21.11.1962
Neðri deild: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

99. mál, framkvæmdalán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka framkvæmdalán. Frv. var lagt fyrir hv. Ed. og var afgreitt þaðan í gær. Efni þess er að heimila ríkisstj. að taka allt að 2 millj. sterlingspunda að láni og verja því til ýmissa mikilvægra framkvæmda, eins og nánar segir í 2. gr. frv.

Ríkisstj. hefur að undanförnu kannað möguleika á því að fá stórt framkvæmdalán erlendis, og hefur Seðlabanki Íslands haft með höndum þær athuganir og á hans vegum dr. Jóhannes Nordal bankastjóri. Niðurstaðan er sú, að nú eru möguleikar á því að fá slíkt lán sem hér greinir, eða að upphæð um 240 millj. ísl. kr., í Bretlandi. Það mundi verða boðið út, og er gert ráð fyrir, að vextir af þessu láni yrðu 61/2 %. Lánið mundi verða til langs tíma eða til 26 ára. Er gert ráð fyrir, að það verði afborgunarlaust fyrstu 51/2 ár, þannig að fyrsta afborgun yrði 30. júní 1968.

Í 2. gr. frv. segir frá því, til hvers eigi að verja þessu fé, og er það til framkvæmda á vegum ríkisins, sem eru mikilvægar fyrir þjóðarhag, eða að endurlána öðrum aðilum í sama skyni gegn fullnægjandi tryggingu. Í niðurlagi 2. gr. segir svo nánar:

„Fénu skal einkum varið til að efla útflutningsiðnað, til hafnargerða, raforkuframkvæmda og annarra framkvæmda, sem stuðla að aukningu þjóðarframleiðslunnar og gjaldeyrisöflun.“

Margvíslegar framkvæmdir eru á döfinni og fyrirhugaðar, bæði á vegum ríkisins, bæjarog sveitarfélaga og einstaklinga og samtaka þeirra, sem lánsfé þarf til. Ríkisstj. hefur til athugunar ýmsar leiðir til öflunar lánsfjár til hinna margháttuðu framkvæmda. Koma þar til greina að sjálfsögðu bæði opinber framlög og lánveitingar frá ýmsum sjóðum, og má þar nefna sérstaklega hinn stóra sjóð, atvinnuleysistryggingasjóð, og frá ýmsum tryggingafélögum. Í þriðja lagi koma til greina að sjálfsögðu lánveitingar frá bankakerfinu, og ættu þær lánveitingar að geta orðið meiri nú en verið hefur um langt skeið vegna þeirrar ánægjulegu þróunar, sem verið hefur og nú er nm aukningu sparifjár í landinu. Í fjórða lagi koma svo til erlendar lántökur, og hér liggur það fyrir, að möguleiki hefur nú opnazt í Bretlandi til að bjóða út íslenzkt ríkislán.

Út af fyrir sig má telja það ánægjulega þróun, sem hér hefur orðið. Undanfarin ár hafa mörg erlend lán verið tekin. Ýmis þeirra hafa verið fengin með þeim hætti, að Íslendingar hafa snúið sér til vinveittra erlendra ríkisstj. og fengið atbeina þeirra til lána, sem oft hafa verið með góðum kjörum. Hins vegar hafa nú opnazt möguleikar til að fara inn á hinn frjálsa peningamarkað og varðandi það, sem hér um ræðir, einn stærsta lána- og peningamarkað heimsins, sem er Lundúnamarkaðurinn. Þetta lán mundi því ekki verða tekið fyrir milligöngu erlendra ríkisstj., eins og verið hefur um mörg lán að undanförnu, heldur á almennum viðskiptagrundvelli.

