08.05.1964
Neðri deild: 95. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Út af þeim orðum, sem hæstv. forsrh, lét falla út af fram komnum brtt., vil ég aðeins taka íram, að mér er að sjálfsögðu ekki kunnugt um afstöðu borgarstjórnar Reykjavíkur til þess, hvernig hún mundi heita þessum heimildarákvæðum, þó að ég þykist þeirrar trúar, eins og hæstv. forsrh., að hún muni vart beita þeim það hörkulega að banna búfjárhald við tilraunastöðina á Keldum. En ástæðan til þess, að meiri hl. tók þetta upp í frv., er sú, eins og ég lét hér koma fram áðan, að til n. bárust tvö erindi, annað frá læknadeild Háskóla Íslands og hitt frá tilraunastöðinni á Keldum, þar sem þess var sérstaklega farið á leit við n., að hún tæki upp till. um att undanþiggja búfjárhaldið á tilraunastöðinni ákvæðum laganna. Ég hef því miður ekki bréf frá tilraunastöðinni hér undir höndum, en bréf háskólans hef ég hér, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég leyfa mér að lesa það upp:

„Athygli læknadeildar háskólans hefur verið vakin á því, að frv. til l. um búfjárhald í Reykjavik, 128. mál, sem nú liggur fyrir hv. Alþ., kunni að ná til tilraunastöðvar háskólans í meinafræði að Keldum, ef að lögum verður, þar sem land tilraunastöðvarinnar er innan marka höfuðborgarinnar. Tilraunastöðinni er vitanlega óhjákvæmilegt að hafa frjálsar hendur um búfjárhald, eftir því sem viðfangsefni stofnunarinnar krefjast á hverjum tíma. Það eru því eindregin tilmæli læknadeildar, að tilraunastöð háskólans í meinafræði á Keldum og aðrar vísindastofnanir verði undanþegnar ákvæðum fyrirhugaðra laga um bann eða takmörkun búfjárhalds.“