11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

Almennar stjórnmálaumræður

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í þessum eldhúsumræðum væri vissulega freistandi að feta troðnar slóðir og fylgja gömlu reglunni að fordæma orð og gerðir andstæðinga sinna, en hrósa bæði flokki sínum og flokkssystkinum og kannske sjálfum sér um leið, eins og heyra mátti hjá siðasta ræðumanni Alþb. hér í kvöld. En grunur minn er sá, að þeir tiltölulega fáu hlustendur, sem á þessar umr. hlýða, séu fyrir löngu búnir að fá sig fullsadda á slíkum lestri, áður en yfir lýkur, því að þeir eru að mínu mati í stórum meiri hl., sem óska eftir jákvæðum umr. um eitt erfiðasta vandamál íslenzku þjóðarinnar um 20 ára skeið, verðbólguvandamálið.

Auðvitað munu margir, sem nú koma fram fyrir hlustendur, ræða mál þetta, þarf að öllum þm. er það ljóst, að þorri kjósenda óskar eftir að heyra mat þeirra á þessu máli og þeirri ískyggilegu þróun, sem verðbólgunni fylgir. Gallinn er sá, að hér er um svo margþætt vandamál að ræða, að fáum einstaklingum mundi auðnast að gera því þau skil, sem verðugt væri, allra sízt á þeim stutta tíma, sem hverjum einum er ætlaður í þeim umræðum, sem hér fara fram.

Af gamalli reynslu er ég líka hræddur um, að margir mundu gleyma fyrsta skilyrði þess, að slíkar umr. yrðu jákvæðar, því, að horfast í augu við ríkjandi aðstæður, en láta í þess stað stjórnast af sýndarmennsku, stéttaröfund og pólitísku hatri. Slík framkoma viðkomandi aðila er ekki árangursrík til að finna raunhæfa lausn á margþættu og erfiðu vandamáli. Í meðferð þess eins og annarra vandamála verður að ríkja jarðbundið raunsæi og yfirvegað mat á fyrirliggjandi aðstæðum.

Með þetta í huga fullyrði ég, að þegar hinir pólitísku flokkar koma fram fyrir alþjóð í þinglok, þá mun hinn almenni borgari ekki óska eftir upplýsingum um dugnað einstakra þm. fyrir kjördæmi sín, heldur eftir skoðunum þeirra á ráðum og leiðum til að sigrast á verðbólguvandamálinu.

Ein er sú spurning, sem er á allra vörum, spurningin um það, hvort viðræður ríkisstj, við ráðandi aðila í Alþýðusambandi Íslands geti leitt til samkomulags, sem verði nauðsynlegur grundvöllur til að standa á í baráttunni við verðbólguna. Auðvitað getur enginn svarað þessari spurningu nú. En eru þessir aðilar að sýnast, eða fylgir hugur máli í þessum þýðingarmiklu viðræðum? Það er ekki þýðingarminnst, og á það er vissulega hægt að leggja mat.

Frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum, hefur eitt aðalárásarefni stjórnarandstöðunnar verið fullyrðing um, að allar aðgerðir ríkisstj. beindust að því að gera þá fátæku fátækari og ríku ríkari, samhliða sérstökum árásum á hina skipulögðu verkalýðshreyfingu. Bezta svar, sem hægt var að gefa við slíkri firru, var svar kjósenda í síðustu þingkosningum, enda slíkar fullyrðingar barnalegar, þegar haft er í huga, að allur þorri Íslendinga er á einn eða annan hátt tengdur, beint eða óbeint, skipulögðum launþegasamtökum og því ekki hægt að komast fram hjá þeirri staðreynd, að fylgi stjórnarflokkanna kemur ekki síður úr þessum röðum en fylgi stjórnarandstöðunnar.

