19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (3405)

254. mál, Siglufjarðarvegur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil fagna yfirlýsingu hæstv, samgmrh. um fyrirhugaðar framkvæmdir í þessu máli. Þær framkvæmdir, sem þar eru fyrirhugaðar, eru að vísu langþráðar og lengi hefur verið beðið eftir þeim. En það er vitaskuld fjarri öllum sanni, að það hafi verið einhverjir draumórar eða draumar hjá þeim mönnum, sem beitt hafa sér fyrir því máli. Þeir hafa vitaskuld gert sér grein fyrir því, að þarna var um raunhæfa möguleika að tefla, enda hefði vitaskuld ekki verið lagt út í undirbúningsframkvæmdir, sem þegar hafa verið hafnar, ef svo hefði ekki verið. Ég held hins vegar, því miður, að það sé fullsnemmt hjá hæstv. samgmrh. að samfagna Siglfirðingum um það, að það sé séð fyrir endann á þessu máli. Ég vona, að sú áætlun, sem hér er fyrirhuguð og hér hefur verið lýst, standist, og ég vil jafnframt láta í ljós þá ósk, sem hv. 1, þm. Norðurl. v. setti hér fram, að framkvæmdum í þessu máli væri hraðað .enn meir en gert er ráð fyrir í þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið.

Það hefur verið mikill áhugi fyrir þessu máli af eðlilegum ástæðum, og þeir menn, sem hafa verið þm. fyrir þetta kjördæmi, hafa beitt sér fyrir því, bæði að veitt væru meiri fjárframlög til vegarins og eins, að veitt væri heimild til lántöku, eins og hér hefur verið rakið. En þær till., sem ég og ýmsir fleiri hafa flutt um hærri fjárveitingar til þessa vegar, hafa ekki náð fram að ganga, og till. um heimild til lántöku til þessa vegar hafa ekki heldur náð fram að ganga. Þó er það alveg víst, að ef þau lög hefðu verið samþykkt, á sínum tíma og að málinu hefði verið unnið, hefði verið hægt að framkvæma þessa mannvirkjagerð fyrir æði miklu minna fé en hún kemur nú til með að kosta.

Gangur málsins hefur að nokkru leyti verið hér rakinn. Ég skal ekki gera það frekar. Þó að ég líti svo á, að það hafi ekki verið unnið að þessu máli eins vel og átt hefði að gera, þá er ekki um það að sakast, ef endirinn á því verður nú góður og staðið verður við þær fyrirætlanir, sem uppi eru um þetta efni. En það má vera, að það stafi af misskilningi hjá mér, en mér er ekki alveg ljóst eftir upplýsingar þær, sem fram hafa komið hjá hæstv. samgmrh., hvernig eða hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þeirrar fjáröflunar, sem þarf í þennan veg. Það er auðsætt, að það er ekki nema 1 millj. kr., sem nú er veitt til þessara framkvæmda. Og þó að það standi í framkvæmdaáætlun á bis. 45, að það eigi að leggja 3 millj. til viðbótar á þessu ári í þessa framkvæmd, þá er mér ekki alveg ljóst, hvaða gildi sú yfirlýsing hefur umfram það að vera þá stefnuyfirlýsing stjórnarinnar. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. samgmrh. og það að nokkru leyti vegna þess, að á þessu þingi var felld brtt. við fjárlög, sem við nokkrir þm. fluttum um að heimila ríkisstj. að taka ákveðna upphæð að láni til þessa vegar, — þess vegna vil ég spyrja hann, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að fá nægar heimildir til lántöku og hvort það sé tryggt, að lán fáist í þessa framkvæmd, og hvort það sé búið að ráðstafa alveg ákveðnu fé í þessu skyni, t.d. af því enska framkvæmdaláni, og í öðru lagi og ekki þá sízt vegna þess, hversu framkvæmdaáætlunin er óákveðin, þegar árinu 1963 sleppir, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til áranna 1984–1965 til þess að útvega þær óneitanlega talsvert háu upphæðir, sem þar er um að tefla. Þetta finnst mér mjög æskilegt, að hæstv. samgmrh. upplýsti, og vel má vera, að eftir þær upplýsingar sé enn meiri ástæða til þess að samfagna Siglfirðingum um það, að það sé séð fyrir endann á þessu máli, heldur en mér þó virtist nú vera eftir þær upplýsingar, sem hæstv. samgmrh. gaf hér áðan.

Að lokum vil ég svo segja það, að ég vil láta í ljós mikil vonbrigði yfir því, ef það ,er í raun og veru, að mjög mikið skortir á, að tæknilegur undirbúningur sé í lagi undir þessa framkvæmd, því að svo lengi hefur hún verið á döfinni og svo langt er síðan hún var ákveðin og það var ákveðið, að horfið skyldi að jarðgangagerð, að ég tel það lítt skiljanlegt, að það skuli ekki hafa verið gengið betur frá þeim atriðum áður.