12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

Almennar stjórnmálaumræður

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 11. þm. Reykv., Einar Ágústsson, vék hér í ræðu sinni áðan að húsnæðismálunum, en láðist samt að geta þess, að á undanförnum árum hafa útlán húsnæðismálastjórnar verið helmingi meiri en í tíð vinstri stjórnarinnar.

Hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, sem talaði hér áðan, þótti lítið koma til þáltill., sem ég hef borið fram og gerir ráð fyrir, að athugað sé, hvort aðstoð fáist frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Við öðru var ekki að búast. Þeim framsóknarmönnum lízt bezt á sýndartill. þær, sem þeir sjálfir hafa verið að flytja hér á Alþingi um árabil.

En í öllu því moldviðri, sem stjórnarandstaðan þyrlar upp í þessum umr., skulum við ekki missa sjónar af þeirri staðreynd, að þegar efnahagsmálastefna núv. ríkisstj. var mótuð árið 1960, var horfið frá því skipulagi hafta og uppbóta, sem hér hafði ríkt um áratugaskeið. Það var miðað að því að taka upp nýtt skipulag, sem skapaði þegnunum aukið frelsi til athafna og dáða í stað hafta og banna af hálfu ríkisvaldsins. Síðan hafa íslenzk stjórnmál fyrst og fremst snúizt um það, hvort takast mætti að framkvæma hina nýju stefnu. Höfum þetta í huga þeim mun fremur, þar sem þeir, sem berjast gegn hinni nýju skipan, hafa forðazt frá fyrstu tíð í öllum málflutningi sínum og áróðri að segja hug sinn allan í þessu efni. Í hug sínum og hjarta vill stjórnarandstaðan ekkert frekar en þessi stefna ríkisstj. mistakist í framkvæmd, vegna þess að þeir vilja og þeir þrá hið gamla skipulag, en þeir hvorki þora né geta sagt það, vegna þess að enn er í of fersku minni, að hið gamla hafta- og uppbátakerfi hafði gengið sér til húðar, þegar vinstri stjórnin gafst upp, og reynsla almennings af hinni nýju skipan er þess eðlis, að fólk fýsir ekki að snúa aftur til gamla tímans.

Þegar frv. um efnahagsmál kom fram árið 1960, sagði þáv. formaður Framsfl., 1. þm: Vestf., Hermann Jónasson, af mikilli dulúð, að ekki mætti beita þjóðarskútunni upp í skilningsstraum fólksins. Annar þm. og orðhagur mjög, hv. 1. þm. Norðurl. e., Karl Kristjánsson, sagði, að till. frv. byggðust á lögmálum vetrarins, frostsins, sem takmarkar gróðurinn, og þær væru fyrir gráður félagshyggjunnar eins og ís legðist að landi á vordögum. Menn verða ekki margs vísari af slíkum ummælum sem hessum. Stjórnarandstaðan hefur heldur aldrei kært sig um að ræða sjálft grundvallaratriðið, hefur eðlilega fundið sig standa höllum fæti í slíkum umr. En verkin tala. Stjórnarandstaðan hefur staðið gegn viðreisnarstefnunni í heild og hverjum einstökum veigamiklum þætti hennar.

Framsfl. vill ekki hverfa frá gamla skipulaginu, því að við það hefur hann miðað tilveru sína, skipulag og starfshætti alla. Framsfl. hefur alltaf lagt megináherzlu á það að hafa aðstöðu gegnum ríkisvaldið til að deila út gæðum, skammta leyfi og beita bönnum gagnvart þegnum þjóðfélagsins og talið jafnan, að hann ætti meira undir misnotkun slíkrar aðstöðu en beinni málefnabaráttu. Kommúnistar aftur á móti, í hvaða reyfi sem þeir kunna að ganga á hverjum tíma, kjósa heldur hið gamla skipulag hafta og banna, því að þeir meta það rétt, að slíkt fyrirkomulag ber í brjósti sér dauða þeirrar þjóðfélagsskipunar, sem þeir vilja feiga. En hvað þykist Framsfl. vilja? Þeir kalla stefnu sína framfara- og uppbyggingarstefnu. Þeir segjast vilja vinna að framförum og uppbyggingu atvinnuveganna um allt land, kjör fólks þurfi að bæta og framleiðsluaukning þurfi að verða til hagsældar fyrir alla þjóðina. Þessu hampa þeir, og þetta kalla þeir þjóðmálastefnu. En ég spyr: Hvaða stjórnmálaflokkur fyrirfinnst, sem telur sig ekki geta tekið undir, að vinna beri að þjóðarhag? Um það er ekki ágreiningur á milli flokka, heldur hitt, með hverjum hætti verði bezt unnið að þjóðarhag. Það er um það, sem deilurnar standa. Undan þessum staðreyndum víkja framsóknarmenn sér, þeir vilja ekkert af slíku vita. Þeir segja, að deilan standi milli Framsfl., sem vinni að þjóðarhag, og ríkisstj., sem vinni gegn þjóðarhagsmunum að yfirlögðu ráði. Þeir halda fram, að ríkisstj. vilji kreppuástand í landinu. Þeir halda fram, að ríkisstj. vilji magna dýrtíð í landinu. Þeir halda fram, að ríkisstj. vilji atvinnuleysi í landinu. Þeir halda fram, að ríkisstj. vilji ekki framfarir í landinu. Með slíkum áróðri og fullyrðingum hafa framsóknarmenn látið sér sæma að misbjóða dómgreind almennings ár eftir ár. Slík ósvinna er þeim mun vítaverðari, þar sem svo sannarlega vita þeir, hvað þeir gera. Þetta er gert undir forustu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, sem sagði fyrr á árum í umr. á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held, að þeir menn, sem láta sér til hugar koma, að nokkur ríkisstj. skapi að yfirlögðu ráði kreppu til þess að geta rýrt afkomu almennings, meðan hún situr að völdum, sé í því ástandi andlega, að þeir þurfi annarrar hjúkrunar við en þeirrar, sem hægt er að veita í svona umr.