Þetta ásamt margháttuðum aðgerðum til styrktar þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu á hverjum tíma, og á ég þá sérstaklega við sjúka og aldraða, auk aðstoðar til styrktar starfi verkalýðshreyfingarinnar, bæði félagslegu starfi inn á við og vinnubrögðum út á við, sýnir og sannar, að ríkisstj. vill eiga gott samstarf við þessi fjölmennu hagsmunasamtök og öll önnur, og því ber ekki að efa, að frá hennar hendi sé fullur vilji til þess, að samkomulag náist í þeim viðræðum, sem yfir standa. Stóra spurningin er þá sú, hvort þeir, sem ferðinni ráða í Alþýðusambandi Íslands, séu sömu skoðunar eða ekki.

Í ríkisútvarpinu mátti heyra fyrir tæpu ári, að forseti Alþýðusambandsins boðaði í nafni þessara samtaka ríkisstjórninni stríð, en ekki frið. Þótt sumir vildu taka þessi orð eins og fleiri úr þeim munni sem marklaust hjal, þá er skaðinn samt skeður, jafnvel þótt um styrjöld sé ekki að ræða. Neikvætt starf í stað jákvæðs og tortryggni við orð og gerðir samtakanna eru eðlilegar afleiðingar slíkrar framsetningar á skoðunum þeirra, sem meta meira pólitíska eiginhagsmuni en hagsmuni þeirra samtaka, sem þeir hafa forustu fyrir. En þær skoðanir, sem menn mynduðu sér vegna þessarar stríðsyfirlýsingar Hannibals Valdimarssonar og fyrri og síðari aðgerða, urðu þó að víkja fyrir þeirri staðreynd, að fyrir nokkrum vikum kom ósk frá Alþýðusambandi Íslands um viðræður við ríkisstj. á grundvelli, sem bæði varð að teljast viðræðuhæfur og að mörgu leyti eðlilegur.

Þær aðferðir, sem ráðamenn Alþýðusambandsins ætluðu að beita við skipan viðræðunefndar, bentu þó sízt til þess, að um hugarfarsbreytingu væri að ræða né skilningur væri fyrir hendi á nauðsyn þess, að verkalýðshreyfingin stæði óklofin að þýðingarmestu tilraun, sem gerð hefur verið um langan tíma til að stöðva verðbólguna. An þess að rekja þá sögu nánar, virðist svo sem aðrir af ráðamönnum Alþýðusambandsins hafi verið það raunsæir að álykta, að klofin verkalýðshreyfing væri ekki vænleg til jákvæðs árangurs, ef hvor helmingur samtakanna væri að togast á í sínu horni, fullir tortryggni og gagnrýni hvor í annars garð. Þessir aðilar höfðu styrkleika til að bjóða í nafni Alþýðusambandsins þeim formlegu samtökum, sem lýðræðissinnar í verkalýðshreyfingunni ráða yfir, Fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík, að taka þátt í þessum viðræðum, og hefur stjórn þess ákveðið að þiggja það boð.

Ég hef verið langorður um þetta mál, því að niðurstaðan verður svar við spurningunni, sem ég varpaði fram í byrjun ræðu minnar.

Núverandi afstaða beggja þessara aðila fær mig til að trúa því, að upp úr þessum viðræðum ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar náist samkomulag, sem verði ekki aðeins til mikilla hagsbóta fyrir þá lægst launuðu strax og á næstu missirum, heldur einnig án þess að verðlagshækkanir fylgi í kjölfarið, sem eti upp á stuttum tíma megnið af fenginni kjarabót, sem sé að verðbólgan verði stöðvuð.

Með slíku samkomulagi þyrfti um leið að tryggja lengri samninga launþega og vinnuveitenda. Hv. 3. landsk. þm., formaður Dagsbrúnar, sagði hér á Alþingi fyrir skömmu, að forustumenn baeði verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda væru svo önnum kafnir við sífellda kaup- og kjarasamningagerð, að önnur þýðingarmikil störf í þágu samtakanna væru látin víkja. Þetta er alveg rétt, og á þessu þarf að verða breyting. Þessi samtök þurfa að gera hlé á dægurbaráttu sinni í a.m.k. 2 ár, svo að þau geti endurskoðað skipulag sitt, hent frá sér úreltum starfsaðferðum og starfskröftum, en tekið upp vinnubrögð og skipulag, sem heyrir til tæknialdar. Þessir aðilar þurfa að leggja megináherzlu á hin sameiginlegu hagsmunamál, hafa það hugfast, að framleiðslan og framleiðnin ákveður, hvað hver hlýtur í sinn hlut. Þann hlut geta báðir aðilar í sameiningu unnið að því að stækka, eins og samtök þessara aðila hafa beitt sér fyrir í nágrannalöndum okkar um margra ára skeið.

