01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

196. mál, almannatryggingar

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það er nú fátt eitt, sem ástæða er til á þessu stigi að ræða af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér í sinni ræðu. Ég tel, að það sé alveg rétt, sem hann sagði í upphafi hennar, að varhugavert væri að breyta. einstökum bótum, við það gætu hlutföll raskazt milli einstakra bótategunda og þurfi það mjög nákvæmrar athugunar við. Hann talaði um það, að rétt væri að afnema skerðingarákvæðin í 35. og 50. gr. varðandi dagpeninga, slysa- og sjúkradagpeninga, eins og gert hefði verið í mörgum tilfellum um þau skerðingarákvæði, sem í l. voru leng:i. En það er dálítið annað sjónarmið, sem gildir í þessu efni, þar sem talað er um, að sjúkradagpeningar megi ekki fara fram úr 3/4 hlutum tekna bótaþega. Þetta er venjulegt tryggingasjónarmið, bæði hjá atvinnuleysistryggingum og sjúkratryggingum, sem miðaðar eru við það að minnka tjón bótaþega af veikindum, slysum eða atvinnuleysi, en ekki koma fyllilega í stað atvinnutekna. Og þetta sjónarmið mun ríkja ekki einasta hér á landi, heldur annars staðar, þar sem svipaðar tryggingar eru í gildi.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði um dagpeninga húsmæðra., er það að segja, að húsmæðurnar eru með þessum l. að fá verulega réttarbót. Þótt bætur séu enn lágar, er þess að gæta, að við höfum enga reynslu á því, hvernig þetta kemur út fyrir tryggingarnar, og ég tel, að rétt sé að bíða og sjá, hvernig þetta reynist, og bæta þá um, ef það kemur í ljós, að það er nauðsynlegt og eðlilegt.

Ég er alveg sammála honum um það, sem hann sagði um dánarbætur, — þær hafa verið heildargreiðsla í einu lagi, — að nýju ákvæðin séu heppilegri. Það er a.m.k. skoðun Tryggingastofnunarinnar af þeirri reynslu, sem hefur fengizt af greiðslu þessara bóta í einu lagi, að það hefði í mörgum tilfellum verið heppilegra að greiða bæturnar, eins og nú er lagt til að gert verði, með mánaðargreiðslu í 8 ár.

Það kemur þó ekki í veg fyrir það, sem einmitt hefur verið rætt um í Tryggingastofnuninni, sem mér er vel kunnugt, að ef svo stendur á, að ekkju eða ekkli er nauðsynlegt að fá verulega upphæð í einu lagi, þá er meiningin hjá Tryggingastofnuninni að greiða fyrir því, svo að að gagni megi koma, líkt og stundum er gert nú um öryrkja, þegar líkt stendur á, að þeim er nauðsynlegt að fá allverulega upphæð í einu lagi, þá er það gert með fyrirframgreiðslum eða á annan hátt, þannig að að svipuðu gagni megi koma.

Þá er það 78. gr., b-liðurinn. Það er um utanfararstyrkinn og styrkinn til sjúkraflutninga og læknisvitjana. Þetta er alveg rétt, sem hv. þm. sagði um það. Það hafa verið í endurskoðun ákvæðin um læknisvitjanasjóði. Læknisvitjanasjóðirnir eru orðnir úreltir og eru raunar viðast horfnir. Það er aðeins á örfáum stöðum á landinu, sem þeir eru enn í gildi, og árstekjur þeirra eru, eins og hann sagði; í fámennum héruðum mjög lágar orðnar. Að vísu bætti það nokkuð úr skák hjá sumum þessum héruðum, að það var ákvæði í 1., að læknisvitjanasjóðirnir fengju helming af læknislaunum í héraðinu, ef héraðið hafði ekki fengizt skipað, og bætti þetta nokkuð um fyrir sjóðunum. En á hinn bóginn er það rétt, sem hv. þm. sagði, að Tryggingastofnunin hefur notað þá heimild, sem hún hefur um greiðslu á styrkjum til utanfarar og sjúkraflutninga, til þess að greiða fyrir og bæta við þær tekjur, sem sjóðirnir hafa haft í þeim héruðum, þar sem það hefur reynzt nauðsynlegt. Það hefur raunar komið til athugunar og kom til umr. í heilbr.- og félmn., hvort ekki væri tímabært að nema úr gildi þetta ákvæði, sem er þarna um styrki til læknisvitjana og sjúkraflutninga í sambandi við læknisvitjanasjóðina. En af því að þetta er í endurskoðun, var talið rétt, að þetta gilti enn, þangað til endurskoðun læknisvitjanasjóðanna væri lokið. En mér er kunnugt um það, að þeir, sem hafa haft þessa endurskoðun með höndum, hallast einnig að því sama, sem hv. þm. sagði í sinni ræðu, að það væri eðlilegast að fella læknisvitjanasjóðina niður, en skipa þeim málum með öðrum hætti í sambandi við sjúkratryggingarnar.

Annað held ég, að hafi ekki verið í þessum ummælum hv. þm., sem ástæða sé til að ræða á þessu stigi.