14.03.1963
Efri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

54. mál, lyfsölulög

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. við 1. umr. Mig langar aðeins í upphafi, úr því að hæstv. heilbrmrh. er staddur hér í þessari hv, d., að minna á, að í vetur, þegar til umr. var, bæði í blöðum og hér á hinu háa Alþingi, eiturlyfjaneyzla í landinu, þá kom það fram, að nú væri komið fram frv. til lyfsölulaga og þar væri m.a. að finna ákvæði, sem mundu torvelda mönnum að ná í eiturlyf eða nautnalyf. Ekki man ég, hvort hæstv. heilbrmrh. hafði þessi orð, en þau komu fram í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég hef nú leitað í þessu frv, að slíku ákvæði, en ég get hvergi fundið það. Ég held, að það vandamál sé jafnóleyst, þótt þetta frv. verði að lögum.

En ég bið afsökunar á þessum útúrdúr. Ég ætla ekki að tala um þetta frv. í einstökum atriðum, en aðeins fara um það nokkrum almennum orðum.

Síðustu 19 árin hafa frv, til lyfsölulaga ýmist legið hér fyrir á Alþ. eða óskir um, að þau yrðu lögð fram. Þessi frv. hafa aðallega verið tvenns konar, og er það ekki undarlegt, þegar gætt er, hvaða aðilar hagsmuna hafa að gæta aðallega í sambandi við mál sem þetta. Hér á Alþ, hafa verið lögð fram frv. til lyfsölulaga, annars vegar miðuð við hagsmuni lyfsalanna, en hins vegar miðuð við hagsmuni almennings. Upprunalega mun fyrrv. landlæknir hafa útbúið ágætt frv. til lyfsölulaga, og ég hygg, að það hafi verið flutt litið breytt aftur og aftur hér á þinginu. Oftast munu Alþýðuflokksmenn hafa flutt þetta frv. Ég þarf ekki að rekja efni þess eða þeirra frv. En í stuttu máli má segja, að þau frv. eru miðuð við hagsmuni fólksins, hagsmuni almennings.

Hins vegar hafa svo aftur a.m.k. tvisvar verið flutt frv., sem hafa verið frábrugðin fyrrgreindum frv. í því, að þar hafa verið sniðnir í burtu ýmsir vankantar að dómi lyfsalanna, ýmis atriði, sem þeir töldu skerða sína hagsmuni. Og nú er komið fram frv. til lyfsölulaga, og það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hverra hagsmuna er þar gætt. Þar er gætt hagsmuna lyfsala, þeirra einstaklinga, sem hafa lyfsöluleyfi og eiga að fá lyfsöluleyfi á komandi árum. Þótt margt sé svipað með því frv., sem Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir mun hafa samið, þá eru nú sniðin í burtu ýmis mikilsverð ákvæði, sem þar stóðu og áttu að vera til þess að gæta hagsmuna almennings í landinu.

Ég skal sérstaklega minnast á, að í þessum eldri frv., sem Alþýðuflokksmenn að jafnaði lögðu hér fram, var sérstakur kafli um lyfjaheildsölu. Þar var gert ráð fyrir því, að ríkið tæki að sér lyfjaheildsölu. En eins og kunnugt er, þá er heildsala arðvænlegur atvinnuvegur hér á landi, og mundi muna miklu, hvort hún væri í höndum einstaklinga, gróðamanna eða hins opinbera. Þessi kafli hefur nú verið látinn niður falla. Í þessu gamla frv. var enn fremur kafli um lyfsölusjóð, sem ég tel að hafi verið mjög mikilsverð nýjung, en skal ekki rekja frekar hér. Í þriðja lagi skal ég benda á, að í eldri frv. var ákvæði um, að leyfi til rekstrar lyfjabúða mætti veita sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, samvinnufélögum og öðrum stofnunum eða fyrirtækjum, sem ætla mætti að gættu trúlega hagsmuna almennings í landinu. Þetta ákvæði er gersamlega fellt niður í frv. því, sem hér liggur fyrir. Þvert á móti er nú tekið fram, að lyfsöluleyfi megi einungis veita einstaklingum.

Ég get vel skilið, að lyfsalarnir í landinu og þeir, sem geta gert sér vonir um að verða það í náinni framtíð, séu ánægðir með þetta frv. En ef almenningur mætti mæla, þá er ég ekki eins viss um hans hrifningu. Nýjungar eru að vísu í þessu frv. Þar er heill kafli, sem ég hef ekki séð í eldri frv. Það er IV. kaflinn, um vinnudeilur og kjarasamninga. Ég fæ ekki skilið, hvers vegna þessi kafli á að standa í l. um þau efni, sem hér er um að ræða. Þessi kafli um vinnudeilur og kjarasamninga er kominn inn í frv. eins og skollinn úr sauðarleggnum og á ekkert erindi í þetta frv. Ég get varla hugsað mér, hvaða rök eru fyrir því, að kaflinn er þarna, en það hlýtur að vera, að lyfsalarnir telji sér hag að honum í væntanlegum vinnudeilum við launþegana, starfsmenn lyfjabúðanna. Ég hef enga trú á því, þó að slíku kunni að vera haldið fram, að það sé gert til þess að tryggja almenning, tryggja það, að störf og afgreiðsla í lyfjabúðum þurfi aldrei að leggjast niður. Ég held, að slíkt þurfi ekki að óttast. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir því í frv., að lyfsali sjálfur skuli annast forstöðu sinnar lyfjabúðar og jafnvel þó að allir starfsmenn lyfjabúðar gangi burt einn góðan veðurdag, þá þarf ekki að loka lyfjabúðinni fyrir því, forstöðumaðurinn er eftir og getur sinnt öllu, sem væri lífsnauðsynlegt. En mér þykir þessi IV. kafli um vinnudeilur og kjarasamninga mjög óprýða þetta frv.

Eins og hæstv. ráðh, tók fram, voru gerðar á þessu frv. nokkrar, ekki stórvægilegar breyt. í hv. Nd., og munu þær flestar hafa verið til bóta. Eitt og annað kynni þó að finnast enn, sem unnt væri að breyta til bóta, en þau atriði skal ég ekki ræða við þessa umr.