05.03.1963
Efri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

130. mál, atvinna við siglingar

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins við þessa umr. segja nokkur orð um þetta mál, ekki þó vegna þess, að ég finni ástæðu til þess að gera brtt. við málið, þ.e. námskeiðin í sambandi við minna fiskimannaprófið, að þeim verði haldið áfram, og ég tei sjálfsagt að framlengja þau. Hins vegar sé ég fulla ástæðu til að vekja athygli á því, að fyrir nokkrum árum, eins og kunnugt er, stækkuðu fiskibátarnir yfirleitt úr 75 tonnum upp í kringum 100 tonn. Áður voru flestir línubátarnir, sem gerðir voru út á Suðvesturlandi, að stærð í kringum 60 tonn, og var þá hið minna fiskimannapróf miðað við 75 tonn. Síðan hefur þetta verið hækkað, eftir að bátarnir stækkuðu, og fært upp í 120 tonna réttindi, og er þá nefnt minna fiskimannapróf.

Á sinum tíma voru gerðar sérstakar breytingar eða ráðstafanir í þessu sambandi, það var, að haldin voru sérstök námskeið við stýrimannaskólann, og veittu þau viss réttindi til stærra fiskimannaprófs. Nú er það svo, að þessi sama saga hefur endurtekið sig. Á allra síðustu árum hafa fiskiskipin stækkað úr því að vera í kringum 100 tonn, og flestir þeir bátar, sem nú eru byggðir, eru í kringum 150-170 og 200 tonn og þar yfir. Það leiðir aftur af sér, að þeir menn, sem voru með hið minna fiskimannapróf, hafa ekki réttindi til að stjórna þessum bátum, sem mest er um núna, og ég ætla, að það séu einmitt hinir sömu sjómennirnir, sem stunda atvinnu sína á þessum nýju bátum, sem áður voru á eldri fiskibátunum.

Ég vil í þessu sambandi benda sérstaklega á, að ég teldi, að það þyrfti að athuga sérstaklega, hvort ekki væri rétt, að nú væru endurtekin við stýrimannaskólann slík námskeið, eins og voru hér fyrir nokkrum árum, og gefa þeim mönnum, sem nú hafa hið minna fiskimannapróf, tækifæri til að þreyta próf við stýrimannaskólann, sem veitti þeim hliðstæð réttindi og þeir fengu, eða stærra fiskimannaprófið, þegar þeir hafa gengið undir slíkt próf. Væri þá eðlilegt í því sambandi, að sett yrðu viss skilyrði fyrir þá, sem óskuðu að þreyta slíkt próf eða fara á slík námskeið, t.d. að þeir hefðu verið skipstjórar eitthvert ákveðið árabil. Ég ætla, að það hafi verið, þegar þessi lög komu til framkvæmda, 3 eða 5 ár, sem viðkomandi skipstjóri hafi þurft að vera búinn að gegna skipstjórn á fiskibát, áður en hann fékk aðstöðu til að fara á slíkt námskeið. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og tel, að það hafi skapazt nú á síðustu árum það viðhorf í sambandi við að tryggja skipstjóra á þann flota, sem nú er í uppbyggingu, fiskibátaflotann, að án þess að eitthvað slíkt komi til þurfi að meira eða minna leyti að bjargast við undanþágur, til þess að þeir menn, sem vanastir eru þessum veiðum, geti fengið að stjórna þeim skipastól, sem nú er verið að byggja upp til fiskveiðanna.