07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að þetta frv., sem hér er um að ræða, er merkilegt Ég gott spor í áttina til þess að auka ræktun og stækka búin í landinu. Þegar rætt var um það 1957 að auka styrk til ræktunar á túnstærð upp að 10 hekturum, lýstu framsóknarmenn því sem stóru og miklu átaki. Og þeim er það þakkarvert, að markið skyldi vera sett svona hátt, að hugsa sér það, að allar jarðir á Íslandi skyldu hafa a.m.k. 10 hektara tún. Og það má merkilegt heita, að hv. framsóknarmenn, eins og þeir tala nú, skyldu ekki þá strax 1957, fyrir aðeins 5 árum, setja markíð 15 hektara. En ég ætla ekki að vanþakka það og vanmeta, einfaldlega vegna þess, að það er eðlilegt, að þetta sé tekið í áföngum, og þessu fylgir alltaf talsverður kostnaður.

Hv. frsm. minni hl. gat ekki átt samleið með meiri hl. í þessu efni, en það hefði verið eðlilegra, að svo hefði verið. En eigi að siður er eigi ástæða til að sakast um það. Hann hefur viljað nota tækifærið til þess að auglýsa það frammi fyrir alþjóð, að hann vildi stefna hærra, hann vildi gera hærri kröfur á ríkissjóðinn, hann vildi vinna betur fyrir bændurna en stjórnarliðarnir o.s.frv., og allar þessar hugleiðingar og auglýsingar hv. þm. miðast við það, að fortíðin sé gleymd. En er það nú alveg víst, að fortíðin sé gleymd? Ég held, að það sé ákaflega hæpið fyrir hv. þm. að treysta því fullkomlega. Og ég verð að segja það, að þetta tal hv. framsóknarmanna nú og kröfugerð á ríkissjóð í hverju einasta máli, alveg uppi í skýjunum, hlýtur að leiða til þess, að menn taka ekki mark á þessum ræðum. Það er ekki langt síðan, það eru aðeins örfáir dagar síðan hér var verið að ræða um iðnlánasjóð, eflingu iðnlánasjóðs, og það var lagt til að innheimta 0.4% miðað við aðstöðugjaldið og það gengi í iðnlánasjóðinn, og það var gert ráð fyrir, að þetta væru 7 millj. kr. á ári. Og iðnaðurinn skilur það, að það þarf að efla lánastofnun fyrir þennan atvinnuveg, og tekur því þess vegna af skynsemi að leggja þetta fram. En hv. framsóknarmenn vilja iðnaðinum svo vel, að þeir vilja ekki innheimta þetta gjald hjá iðnaðinum, heldur vilja þeir innheimta 15 millj. kr. á ári til iðnaðarins úr ríkissjóði.

Ég hef talað við menn, sem hafa hlustað á þingfréttir í útvarpinu og kynnt sér afstöðu hv. framsóknarmanna í þessu máli sem mörgum öðrum, og ég verð nú að segja, að þetta mælist ekki vel fyrir. Og það mælist ekki heldur vel fyrir hjá bændum, sem muna fortíðina, þegar hv. framsóknarmenn nota hvert tækifæri til þess að lýsa óánægju sinni og óbeit á því, að það skuli vera hafin raunhæf aðgerð til þess að efla stofnlán til landbúnaðarins, búa til trausta lánastofnun til frambúðar fyrir landbúnaðinn, til þess að landbúnaðurinn geti fengið veigameiri og betri lán en áður hefur tíðkazt. En hv. framsóknarmenn hafa flutt frv. á þessu þingi og áður um það, að ríkissjóður leggi árlega fram 30 millj. kr. til stofnlánadeildarinnar. En mundi það nú vera nóg, jafnvel þótt það væri gert, til þess að byggja þessa deild upp og gera hana varanlega? Þeir hafa líka lagt til, að ríkissjóður legði fram 50 millj. til veðdeildarinnar og 50 millj. til bústofnlánasjóðs. Ég segi, að ef það væru nógir peningar til, þá væri ágætt að fá þessar milljónir í lánasjóði fyrir landbúnaðinn og aðra atvinnuvegi. Og ætli það yrði þá ekki að leggja meira úr ríkissjóði í fiskveiðasjóð en gert hefur verið, aðeins 2 millj. kr. á ári, en útgerðarmenn hafa talið það heillavænlegast fyrir sig að leggja mest af mörkum sjálfir til þess að byggja upp sínar lánastofnanir og sætt sig við það að fá aðeins 2 millj. úr ríkissjóði. Og mig undrar það, að ekki skuli hafa komið fram krafa frá hv. framsóknarmönnum um það að leggja nokkra tugi millj. árlega úr ríkissjóði til fiskveiðasjóðs. En það á kannske eftir að koma seinna.

