02.11.1963
Neðri deild: 10. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

Kaupsamningar bæjarstarfsmanna í Vestmannaeyjum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Vegna fullyrðinga í einu dagblaðinu í gær, sé ég mig til þess knúinn að koma fram með yfirlýsingu hér á hv. Alþingi.

Á öftustu síðu dagblaðsins Tímans þennan dag er grein með fyrirsögninni: „Sumum bjargað, aðrir heftir.“ Er í grein þessari fullyrt án fyrirvara, að ég hafi notað mér vitneskju mína um það ákvæði launafrv., að stöðvunin gilti frá því að frv. var lagt fram, og gert meðfulltrúum mínum í bæjarstjórn Vestmannaeyja aðvart um þetta, svo að þeir gætu bjargað kauphækkun starfsmanna þessa bæjarfélags í gegn fyrir stöðvunina, eins og blaðið orðar það.

Ég vil að gefnu þessu tilefni gefa þá yfirlýsingu hér á hv. Alþ., að þessi fullyrðing Tímans er í alla staði ósönn, alröng og að fyrir henni er ekki hinn minnsti fótur. Ég hef á engu stigi samningagerða í Vestmannaeyjum reynt að hafa áhrif á gang þeirra, hvorki til þess að flýta þeim né seinka.

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef um þetta mál heiman úr héraði, hófust viðræður um kaup og kjör starfsmanna Vestmannaeyjakaupstaðar milli starfsmannafélagsins og samninganefndar bæjarstjórnar hinn 18. okt. s.l. A miðvikudag var þeim það langt komið, að samninganefndin hafði fallizt á tölu launaflokka og launaupphæð hvers flokks um sig, en eftir var að semja um niðurröðun starfsmanna í launaflokka. Var ákveðið að bíða með það, þar til borizt hefðu ábendingar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um flokkun einstakra starfsmanna og starfshópa í launaflokka. Þessi ábending barst í pósti til Vestmannaeyja á fimmtudagsmorgun, og var þá um kvöldið endanlega frá þessum málum gengið af hendi samninganefndanna, eftir að þær höfðu fengið vitneskju um launafrv. í gegnum útvarpið og eftir að n. höfðu fengið sjálft frv, í hendur. Í gærkvöld var hins vegar hvorki bæjarráð né bæjarstjórn farið að fjalla um málið.

En í þessu sambandi þykir mér rétt, að það komi hér fram, að starfsmannafélag Vestmannaeyja var vissulega aðvarað, eins og Tíminn orðar það, en ekki af mér, heldur af formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem á miðvikudagskvöld ráðlagði starfsmannafélaginu í Eyjum í símtali að flýta samningum eins og unnt væri.

Ég vil einnig taka fram, að ef ummæli hv. 5. þm. Austf. (LJós) og ummæli hv. 5. þm. Vestf. (HV) í ræðum þeirra hér í gærkvöld um, að einstakir þm. úr stjórnarliðinu, sem jafnframt eru sveitarstjórnarmenn, hafi misnotað aðstöðu sína og aðvarað sína menn heima í héraði um ákvæði launafrv., áður en það var lagt fram á Alþ., ef þetta á við mig, þá nær yfirlýsing mín einnig til þessara ummæla og ber að skoða þau sem dauð og ómerk jafnt og fyrrgreind ummæli Tímans í gær.

Ég held, að það verði ljóst af þessu, að ég var ekki með réttu borinn þeim sökum, sem fram hafa komið í umræddri grein í Tímanum í gærdag, né ummælum fyrrgreindra hv. þm., ef þau hafa átt við mig.