11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Frv. um tollskrá er nú komið aftur frá Nd., og hún hefur gert á því nokkrar breytingar, og þess vegna er það komið til einnar umr. hér.

Fjhn. Ed. hefur, eins og formaður n. tók fram áðan, ekki haft tækifæri til þess að skoða þessar breytingar, sem Nd. hefur gert á málinu, en mér sýnist, að sumar þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið við 1. gr., orki mjög tvímælis og séu sízt til bóta. A hinn bóginn eru þær breytingar, sem fólgnar eru í þessu frv. í heild, til bóta, og þær breytingar, sem Nd. hefur gert, a.m.k. á 1. gr., eru ekki svo stórvægilegar, að ég telji ástæðu til þess að fara að reyna að setja fótinn fyrir þær, því að slíkt mundi að sjálfsögðu stefna málinu í tvísýnu, ef væri farið að gera það.

En það, sem var tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli, er seinasta breytingin, sem hv. Nd. gerði með brtt, fjhn. á þskj. 625, þar sem ákveðið er, að aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum og hlutum til þeirra megi verja til stofnkostnaðar sjónvarps.

Fyrir nokkrum dögum beindi ég í Sþ. fyrirspurn til hæstv. menntmrh. af þeim sökum, að mig var farið að lengja eftir því, að hæstv. ríkisstj. leitaði heimildar hjá Alþ. að ráðast í einhverjar framkvæmdir í sjónvarpsmálum. Þessi fyrirspurn mín gaf tilefni til þess, að hæstv. menntmrh. gaf mjög ýtarlega og ágæta skýrslu, sem hefur, eins og menn vita, vakið mikla athygli og verið til umræðu í blöðum að undanförnu. En í þeirri skýrslu lét hæstv. menntmrh. þá skoðun sína og væntanlega ríkisstj. allrar í ljós, að það væri ekki þörf á því að leita heimildar Alþ. um þetta mál, þar sem útvarpið mundi um það fjalla, og ég gat ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en það ætti að reka sjónvarp eða a.m.k. hefja rekstur sjónvarps á Íslandi á grundvelli laganna um útvarp. Ég verð að segja það hér, að það urðu mér vonbrigði, þegar hæstv. menntmrh. hafði lokið skýrslu sinni, að hæstv, forseti Sþ. neitaði mér um orðið til þess að gegna jafnsjálfsagðri kurteisisskyldu og þakka hæstv. menntmrh. fyrir skýrsluna, auk þess sem ég hefði, ef ég hefði fengið orðið, þá kannske gert eitthvað af þeim athugasemdum, sem mig langar til að gera núna við þetta tækifæri, fyrst málið er af þessu tilefni komið á dagskrá.

Ég verð að láta þá persónulegu skoðun mína í ljós, að það orki mjög tvímælis sú skoðun hæstv. menntmrh., að hér væri hægt að hefja rekstur sjónvarps á grundvelli laganna um útvarp. Og mér virðist þó, að það hljóti að liggja í augum uppi, að þar sem þarna er um að ræða framkvæmdir á vegum ríkisins og kostnaður við þær nemur tugum eða jafnvel hundruðum milljóna, þá hljóti að þurfa samþykki Alþ. til fjárveitinganna a.m.k. Sá grunur minn reyndist réttur, því að sama kvöldið, þetta var á föstudaginn var, — var útbýtt á Alþ. þskj. 625, þar sem lagt var til, að aðflutningsgjöldum á sjónvarpstækjum og hlutum til þeirra megi verja til stofnkostnaðar sjónvarps, eða m.ö.o., þarna er skapaður tekjuöflunargrundvöllur fyrir því að hefjast handa í málinu. En hitt verð ég að taka undir, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., að þetta er auðvitað mjög óvenjuleg og óviðkunnanleg að ferð til að skapa réttargrundvöll fyrir framkvæmdum í sjónvarpsmálum og þetta má sannarlega kalla að fara með málið bakdyramegin inn á Alþ.

