28.02.1963
Efri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

173. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki mörg orð að láta fylgja með þessu frv. Það kemur í beinu framhaldi af því frv., sem hér var síðast til umr., um byggingasjóð aldraðs fólks, og gerir ráð fyrir því, að leyfistími happdrættis dvalarheimilis aldraðra sjómanna verði framlengdur til ársloka 1974. Það er líka í lögin sett, að ágóði happdrættisins skuli renna í byggingasjóð aldraðs fólks, en 60% af ágóðanum skuli þó varið til byggingar dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Þetta er a.m.k. enn sem komið er meginuppstaðan í þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir til þess að afla byggingasjóði aldraðs fólks tekna, og því rökrétt að framlengja leyfistíma happdrættis dvalarheimilis aldraðra sjómanna enn um nokkurt skeið.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þetta frv., þó að það kannske samkv. eðli sínu ætti að vera annars staðar, verði látið fylgja því frv., sem þessi hv. d. var að afgreiða rétt í þessu, og vísað til hv. heilbr: og félmn.