Eins og fram hefur komið áður, er greiðslubyrði okkar Íslendinga mjög þungbær nú vegna erlendra skulda, og um leið og við viðurkennum öll nauðsyn þess að afla erlendra lána til margháttaðra framkvæmda, sem ella mundu ekki komast í framkvæmd, verður að sjálfsögðu einnig að gæta hófs í þessum efnum. Á undanförnum árum hefur verið tekið allmikið af erlendum lánum til skamms tíma, þannig að greiðslubyrðin gagnvart útlöndum hefur verið síðustu árin og er í ár og verður á allra næstu árum allþung. Sem dæmi má nefna, að á þessu ári mun þurfa að greiða til útlanda í vexti og afborganir, að ég ætla, um 553 millj. ísl. kr. samtals af opinberum lánum og lánum einkaaðila. Þessi upphæð á að vísu að fara nokkuð lækkandi á næstu árum. En einmitt vegna þessarar þungu greiðslubyrði, sem stafar af þessum lánum til skamms tíma, er mjög mikilvægt, að þetta lán verður til svo langs tíma sem 26 ára, og ekki sízt það, að í 51/2 ár hin fyrstu þarf engar afborganir að inna af hendi. Greiðslur af þessu láni koma því ekki til greina, aðrar en vaxtagreiðslur, fyrr en verulega hefur létt á greiðslubyrði gagnvart útlöndum að öðru leyti.

Þegar flutt hafa verið frv. um lántökur ríkinu til handa, sem skylt er samkv. stjórnarskránni, því að eftir ákvæðum hennar má engin lán taka, er skuldbindi ríkið, nema samkv. lögum, hafa verið nokkuð mismunandi venjur, hvað tekið hefur verið fram í þeim frv. um ráðstöfun fjárins. Stundum hefur verið ákveðið í þeim lögum, til hvers féð á að fara, og þá í stórum dráttum. Stundum hefur ekkert verið ákveðið um það í lögum.

Í þessu frv. er ákveðið í stórum dráttum, til hvers lánið eigi að fara, eins og ég gat um áðan. Ég vil taka það fram til frekari skýringar, að ég geri ráð fyrir því, að stórir hlutar af þessu láni og væntanlega þeir stærstu muni fara til raforkuframkvæmda og hafnargerða. Hins vegar liggja málin ekki þannig fyrir, að unnt sé að ákveða í þessu frv. nákvæma skiptingu lánsfjárins. M.a. er ekki kannað til fulls enn þá um þau atriði, sem ég gat um hér áður, t.d. hversu mikið fé bankakerfið íslenzka getur látið af hendi á þessu og næsta ári til verklegra framkvæmda, sem og um framlög eða lánafé frá sjóðum, tryggingafélögum o.s.frv. Þetta liggur ekki enn fyrir og því ekki unnt að ákveða um það í þessu frv. nánar en að marka stefnuna í meginatriðum, eins og gert er með 2, gr.

Þegar frv. var lagt fyrir hv. Ed., var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. ákvæði skiptingu lánsfjárins. Ég gat þess í framsöguræðu minni, að ég gerði ráð fyrir, að óskir kæmu fram frá alþm. um, að Alþingi ætti þarna hlut að með einum eða öðrum hætti, og við meðferð málsins í hv. fjhn. Ed. var ákveðið að bæta inn í frv. ákvæði um, að ríkisstj. ákvæði skiptingu lánsfjárins í samráði við fjvn. Alþingis. Vænti ég, að óskum hv. alþm, um að fylgjast með þessu og hafa áhrif á úthlutun fjárins sé fullnægt með þessu.

Það standa svo sakir um þetta fyrirhugaða lán, að gert hefur verið ráð fyrir því að bjóða þetta lán út í desembermánuði. Til þess að fullnægja þeirri tímaáætlun, sem gerð hefur verið um þetta efni, þarf þetta frv. að hljóta afgreiðslu frá Alþingi eigi síðar en föstudaginn 23. þ. m. Ég vil því beina þeirri ósk til hv. þdm. og hv. fjhn. og að sjálfsögðu til hæstv. forseta að greiða fyrir málinu, þannig að þessi tímaáætlun megi haldast. Ef meiri dráttur yrði á endanlegri afgreiðslu frv. frá Alþingi, má gera ráð fyrir, að lánsútboðið þyrfti að frestast fram yfir áramót, og teljum við ástæðulaust að stofna til þess.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.