17.10.1963
Neðri deild: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1795)

17. mál, áfengislög

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Lagafrv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á áfengislögum, snertir eitt mesta og viðkvæmasta vandamál þjóðarinnar, áfengisneyzlu æskufólks. Það vandamál er afleiðing þess háskasamlega leiks, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar tekur þátt í og vill ekki vera án, að feta örgranna línu hófdrykkjunnar án þess að falla í hyldýpið, sem við blasir, ef á brestur jafnvægið. Með þeim breytingum, sem hér er lagt til að gerðar verði á áfengislögunum, er gerð tilraun til að koma a.m.k. í veg fyrir, að nokkur hætti sér út á línuna, fyrr en hann hefur náð þeim andlegum og líkamlegum þroska, sem nauðsynlegur er talinn. Ég ætla ekki í tilefni af þessu frv. að ræða áfengisvandamálið almennt, en vildi minnast á nokkur atriði í sambandi við einstakar greinar þess.

Í 1. gr. frv. eru, svo sem segir í aths. með frv., tekin af öll tvímæli um, að hvers konar afhending á áfengi til ungmenna undir 21 eins árs aldri er óheimil. Af því leiðir, að verði uppvíst um ölvun manns undir 21 árs aldri, er það fyrst og fremst staðfesting þess, að einhver annar aðili hefur framið lögbrot. Samkv. því ber vitaskuld að snúast við, þ.e.a.s. að leiða í ljós, hvaðan ungmennið hefur fengið áfengið. Það ber fyrst og fremst að upplýsa. Og ég tel þörf á, að í áfengislögin bætist sérstakt ákvæði þess efnis, að verði ungmenni undir 21 árs aldri uppvíst að ölvun, skuli hverju sinni hefja sérstaka rannsókn á því, hver hefur selt eða veitt áfengið, og beita öllum tiltækum ráðum til þess að rekja þannig afbrotið til upphafs síns. Það, sem fyrst og fremst þarf að tryggja, er, að hver sá, sem brýtur áfengislög á þann hátt að selja eða veita áfengi yngri mönnum en 21 árs, eigi ávallt á hættu, að til hans verði áfengisneyzla ungmennisins rakin við rannsókn. Fram til þessa hefur áhættan í þessu efni verið lítil, en ég tel, að grundvallarskilyrði þess, að lögin nái tilgangi sínum og komi að einhverju haldi, sé, að í hvert skipti, sem lögreglan hefur afskipti af ölvuðu ungmenni yngra en 21 árs, verði undantekningarlaust rannsakað, hver hafi hverju sinni gerzt brotlegur við ákvæði áfengislaganna um bann við afhendingu áfengis til ungmenna. Það er slíkt höfuðatriði, að allt sé gert, sem unnt er, til þess að tryggja, að haldin séu þau lög, sem gilda um bann við afhendingu, sölu eða veitingu áfengis til ungmenna, að ég tel, að ef svo reyndist að dómi þeirra, sem eftirlit eiga að hafa með framkvæmd laganna, að hægara væri að tryggja, að þau væru haldin, ef aldursmarkið væri lægra en 21 árs, þá held ég, að það komi mjög til álita að velja þann kostinn að miða t.d. við 19 ár, það munu a.m.k. einhverjar aðrar þjóðir gera, og beita jafnframt mjög ströngum viðurlögum, ef út af er brugðið, beita t.d. veitingastaði, sem bera ábyrgð á slíkum lagabrotum, tímabundnum lokunum og algerum, ef um ítrekuð brot er að ræða.

