17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

95. mál, vegalög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði í hyggju að taka til máls við 2. umr. þessa máls, en með því að dagskrá var mjög ásett þann dag, sem málið var til umr., og áherzla lögð á að ljúka umr. þá, þá frestaði ég því að taka til máls um frv. um sinn, en vildi nú leyfa mér að segja um það nokkur orð hér við 3. umr., jafnframt því sem ég geri grein fyrir brtt. nokkrum, sem ég hef leyft mér að bera fram við frv. á þskj. 152.

Það er víst óhætt að segja, að á flestum þingum, síðan breyting var gerð á vegalögum síðast, 1955, hafi hv. alþm. borið fram till. um opnun vegalaganna. Síðan eru nú liðin 8 ár, og allan þennan tíma hafa vegalögin ekki verið opnuð, sem kallað er, enda þótt fyrir hafi legið fjöldi till. um að taka nýja vegi upp í tölu þjóðvega. Það eru því ekki alllítil tíðindi hér á Alþingi og í rauninni fyrir gjörvalla landsbyggðina, þegar sú stund er nú runnin upp, að ekki aðeins stendur til að opna vegalögin, heldur að setja algerlega ný vegalög, sem eru að ýmsu leyti mjög frábrugðin þeim vegalögum, sem í gildi hafa verið.

Vegamál eru og hafa löngum verið hér á Alþingi meðal þeirra mála, sem öll landsbyggðin hefur fylgzt með af mestum áhuga og einna erfiðust hafa verið í afgreiðslu fyrir þm. Nú, þegar það stendur til að gerbreyta þessari löggjöf, hefði það verið mjög æskilegt, að þingið hefði haft rúman tíma til þess að sinna henni og afgreiða hana. Svo margir eru það víðs vegar um land, sem láta sig varða ákvæði þessara laga, að það hefði verið æskilegt, að þm. hinna einstöku kjördæma hefðu haft aðstöðu og ráðrúm til þess að bera sig saman við ýmsa slíka aðila víðs vegar um landið og leita álits þeirra. Jafnvel má segja, að það hefði ekki verið óeðlileg meðferð á þessu máli, að það yrði látið bíða milli þinga, eins og stundum er um skipulagsbreytingar, þannig að þjóðinni gæfist kostur á að átta sig betur á málinu. Nú er það svo, að það er ekki liðinn nema hálfur mánuður eða víst tæplega það, síðan þetta frv. var fyrst lagt fram hér í hv. d., og mikill hluti dm. var, eins og tekið var fram við 1. umr., algerlega ókunnugur málinu, vegna þess að undirbúningur hafði verið á þá leið, að það var ekki kunnugt þm, almennt. Einmitt um það leyti, sem frv, er lagt fram, stendur svo á, að þingið er að byrja að fást við lokaafgreiðslu fjárl., og að sjálfsögðu hefur tími alþm. að mjög miklu leyti gengið til þess að fylgjast með og taka þátt í þeirri afgreiðslu, sem venja er að sé aðalmál þingsins þann tíma, sem hún stendur yfir. Þar að auki hefur samgöngum verið þannig háttað í landinu undanfarið af ástæðum, sem hér þarf ekki að greina, að nokkrir erfiðleikar hafa verið á því að ná sambandi milli landshluta fyrir þm., sem það vilja við hafa. En það þarf ekki að orðlengja um það, að ástæðan til þess, að málinu er nú svo mjög hraðað og að tekizt hefur samkomulag í hv. samgmn. um afgreiðslu málsins, er vitanlega sú mikla þörf, sem nú er fyrir hendi á því að auka fé til vegaframkvæmda, en það er einmitt eitt meginatriði þessa frv. að sjá fyrir tekjum á sérstakan hátt til þess að auka fé til vegagerðar. Þetta er að sjálfsögðu ástæðan til þess, að málið er nú afgreitt hér með þessum hraða og að þetta samkomulag hefur tekizt, þessi brýna og aðkallandi þörf vegna ástands vegakerfisins. Og það gerist nú á þann hátt, þessi fjáröflun, að henni fylgir þetta stóra bákn, frv. til vegalaga, sem hér liggur fyrir. Ég hefði talið, að það hefði verið æskilegra, að afgreiðsla þessa vegamáls hefði getað orðið á þá leið, að fjár hefði verið aflað til vegagerðar, en eitthvað meira ráðrúm hefði verið til þess að spjalla um hinar mörgu breytingar á vegalöggjöfinni og endurskoðun hennar í heild, sem hér er um að ræða.

