01.11.1962
Efri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. þarf ekki að furða sig á því og alls ekki að hneykslast á því, þó að framsóknarmenn flytji margs konar till. til breytinga við þá starfsemi í fjármálum þjóðfélagsins, sem núv. hæstv. ríkisstj. rekur. Svo mikill grundvallarmunur er á stefnu Framsfl., eins og sézt hefur líka í starfi hans, og stefnu núv. hæstv. ríkisstj. Það er langt frá því, að í till. Framsfl. komi fram ábyrgðarleysi. En sem stendur hefur hann ekki tök á að gera heildartillögur. Hann sýnir aðeins stefnu sína í hverju máll. Meiri hl. ræður hér á Alþingi og ræður örugglega, og þýðir lítið, eins og hæstv. fjmrh. veit vel, að ætla að leiðrétta í heild.

En það er ekki þetta, sem gerði það að verkum, að ég bað um orðið, heldur hitt, að hæstv. fjmrh, sagði, að við minnihlutamennirnir vildum svipta sveitarfélögin þeim stuðningi, sem þau hafa fengið frá ríkinu með því að fá hluta af innheimtum sölusköttum. Það er langt frá því, að það felist í till. okkar. Þegar við gerum ráð fyrir því, að það þurfi, eins og sjálfsagt er, að taka til athugunar fjárlög; eftir að felldur hefur verið niður þessi tekjustofn, viðbótarsöluskatturinn, þá felst í því vitanlega, að við ætlumst til þess, að þá verði Iíka séð fyrir því, að hlutur sveitarfélaganna skerðist ekki. Það eru nefnilega til miklu fleiri aðferðir en þessi til þess að taka tillit til sveitarfélaganna. Ég mótmæli því, að annað megi lesa út úr till. okkar.