Í 2. gr. frv. er ákvæði um, að ökumönnum leigubifreiða og almenningsbifreiða er bannað hvort heldur að taka ölvuð ungmenni til flutnings í bifreiðum nema til heimaksturs eða leyfa þeim áfengisneyzlu í viðkomandi bifreiðum. Í aths. með frv. er þess getið, að áfengisneyzla ungmenna sé allmjög tengd bifreiðaakstri og ákvæði þessarar greinar séu ætluð til þess að draga úr þeim þætti í áfengisneyzlu æskufólks. Nú vita þeir, sem til þekkja, að þær bifreiðar, sem unglingar nota í sambandi við áfengisneyzlu, eru ekki einungis eða fyrst og fremst leigubifreiðar eða almenningsbifreiðar, heldur ekki síður einkabifreiðar, sem oft og tíðum eru í eigu manna, sem stunda það, sem á reykvísku er kallað hark, einkum og ekki sízt í sambandi við dansleiki, sem haldnir eru utan höfuðborgarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, að til þess að ákvæði 2. gr. frv. nái þeim tilgangi, sem þeim er ætlað, þurfi þau að vera víðtækari, nánast þannig, að þau nái ekki einungis til ökumanna leigubifreiða eða almenningsbifreiða, heldur allra ökumanna, enda naumast annað í samræmi við þá almennu niðurstöðu áfengislaganna, að forsenda fyrir áfengisneyzlu manns yngri en 21 árs sé sú, að lögbrot hafi verið framið, þ.e.a.s., að 18. gr. áfengislaganna hafi verið brotin.

Í 2. gr. frv. er þannig ákvæði um, að leigubifreiðar og almenningsbifreiðar megi ekki nota til lögbrota eða yfirhylminga yfir lögbrot. Þau ákvæði hljóta að eiga að gilda um allar bifreiðar, þ.e.a.s. að engum bifreiðarstjóra sé heimilt að taka ölvuð ungmenni til flutnings samkv. frv. nema til heimilis þeirra né heldur megi í nokkurri bifreið leyfa mönnum yngri en 21 árs áfengisneyzlu. Sé ungmenni innan við 21 árs aldurs með áfengi undir höndum, hefur verið framið lögbrot, sem hverjum borgara, bifreiðarstjórum sem öðrum, ber að gera sitt til að upplýsa. Sú skylda hlýtur að ná til allra bifreiðarstjóra, en ekki aðeins ökumanna leigubifreiða eða almenningsbifreiða.

Og þá kem ég þar með að því atriði 2. gr. frv., sem kveður á um, að einungis sé leyft að aka ölvuðum ungmennum heim. Ég lít svo á, svo sem ég gat um fyrr, að hendi það, að maður undir 21 árs aldri sé ölvaður, þá hafi fyrst og fremst einhver annar en ungmennið framið lögbrot, nema um þjófnað væri að ræða, einhver hafi brotið áfengislögin með því að selja eða veita því áfengi. Ef koma á í veg fyrir slík afbrot, þurfa þeir menn, sem gerast sekir um þau, fyrst og fremst að eiga á hættu, að þeirra hlutur sé dreginn fram í dagsljósið. Þess vegna ættu lögin að gera ráð fyrir því, að bifreiðarstjórum beri sem öðrum borgurum að stuðla að því, að til sökudólgsins náist, og eigi því að gera yfirvöldum aðvart í stað þess einungis að aka hinu drukkna ungmenni heim.

Ég er sannfærður um, að ákvæði 1. gr. frv. um bann við að afhenda eða veita áfengi yngri mönnum en 21 árs kemur að engu haldi. fyrr en hver sem það gerir veit, að hann á það raunverulega á hættu, að ölvun ungmennisins verði rakin til hans. Til þess þarf undanbragðalausa rannsókn, í hvert skipti sem lögreglu er kunnugt um ölvun manns, sem er yngri en 21 árs.

Þetta er það, sem ég sé ástæðu til þess að taka fram í sambandi við einstakar greinar frv., og ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær það til meðferðar, taki það til athugunar.