Ég ætla engu að spá um það, hvernig það skipulag muni gefast, sem hér er gerð tilraun til að taka upp í vegamálum. Enda þótt það sé að sjálfsögðu æskilegt að gera áætlanir fram í tímann, bæði um þessar framkvæmdir og aðrar, bæði um kostnað, þannig að menn hafi einhverja hugmynd um eðli þeirra verkefna, sem fyrir liggja, og um annað í því sambandi, þá á það eftir að sýna sig, hvernig sú tegund áætlunar, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., gefst. Og það er ekki nema eðlilegt, enda veit ég, að það er svo, að landsbyggðin víðs vegar um land elur nokkurn ugg í brjósti um það, að hinar miklu og dýru vegaframkvæmdir, sem nú er farið að gera ráð fyrir hér á suðvesturhorni landsins, þar sem fólksfjöldinn er mestur, sogi til sín svo sem eins og ósjálfrátt bróðurpartinn og vel það af þeim sameiginlega sjóði, sem ætlaður er til vegamála. Og ég geri ráð fyrir því, að það þurfi að hafa í huga á komandi árum, hvort ekki séu ráð til þess að koma í veg fyrir, að hlutur fámennari byggða verði um of skertur eða um of á hann gengið, þegar nú verður farið að gera áætlun á nýjan hátt um úthlutun hins sameiginlega sjóðs.

Þetta vildi ég nú segja almennt um málið, og ég vil einnig segja, að það er ýmislegt í þessu frv. og þá sérstaklega í 12. gr. þess, sem fjallar um hina svokölluðu vegáætlun og skiptingu vega eftir vissum reglum, sem ég hugsa til með nokkrum kvíða, t.d. hvernig ég eigi að skýra ákvæði þessarar greinar fyrir þeim, sem um það spyrja, hvað hún merki. Mér er t.d. ekki ljóst, hvað það merkir, að þjóðbraut skuli vera vegur, sem nær til 1000 íbúa svæðis. Mér er það ekki ljóst, hvernig það á að skýra. Og sumt, í ákvæðunum um landsbraut er einnig þannig, að mér er ekki fyllilega ljóst, hvernig á að skýra það. Hvar á t. d. að kalla vegarenda á þeim vegi, sem ekki er til, ekki hefur verið lagður? Og hvað á að kalla vegarenda á vegi, sem liggur — við skulum segja fram eftir dal og svo sem fjallvegur og yfir í annan dal? Hvar er sá vegarendi? Ég býst við, að þeir, sem mest hafa fjallað um þetta mál, hafi á þessum hlutum sínar skýringar, og uppdrættirnir, sem fylgdu þessu frv. frá vegalaganefndinni, benda nokkuð í þá átt, hvernig þeir, sem að undirbúningi málsins unnu, eða a.m.k. þeir, sem þessa uppdrætti gerðu, hafi viljað hugsa sér þessa skiptingu veganna í flokka. En hvort sú skipan, sem vegakortið sýnir, á alltaf fulla stoð í þeim ákvæðum, sem hér standa í frv., það er annað mál. Ég hef samt ekki lagt út í það að bera fram brtt. við þessi ákvæði. Það er nú svo, að síðar á þessu þingi er eftir sú hin þyngri þrautin, að semja hina margnefndu vegáætlun. Þá mun þetta sjálfsagt skýrast frekar fyrir mönnum, og ekki kæmi mér alveg á óvart, þótt við teldum þörf á því, þegar farið verður að semja hina fyrstu vegáætlun til bráðabirgða, jafnvel þá þegar, að breyta einhverjum ákvæðum í þessu frv. En í sambandi við það vil ég strax koma að brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram og er sú 8. í röðinni á þskj. 152, en sú brtt. fjallar um, að fara skuli fram endurskoðun á þessum lögum innan skamms tíma, og um það, á hvern hátt sú endurskoðun skuli fara fram. Ég tel, að rétt sé að setja inn í lögin ákvæði um endurskoðun, sem fari fram áður en langt líður og á þann hátt, sem sú endurskoðun, sem nú er um að ræða, hefði átt að fara fram.

