09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

88. mál, eyðing refa og minka

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um þetta frv., og því, sem ég sagði hér áðan, vil ég baeta þar við nokkrum orðum.

Það, sem eru höfuðrökin fyrir þessu frv., er það, að með eitruninni getum við útrýmt erninum, og það er þá frá sjónarmiði flm. og stuðningsmanna frv, meira virði að viðhalda erninum heldur en það, þó að nokkur skaði verði af völdum refa og minka í fjárhópum bænda. Eins og ég kom að hér áðan og skal undirstrika betur nú, því að ég hafði þá ekki við höndina núgildandi lög, þá hljóðar 11. gr. l. svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Skylt er oddvitum og bæjarstjórum að sjá um eitrun fyrir refi og minka samkv. fyrirmælum stjórnar Búnaðarfélags Íslands og á þeim svæðum, er veiðistjóri telur líklegust til árangurs hverju sinni. Skal veiðistjóri hafa eftirlit með því, að eitrun sé framkvæmd eins og til er ætlazt. Skal við eitrun fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum veiðistjóra. Héraðslæknar og lyfjaverzlanir láta oddvitum í té eitur samkv. fyrirmælum landbn.- og heilbrmrn.“

Með þessari grein laganna og með því, sem fram kemur í grg, fyrir þessu frv., sýnist mér að ná megi þeim árangri, sem flm. stefna að, með núgildandi lögum. Á bls. 2 í þessu þskj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Það skal höfundum eitrunarákvæða til hróss sagt, að viðleitni var sýnd af stjórnarvaldanna hálfu að draga úr þeirri hættu, sem lögin leiddu yfir örninn.“

Í reglugerð þeirri, sem ég nefndi, frá 28. nóv. 1958, er bannað að eitra fyrir refi í þessum sýslum: Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu, Barðastrandarsýslu, Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. En í þessum landshluta var það talið og er enn talið, að fáeinir ernir verpi og haldi sig. Mér sýnist, að með þessari lagagrein og þeirri reglugerð, sem gefin er út samkv. henni, sé því takmarki náð að vernda örninn á þeim svæðum, þar sem hann er talinn vera til enn þá, og það sé því alger óþarfi að fara að leggja það til með þessu frv. að banna að eitra á öðrum svæðum, þar sem vitað er og talið er af kunnáttumönnum og þeim, sem bezt vita, að eitrunin hafi haft verulegan árangur.

Ég vitnaði til þess hér áðan um upprekstrarland Borgfirðinga og Mýramanna, að þar væri talin nauðsyn að eitra fyrir refinn á Arnarvatnsheiði, vegna þess að það er sannað, að þar sem refurinn nær ekki að sjó, gengur hann miklu betur í eitrið en þar sem hann nær til sjávarfanga. Þess vegna er lítt hugsanlegt að útrýma þessu meindýri þaðan nema með eitrun. Og ég skal í því sambandi benda á grg., sem fylgdi frv. til l. um eyðingu refa og minka, þegar það var lagt hér fram á Alþingi 1957, og það var ekki ómerkari maður en oddviti Hvítársíðuhrepps, Andrés Eyjólfsson í Síðumúla, fyrrv. alþm., sem vann þar að, og frá honum og þeim, sem bezt máttu þekkja þau heiðarlönd, kom álitsgerð, sem birt er á 12. síðu í því þskj. Og hér er ekki um neina flysjunga að ræða, og þessir menn vita alveg eins, hvaða aðferð er heppilegust til þess að eyða þessari meinvætti, eins og þeir í Vestur-Húnavatnssýslu, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr þeirra kunnáttu. En það er sem sé staðreynd, að á stóru heiðarlöndunum verður eitrunin að eiga sér stað, ef refurinn og minkurinn eiga ekki að valda þar stórtjóni, og samkv. 11. gr. núgildandi laga er hægt að ná því takmarki, sem hv. flm. og stuðningsmenn þessa frv. stefna að, sem sé að vernda örninn. Hér er sem sé aðeins verið að fara inn á það að banna þeim að nota eitrunina, sem telja það heppilegustu leiðina til að útrýma þessum meindýrum. Það er röng stefna að gera þetta, þar sem hægt er að ná hinum árangrinum, og þess vegna eigum við að fella 2. gr. þessa frv.