12.02.1964
Sameinað þing: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

Umbúðaverksmiðja hraðfrystihúsanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á atriði, sem ég hef orðið var við og er víst rétt að hún athugi, án þess að ég ætlist endilega til þess, að hún svari því sem fsp. nú.

Fyrir nokkru vorum við að samþykkja hér á Alþingi að veita ég held 43 millj. kr. af almannafé til hraðfrystihúsanna í landinu. Nú las ég það í Morgunblaðinu í morgun og hafði raunar séð þess getið líka í Þjóðviljanum í gær, að hraðfrystihúsin eða ýmsir eigendur þeirra væru nú að athuga að koma hér upp nýrri kassagerð. Það er kunnugt, að sú kassagerð, sem hér er fyrir og framleitt hefur umbúðir bæði fyrir hraðfrystihúsin o.fl., er með fullkomnustu fyrirtækjum, sem hér eru starfandi í iðnaðinum. Það er enn fremur vitanlegt, að Ísland hefur ekki þörf fyrir nema eina kassagerð, þannig að frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það hrein vitleysa að fara að byggja aðra til. Þegar okkar íslenzku kapítalistar geta ekki komið sér saman um það, hvernig verðleggja skuli umbúðir utan um fiskinn eða annað slíkt, er raunverulega frá þjóðhagslegu sjónarmiði aðeins eitt af tvennu að gera, annaðhvort að setja slíkt eftirlit og yfirstjórn með framleiðslu slíkrar kassagerðar, að öruggt sé, að t.d. hraðfrystihúseigendum finnist þeir ekki á neinn hátt hlunnfarnir, eða hins vegar, að ríkið kaupi slíka kassagerð, reki hana, jafnvel mundi kannske núv. forstjóri fást til þess að vera sjálfur forstjóri og setja eitthvað af mönnum hraðfrystihúsanna í stjórnina, svo að þeir geti litið eftir þessu. Við höfum engin efni á því, Íslendingar, og sízt af öllu ríkið að veita tugi millj. kr. til hraðfrystihúsanna ár eftir ár upp á það, að síðan sé farið að kasta út peningum af þessum aðilum til þess að tvöfalda að einhverju leyti með nýrri fjárfestingu þau fyrirtæki, sem við höfum fyrir í landinu, og láta kannske bæði ganga með halla og allt verði miklu dýrara en ella fyrir alþýðu manna og koma síðan aftur til Alþingis og heimta meira fé. Ég býst við, að það sjái allir aðilar, að svona hlutir geta ekki gengið. Stjórnleysið í þessu atvinnulífi verður okkur allt of dýrt.

Ég vil eindregið mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. taki þetta mál til mjög alvarlegrar athugunar, áður en nokkuð meira gerist í þessu, og láti þá heldur koma til kasta Alþingis, áður en svona vitlaus fjárfesting verður framkvæmd í íslenzku atvinnulífi. Sú fjárfesting, sem þegar er gerð, er nægilega vitlaus hjá okkur, til þess að það sé ekki á það bætandi.