En þegar um þessi mál er rætt og hlustað er á ræður hv. framsóknarmanna, rifjast ýmislegt upp úr fortíðinni óhjákvæmilega. Það t.d. rifjast upp fyrir mér, að 1958 var grundvöllurinn raunar rifinn undan lánastofnun landbúnaðarins með yfirfærslugjaldinu. Þegar búnaðarsjóðirnir skulduðu mest erlendis og það er allt í einu sett á 55% yfirfærslugjald, þá er það raunverulega ekkert annað en gengisfelling, og grunnurinn er alveg rifinn undan þessum sjóðum. Við skyldum nú ætla það, að framsóknarmenn hefðu viljað styrkja undirstöðuna, á meðan þeir voru í ríkisstj. Þeir sömdu frv. til fjárl. fyrir árið 1959. Og hvað gerðu þeir við samningu þess frv.? Þeir lögðu til, að ríkissjóður héldi áfram að greiða 4 millj. til búnaðarsjóðanna, eins og hann hafði gert mörg undanfarin ár áður. Af hverju var það ekki hækkað í samræmi við það, sem búnaðarsjóðirnir höfðu tapað vegna gengisfellingarinnar? Það getur ekki verið vegna þess, að þessir hv. menn hafi ekki viljað gera eitthvað fyrir landbúnaðinn.? Það dettur mér ekki í hug. Ætli það hafi ekki verið vegna þess, að það hefur ekki verið alveg ótæmandi brunnur, ríkissjóðurinn, þá frekar en nú? Ég býst við því. Og það er einmitt þetta, sem rifjast upp, þegar framsóknarmenn nú í hvert skipti, sem mái er flutt, koma með yfirboð. Og ég geri ráð fyrir, að þótt þetta frv. hefði verið öðruvísi og gengið lengra, þá hefði samt komið yfirboð frá hv. þm., sem talaði hér áðan. Hann segir, að sér virðist ríkisvaldið gera of lítið fyrir landbúnaðinn. Það getur vel verið, og ég get samþykkt það, að það væri æskilegt, að það væri hægt að gera meira.

En ég verð að segja, að það er nokkuð gert fyrir landbúnaðinn, og það er dálitið hæpið fyrir hv. þm. að tala um, að það séu aðeins 2.5% af fjárl., sem gengju til landbúnaðarins. Það er dálítið hæpið, því að þegar um það er að ræða, verðum við að minnast þess, að við höfum aðeins ein fjárlög á árinu 1963. En þegar hann er að miða við fjárgreiðslur áður til landbúnaðarins, voru tvenn fjárlög, annars vegar útflutningssjóður og hins vegar fjárlög ríkisins. Og ef við viljum vera sanngjarnir,

verðum við að viðurkenna það, að landbúnaðurinn fær auðvitað sinn hluta af fjölskyldubótunum og hækkun almannatrygginganna. En þegar miðað er við prósentuna, sem fer til verklegra framkvæmda og landbúnaðar, þá verður að minnast þess, að greiðslur almannatrygginganna hafa hækkað mjög mikið og framlög til þeirra á fjárl., og við verðum líka að minnast þess, að útflutningssjóðurinn er ekki lengur til.

Það er eitt, sem er ekki rétt í nál. hv. minni hl. Hann talar um, að það eigi að lengja lánstímann aftur á lánunum. Ég veit ekki annað en lánstíminn á lánum úr stofnlánadeildinni sé nú eins langur og hann hefur verið nokkurn tíma, og ég kemst ekki hjá að leiðrétta þetta og sé, að hv. þm. hefur ekki kynnt sér það.

