05.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. 1. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekki miklu að svara hæstv. ráðh. Það voru þó aðeins nokkur atriði í ræðu hans, sem ég vildi fara örlítið inn á.

Hæstv. ráðh, vildi álita, að ég hefði haldið því fram í ræðu minni við 2. umr. þessa frv., að ég hef$i talið æskilegt og sjálfsagt, að verðskrá Verkfræðingafélags Íslands tæki gildi óbreytt eins og hún var lögð fram frá Verkfræðingafélaginu. Ég held, að hér gæti allmikils misskilnings hjá hæstv. ráðh. Í nál. mínu á þskj. 314 stendur, að ég taki ekki afstöðu til gjaldskrárinnar. Það er af allt öðrum ástæðum, sem ég legg til, að frv. verði

fellt, heldur en því, að ég hafi tekið neina afstöðu til hennar, hvorki til né frá. Hinu held ég fram og hélt fram í minni framsöguræðu, að brbl. væru frekleg skerðing á samningafrelsi verkfræðinganna, að þeir gætu samið sjálfir um kaup sitt og kjör á frjálsum grundvelli. Ég endurtek það, sem ég sagði í minni framsöguræðu og fram kom í nál. á þskj. 314, að ég er algerlega mótfallinn því, að kaupdeilur séu leystar með löggjöf, slíkar aðgerðir af hendi ríkisvaldsins eru hin freklegasta skerðing á öllu samningafrelsi og eyðilegging á athafnafrelsi til samninga þeirra aðila, sem verða fyrir slíkum árásum af hendi ríkisvaldsins. Hinu hélt ég og fram, að öll afstaða hæstv. ráðh. í málinu væri mjög hæpin og rökstuðningur hans fyrir setningu brbl. gæti orkað tvímælis. Fyrir þessari skoðun minni færði ég fram að mínum dómi allveigamikil rök, og ég tel alveg óþarft að endurtaka þau hér, enda standa þau að mestu óhrakin.

Þá þurfti hæstv. ráðh. að bregða sér austur á Volgubakka, enda er það vanalegt af þessum herrum, þegar þeir þurfa að verja lélegan og hæpinn málstað. Hæstv. ráðh. sagði, að ég væri með gjaldskránni m.a. til þess að skapa, eins og hann orðaði það, sem mestan launamismun. Í þessu sambandi vitnaði hann vitanlega til Rússlands, þar sem hann taldi launamismun þar mjög mikinn, og það væri þetta ástand í launamálum, sem ég stefndi að með því að vilja láta samþykkja gjaldskrána. Ég hef tekið það fram, að ég hef ekki tekið neina afstöðu til gjaldskrárinnar, aðeins mótmælt þeim starfsaðferðum, er viðhafðar voru, svo að hún næði ekki fram að ganga. Þetta hlýtur hæstv. ráðh. að vita, að ég nú ekki tali um, ef hann hefur lesið nál.

Því miður er ég ákaflega ókunnugur launakjörum í Rússlandi. Ég tel mig hafa haft alveg nægilegt að gera með það að kynna mér laun hinna ýmsu starfsgreina hér á landi. Hins vegar hef ég að litlu leyti kynnt mér laun á Norðurlöndum og sömuleiðis örlítið í Englandi. Þar kemur í ljós, að mjög mikill mismunur er á milli launa hins almenna verkamanns og hins sérmenntaða, og því meiri er mismunurinn, eftir því sem viðkomandi aðili hefur notið meiri menntunar og þjálfunar í sérgrein sinni. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. er vel kunnugt um. Þetta sjónarmið hefur hæstv. ráðh. óbeint viðurkennt með því að fá hingað til lands ýmsa erlenda sérfræðinga, aðallega ameríska, sem að margra dómi var gert algerlega að óþörfu, þar sem fyrir voru í landinu menn, sem gátu leyst þessi störf af hendi að dómi þeirra, sem telja sig vera dómbæra þar um. Þessir útlendu sérfræðingar hafa sjaldan haft margt frumlegt fram að bera í þessum málum. En sem sagt, þeir, sem bezt þekkja, telja, að íslenzkir sérfræðingar hefðu verið alveg fullfærir um að vinna þessi verk. En hæstv. ríkisstj. hefur bara orðið að greiða þessum sérfræðingum sinum allt að þreföldu kaupi að dómi Verkfræðingafélags Íslands, eins og fram kemur í grg. þess, miðað við það, að íslenzkir menn hefðu leyst þessi störf af hendi. Við erum náttúrlega efnuð þjóð, Íslendingar. Ég dreg þó í efa, að við höfum efni á því að fá hingað erlenda sérfræðinga og borga þeim þrefalt kaup, miðað við það, sem hægt er að fá íslenzka menn fyrir. Annars er þetta dekur og þetta dálæti hæstv. ríkisstj. á hinum svokölluðu erlendu sérfræðingum og yfirleitt á öllu, sem er erlent, beinlínis hlægilegt og jafnvei þjóðhættulegt og ríkisstj. til lítils sóma.

Í sambandi við þetta verkfræðingamál er hæstv. ríkisstj. búin að flæma úr landi stóran hóp verkfræðinga. Það skal þó tekið fram, að áður en þetta verkfræðingamál kom til, voru nokkrir farnir. Mér er sagt, að það séu, eins og nú standa sakir, hvorki meira né minna en 40 íslenzkir verkfræðingar, sem eru í starfi erlendis. Virðist mér svo og mörgum öðrum, að hér sé stefnt til stórvandræða, ef ekki fæst úr bætt.

