22.11.1962
Neðri deild: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

99. mál, framkvæmdalán

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. fór langt aftur í tímann, 30 ár aftur í tímann, og byrjaði þar að athuga um lán, sem tekin höfðu verið erlendis, og svo allmörg lán síðan, og sagði, að í nokkrum tilfellum, sem hann taldi, hefði ekki verið ákveðið í lögum, sem heimiluðu lántökuna, hvernig lánsfénu skyldi varið í einstökum atriðum. Ég held, að óhætt sé að segja, að sagan sé ekki nema hálfsögð hjá hæstv. ráðh. Hann gat ekkert um lántökur, sem hafa átt sér stað, þar sem það hefur verið ákveðið í lögum, til hvers lánsfénu skyldi varið. Ég hef aldrei haldið því fram, að það hafi verið undantekningarlaus regla að hafa ákvæði um slíkt í lögum. En hinu vil ég halda fram, að það sé eðlilegri aðferð, að Alþingi ákveði þetta, sérstaklega þegar um allverulega fjárhæð er að ræða, eins og hér er um rætt.

Þá gerði hæstv. ráðh. aths. við það, sem ég sagði í mínu nál. og einnig í framsöguræðu minni, að vegna þeirrar miklu rýrnunar, sem orðið hefur á verðgildi íslenzku krónunnar á þessu kjörtímabili, sé meiri þörf fyrir erlent lánsfé til framkvæmda hér en ella hefði orðið. Ég held, að þetta sé alveg ljóst mál og aths. hæstv. ráðh. um þetta hljóti að vera byggð á misskilningi. Það liggur alveg í augum uppi, að þegar peningaeignir landsmanna eru gerðar svo miklu verðminni en þær áður voru, þá nægja þær langtum síður til nauðsynlegra framkvæmda í landinu, og afleiðingin verður sú, að það er enn meiri þörf fyrir lánsfé en áður til þessara framkvæmda.

Hæstv. ráðh. segir, að gengisbreytingin, sem gerð var 1960, hafi að efni til verið orðin til áður. Þetta er ekki rétt nema að litlu leyti hjá hæstv. ráðh. Það var reiknað út af sérfræðingum núv. ríkisstj. um þær mundir, sem hún tók við völdum, að það mundi þurfa um 250 millj. kr. í einhvers konar tekjuauka til atvinnuveganna, til framleiðslunnar, til þess að hún fengi staðizt. En það, sem gert var með gengisbreytingunni í febr. 1960, var, að það var a.m.k. fjórum sinnum hærri upphæð færð til, ef svo mætti segja, í þjóðfélaginu með krónulækkuninni. Það voru lagðar þar á almenning í ýmsu formi margfalt þyngri byrðar en sérfræðingar þeirrar sömu stjórnar höfðu reiknað út að brýn þörf væri fyrir. Og svo bætist þar við gengisbreytingin 1961, sem flestir munu nú orðið vera sammála um að hafi verið mikið glappaskot. Hún var óþörf með öllu.

Hæstv. ráðh. segir, að innstæðurnar í bönkum hafi aukizt hlutfallslega meira en áður á þessu tímabili, og þakkar það efnahagsráðstöfunum núv. ríkisstj. Það er ekkert hægt að segja um það, hvernig sú þróun hefði orðið, hvað hefði safnazt af sparifé, ef skynsamlegar hefði verið haldið á efnahagsmálunum en gert hefur verið. Það kann að vera, að krónurnar hefðu orðið eitthvað færri, en þá verðmeiri aftur á móti. Og eins og ég benti á áður, liggur alveg ljóst fyrir, að þegar innstæður eru lækkaðar svo ákaflega mikið í gildi sem hér hefur gert verið, þá nægja þær miklu síður en áður til nauðsynlegra framkvæmda, og það eykur þörfina fyrir erlent lánsfé.