Þá segir hv. minni hl., að meiri hl. landbn. geri till. um að hækka styrk þennan, þ.e. byggingarstyrkinn, upp í 50 þús. kr., án þess þó að gera ráð fyrir auknu framlagi úr ríkissjóði til að mæta hækkuninni. Þetta er líka algerlega rangt, og er það leiðinlegt, að hv. þm., sem er í landbn., skuli ekki hafa lesið frv., því að það stendur skýrt fram tekið í aths. við frv., neðst á bls. 2, að samkv. ákvæðum 63. gr. er svo fyrir mælt, að framlög skuli veita til íbúðarhúsabygginga á lögbýlisjörðum á sama hátt og nýbýlastofnendum eru veitt. Þessi styrkur hefur verið greiddur af því fé, sem 64. gr. gerir ráð fyrir, og er því framlag samkv. 64. gr. ákveðið 7.6 millj. kr., eða það er ákveðið ekki 6.75 millj. eins og áður, heldur 7.6 millj. Og það er þessi hækkun, sem á að mæta hækkuninni á þessum lið. Og ég vil geta þess, að styrkurinn, þegar hann er hækkaður upp í 50 þús. kr., þá hefur hann hækkað um 100% frá því 1957, og þá var styrkurinn aðeins miðaður við byggingar á nýbýlum, en nú verður hann miðaður við íbúðarhúsabyggingar ekki aðeins á nýbýlum, heldur á öllum þeim býlum allra þeirra bænda, sem hafa meðaltekjur eða minni, eða m.ö.o. flestra þeirra, sem eiga eftir að byggja upp.

Ég tel, að 15 hektara takmarkið sé ekki nægjanlegt. Það er ekki nægjanlega stórt tún, 15 hektarar. En það er ákaflega mikil framför frá því, sem áður hefur verið, og ég er alveg sannfærður um, eins og ég sagði hér í framsöguræðu við 1. umr., að þetta er aðeins áfangi. Eftir nokkur ár verður markið sett í 20 ha, og það er vitanlega heilbrigt að taka þetta stig af stigi.

Ég tel ekki ástæðu til þess, að ég hefji hér umr. um frv. frá 1957, þegar verið var að lögfesta 10 ha. Þá var formaður Framsfl. forsrh. og landbrh., og þá talaði hann um, að það væru ýmsir þm. með óskalista, vildu ganga nokkru lengra en þáv. hæstv. ríkisstj. taldi sér fært. Og hæstv. forsrh. sagði, að það væri ekki nóg að gera kröfur á ríkissjóðinn, vegna þess að það væri takmarkað fé, sem hann hefði yfir að ráða, og taldi, að hann hefði full rök að mæla, þegar ekki væri hægt að hans dómi að ganga lengra en þá var gert.

Ég er sannfærður um, að hv. frsm. minni hl. veit, að þessu er þannig varið enn í dag, að það er vitanlega alltaf takmarkað fé, sem hægt er að fá hverju sinni til hinna ýmsu framkvæmda, og við getum allir átt frómar óskir. Og ég trúi því, að hv. 2. þm. Sunnl. meini það, að það væri æskilegt að ganga lengra og gera meira. Og ég trúi því líka, að hann hafi gert sér grein fyrir því, að þetta spor, sem nú er stigið, sé mikilvægt, og þegar með sanngirni er á málið litið, þá hafi verið eðlilegt og þá ekki síður í samræmi við það, sem áður hefur skeð, að miða við þær tölur, sem greindar eru í frv. Og einmitt vegna þess, að innst inni er skoðunin þessi hjá hv. þm., er síður ástæða til þess að vera að orðlengja þetta frekar eða að hafa önnur og harðari orð út af því, sem fram hefur komið áður. En hér er bók, sem eru Alþingistíðindi, harla fróðleg, og ég var að lesa í henni áðan, og ég býst við, að ég eigi eftir að gera það betur, þegar tími leyfir.

Ég þakka svo fyrir góðar undirtektir við þetta frv. og legg til, að það nái fram að ganga.