Kannske verða gleðilegustu endurminningar mínar frá þessu þingi þau raunhæfu spor, sem stigin hafa verið áleiðis út úr þeim vítahring, sem við höfum snúizt í síðustu áratugi. Ég nefni tvö önnur dæmi. Annað er frv. ríkisstj. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar. Með þessari breytingu tekur atvinnuleysistryggingasjóður að sér að standa undir kostnaði við hina svokölluðu kjararannsóknarnefnd. Með þessu er stigið fyrsta sporið til grundvöllunar sérstakri hagstofnun vinnumarkaðsins, en á nauðsyn þess hef ég oftlega bent á undanförnum árum. Vissulega tek ég undir þá skoðun, sem fram hefur komið, að kjararannsóknarnefnd, eins og hún er nú skipuð, fullnægir hvergi nærri þeim kröfum, sem gera verði til aðildar hennar. En það breytir ekki því, að með lagasetningu þessari er viðurkenning fengin á þörf samtakanna fyrir slíka stofnun frá þeim sjálfum og Alþingi, og það sporið er ekki þýðingarminnst. Hitt er það ákvæði 17. gr. fjárl. fyrir yfirstandandi ár, er fjallar um 2 millj. og 200 þús. kr. framlag til framkvæmdar áætlunar um opinberan stuðning við samtök vinnumarkaðsins vegna hagræðingarstarfsemi. Áætlun þessi var samin af Sveini Björnssyni, frkvstj. Iðnaðarmálastofnunar Íslands, að tillögu vinnutímanefndar, og var gert ráð fyrir, er áætlunin var samin, að um 7 ára áætlunartímabil sé að ræða með samtals 15 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði í þessu skyni. Fjárveitingin er bundin stuðningi við samtök vinnumarkaðsins, og er þess að vænta, að undirbúningur hefjist nú þegar, svo að innan skamms tíma eigi helztu samtökin á að skipa sérfræðingum í vinnurannsóknum og hagræðingarmálum, sem veiti síðan forstöðu hagræðingardeildum samtakanna, sem með þessi mál eiga að fara.

Vinnutímanefnd varð fljótlega ljóst í starfi sínu, að þekking viðkomandi aðila hér á landi á framleiðniaukandi aðgerðum væri í slíku lágmarki, að byggja yrði frá rótum þá fræðslu og skilning, sem með þyrfti. Og vegna þess var framangreind till. borin fram við ríkisstj. og áframhaldandi störf n. m.a. mótuð af því.

Launþegum er öðrum frekar ljóst, að þótt flestum þeirra sé nú á einn eða annan hátt framkvæmanlegt að láta peningatekjur sínar fylgja verðlagi, þá hefur verðbólgan þau áhrif að færa þjóðarauðinn á hendur sem fæstra, úr hendi hinna mörgu smáu sparifjáreigenda í skaut stórfyrirtækja og skuldara. Tryggingastarfsemi öll fer úr skorðum, bæði elli- og líftryggingar. Aldrað fólk, sem lifir á sparifé sínu, er stöðugt að tapa, og mætti svo lengi telja.

Segja má því, að verðbólgan hafi ekki aðeins áhrif á eignaskiptinguna, heldur á tekjuskiptinguna líka í þá átt að gera hana ójafnari en hún var fyrir.

Það er því fyrst og fremst hagur launþegans á Íslandi, að verðbólgan verði stöðvuð. Það gerist ekki, nema samtök verkalýðsins taki höndum saman við ríkisstj. um samkomulag, sem leiði ekki til nýrrar kröfugerðar né nýrra verðhækkana, heldur raunhæfra kjarabóta. Góða nótt.