09.05.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

148. mál, tollskrá o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef mikinn áhuga fyrir því að koma einni breytingu inn í tollskrána, sem hefur verið íhuguð í fjhn, beggja deilda, en ekki fengið nægilegan byr, og var að hugsa um að flytja brtt. varðandi þetta atriði, en er hættur við það. Ég ætla þó að segja hv. þm. frá því, hvað þetta atriði var, ef menn vildu íhuga það og það gæti orðið til athugunar síðar. Ég geri ráð fyrir því, að það verði að breyta tollskránni á hverju ári, það hefur oftast verið þannig. Ég vildi þess vegna segja mönnum frá þessu, svo að þetta gæti fengið athugun til næsta árs.

Þannig er ástatt, að sjúkrabilar eru tollaðir með lægra tollgjaldi en aðrar bifreiðar. Nú kemur þetta að fullum notum, þar sem hægt er að kaupa sjúkrabifreiðar, og það er meiningin núna að færa þetta í það horf, að þar sem sjúkrabifreiðar eru um leið lögreglubifreiðar, komi þær undir þetta lága tollgjald. En þar sem engin sjúkrahús eru og engar lögreglubifreiðar til að nota við sjúkraflutninginn, veldur það nokkrum vanda að flytja sjúklingana, og við mig hafa sagt a.m.k. tveir héraðslæknar, að þeir mundu gjarnan vilja eiga bíla, sem væru þannig gerðir, að hægt væri að flytja í þeim sjúklinga í rúmum, leggja í það að eiga slíkar bifreiðar, ef þeir fengju þær undir lægra tollgjaldið eins og sjúkrabifreiðarnar.

Ég hef í vetur verið að reyna að fá þessa hugmynd tekna upp á vegum fjmrn. og fjhn. d., fá þetta sett inn í tollskrána, að læknabifreiðar, sem væru þannig gerðar, að hægt væri að flytja í þeim sjúklinga í rúmum, kæmu undir sama tollvörugjald og sjúkrabifreiðar, enda væri þetta í þeim læknishéruðum, þar sem ekki væru sjúkrahús. Ég er sannfærður um, að þetta mundi geta gert mikið gagn viða, þar sem það veldur verulegum vandkvæðum oft og tíðum með flutning á sjúklingum með nógu hagfelldu móti.

Ég ætla ekki að flytja brtt., vegna þess að mér er það ljóst, að hún hefur ekki möguleika til að hljóta samþykki, þar sem fjhn. hafa ekki viljað taka hana upp og málið er svona aðklemmt orðið, allt á síðustu stundu. Ég hef ekki viljað vera að flytja þetta persónulega, heldur hef reynt að koma þessu inn í málið gegnum nefndirnar. Ég læt því þetta nægja, en bið menn að íhuga þetta til næsta árs og þá, sem fyrir þessum málum ráða, að athuga það gaumgæfilega, hvort þeir vildu ekki fallast á að greiða svona fyrir læknishéruðum, þar sem ekki eru sjúkrahús.