Ég verð að segja það eins og er, að á þessum tíma, sem liðinn er, síðan frv. kom fram, hefur mér ekki tekizt að gera mér fyllilega grein fyrir öllu, sem í því stendur, og ekki heldur að afla mér upplýsinga, t.d. í tölum, um ýmis atriði, sem ég hefði viljað afla mér upplýsinga um, áður en ég tæki afstöðu til þessa máls eða ætti um það að fjalla. Og ég get vel skilið, að þeim, sem að þessu máli hafa unnið í hv. samgmn., hafi einnig reynzt tíminn nokkuð stuttur til þess að afla sér slíkra upplýsinga. Eigi að síður hef ég gert tilraun til þess að orða nokkrar brtt. við frv., sem ég hef nú leyft mér að leggja fram. Ég lagði þær fram í gærkvöld og afhenti jafnframt eintak af þeim formanni hv. samgmn., og ég sé reyndar, að n. hefur nú tekið upp í hinar nýju till. sínar efni, sem er shlj. sumum þessara till., en veit þó ógerla, hvort hún hefur fjallað um þær til hlítar, enda var henni náttúrlega ekki skylt að gera það, þar sem þær voru ekki formlega fram komnar.

1. brtt., sem ég hef leyft mér, að bera fram, er við 1. gr. og er um það, að aukið sé inn í upptalningu þeirra mannvirkja, sem teljast til vega, þar sem talað er um brýr, jarðgöng, ferjubryggjur og vetrarvegi, þá verði bætt þar inn í hliðum og vegristum á vegum. Þetta eru algeng mannvirki. Vegristarnar eru mjög algengar, þar sem um girðingar er að ræða, og vegagerðin hefur oft gert hlið á girðingar, þar sem vegir hafa verið lagðir í gegn. Mér sýnist eðlilegt, þó að það skipti ekki mjög miklu máli, að þessi mannvirki séu tekin upp á þeim stað, þar sem verið er að telja nokkuð nákvæmlega mannvirki, sem séu hluti af vegagerð. Þess vegna er þessi till. fram komin, aðeins til. þess að auka þessa upptalningu, auka inn í hana mannvirkjum, sem eru staðreynd á vegunum.

Við upphaf 12. gr. hef ég gert brtt., sem er nr. 2 á þskj., en þá brtt. ætla ég að nánar athuguðu máli að taka aftur og mun ekki gera hana að umræðuefni, þ.e.a.s. a-liðinn. En í b-lið brtt. hef ég gert ráð fyrir, að félagsheimilum verði bætt inn í upptalningu þeirra staða, sem ætlazt er til að landsbraut nái til. Þessa till. hefur n. tekið upp, og ég vil því einnig taka hana aftur. C-liður þessarar till. fjallar einnig um þessa upptalningu, sem hér er í 12. gr. um landsbraut í lok þeirrar greinar segir svo: „Sömuleiðis má, þar sem aðalfjallvegur liggur upp úr byggð, telja landsbraut að innsta býli.“ Þetta er sem sé heimild fyrir vegamálastjórnina eða þá, sem fjalla um þessa áætlun, að telja landsbraut að innsta býli í byggð, þar sem aðalfjallvegur liggur upp úr byggð: Ég hef leyft mér að leggja til, að við þetta bætist: „og enn fremur að býli undir heiði, þar sem venja er að gangnamenn safnist saman til heiðasmölunar.“ Ég býst við, að í sumum héruðum landsins kunni mönnum að koma þetta dálítið ókunnuglega fyrir sjónir, þar sem afréttir eru stuttar, en þessi till er byggð á staðarþekkingu í vissum landshlutum, ef svo mætti segja. Það hagar sums staðar svo til, að menn úr einum eða jafnvel fleiri hreppum safnast saman á einn stað til þess að smala mjög stóra afrétt, — afrétt, sem getur tekið eina 2–3 sólarhringa að smala og þar sem gangnamenn liggja í kofa, sem kallað er. Þessi fjöldi gangnamanna úr einum eða fleiri hreppum safnast saman á einn stað á því býli, sem er undir heiðinni. Þetta skapar að sjálfsögðu nokkra umferð, ekki aðeins þegar göngur eru, heldur einnig á öðrum tímum, þegar þarf að vinna að ýmsum framkvæmdum í sambandi við gangnakofa og þess háttar. Mér finnst, að landsbraut megi alveg eins ná að slíkum býlum og að innsta býli, þar sem fjallvegur liggur upp úr byggð, og hef þess vegna borið fram þessa till.