Það munaði ekki miklu, að hæstv. ríkisstj. vegna þjösnaskapax og algers skilningsleysis á kjörum starfandi lækna á sjúkrahúsum og viðar tækist að flæma burt mikinn fjölda lækna, starfandi lækna á sjúkrahúsum, til annarra landa, þar sem störf þeirra og þjónusta mundi hafa verið metin í öðru ljósi en hér hefur verið gert. En sem betur fór náðist samkomulag við læknana á síðustu stundu, áður en til stórvandræða kom.

Það er ekki alltaf bezta leiðin í kaupdeilum að sýna mikinn þjösnaskap og stífni. Slíkar aðferðir eru að mörgu leyti fyrir fram fordæmdar til að mistakast, og væri hægt að benda þar á mörg hliðstæð dæmi. Ég vildi leggja til við hæstv. ríkisstj., að hún réði beinlínis til sín mann, sem kenndi henni mannasiði í meðferð kaupgjaldsmála hér á landi. Þess væri sannarlega ekki vanþörf.

Ég mótmæli því sem alveg tilhæfulausum ósannindum hjá hæstv. ráðh., að ég hafi haldið því fram, að hann og ráðuneyti hans hafi ekki borið saman eldri gjaldskrá við hina nýútgefnu gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands. Það, sem ég sagði um það mál, var aðeins það, sem stóð í fundargerð og álitsgerð Verkfræðingafélags Íslands. Ég spurði aðeins hæstv. ráðh., hvort þau ummæli, sem stæðu í álitsgerð Verkfræðingafélagsins, væru rétt eða röng. Þessari fsp. minni lét hæstv. ráðh. ósvarað.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að Verkfræðingafélag Íslands hefði ekki viljað afhenda allshn. reglugerðina. Sér er nú hvað! Á fundi í n., þar sem fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands voru mættir, fékk ég að sjá gjaldskrána, en tími vannst ekki til að gera þar neinn viðunandi samanburð á eldri og yngri gjaldskrám. Hins vegar er það upplýst, að hæstv. ráðh. eða það rn., sem þetta mái fellur undir, og máske fleiri rn. hafa fengið hvorki færri né fleiri en 10 eintök af hinni nýju gjaldskrá. Það virðist því hafa verið útlátalítið af hendi hæstv. ráðh. að láta allshn, hafa eitt eintak til athugunar.

Þá lét hæstv. ráðh. því ósvarað, hvort það væri rétt, að ríkisstj. hefði greitt til erlendra og amerískra verkfræðinga og sérfræðinga 25 dali á klst., eða í íslenzkum kr. 1075 á klst., fyrir rannsóknarstörf hér innanlands, eins og Verkfræðingafélag Íslands heldur fram að gert hafi verið. En þetta eru ekki mín orð, þetta stendur í áliti frá Verkfræðingafélaginu, og er við það að sakast, ef hér er ekki rétt með farið. Ég leyfi mér enn á ný að endurtaka þá fsp. til hæstv. ráðh. og skora á hann að svara því og segja til um, hvort hér sé rétt með farið eða ekki.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að málflutningur minn fyrr við 2. umr. þessa máls hafi verið slíkur, að hann hafi ekki verið svaraverður. Hæstv. ráðh. má gjarnan hafa þessa skoðun sína alveg óáreittur frá minni hendi. Hitt get ég sagt þessum hæstv. ráðh., að öll framkoma hans í þessu máli verður honum lítt til álitsauka, heldur hið gagnstæða. Að nota ríkisvaldið á milli þinga til þess að knésetja með valdi þá aðila, sem vilja fá kjör sin bætt, er í hæsta máta ólýðræðislegt og í alla staði óþolandi. Hæstv. ráðh. neitaði að eiga viðræður við fulltrúa frá Verkfræðingafélaginu um gjaldskrána, og verður sú framkoma að teljast alveg með eindæmum. Hvernig sem það mál er skoðað, verður ekki hjá því komizt að álykta, að það, sem hafi ráðið gerðum hæstv. ráðh., hafi verið það eitt að beita valdboði í skjóli þess valds, sem ráðh. hafa á milli þinga, enda er það í fullu samræmi við sams konar afstöðu hæstv. ríkisstj. í hliðstæðum málum.

Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að svara hv. 4. þm. Norðurl, v., frsm. meiri hl. allshn., nema að litlu leyti, enda kom fram í svarræðu hans fátt nýtt, sem máli skipti. Í minni framsöguræðu hélt ég því fram, að hann hefði ekki fært fram nein frambærileg rök fyrir nauðsyn þess, að brbl. voru sett. Rök hv. frsm. meiri hl, n. voru þau ein, sem felast í grg. fyrir brbl. Þau rök tel ég harla lítils virði, eins og fram kom í framsöguræðu minni.

Ég get svo lokið máli mínu, en vil að lokum endurtaka það, að ég legg til, að frv. verði fellt. Verði till. mín felld og sömuleiðis rökstudd dagskrá hv. 4. þm. Sunnl., mun ég greiða atkv. með brtt. hv. 3. þm. Reykv.