21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til svars síðustu ræðu hv. 11. þm. Reykv.

Ég get ekki leynt undrun minni yfir því, að maður, sem er bankastjóri í einum af viðskiptabönkum höfuðstaðarins, skuli halda fast við þá skoðun sína, að það gæti komið til mála, að yfirlýsing yrði gefin um það af hálfu ríkisstj. eða seðlabanka fyrir fram, hver sparifjárbinding nákvæmlega mundi verða á næstu mánuðum eða árum, og jafnvel nákvæmlega; með hverjum hætti Seðlabankinn hygðist leysa úr lánsfjárþörf sjávarútvegs og landbúnaðar, þ.e.a.s. hver kaupaprósenta hans á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar mundi verða á næstu árum. Ég hélt satt að segja, að öllum mönnum, sem sjálfir fást við bankamál og stjórn bankastofnana, hlyti að vera algerlega ljóst, að það er gersamlega ómögulegt fyrir þá menn, þá aðila, sem með þetta vald fara, sem er fyrst og fremst Seðlabankinn, í samvinnu við ríkisstj. auðvitað, að segja fyrir um það fyrir langan tíma, með hverjum hætti eðlilegt og skynsamlegt er að nota slíkar heimildir eins og þær, sem hér er verið að ræða um.

Tilgangur löggjafa með því að veita seðlabanka slíkar heimildir er einmitt að gera seðlabankanum kleift að hafa áhrif á efnahagskerfið til þess að jafna óeðlilegar sveiflur í viðskiptalífi og fjármálum. Ef menn gætu séð væntanlegar sveiflur fyrir fram, væri auðvitað hægt að segja fyrir fram í stórum dráttum, hvernig eðlilegt væri, að seðlabanki beitti slíku hagstjórnartæki eins og þessu. En nú hélt ég, að ekki þyrfti einu sinni bankastjóra viðskiptabanka til, til þess að gera sér ljóst, að fyrir fram geta menn ekki gert sér ljósar þær sveiflur, sem með eðlilegum eða óeðlilegum hætti hljóta að verða í efnahagskerfi, sem í grundvallaratriðum byggist á frjálsu efnahagskerfi. Einmitt vegna þess, að það er ekki í valdi nokkurs mannlegs máttar að sjá slíkar sveiflur fyrir, jafnvel ekki fyrir stuttan tíma fram á við, hvað þá yfir langan tíma, er líka ómögulegt fyrir seðlabanka og aðra opinbera aðila, sem með hagstjórn fara, að segja til um nákvæmlega, hvernig slíkum hagstjórnartækjum skuli beitt, því að þeim á einmitt að beita til að vinna gegn þeim sveiflum, sem taldar eru munu hafa óeðlileg áhrif. Þess vegna verður í þessum efnum auðvitað að treysta því, að stofnun eins og seðlabanki beiti slíku heimildarvaldi af skynsemi og hófsemi. Reynslan af okkar unga seðlabanka er sem betur fer sú, að honum er mjög vel treystandi fyrir slíku valdi.