Þá er hér brtt. í tveim liðum við 17. gr. Í upphafi 17. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Vegagerð ríkisins semur í samráði við sýslunefndir framkvæmdaáætlun fyrir sýsluvegi“ o. s. frv: Ég hef lagt til, að þarna komi orðið „vegamálastjóri“ í staðinn fyrir vegagerð ríkisins, og er það í samræmi við aðrar greinar í frv., eins og þær eru nú. Þessa till. hefur hæstv. samgmn. tekið upp, og tek ég hana því aftur.

Í síðari mgr. þessarar greinar segir svo, að sýsluvegaáætlun öðlist gildi, þegar sýslunefnd hefur samþykkt hana og samgmrh, staðfest hana. En í frv. er gert ráð fyrir, að í þessari sýsluvegaáætlun séu sýsluvegir taldir, þannig að það er gert ráð fyrir því, að það þurfi staðfestingu rn., til þess, að sýslunefnd geti gert vegi að sýsluvegum. Sömuleiðis er í 19. gr. talað um samþykktir fyrir sýsluvegasjóði og að þær öðlist gildi, þegar ráðh. hefur staðfest þær. Þetta eru í raun og veru tvö ákvæði um svipað efni, þ.e.a.s. um sýsluvegina, hverjir þeir skuli vera, og um áætlunina, þ.e. a, s. um, hvernig fjármunum skuli varið til þessara vega. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir því, að rn. þurfi að staðfesta ákvörðun sýslunefndar, þ.e.a.s. áætlunina og sýsluvegasjóðssamþykktina. Mér finnst, að um ákvörðun sýsluvega og um sýsluvegaáætlun eigi að gilda svipuð ákvæði og um þjóðvegi og þjóðvegaáætlunina, hliðstæð ákvæði. Það er gert ráð fyrir því, að tveir aðilar fjalli um þjóðvegaáætlun, þ.e.a.s. vegamálastjóri og Alþingi, og að því, er sýsluvegina varðar, virðist mér, að sýslunefndin eigi að vera hliðstæður aðili við Alþingi, þannig að það eigi að nægja, að sýslunefnd og vegamálastjóri fjalli um sýsluvegaáætlun og um sýsluvegasjóðssamþykkt og að það sé óþarft að leggja slíkt undir ráðuneyti á hverjum tíma, þar sem það er ekki gert um þjóðvegina. Þetta er það efni, sem felst í brtt. við 17. gr., b-lið, og brtt. við 19. gr.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. við 20. gr., þess efnis. að sýsluvegasjóðurinn, sem á að annast viðhald sýsluveganna, fái endurgreiddan úr ríkissjóði eða hinu almenna vegafé 1/3 af viðhaldskostnaði. Það er alkunna, að ástand sýsluvega er víða mjög bágborið, vegna þess að sýslurnar eða sýsluvegasjóðirnir hafa haft yfir litlum fjármunum að ráða til sinna framkvæmda. Þetta fé verður nú aukið samkv. þessu frv., og er það vel. Eigi að síður óttast ég, að svo fari nú sem fyrr í þeim héruðum, sem úr minnstu hafa að spila og þar sem verkefni eru mikil, að viðhaldið verði vanrækt. Og ég vildi gjarnan, að það kæmi inn í frv. nokkur hvatning til sýslunefndanna til þess að auka viðhaldið á þann hátt, að úr hinum almenna sjóði kæmi á móti nokkurt tillag, sem ég hef hér lagt til að yrði 1/3 á móti því, sem sýsluvegasjóðurinn leggur fram til viðhaldsins.

