30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þau ummæli hv. ræðumanna, sem hér hafa talað á undan, út af frv. sjálfu. Flestir hafa, að ég ætla, talið, að það væri spor í rétta átt, hins vegar ekki nægilega stórt og þyrfti þess vegna meira til að koma, ef fullnægja ætti þörfinni, og það skal ég fúslega ganga inn á að sé rétt. Það er þannig mín skoðun, sem ég við þetta tækifæri og raunar áður hef lýst. Þess vegna er þetta frv., sem hér liggur fyrir, ekkert lokaátak í málinu, heldur aðeins tilraun til þess að komast feti lengra en nú er og útvega húsnæðismálastjórn meira fé en hún hefur til umráða nú.

Einn hv. þm., sem hér talaði, hv. 5. þm. Austf. (LJós), dró að vísu mjög í efa, að sú upphæð, sem í grg, er gert ráð fyrir að náist með frv., mundi fást, og taldi sig hafa nokkra ástæðu til að ætla það. Hins vegar var fram tekið af mér og liggur raunar í augum uppi, að sú upphæð, sem grg. gerir ráð fyrir og er á ársgrundvelli, muni ekkí fást í ár. Það liggur alveg ljóst, vegna þess að það verður nokkuð liðið á árið, þegar frv., ef að lögum verður, kemur til framkvæmda. Hins vegar hefur sú upphæð, sem nefnd er í frv., og eins sú upphæð, sem áætluð er frá tryggingarfélögunum, verið metin af þeim mönnum, sem ætla má að hafi á því beztan kunnugleik, og þeirra mat hefur verið, að þessar upphæðir mundu nást. Annars er náttúrlega ekkert, sem úr því getur skorið endanlega, nema reynslan, og það verður þá að koma í ljós, hvað út úr þessu kemur. En hvað sem um það er, þá vil ég ætla, að með þessum tveímur frv, sé stigið nokkurt spor í rétta átt, þó að það sé hins vegar ekki nægilegt og áfram verði að halda.

Það var af einum hv. ræðumanni, — ég ætla, að það hafi verið hv. 5. þm. Austf., talið, að eigin tekjur húsnæðismálastjórnar þyrftu að vaxa, en tekjurnar yrðu ekki auknar fyrst og fremst á þann hátt, að ný lán yrðu útveguð, sem síðan þyrfti að greiða og gætu ekki verið til frambúðarútlána, hitt væri betra, að húsnæðismálastjórn hefði fastar tekjur og gæti notað þær til lánanna og þyrfti ekki að standa skil af þeim útlánum aftur til þeirra, sem lán hefðu veitt húsnæðismálastjórn. Þetta er vissulega rétt, að æskilegt væri það, að húsnæðismálastjórnin hefði fastar tekjur sjálf, sem hún gæti notað til útlánanna, og það hefur hún orðið þá nokkrar og ég vil segja æðimiklar, því að tekjur húsnæðismálastjórnar sjálfrar í ár eru áætlaðar 55 millj. kr., og það er langsamlega stærsti pósturinn af því, sem hún hefur til útlána.

Um frv. sjálft ætla ég að ekki hafi verið fleiri athugasemdir gerðar, því að eins og ég sagði í upphafi, ég held, að allir ræðumennirnir hafi talið, að frv., þó að það gengi of skammt, miðaði í rétta átt. Og ég skildi það svo, að þeir hv. þm. allir vildu standa að því, að frv. næði fram að ganga. Hins vegar hafa svo umræðurnar snúizt um það að verulegu leyti, sem oft hefur heyrzt áður, bæði í þessari hv. d. og annars staðar, að byggingarkostnaðurinn væri nú orðinn óhóflega mikill og hvað væri unnt að gera til þess að mæta því á einhvern hátt, lánin væru of lág og íbúðirnar, sem byggðar væru, væru of fáar og annað þess háttar. Út af þessu vildi ég segja það, að íbúðafjöldinn, sem fullgerður er, getur breytzt nokkuð frá ári til árs, án þess að það þurfi í sjálfu sér að sanna það, að byggingastarfsemin í landinu hafi dregizt saman. Það getur verið meiri fjöldi af hálfgerðum íbúðum, sem gerir það að verkum, að fullgerðu íbúðirnar eitthvert árið séu færri en annað, og þarf ekkert að vera við það að athuga í sjálfu sér. Ég held, að yfirleitt hafi byggingarstarfsemin í landinu undanfarin ár verið það mikil, að sá íbúðafjöldi, sem talinn hefur verið eðlilegur árlega, 1500 íbúðir, hafi yfirleitt náðst. Hitt er alveg víst, að það hafa ekki verið til byggingariðnaðarmenn til þess að sinna öllu meiri störfum en gert hefur verið. Og það er á vitorði flestra, að ég ætla, að byggingarkostnaðurinn er kannske að mjög verulegu leyti og a.m.k. að nokkru leyti svo hár sem hann er vegna þess, að byggingariðnaðarmennirnir hafa verið á eins konar uppboði. Þeir hafa verið boðnir upp, þeim hafa verið boðin hærri laun en þeirra taxtakaup segir til um, aðeins til þess að þessi eða hinn gæti fengið þá á undan nágrannanum, og þar af leiðandi hefur byggingarkostnaðurinn orðið meiri en hann mundi hafa orðið, ef um venjulegar kaupgreiðslur hefði verið að ræða. Þetta bendir til þess, að byggingarstarfsemin hafi raunverulega verið meiri en byggingariðnaðarmannafjöldinn hafi verið fær um að inna af hendi og þess vegna hafi þetta uppboð á iðnaðarmönnunum orðið til þess að gera íbúðirnar talsvert miklu dýrari eða a.m.k. nokkru dýrari en þær hefðu annars þurft að vera.

