og ekki unnið að þeirri endurskoðun, sem hún á að gera skv. ákvörðun rn., þótt henni berist ekki svör frá öllum byggingarsamvinnufélögum, sem hún hefur sent erindi til. Þess vegna vil ég vænta þess, þrátt fyrir þennan annmarka, sem virðist á vera, að n. hraði nú mjög störfum, þannig að hún geti lokið þeirri endurskoðun á löggjöfinni um byggingarsamvinnufélög, sem henni hefur verið fyrirskipað að vinna að, á skömmum tíma hér eftir. Ég vil svo þakka svör hæstv. ráðh.