07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

54. mál, lyfsölulög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Sennilega verður tæpast hægt að búa örugglega um það, að full ábyrgð hvíli á einhverjum einstökum aðila viðvíkjandi lyfjum, sem þannig kunna að vera úr garði gerð frá framleiðandans hendi, að skaðlegar afleiðingar þeirra séu á engra vitorði í upphafi, en komi e.t.v. löngu, löngu síðar fram. En að svo miklu leyti sem hægt er að vanda til vals á lyfjum og forðast hættuleg lyf, þá sýnist mér, að um það sé eins vandlega búið og í fljótu bragði virðist unnt með ákvæðum 2. og 3. gr. frv. En þar er gert ráð fyrir, að starfa skuli lyfjaskrárnefnd skipuð 6 mönnum, og hún á að gera tillögur um lyfjaskrá, lyfseðlasöfn og lyfjaforskriftir. Einn nefndarmannanna skal vera prófessor í lyfjafræði, annar dósent eða prófessor í lyfjafræði lyfsala, hinn þriðji prófessor í læknisfræði við háskólann, en hina 3 skipar ráðh. skv. tillögu landlæknis, einn úr hópi lyfsala, annan úr hópi starfandi lyfjafræðinga og hinn þriðja úr hópi starfandi lækna. Ráðh. á svo að skipa formann nefndarinnar og varamenn til jafnlangs tíma eftir tillögu landlæknis. Þetta eru ákvæði 2. gr. Þarna virðist hinum hæfustu sérfræðingum, sem þjóðin á völ á, skipað fram til þess að annast val þeirra lyfja, sem selja eigi á Íslandi. Svo er í 3. gr. ákveðið, að ráðh. geti að fengnum tillögum landlæknis, og hann styðst vafalaust við till. þessarar sérfræðinganefndar, bannað sölu lyfja, ef ranglega eða á villandi hátt er greint frá samsetningu þeirra, ef líklegt þykir, að þau hafi ekki þær verkanir, sem framleiðendur telja þau hafa, eða þau kynnu að hafa skaðlegar aukaverkanir. Í fjórða lagi, ef ekki er hægt að ganga úr skugga um nothæfni þeirra, þá má líka banna þau, og í fimmta lagi, ef verð þeirra er óhæfilega hátt. Hægt er því að ganga til verks hreinlega um það að banna lyf, ef ástæða þykir til að óttast, að þau kunni að hafa skaðlegar aukaverkanir. Og þarna er ætlazt til þess í löggjöfinni, að hinir færustu sérfræðingar fjalli um málið á fyrsta stigi og gæti þar alls varnaðar, sem sú sérfræðiþekking, sem til er í landinu á hverjum tíma, nær til. En vissulega er þetta mjög alvarlegt mál, og má vera, að hæstv. heilbrmrh., sem er lögvís maður, gæti bent á það, hvar hin lögfræðilega ábyrgð ætti niður að koma, ef yfirleitt væri hægt að setja þá ábyrgð á innlenda aðila, ef ekki yrði þá hverju sinni, ef þetta sannaðist síðar, að rekja það til framleiðanda lyfsins, hvort sem hægt væri þá að koma fram ábyrgð á hendur honum eða ekki.

Það, sem hér hefur aðallega verið um deilt, er svo hins vegar það, hvort lyfsöluleyfi eigi eingöngu að vera bundin við einstaklinga eða ekki. Í frv. er gert ráð fyrir því, að lyfsöluleyfin séu eingöngu bundin við einstaklinga, að því undanskildu, að Reykjavíkur Apótek skuli halda sínu óhlutbundna leyfi og að 2 samvinnufélög, sem hafa fengið lyfsöluleyfi einnig ótímabundið, skuli halda leyfi, en engin önnur samvinnufélög fá það framvegis, og þó aðeins halda þessu leyfi um 25 ára bil. Eins og fram hefur komið áður í umr., hafa engin rök verið færð að því, að hinar félagsreknu lyfjabúðir hafi verið verr reknar eða neinar hættur séu yfirleitt í sambandi við rekstur þeirra, sem ekki getur verið í sambandi við rekstur einstaklingsrekinna lyfjabúða, og virðist því ekki hægt að gera upp á milli þessara tveggja rekstrarforma með reynslurökum.

Ég játa, að það er sjálfsagt ekki heppilegt um form lyfjaverzlunar, að hver mangari eða kaupmaður sem væri ætti rétt á því að fá lyfsöluleyfi og verzla með lyf. Ég held, að þá væri búið að sleppa tökum af nauðsynlegu eftirliti og öryggishliðinni væri miklu verr borgið með því móti. Þess vegna vil ég, að þessi verzlun með lyf sé ekki hömlulaus, hvað sem hugmyndum manna um verzlunarfrelsi liður. Ég tel þarna nauðsynlegt að hafa á vissar hömlur og hleypa þessum leyfum til þess að verzla með lyf ekki í hendur annarra aðila en þeirra, sem líklegir séu til að geta innt þetta með miklu öryggi af hendi fyrir þann fjölda, sem þarf á þjónustunni að halda. Og þá koma í fyrstu röð einstaklingar, sem hafa sjálfir sérfræðiþekkingu, það játa ég, enda er í mínum brtt. ætlazt til þess, að leyfin séu fyrst og fremst veitt einstaklingum með tilskilda sérfræðiþekkingu, í annan stað sveitarfélögum og sjúkrasamlögum, sem ég tel aðila, sem séu fyllilega líklegir til þess að gæta fyllstu ábyrgðar í sambandi við þetta, taka heilbrigðistillitið og öryggistillitið fullalvarlega, alveg eins og ábyrgur einstaklingur með sérfræðiþekkingu, og hafa fyllsta vilja og ef til vill bezta aðstöðu til að inna þessa þjónustu af hendi. Samvinnufélögin, sem hafa stofnað lyfjabúðir, hafa staðizt sína prófraun. Þær lyfjabúðir hafa að allra sérfræðinga dómi verið sambærilegar við hinar. Það þykir mér því ekki koma til mála að svipta þær réttinum, enda er það ekki lagt til, né heldur að takmarka þennan rétt til þess að halda áfram þessum rekstri, nema eitthvað bæri út af, og þá má, á hvaða tíma sem er, svipta þessi félagssamtök rekstrarréttinum, eins og hvern einstakling, sem sekur verður um misferli. Og þar á líka hið sama yfir báða að ganga.

