27.03.1963
Sameinað þing: 42. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3389)

252. mál, greiðsla opinberra gjalda af launum

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég get í fyrsta lagi tekið undir það aneð hv. fyrirspyrjanda að lýsa ánægju yfir því, að þetta mál, sem svo mikill áhugi hefur verið á, bæði innan verkalýðsfélaganna og í ýmsum stjórnmálaflokkum og öðrum samtökum, skuli nú vera til ýtarlegrar athugunar.

Ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er að, að ég átti sæti í nefndinni, sem undirbjó skattalögin frá 1960, en þeim tilmælum hafði fjmrh. einmitt beint til þeirrar nefndar, að hún athugaði það mál, sem hér er til umræðu, sérstaklega. Meiri hluti nefndarinnar mun og hafa verið því hlynntur, að þetta fyrirkomulag væri tekið upp. Ég var þó hins vegar meðal þeirra, sem voru í vafa um, hvort rétt væri að taka þetta fyrirkomulag upp, og er í vafa um það enn þá. En niðurstaða nefndarinnar var sú, að málið væri í heild það umfangsmikið, að nefndinni mundi ekki vinnast tími til nægilega gaumgæfilegrar athugunar á því á þeim tiltölulega stutta tíma, sem henni var ætlaður, svo að hún gerði ekki um það ákveðnar tillögur. En allir munum við hata verið á því máli, að æskilegt væri að rannsaka málið áfram, og er það vel farið, sem hæstv. fjmrh. upplýsti hér, að málið væri enn þá til ýtarlegrar athugunar.

Bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. fjmrh. komu fram ýmis rök með því að taka þetta fyrirkomulag upp. Þarf ekki að rekja þau nánar. Ég er þeim sammála út af fyrir sig. Til eru hins vegar rök, sem mæla gegn þessu, en þar sem málið er ekki efnislega til meðferðar hér, fer ég ekki að rekja þau.

En það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi vekja athygli á og er meginröksemdin á móti því að taka þetta fyrirkomulag upp, eins og kom raunar fram í ræðu hæstv. fjmrh., en hún er sú, að þetta fyrirkomulag yrði óhjákvæmilega dýrara hvað skattaálagninguna snertir heldur en núv. fyrirkomulag. Það leiðir af því, að ef menn eiga að greiða skatta af tekjum sínum jafnóðum og þeir afla þeirra,

þá verður að gera fyrirfram áætlun um tekjur þeirra á árinu, en þar sem slíkt verður auðvitað ekki gert með neinu öryggi, verður einnig að endurskoða þetta eftir á, m.ö.o. að það þarf tvær niðurjafnanir í staðinn fyrir eina, sem er nú. Það er fullkomlega rétt hjá hæstv. fjmrh. og dregur úr þessari röksemd, að hinar fullkomnu vélar, sem nú er aðgangur að, gera álagninguna ódýrari, svo að þessi röksemd hefur þess vegna e.t.v. ekki nú eins mikið gildi og áður.

ég vildi þó benda á eitt, sem skapar nokkra sérstöðu fyrir Íslendinga í þessum efnum og að mínu áliti gerir þessi rök þyngri á metunum hér en annars staðar. Þau lönd, þar sem þetta hefur verið tekið upp, eru yfirleitt iðnaðarlönd, þannig að afkoma atvinnuveganna er þar öruggari en hér. Í þessum löndum hefur einnig verið tiltölulega stöðugt verðlag, gagnstætt því, sem hér er, og í þriðja lagi er það þannig í mörgum þessum löndum, að launasamningar eru gerðir til allt að því 2 ára eða jafnvel lengri tíma. Það gefur auga leið, að þar sem þannig stendur á, er það þannig. a.m.k. hvað snertir allan þorra launþega, að það er hægt með nokkurn veginn öryggi að áætla fyrir fram, hvaða tekjur þeir muni hafa, og það gerir niðurjöfnunina eftir á auðvitað umfangsminni. Hér er þessu öðruvísi varið. Okkar atvinnuvegir eru miklu háðari duttlungum náttúrunnar heldur en þar. Verðlag hefur verið óstöðugra hér en í nágrannatöndunum. Og hér er það yfirleitt þannig, að verkalýðsfélög geta sagt upp samningum með viku fyrirvara eða svo. Þetta gerir það að verkum, að miklu erfiðara verður hjá okkur en í hinum löndunum að áætla tekjurnar með nokkurri nákvæmni, þannig að niðurjöfnunin eftir á kemur þannig til að ná til miklu fleiri.

Ég vildi aðeins benda á þetta, ekki af því, að ég sé því andvígur, að þetta fyrirkomulag verði tekið upp, en ég tel, að það þurfi sérstaklega að athuga, áður en fyrirkomulagið er tekið upp, að kostnaðaraukinn við skattheimtuna verði sem allra minnstur, því að það hygg ég að allir hv. þm. séu sammála um, að hana beri að gera sem ódýrasta, enda verið unnið að því á öðrum sviðum undanfarin ár undir forustu núv. hæstv. fjmrh. að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að svo mætti verða.