17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

95. mál, vegalög

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég benti á það við 1. umr. þessa máls hversu ákvæði hins nýja vegalagafrv. væru óhagkvæm Kópavogskaupstað og að frv., eins og það var lagt fram, mundi, ef að lögum yrði, verða til þess að koma í veg fyrir, að bætt yrði á nógu skömmum tíma úr því umferðaröngþveiti, sem ríkir á Hafnarfjarðarvegi, þar sem hann liggur um Kópavog. Ég tel, að það megi alls ekki samþykkja á Alþingi nein þau lög, sem hafa að geyma ákvæði, sem geta dregið á langinn framkvæmdir í þessu mikilsverða máli og um leið aukið mjög á fjárhagsskyldur Kópavogsbæjar. Þetta mál, umferðaröngþveitið í Kópavogi og það, að hve miklu leyti vegurinn á því svæði er notaður af öðrum en Kópavogsbúum, hefur síðan verið rætt svo mikið og ýtarlega hér í þessari hv. d. og sameinuðu þingi, að ég tel ástæðulaust að bæta þar neinu við. Málið liggur alveg ljóst fyrir að því leyti. Ég var satt að segja farinn að gera mér vonir um, að lögin yrðu ekki samþykkt á þann hátt, að hlutur Kópavogs yrði gerður verri eftir samþykkt þeirra heldur en áður var, en ég fagna þó því, að ábendingar um sérstöðu Kópavogs skuli hafa orðið til þess, að frv. verði þó í nokkru lagfært að þessu leyti.

Ég tel brtt. þær, sem fram hafa komið frá hv. samvn. samgmn., vera til bóta, en engan veginn fullnægjandi, í þá átt að gera ráð fyrir þeirri algeru sérstöðu Kópavogskaupstaðar og e.t.v. nokkurra örfárra annarra sveitarfélaga, sem um er að ræða í þessu máli. Ég hef því ákveðið að flytja við þessa umr. tvær brtt. við 32. gr. Þetta er raunverulega ein till. í tveim greinum, svo hljóðandi:

„Við 32. gr. frv. bætist: Vegagerð ríkisins skal kosta og annast viðhald og nauðsynlegar endurbætur á þeim þjóðvegum í kauptúnum og kaupstöðum, sem teljast helzta umferðarleið um viðkomandi byggðarlag, hafi hún gert það fram að gildistöku laga þessara.“

Og við 2. mgr. 32. gr. bætist til samræmis við þetta: „sbr. þó síðasta málst. þessarar greinar.“

Þar er vísað til þess málsliðar, sem ég var að gera hér tillögu um. Þessar till. eru skriflegar og of seint fram komnar, og vænti ég þess, að hæstv. forseti leiti eftir afbrigðum, til þess að þær megi koma fyrir. Ég held, að till. skýri sig fullkomlega sjálfar og þurfi ekki að gera aðra grein fyrir þeim en þá, að gert er ráð fyrir að tryggja það, að hlutur engra sveitarfélaga verði með hinum nýju vegalögum verri en hann er nú. Og hitt er ekki síður mikilsvert atriði, að hér er um miklu meira en hagsmunamál Kópavogsbæjar og kröfur hans að ræða, hér er líka um að ræða kröfur allra þeirra, sem nota þennan veg, um, að ráðin verði sem allra fyrst bót á því umferðaröngþveiti, sem þar er um að ræða. En mér sýnist, að lögin, þrátt fyrir þær brtt., sem líklegt er að samþykktar verði, muni tefja framgang þess máls frá því, sem annars væri.

Við 2. umr. um þetta mál fluttum við hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég svo hljóðandi brtt., sem við tókum þá aftur til 3. umr., — hún var um það, að við 30. gr. bættist 4. liður: „Aðeins lítill hluti þjóðvegar skal tilheyra sveitarfélagi, þegar svo stendur á, að fjölfarinn þjóðvegur í kaupstað eða kauptúni er aðalumferðaræð í viðkomandi landshluta og liggur milli annarra byggðarlaga.“ Þessa till. endurflytjum við nú sem varatill. við þær till. mínar, sem ég áðan lýsti, og óskum eftir því, að hún komi til atkv., ef þær till. verða felldar.