Ég hygg, að þessi ummæli Eysteins Jónssonar séu enn í fullu gildi. En til slíks andlegs ástands má rekja þá forheimskun, sem einkennt hefur allan málflutning Framsfl. á tandanförnum árum. Í þessu andlega ástandi geta menn haldið fram, að tollalækkanir séu tollahækkanir, vegna þess að lækkun tolla dregur úr smygli, þannig að heildartolltekjur ríkissjóðs aukast þrátt fyrir tollalækkunina. Í þessu andlega ástandi geta menn sagt, að skattalækkanir séu skattahækkanir, vegna þess að þróttmeira athafnalíf eykur gjaldstofnana og gefur meiri heildarskatttekjur í ríkissjóð þrátt fyrir skattalækkunina. 1 þessu andlega ástandi geta menn sagzt vera með því að auka gjaldeyrissjóði landsins, en barizt gegn bindingu sparifjár í Seðlabankanum, sem er óhjákvæmilegt skilyrði þess, að gjaldeyrissjóðurinn geti aukizt. Í þessu andlega ástandi geta menn heimtað aukin útlán frá lánastofnunum, en barizt fyrir þeim ráðstöfunum, sem draga úr því trausti almennings á gjaldmiðlinum og fjárhagskerfinu, sem fær menn til þess að leggja fram sparifé, sem er grundvöllur útlánanna. Í þessu andlega ástandi geta menn sagzt vera með auknum almannatryggingum, en gert að árásarefni lækkun fjárl., sem stafar af auknum framlögum til trygginganna. Í þessu andlega ástandi gátu menn stöðugt stagazt á því á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar, að stórkostlegt atvinnuleysi væri yfirvofandi, en á einni nóttu fyllzt vandlætingu yfir vinnuþrælkun, sem þjóðin væri þjökuð af. Allt þetta verður skiljanlegra, þegar höfð eru í huga ummæli Eysteins Jónssonar, sem ég viðhafði hér áðan, þótt framferðið sé hins vegar ekki afsakanlegt. En hitt er vafalaust rétt, sem Eysteinn sagði, að þeir, sem eru í þessu ástandi, þurfa annarrar hjúkrunar við en þeirrar, sem hægt er að veita í svona umr.

Í umr. þessum hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar kyrjað þann söng, að viðreisnin hafi farið út um þúfur og jafnvægi efnahagslífsins sé rokið út í veður og vind. Vist eru miklar blikur á lofti og vandi á höndum, sem bregðast þarf við af raunsæi og taka þarf föstum tökum. En viðreisnarstefnan var annað og meira en viðhald stöðugs verðlags, þótt það sé mjög veigamikið grundvallaratriði. Stefnt var að sterkari stöðu út á við og miklum og vaxandi framleiðsluafköstum, heilbrigðu verðmyndunarkerfi, fjárhagskerfi með vel uppbyggðum lánastofnunum. Stefnt var að lækkun tolla og skatta og hvers konar umbótum í ríkisrekstri. Stefnt var að frjálsri verzlun og frjálsu vöruvali neytenda, og svo mætti áfram telja. Að þessum verkefnum hefur verið unnið af slíkri kostgæfni, að árangurinn er öllum augljós. Viðreisnin hefur þannig reynzt þróttmeiri og lífvænlegri en stjórnarandstaðan gerði ráð fyrir og vill nú vera láta.