Það hafa verið hér nefndar ýmsar tölur um það, hvað byggingarkostnaðurinn hafi vaxið, — og það er vissulega rétt, hann hefur vaxið, — og þar með hefur verið talið, að lánveitingar húsnæðismálastjórnar séu hlutfallslega minni nú en þær hafa verið áður, vegna þess að þær nægi raunverulega ekki fyrir þeirri hækkun, sem orðið hefur á s.l. 5–6 ára tímabili. Það má túlka málið á þennan hátt, en það má líka segja frá því á annan hátt. Það var nefnt hér, að 320 rúmmetra íbúð hefði fyrir nokkrum árum kostað rúmar 400 þús. kr., nú kostaði þessi íbúð í dag rúmar 600 þús. kr., þannig að hækkunin hefði orðið 200 þús. kr. Á sams tíma væri húsnæðismálastjórnarlánið ekki nema 150 þús. kr. og nægði þess vegna ekki fyrir þeirri hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaði. En þetta má líka segja á axmóa:n hátt. Þegar íbúðin kostaði 400 þús., var tánið til hennar ekki nema 100 þús. kr. eða í kring um 25% af raunverulegu verðmæti íbúðarinnar. Í dag, þegar íbúðin kostar 600 þús. og lánið er 150 þús. kr., þá Er lánveitingin líka 25% af byggingarkostnaðinum, þannig að hlutfallið er nánast það sama, vel að merkja ef 100 þús. kr. hefðu verið veittar af húsnæðismálastjórn, þegar íbúðin kostaði 400 þús. kr. En það var ekki í öllum tilfellum, heldur mun mjög oft hafa verið, að íbúðarlán á þeim tíma urðu ekki nema um 70 þús. kr., þannig að ef miðað er við 70 þús. kr. þá og 150 þús. kr. nú, þá er lánið í hundraðshlutum af byggingarkostnaðinum hærra í dag en það var þá. Náttúrlega þurfa möguleikar mannsins til þess að standa undir húsbyggingarkostnaðinum nú ekki að hafa versnað, þó að verðlagið hafi hækkað, ef hans eigin tekjur á tímabilinu hafa hækkað tilsvarandi, þannig að það er ýmislegt, sem verður að taka til greina í þessu sambandi, og það er ekki nóg að segja: Byggingarkostnaðurinn hefur hækkað um 200 þús. kr. á þessu tímabili eða kringum það, og það er meira en öll lánveiting húsnæðismálastjórnar nemur. — Það segir ekki nema hlutann af sannleikanum. Hitt verður að meta, hvað mikill hluti af heildarkostnaðinum lánin voru þá og hve mikill hluti af byggingarkostnaðinum þau eru nú.

Það er alveg rétt, að þeir, sem búa í eldri íbúðum, standa miklu betur að vígi heldur en þeir, sem núna eru að byggja. Þetta er hugsanlegt að lagfæra að nokkru leyti með fasteignaskatti, og það hefur verið athugað nokkuð, þó að ekki séu tilbúnar tillögur um það enn. Það má segja, að það væri ekki óréttlátt, að þeir, sem sitja í gömlum íbúðum og þurfa miklu minna til þeirra að kosta eða af þeim að greiða heldur en þeir, sem nú eru að byggja, gjaldi að einhverju leyti í sameiginlegan sjóð til þess að létta undir með hinum. Svipað væri hægt að gera með því, að ríkissjóður sjálfur legði fram einhvern verulegan hlut í þessa púlíu eða til þessarar starfsemi, og gæti það komið fram á þann hátt, að þeir, sem betri aðstöðu hefðu, annaðhvort í tekjum eða eignum eða eldra húsnæði, greiddu þá til ríkissjóðsins að verulegu leyti það, sem á þyrfti að halda í þessu sambandi. Það eru á þessu margar hliðar og sem betur fer ýmsir möguleikar, en áfram verður haldið að vinna að því að kanna, hvaða möguleikar eru til þess að gera þessar hugmyndir að veruleika, sem geti hjálpað íbúðarbyggjendum nú til að standa undir sínum íbúðum og greiða kostnað við þær.

Eins og ég sagði áðan, eru athugasemdir þeirra, sem talað hafa hér á undan mér um frv., ekki meiri en það, að mér skilst, að þeir muni flestir fylgja málinu eins og það er lagt fyrir. Þó að það beri ekki í sér fullkomna lausn, stefni það þó í rétta átt. Um málið að öðru leyti, sem hefur nú verið aðalumræðuefnið, íbúðarvandamálið almennt, skal ég ekki ræða frekar að þessu sinni. Það gefst kannske tækifæri til þess síðar.