Ég hef talið, að ef hv. d. ekki fellst á till. mína um það, að sveitarfélög, sjúkrasamlög og samvinnufélög og þar að auki háskólinn fái leyfi, þá hefði í raun og veru átt að koma fram þrautavaratill. um það, að þau samvinnufélög, sem nú hafa lyfjabúðir, fái ótímabundið leyfi, því að það hafa þau fengið. Og ég efast um, að ef ekki er lögfræðilegur grundvöllur fyrir því að svipta Reykjavíkur Apótek hinu ótímabundna leyfi, sem það hefur hlotið, þá sé fremur lagalegur grundvöllur fyrir því að svipta samvinnufélögin, sem hafa einnig fengið ótímabundin leyfi, þessu leyfi eftir 25 ár. Þá eru þau búin að leggja í gífurlega kostnaðarsöm fyrirtæki og eru með þessar lyfjabúðir á hendinni og með arðvænlegan rekstur þar í gangi vafalaust, og vafalaust mætti segja, að þar væri gengið of nærri eignarréttinum skv. stjórnarskránni, ef þeir aðilar væru sviptir réttinum allt í einu.

Menn segja að vísu: Hvers vegna ekki að veita hvaða kaupmanni sem er eða a.m.k. hlutafélagi leyfi til þess að verzla með lyf? Ég tel hlutafélög, sem hægt er að stofna með 5 einstaklingum, alls ekki eins líkleg til þess að reka slíka starfsemi í almannaþágu og fjöldafélög, sem taka slíka þjónustu að sér vegna meðlimanna í félagsskapnum. En samvinnufélögin eru oft og tíðum þannig samsett, að meginþorri fólksins í byggðarlaginu er í þeim, og tel ég því meginmun á þessu. Þó tel ég það alls ekki útilokað, að með öllum þeim varúðar- og öryggisráðstöfunum, sem í þessari löggjöf eru sett, væri hvaða félagsskap sem væri, sem þetta vildi takast á hendur og ráðh, samþ. til hlutverksins, falið þetta, en að gera það að almennri verzlunarvöru í hvaða búð sem er, það tel ég að mundi draga úr öryggi í sambandi við lyfjaverzlun.

Þau rök, að erfiðara sé að koma fram lagalegri ábyrgð á hendur félagi en einstaklingi, held ég að séu mjög veik, því að í fjöldamörgum tilfellum öðrum verður þjóðfélagið að geta komið fram lagalegri ábyrgð á félagssamtök, alveg með sama hætti og með einstaklinga, og veit ég ekki til, að það hafi nokkurn tíma þótt neinum vandkvæðum bundið.

Ég skal að síðustu taka það fram, að ég veit, að miklir verzlunarhagsmunir eru bundnir við réttindi til lyfjasölu. Og það er einmitt vegna þessara miklu verzlunarhagsmuna, sem mjög harðir hagsmunaárekstrar hafa gert vart við sig í sambandi við þau lagafrv. um lyfjasölu, sem svo oft hafa verið fyrir Alþingi. Þessum hagsmunum eru settar margvíslegar skorður í þessu lagafrv., en þó held ég, að verzlunarhagsmununum sé gert eins hátt undir höfði með eins rúmum ákvæðum og á nokkurn hátt sé forsvaranlegt. Og heldur hefði ég talið ástæðu til þess að þrengja olnbogarými verzlunarhagsmunanna meira en gert er í þessu frv., heldur en að rýmka það.

Það er nú einu sinni staðreynd, hvort sem okkur þykir það sætt í munni eða ekki, að það er eitt af því gróðavænlegasta í okkar þjóðfélagi, a.m.k. hér í Reykjavík og stærstu kaupstöðunum, að verzla með lyf, þ.e.a.s. að hafa viðskipti við hina sjúku. Og það er hvergi nærri æskilegt þjóðfélagsástand, og væri því fyllsta ástæða til að athuga, hvort ekki væri hægt að koma lyfjaverzlun þannig fyrir í þjóðfélaginu, að hún væri sem allra minnst gróðavegur gagnvart þeim sjúku. En það yrði naumast gert nema því aðeins að færa þessa verzlun meira yfir á hendur aðila eins og t.d. sjúkrasamlaganna, sem varla hefðu af því hagsmuni að okra að óþörfu á þeim sjúku, þ.e.a.s. meðlimum samlaganna sjálfra, — sjúkrasamlaganna eða sveitarfélaganna. Og þess vegna tel ég, að þær till., sem i þá átt ganga, — og að nokkru leyti gildir þetta einnig um samvinnufélögin, .— hafi mikið til síns máls og því fylgi kostir, engu síður en að binda lyfjasöluna við ábyrga einstaklinga með sérþekkingu, sem vissulega er það, sem að allra dómi kemur þó fyrst og fremst til greina. — Ég skal svo láta lokið ræðu minni.