Í aths. með þessu frv., sem herðir á ýmsum ákvæðum áfengislaganna og bætir við nokkrum bönnum, er þess getið, að það sé árangur af störfum nefndar, sem skipuð var af hæstv. menntmrh. í júnímánuði s.l. í samráði við dómsmrn. í tilefni atburða, sem urðu í Þjórsárdal hvítasunnuhelgina 1988. Eru till. n. varðandi endurskoðun áfengislaga hinar einu þeirra, sem varða endurskoðun laga. Þess er einnig getið, að veigamestu ráðstafanirnar, sem bent er á í till. n., sem skipuð var lögreglustjóranum í Reykjavík, sálfræðiprófessor við háskólann og formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur, séu um útgáfu persónuskilríkja ungmenna á tilteknum aldri. Samkv, því, sem birt hefur verið um störf n., virðist hún hafa kynnt sér Þjórsárdalsmálið í smáatriðum, og það blasir vitaskuld við, að á bak við þá atburði liggur keðja lögbrota einhverra einstaklinga, sem veitt hafa, afhent eða selt vín til ungmenna undir 21 árs aldri. En hvergi kemur það þó fram, að hve miklu leyti hafi verið hafðar hendur í hári þeirra sökudólga, og ég vildi gjarnan fá það upplýst, að hve miklu leyti n. hefur kynnt sér þá hlið málsins. Það er vitaskuld til lítils að setja lög og ákveða viðurlög við brotum á þeim, ef ekki er gert allt, sem unnt er, til þess að upplýsa afbrotin og beita þá refsingum, sem raunverulega eru sekir. Á einum stað í skýrsluútdrættinum kemur t.d. fram, að lögreglan á Selfossi hafi tekið í sínar vörzlur unga stúlku meðvitundarlausa af áfengisneyzlu, faðir hennar hafi ekki viljað við henni taka eða kosta bifreið með hana til Reykjavíkur, þar sem hún átti heima. Þar endar frásögnin, og ekki er um það getið, hvað gert hafi verið til að upplýsa, hvaðan stúlkunni kom áfengið, hver hafi verið hinn seki. Framhaldið í þessu sérstaka máli mun samkv. þeim heimildum, sem ég hef, hafa verið það, að þegar stúlkan hafði sofið úr sér ölvímuna, ók lögreglan með hana aftur upp í Þjórsárdal, og ég er hræddur um, að þar með hafi ekki meira verið gert í því máli, og að bæði að því er varðar Þjórsárdalsatburðina og önnur brot á þeim lögum, sem banna afhendingu á áfengi til ungmenna, hafi verið of lítið gert að því að draga hina raunverulegu sökudólga fram í dagsljósið, svo að nauðsynlegt aðhald geti skapazt í þessum efnum og öllum verði ljós áhættan af því að veita eða selja ungmennum áfengi.

Till. n. hafa birzt opinberlega nú í morgun og eru að nokkru leyti jákvæðar ábendingar um aukna æskulýðsstarfsemi með tilstyrk bæjarfélaga, og í aths. með lagafrv. þessu er tekið fram, að veigamesta ábendingin sé um útgáfu persónuskilríkja til ungmenna. Litlar till. eru gerðar um jákvætt framlag ríkisins í þessum málum, en hætt er við, að undir hælinn verði lagt, hvað verður um framkvæmdir á ábendingum um aukinn hlut bæjarfélaga, ef ekki koma til bein lagaákvæði, en þá er óeðlilegt að leggja verulega fjárhagsbagga á sveitarfélög með lagaboðum, án þess að ríkið taki þátt í útgjöldunum.