En ef nú hv. þm. meinti raunverulega þetta, sem hann segir, sem ég leyfi mér að draga í efa, — ég held, að þekking hans í þessum efnum hljóti að vera meiri en virtist koma fram af ræðu hans áðan, — en ef nú svo væri, að eðlilegt væri, að ríkisstj. gæfi yfirlýsingu um það fyrir fram, hvernig ætti að nota slíkar heimildir, sem eru í lögum, þá vildi ég spyrja aftur á móti: Hvaða yfirlýsingar voru gefnar af hálfu ríkisstj. um það, hvernig slík bindiheimíld mundi notuð, þegar þessi bindiheimild var fyrst í lög tekin? Það var gert 1957. Þá sat hér við völd stjórn Hermanns Jónassonar, og bankamálin heyrðu í þeirri stjórn undir ríkisstj. alla, að forminu til þess vegna undir hæstv. forsrh., og það var hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, þáv. formaður Framsfl.; sem lagði frv. um endurskoðun bankalöggjafarinnar fyrir þessa hv. deild, og í þessu frv. voru lögtekin ákvæði í fyrsta sinn, sem heimiluðu Seðlabankanum að skylda viðskiptabanka til þess að geyma í Seðlabankanum 15–20% af árlegri sparifjáraukningu sinni. Nú skyldi maður halda, að ef það væri alveg sjálfsagt og eðlilegt, að gefnar væru yfirlýsingar um það fyrir fram, hvernig slíkar heimildir skyldu notaðar, þá hefði aldrei verið eðlilegra að gefa slíkar yfirlýsingar en einmitt þegar slík ákvæði eru fyrst lögtekin. Þá var rétti tíminn til að gefa mjög nákvæmar og mjög ýtarlegar yfirlýsingar um það, hvernig væri ætlunin að nota slíkt hagstjórnartæki eins og þarna var lögleitt í fyrsta skipti í sögu íslenzkra bankamála. Auðvitað gerði þáv. hæstv. forsrh., sem með bankamálin fór fyrir hönd ríkisstj. í heild, sér ljóst, að það er ekki hægt fyrir fram að gefa neinar slíkar yfirlýsingar. Hér er um heimildarákvæði að ræða. Ákveðnum aðila í bankakerfinu, Seðlabankanum þá, var falið ákveðið hagstjórnarvald, og honum verður að treysta til að nota það hófsamlega og skynsamlega í samráði við ríkisstj. á hverjum tíma.

Ég fylgdist rækilega með umræðum um bankafrv. á sínum tíma, vegna þess að ég átti nokkurn hlut að því, að það var samið, og ég verð að segja það þáv. stjórnarandstöðu, hv. Sjálfstfl., til hróss, að innan hans fannst enginn maður, sem bar fram fyrirspurn um það eða krafðist yfirlýsingar af hálfu þáv. ríkisstj. um það, hvernig væri tilætlunin í einstökum atriðum að hagnýta sér þetta vald. Hjá þáv. stjórnarandstöðu virðist hafa verið fullkominn skilningur á því, að hér var um almenn heimildarákvæði að ræða, hér var um það að ræða að veita seðlabanka landsins ákveðið vald, sem honum yrði að treysta til að nota á hverjum tíma í samræmi við þær aðstæður, sem væru í efnahagsmálum þjóðarinnar á hverjum tíma. Ég minnist þess ekki, að þessi heimild, sem Seðlabankanum þá var fengin í fyrsta skipti, hafi verið sérstaklega gagnrýnd af hálfu þáv. stjórnarandstöðu, hvað þá að til slíks væri ætlazt sem nú er ætlazt til af núv. ríkisstj., að hún segi nákvæmlega fyrir um, hvernig tilætlunin sé að nota litla aukningu á heimildinni, aukningu á heimildinni úr 15–20% upp í 25%. Þegar hv. þm. segir, að það sé vitanlega ekki hægt að samþykkja þetta frv. um aukningu á heimild Seðlabankans til sparifjárbindingar úr 15–20% upp í 25% án þess að fá að vita nákvæmlega, hvernig komið gæti til greina að nota þessa aukningu, þá er það að ætlast til allt annars af núv. ríkisstj. en þeim flokki, sem hv. þm. tilheyrir, þótti sjálfsagt, þegar hann sjálfur hafði forustu um setningu hliðstæðrar löggjafar og þeirrar, sem hér er um að ræða. Þess vegna hlýt ég að líta á endurtekin ummæli hv. þm. um þetta efni sem eingöngu berandi vott um það, að hann hefur í frammi venjulegan áróður stjórnarandstöðu, en ekki það, að hann geti trúað á réttmæti óska sinna um að fá skýrar yfirlýsingar af minni hálfu eða ríkisstj. um þetta efni.