Þá hef ég gert brtt. við 45. gr. frv., en 45. gr. fjallar um kostnað við fjallvegi, að hann skuli greiðast úr ríkissjóði samkv. vegáætlun. Sums staðar á landinu, þar sem ég þekki til, hafa bændur gert nokkuð að því nú undanfarið að ryðja leiðir um afréttir. Þetta eru í rauninni ekki vegir í venjulegum skilningi, heldur eru þetta ruddar leiðir, sem færar eru dráttarvélum og jeppabifreiðum og öðrum slíkum farartækjum. Það er til mjög mikils hagræðis í fámenninu, sem sums staðar er í sveitunum, og reyndar víðar, að geta haft slík tæki til aðstoðar við smölun og rúningu í stórum afréttum, slík tæki eins og dráttarvélar eða jeppa. En þó að hér sé ekki um merkilega vegi að ræða, þá kosta þeir samt nokkurt fé, og mér finnst eðlilegt, að úr hinum almenna vegasjóði yrði lagt fram eitthvert fé, sem vegamálastjóri ætti þá að skipta til slíkra framkvæmda.

Ég veitti því athygli við 2. umr. málsins, að þá var samþ. hér í hv. deild till., sem ekki kom frá samgmn., heldur var borin fram af einstökum hv. þm., um að ætla á vegáætlun einhverja upphæð til þess að gera reiðvegi, hestavegi meðfram þjóðvegum. Ég er ekki að lasta þessa framkvæmd, síður en svo. Hún getur verið gagnleg. En ég álít þó, að ástæða sé engu síður til þess að styðja þessa framkvæmd, sem nú er hér nefnd. Ég vil skýra frá því í þessu sambandi, að á síðasta búnaðarþingi var þetta mál til umr. og þar var samþ. ályktun um þetta efni, að fara fram á það, að hið opinbera veitti eitthvert fé til þessara ruddu afréttarleiða. Ég hygg, að vegamálastjóri hafi gert eitthvað að því að styðja svona framkvæmdir, en nú er verið að setja ný lög, og ég vil leggja til, að þetta verði tekið inn í þau. Ég hygg, að það mundi víða mælast vel fyrir og verða til hvatningar, og hér er ekki um stórar fjárupphæðir að ræða.

Við 66. gr. frv., sem er ein af þeim greinum, sem fjalla um vegaviðhaldið, hef ég leyft mér að gera tvær brtt., sem báðar varða snjómokstur á vegum, önnur brtt. er um það, að orðin „að vetrarlagi“ falli niður. Svo háttar til á landi voru, að snjór fellur ekki eingöngu um vetur, heldur einnig um sumar. Ég sé, að hv. n. hefur tekið þetta efni upp í síðustu till. sínar, þess vegna get ég tekið a-liðinn aftur í brtt. við 66. gr. En b-liður brtt. skiptir meira máli, og um hann vil ég fara nokkrum orðum.

Í 66. gr. frv. er kveðið svo að orði, að ef ástæða þykir til að halda vegi akfærum með snjómokstri að vetrarlagi, skuli telja þann kostnað með öðru viðhaldi vegarins. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er vegamálastjóra að binda slíkt vetrarviðhald því skilyrði, að allur slíkur kostnaður eða nokkur hluti hans verði endurgreiddur með framlagi úr héraði, sé um þjóðveg að ræða. Sömu heimild hefur sýslunefnd að því er sýsluvegi snertir.“