Þjóðin er vissulega á farsælli framfarabraut á grundvelli viðreisnarinnar. En óleystur er sá vandi að tryggja viðunandi verðfestu, og vil ég á engan hátt lítið úr þeim vanda gera. En þegar við metum árangurinn af störfum ríkisstj., er nauðsynlegt að hafa í huga það, sem ég vék að í upphafi máls míns. Ríkisstj. markaði þá stefnu að afnema hafta- og uppbótakerfi og koma á frjálsu efnahagskerfi. Slíkt hafta- og uppbótakerfi, sem við bjuggum við, hefur á síðari tímum ekki viðgengizt í lýðfrjálsum löndum nema á hallæris- eða stríðstímum. Haftaskipulagið skapar sínar venjur og starfshætti á hinum ýmsu sviðum athafna- og þjóðlífsins. Menn vinna undir öðrum skilyrðum en í frjálsu efnahagskerfi. Þegar hið frjálsa efnahagskerfi er innleitt á ný, þurfa menn að aðlaga sig nýjum háttum. Menn þurfa að læra að nota frelsið og ekki misnota það. Þetta gengur ekki alltaf snurðulaust, eins og dæmin sanna frá stríðslöndunum eftir síðari heimsstyrjöldina, þótt haftakerfið hefði ekki staðið nema meðan á styrjöldinni stóð. Hvað halda menn þá hér á landi, þar sem við höfum búið við meira og minna haftakerfi, svo að áratugum skiptir, og meira að segja lengst af undir handarjaðri Framsfl., og haftakerfið útfært af framsóknarréttlæti er sennilega nokkurn veginn það versta skipulag, sem hugsazt getur. En þrátt fyrir þetta verður ekki sagt annað en íslenzkt athafnalíf hafi aðlagað sig hinu nýja efnahagskerfi, bæði vel og fljótt, þótt að sjálfsögðu séu ýmsir misbrestir á, sem enn á eftir að ráða bót á.

En það hefur orðið hlutskipti stjórnarandstöðunnar að einbeita áróðri sínum og undirróðri til þess að auka á alla erfiðleika, sem eðlilega hljóta alltaf að skapast, meðan verið er að koma á svo róttækum breytingum í efnahagskerfinu sem hér hefur verið gert á undanförnum árum. Þetta hefur þeim tekizt misjafnlega vel, og hefur það farið eftir aðstöðu þeirri, sem þeir hafa haft til þessarar iðju sinnar á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. En mestum árangri hafa þeir náð í starfsemi sinni á sviði kjarabaráttunnar, með þeim afleiðingum, að verðbólga og dýrtíð hefur vaxið stórlega, svo sem kunnugt er.

Það er ekkert nýtt, að kommúnistar séu ábyrgðarlausir í kjaramálunum. Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefur sagt í því tilefni í almennum útvarpsumr. hér á Alþingi á fyrri árum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ákæri stjórnarandstæðinga fyrir að hafa fallið fyrir freistingu þeirri, sem háskalegust er, að vera ábyrgðarlausir á háskastund og vinna það fyrir von í fylgi þeirra skammsýnustu að vinna skemmdarverk á þeim framkvæmdum, sem þeir sjálfir vita, að voru óumflýjanleg nauðsyn.“

Þetta er þung ákæra, en hún er sönn. Þessi ummæli Eysteins Jónssonar þarfnast ekki annarra skýringa en þeirra, að þau voru viðhöfð, þegar Eysteinn var í stjórn með Ólafi Thors, en Ólafur kom öllum til nokkurs þroska, eins og sagt var forðum um annan merkan mann. En ólán Eysteins er það að hafa ekki ávaxtað sitt pund betur en svo, að slík ummæli hitta í dag fyrst og fremst Eystein sjálfan, sem beitir nú öllu atfylgi framsfl. að því að styðja skemmdarverk kommúnista.

Herra forseti. Þó að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir ávirðingum stjórnarandstöðunnar, þá er hitt nauðsynlegra, að allir skynsamir og góðir menn bindist nú samtökum um að leysa þann mikla vanda, sem við er að glíma í kjaramálunum. Og það er einmitt í þessu efni, sem höfuðvandinn stendur í dag. Undir lausn kjaramálanna er það komið, að takast megi að framkvæma það veigamikla grundvaliaratriði í viðreisnarstefnunni að koma á og viðhalda stöðugu verðlagi. Að þessu verða allir þeir að vinna, sem tryggja vilja það, að hafnað verði endanlega hafta- og uppbótakerfinu, að þessu verða allir þeir að vinna, sem tryggja vilja það, að fram nái að ganga þjóðarviljinn, sem fram kom í síðustu alþingiskosningum. Það er hlutverk sjálfstæðismanna um land allt að vinna af alefli að því, að hið frjálsa efnahagskerfi, sem viðreisnarstjórnin hefur komið á fót, fái staðizt og borið þann árangur til heilla landi og lýð, sem vonir okkar og hugsjónir standa til. Við munum hlýða kalli hins nýja tíma, um leið og við segjum við niðurrifsmennina: Hingað og ekki lengra.