25.03.1963
Efri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa er komið hingað frá hv. Nd., þar sem það var samþ., að ég ætla með mikið til samhljóða atkv. og eins og það var lagt fram í upphafi, með einni breyt. þó og henni nokkuð stórri, sem ég mun koma að siðar.

Öllum er ljós þörfin á því, að sveitarfélög eigi sjálf landið, sem þau eru byggð á, til þess að geta komið í veg fyrir óhóflegt gróðabrall á landi og ört hækkandi leigu, en hvort tveggja tíðkast mjög þar, sem landið, sem kauptún og kaupstaðir standa á, er í einkaeign. Nýlega hafa tvö sveitarfélög staðið í því að eignast nokkur landssvæði, sem þau hafa talið sér nauðsynleg vegna bygginga í kauptúnunum og í grennd við höfnina og athafnasvæðin. Þessi kauptún eru Grindavík og Þórshöfn, og hefur eignarnámsmat farið fram á báðum stöðunum og annar staðurinn fengið úrlausn sinna mála, en hitt bíður eftir þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram.

Það eru til lög um aðstoð við landakaup kauptúna, en ekki kaupstaða. Þau lög eru frá 1941, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður geti hlaupið í skarðið og keypt lönd fyrir hreppsfélög eða, eins og það er orðað í l., fyrir kauptún og sjávarþorp og afhent sveitarfélögunum síðan á leigu með vægum kjörum eða selt þeim á kostnaðarverði með lágum vöxtum og til langs tíma. En sá galli er á þeim lögum, að þar er aðallega átt við ræktunarlönd, sem hægt er að gera ráð fyrir að hægt sé að kaupa lágu verði. Með því að verðið er orðið slíkt eins og nú á sér stað, þar sem smálandskikar eru seldir fyrir millj. kr., þá er sýnt, að ríkissjóður getur ekki veitt þá aðstoð, sem til þess þarf, nema sérstakar ráðstafanir séu í því sambandi gerðar.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram árlega upphæð til þess að lána kaupstöðum og kauptúnum til að kaupa lönd og lóðir innan takmarka hlutaðeigandi sveitarfélags. Það var í frv., eins og það var lagt fram, gert ráð fyrir, að þessi upphæð væri á ári hverju 2 millj. kr., og ákveðið, að sú upphæð skyldi veitt í 10 ár í sjóð, sem notaður yrði til þess að aðstoða við þessar framkvæmdir. Var þá gert ráð fyrir því, að úr þessum sjóði yrði lánað um 60% af kaupverði hins keypta lands, en jafnframt var ríkisstj. heimilað að ábyrgjast upphæð, sem svaraði þeim 40%, sem eftir voru. Þessu var breytt í hv. Nd. á þá lund, að heilbr-.og félmn. lagði til og fékk samþ., að upphæðin, sem árlega yrði veitt í þessu skyni, væri hækkað úr 2 í 3 millj., og er það vissulega til stórbóta á frv., því að það er sýnilegt, að í allra nánustu framtíð munu ýmsir staðir þurfa á aðstoð að halda í þessu skyni. Í frv. er svo nánar ákveðið um lánstíma, sem má vera allt að 25 árum og vextir 5%. Skilyrði fyrir ríkisábyrgð er, að ríkisábyrgðalánið sé að dómi ríkisstj. með svo hagstæðum kjörum, að sveitarfélagið fái undir því risið. Það er líka skilyrði fyrir aðstoð ríkisins skv. þessum 1., að ríkisstj. telji sveitarfélaginu nauðsynlegt að eignast umrætt landssvæði vegna almennra þarfa. Og ríkisstj. áskilur sér einnig rétt til að synja um aðstoð, ef hún telur kaupverðið óhæfilega hátt. — Þetta er aðalefni frv.

Ég las upp í hv. Nd. skýrslu um ástand þessara mála í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Ég tel ástæðulaust að gera það aftur hér. Þessi skýrsla liggur fyrir, ef hv. n., sem fær málið til athugunar, kynni að óska eftir henni. En af þessari skýrslu er ljóst, að mjög víða úti um land er ástandið þannig, að það er óviðunandi. Land er í höndum einstaklinga, ört hækkandi í verði, og lóðaleigur þar af leiðandi einnig hækkandi. Þetta er nauðsynlegt að reyna að lagfæra, og ég vænti þess, að með þessu frv, megi takast, að vísu ekki i einu, því að til þess þyrfti mjög mikið fé, en smám saman að koma málunum í sæmilegt horf. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til hv. heilbr: og félmn.