Þessum tveim málsl., sem ég nú hef lesið orðrétta, vil ég leggja til að breytt verði nokkuð. Snjómokstur á vegum er mikið vandamál. Það snjóar mikið á þessu landi og að vísu misjafnlega. Atvinnuhættir og þjóðlífshættir eru orðnir slíkir hér í landinu, að það hentar ekki, að alfaravegir, sem akfærir eru, séu lokaðir tímum saman, þannig að ekki verði um þá komizt. Þess vegna hefur ekki orðið hjá því komizt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að moka snjó af vegum. Svo óárennilegt sem mönnum kann að hafa virzt það í öndverðu að leggja út í slíkt, þá hefur það samt reynzt óhjákvæmilegt. En ég ætla, að ég geri engum rangt til, þó að ég leyfi mér að halda því fram, að snjómokstur sá, sem fram hefur farið eða átt hefur sér stað á vegum ríkisins eða vegagerðarinnar, hafi einkum átt sér stað í þeim landshlutum, þar sem umferðin er allra mest. Og það er auðvitað ekki óeðlilegt, að mest þurfi til þeirra aðgerða að kosta, þar sem umferðin er mest og þar sem daglegs þarf að fara um vegina. En einnig á öðrum stöðum víðs vegar um landið, þótt umferð sé ekki eins mikil, þá verður þess oft og tíðum mjög brýn þörf að halda opnum vegi. Þessi þörf verður alls staðar fyrir hendi og í ríkustum mæli þar, sem mjólkurframleiðsla er aðalatvinnugrein í sveitum eða bændur almennt stunda mjólkurframleiðslu. En einnig í öðrum byggðarlögum, þar sem ekki er mjólkurframleiðsla, getur undir ýmsum kringumstæðum verið mjög mikil þörf á því, að vegum sé haldið opnum, ekki endilega daglega, heldur á sérstökum tímum, þegar flutningaþörfin verður mest. En flutningaþörfin milli byggðanna og verzlunarstaða þeirra er nú mörgum sinnum meiri en hún áður var, og það veldur oft hreinum vandræðum, ef vegir teppast til lengdar, þó að ekki sé um daglega, brýna samgönguþörf að ræða í sambandi við mjólkurframleiðslu eða þess háttar. Og ég vil segja það, að ég lít svo á, að þjóðfélagið eigi að viðurkenna þessa þörf hvar sem er á landinu. En til þessa hafa ýmis þau byggðarlög, sem fjærst eru höfuðstöðvunum hér, átt mjög undir högg að sækja um að fá vegi sína opnaða, þó að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða, og ýmsir eru þeirrar skoðunar, að í sumum tilfellum sæti slík byggðarlög verri kjörum en hér tíðkast, þar sem umferðin er mest. Slíkt er ekki eðlilegt, á meðan við viljum hafa landið allt byggt. Ég veit, að það er erfitt að setja nákvæm ákvæði um þetta efni, en ég vil leggja til, að um þetta verði sett leiðbeinandi ákvæði, sem kalla mætti, og hef því lagt til, að þessi hluti gr. orðist svo:

„Snjómokstur skal fyrst og fremst við það miðaður, að haldið sé opnum, þegar brýn þörf krefur, þjóðvegum milli byggðarlags og aðalverzlunarstaðar þess eða markaðsstaðar. Heimilt er að binda snjómokstur því skilyrði, að kostnaður sé að meira eða minna leyti endurgreiddur með framlagi úr héraði, en um endurgreiðslur skulu gilda sömu skilyrði um land allt, eftir því sem við verður komið. Um snjómokstur á sýsluvegi fer eftir ákvörðun sýslunefndar.“

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram. Fjórar till. eða tillöguliði hef ég nú tekið aftur og óska ekki eftir, að þau komi til atkv., aðallega vegna þess, að n. hefur tekið upp sams konar ákvæði. Ég hafði gert mér í hugarlund, að hv. samgmn, mundi, ef till. kæmu fram í hv. d. nú við þessa umr., gefa sér tóm til þess að taka þær til einhverrar athugunar, þegar mælt hefði verið fyrir þeim og hún hefði heyrt þau rök, sem fram kæmu. Nú vil ég mega vænta þess, að hv. n. sjái sér fyrir aðstöðu til þess að geta gert sér grein fyrir áliti sínu á þessum till., og mun ég þá á eftir taka til athugunar, hvort ég vil falla frá þeim að einhverju leyti, t.d. ef efni þeirra verði að einhverju leyti tekið upp af nefndinni.