Að öðru leyti þykir mér till. bera nokkurn keim þess, sem um of og einhliða hefur að æskufólki snúið frá opinberum aðilum. Þær virðast, a.m.k. þær, sem mestar líkur eru á að verði framkvæmdar, vera neikvæðar. Og þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið og verið er að taka í samræmi við þær, eru bönn og takmarkanir. Bönn og takmarkanir eru óhjákvæmileg og þurfa meira að segja að vera þannig úr garði gerð, að þau nái tilgangi sínum, þar sem þau eiga rétt á sér. Og bönn og refsingar í áfengismálum þurfa einkum að vera örugglega á þann veg, að þau bitni ekki einungis á unglingunum, heldur fyrst og fremst á þeim, sem draga æskufólk út í drykkjuskap með sölu eða afhendingu áfengisins. En það, sem unglingar og æskufólk þarfnast fyrst og fremst, eru jákvæðar aðgerðir, aðgerðir, sem tryggja æskufólki það, sem ætti að koma í staðinn fyrir það, sem bannað er.

Ég ætla við afgreiðslu þessa máls, sem hér liggur fyrir, aðeins að minnast á eitt atriði í því sambandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar. að í fræðslukerfi okkar vanti í raun og veru annan helminginn af því, sem þar ætti að vera. Fræðslulögin tryggja æskufólki ekki nema hluta af því, sem nauðsynlegt er að það verði aðnjótandi. Skólarnir sjá svo um hina beinu fræðslu, og þar dveljast unglingarnir hluta dagsins, og heimilin sjá ungmennunum a.m.k. fyrir næturstað, hvað sem meira er í hverju tilfelli, en sá tími í daglegu lífi ungmenna, sem mestu varðar að nýttur sé á jákvæðan og hollan hátt, til þess að viðleitni skólanna og heimilanna komi að haldi, er að mestu látinn eftir aðilum, sem fyrst og fremst hafa áhuga á peningum í vösum ungmennanna, en láta sig lítt varða sálar- eða líkamsheill þeirra. Þar er æskufólki fyrst og fremst boðið það, sem gæti fært einhverjum gróða. Vasar ungmennanna eru hin fengsælu mið fyrir peningamenn, sem hafa komið sér upp viðeigandi veiðarfærum til að sækja þangað aflann. Ég er þeirrar skoðunar, að í fræðslulögunum eða einhverri viðbót við þau eigi að gera ráð fyrir því, að tómstundir æskufólks séu til og það sé ekki sama, á hvern hátt þeim er varið. Það sé jafnrík skylda þjóðfélagsins að sjá æskufólki fyrir húsnæði og viðfangsefnum í tómstundum sínum eins og sjá því fyrir skólahúsum og fræðslu. í því þjóðfélagi, sem við búum í, þar sem treyst er á gróðahyggjuna sem hreyfiafl, er ekki hægt að búast við jákvæðum árangri í uppeldismálum, fyrr en fræðslukerfið hefur verið útvíkkað svo, að á sama hátt og það er nú skylda ríkis og sveitarfélaga að byggja skóla í bæjum og sjá ungmennum þar fyrir fræðslu, verði það skylda sömu aðila að reisa æskulýðsheimili og gefa þar hverju ungmenni kost á að nota frítíma sína til hollrar tómstundaiðju, skemmtana og til þess að hittast þar í eigin húsakynnum í skjóli fyrir veiðarfærum þeirra útgerðarmanna, sem gera út á vasa æskufólks. Sá tími þarf að koma, að slík æskulýðsheimili séu í hverjum bæ og þorpi og séu talin jafnsjálfsögð og skólar eru nú. Það er vist. að þegar slíkar stofnanir hafa verið til um skeið, þyrftum við siður en nú að binda traust okkar við bönnin ein. En þess tíma, að þannig verði búið að æskunni, má vist því miður biða alllengi enn í því þjóðfélagi gróðahyggjunnar, sem byggir hverja milljónahöllina eftir aðra utan um skuldabréf sín og víxla og umboðsfyrirtæki erlendra auðhringa, sem býr á sama tíma við slíkt húsnæðisleysi í skólamálum, að ekki er unnt að uppfylla þær kröfur, sem fræðslulögin þó gera um skólaskyldu, nema með því að tví- og þrísetja í skólana.