Ég skal svo, að síðustu þó, varðandi endurtekna spurningu hans um það, hvers vænta megi af hálfu Seðlabankans í framtíðinni almennt séð, ef þessi heimild verður samþykkt, ljúka þessum orðum mínum með því að segja þetta:

Tilgangurinn með þessum rýmkuðu heimildum til handa Seðlabankanum er að tryggja sjávarútveginum, landbúnaðinum og gjaldeyrisvarasjóðnum áframhaldandi og nokkuð aukna hlutdeild í aukningu sparifjár þjóðarinnar. Ein meginástæða þess, að það er nauðsynlegt að rýmka þær heimildir, sem í gildi eru, er sú, að á sumum sviðum eru heimildirnar, sem í gildi eru, næstum því fullnotaðar, þannig að ef heimildin væri nú ekki rýmkuð, þá gæti svo farið, að Seðlabankann skorti heimild til að tryggja sér áframhaldandi jafnvel óbreyttan hluta af heildarsparifénu, hvað þá nokkra hlutdeild í aukningu þess. Og það vildi ég sérstaklega undirstrika, að aukning gjaldeyrisvarasjóðsins verður að sjálfsögðu ekki tryggð, nema Seðlabankanum verði séð fyrir aukinni hlutdeild í sparifé þjóðarinnar, vegna þess að það er Seðlabankinn einn, sem varðveitir gjaldeyrisvarasjóðinn. Hitt mætti segja, að hægt væri að auka hlutdeild sjávarútvegs, landbúnaðar og þó sérstaklega iðnaðar í heildarsparifénu eða í aukningu þess, án þess að veita Seðlabankanum nýjar heimildir, eins og hér er talað um. En þá mundi sú skylda hvíla á viðskiptabankakerfinu að sjá sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og verzlun fyrir auknu starfsfé. Nú er hv. síðasti ræðumaður bankastjóri í einum af viðskiptabönkum landsins. Honum er að sjáifsögðu vel kunnugt um það, hvernig starfssvið hans eigin banka skiptist á milli verzlunar, iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Honum er að sjálfsögðu vel kunnugt um það, til hvaða atvinnugreina aukning sparifjár hans stofnunar hefur gengið, að hversu miklu leyti aukning þess sparifjár, sem hans stofnun hefur fengið á undanförnum árum, eða hversu mikið af henni hefur gengið til verzlunar, iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Ég þarf ekki að upplýsa hann neitt um það. En hitt leyfi ég mér að staðhæfa, að það er betur séð fyrir þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar með því móti að hafa þann hátt á, sem þetta frv, ráðgerir, að t.d. 25% af aukningu sparifjárins hjá viðskiptabönkunum renni til Seðlabankans til að gera honum kleift að halda áfram að endurkaupa 55% af skilaverði útflutningsafurða landbúnaðar og sjávarútvegs,það er betur séð fyrir þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar með því að hafa þennan hátt á heldur en að hætta þessu og láta viðskiptabankana eina um það að sjá fyrir þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar. Sannleikurinn er sá, að það eru ríkisbankarnir fyrst og fremst, sem undanfarin ár og áratugi hafa séð fyrir þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar. En einkabankarnir, sem stofnaðir hafa verið hér á undanförnum árum, hafa ekki í eins ríkum mæli og æskilegt hefði verið talið sér skylt að sjá fyrir þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar, og það er einmitt þessi meginstaðreynd, í hversu litlum mæli, því miður, hinir nýju einkabankar hafa talið sér skylt að sjá fyrir þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar, í hversu litlum mæli þeir í raun og veru hafa veitt sparifjáraukningu sinni til sjávarútvegs og landbúnaðar, sem það er nauðsynlegt að hafa þann hátt á, sem er ráðgerður í þessu frv. Ég vil því segja að síðustu, að það er beinlínis brýnt hagsmunamál sjávarútvegsins og landbúnaðarins, að seðlabankinn hafi a.m.k. sömu skilyrði og hann hefur haft, og nokkuð bætt skilyrði, til þess að anna því mikilvæga hlutverki, einmitt í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar, sem hann hefur gegnt undanfarin ár.