En í ræðu sinni áðan hafði hv. 10. þm. Reykv. annað um þetta að segja en það, sem hæstv. menntmrh. sagði um það á föstudaginn var. Hv. 10. þm. Reykv. sagði, að hér væri bara um heimild að ræða. Auðvitað verður málið lagt fyrir Alþ., áður en í framkvæmdir verður ráðizt, og þangað til verður heimildin ekki notuð, sagði hann einnig, ef ég tók rétt eftir. Þetta er allt önnur afstaða en fram kom hjá hæstv. menntmrh. á föstudaginn var, og ég vil fara fram á, að það komi hér skýrari grg. fyrir þessu atriði, þar sem hæstv. menntmrh. og hv. formanni fjhn. Ed. ber svo mikið á milli um þetta efni.

Ég skal taka það fram þessu máli til frekari skýringar, að á föstudagskvöldið var, einmitt þegar þessu þskj. var útbýtt, sem eru till. fjhn. Nd., þá átti ég tal við einn af þeim hv. þm., sem sæti eiga í fjhn., um þetta mál, hv. 3. þm. Reykn., og sagði hann mér, að það væri hans skoðun og mér virtist félaga hans í fjhn. Nd., a.m.k. einhverra, að í þeirri heimild, sem hér er til þess að nota aðflutningsgjöldin í þessum tilgangi, væri fólgið allt það, sem þörf væri á að fá frá Alþingi í þessu máli. Og þetta er skoðun, sem ég á mjög erfitt með að fella mig við og vildi mjög gjarnan biðja hæstv, menntmrh. um að staðfesta, ef hann getur, þann skilning, sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. um þetta efni.

Nú segi ég þetta alls ekki vegna þess, að ég vilji gera neitt það, sem tafið geti fyrir því, að framkvæmdir verði hafnar í sjónvarpsmálinu. Ég vil, að það komi alveg skýrt fram hjá mér, að úr því sem komið er með sjónvarp frá Keflavíkurflugvelli og það leyfi, sem gefið hefur verið til þess að reka það í því formi, sem það er nú, og þær afleiðingar, sem það hefur haft, og þar sem við hljótum að gera ráð fyrir því, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að við verðum að þola þetta sjónvarp um sinn, þá tel ég það vera áhrifaríkustu leiðina til þess að vinna gegn algerri einokun Bandaríkjamanna á þessu þýðingarmikla menningarmálasviði, að við komum okkur sjálfir upp sjónvarpi. Ég mun þess vegna fyrir mitt leyti styðja þessa breyt., sem gerð hefur verið á frv. í Nd. En mér þætti vænt um að fá skýr svör um það atriði, sem þeim ber á milli, hæstv. menntmrh. og hv. 10. þm. Reykv.

Hv. 5. þm. Reykn. taldi og hv. 9, þm. Reykv. tók undir það, að þessi tekjustofn, sem hér er gert ráð fyrir, fyrir sjónvarpið sé óeðlilegur, og hv. 9. þm. Reykv. kallaði það raunar að græða á niðurlægingu þjóðarinnar. Ég get ekki fallizt á þetta sjónarmið. Mér virðist þetta sjónarmið minna nokkuð á það, sem stundum kemur fram hjá ýmsum bindindismönnum, að þeim finnst það óviðkunnanlegt að fá aura frá áfengisverzluninni. En ekki hefur maður þó orðið var við það, að þeir hafi hafnað því að fá þaðan fé til þeirra góðmála, sem þeir vinna að. Mér virðist, að hér sé kannske nokkuð svipað á ferðinni. En ég vil þó vekja athygli á því, að hér er ekki verið að gera innflutning sjónvarpstækja að tekjustofni á þá lund, að það sé verið að leggja á neina nýja skatta eða nýja tolla. Þeir, sem slík tæki kaupa, koma til með að borga af þeim sömu tolla og þeir, sem þau hafa keypt. Hér er aðeins um a0 ræða heimild til þess, að ríkisstj. noti það, sem inn kemur, í þessum sérstaka tilgangi, sem ég fyrir mitt leyti álít vera mjög mikið nauðsynjamál.