29.10.1963
Neðri deild: 7. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (1940)

34. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þegar ég flutti þetta frv. hér fyrir ári, nokkurn veginn í sömu mynd og nú, urðu um það mjög miklar umr. Það var hæstv. viðskmrh., sem þá hóf raunverulega umr. með mjög skörulegri ræðu, eins og hans var von og vísa, þar sem hann harmaði mjög mitt hlutskipti að vera nú að flytja þetta frv. og vera að berjast fyrir þessu, þar sem nú væri sjálf ríkisstj. að framkvæma þessa hluti. Það væri hvorki meira né minna en sú hugsjón, sem Alþfl. hefði barizt fyrir frá upphafi vega um áætlunarbúskap. Hún væri nú að komast í framkvæmd og ég hefði misst af þessu öllu saman og væri að fást við að flytja einhver frv. í þessa átt, þegar sjálf hugsjónin væri að komast í framkvæmd. Mig vantar hæstv. viðskmrh. hér núna. Hann gerðist meira að segja svo rómantískur í þessum ræðum, að hann talaði um, að ég hefði villzt frá einum hinna vinnandi vega í vonlaus klif um hrapandi fell, og má ég nú spyrja hann núna: Hver er það, sem stendur núna og hrapar í fellunum? Hverjir eru það núna, sem eru staddir í þeim vonlausu klifum? Ég held, þegar við byrjum að ræða þetta frv., að þá verðum við að byrja að ræða það ástand, sem ríkir eftir þetta eina ár, eftir að þjóðhagsáætlunin er búin að vera í gildi um nokkurn tíma og eftir að sú hugsjón Alþfl., sem átti að vera framkvæmd samkv. ræðu hæstv. viðskmrh. fyrir ári, verður búin að fá að sýna sig í veruleikanum. Hvernig er þetta ástand í dag? Og hvernig skyldi hæstv. ráðh. takast núna, einu ári eftir hugsjónaræðurnar fyrir ári, að verja það ástand, sem þeir nú eru búnir að leiða yfir þjóðina? Ég ætla þess vegna ofur litið að reyna að taka út þjóðarbúið í þessu og athuga sérstaklega þá hluti, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að laga.

Þar kemur fyrst og fremst verzlunarjöfnuðurinn. Hvernig stendur hann í dag, þetta, sem ríkisstj. þótti vera alveg höfuðatriði að laga í þessum efnum? Verzlunarjöfnuðurinn er í dag neikvæður um 700 millj. kr. Hann er svo neikvæður, að jafnvel Vísir er farinn að heimta, að nú verði gripið í taumana, nú sé ekki hægt að þola lengur frelsið. Jafnvel þeir blindu eru því farnir að sjá.

Við skulum taka annað atriði. Það átti að stjórna öllum þjóðhagsmálum með afskiptum bankanna og sérstaklega Seðlabankans, stjórna útlánunum, og það var gengið út frá, að allt mundi vera í lagi með innlánin, og ríkisstj. hefur hvað eftir annað hælt sér af því, hvernig með þau stæði. Ég skal gefa núna ofur litið yfirlit yfir, hvernig þetta stendur 9 fyrstu mánuði þessa árs, þ.e.a.s. fram til septemberloka. Sparifjáraukningin hefur í ár verið um 440 millj. kr., en aukningin var á sama tíma í fyrra 462 millj. Veltuinnlánin eru í ár 129 millj., en voru á sama tíma í fyrra 271 millj. M.ö.o.: innlánin í bankana hafa stórlækkað. Hvernig er með útlánin á þessum sama tíma, líka miðað við 9 fyrstu mánuði þessa árs? Aukningin í útlánum er 1001 milljón 9 fyrstu mánuði þessa árs og var á sama tíma í fyrra 647 millj. Hefur þannig útlánaaukningin orðið um 350 millj. kr., miðað við það, sem var í fyrra. En ef við berum saman, hvernig stendur með hlutfallið milli innlána og útlána í ár, eru tölurnar þessar: Í ár hafa innlánin aukizt um 570 millj., en útlánin um 1001 millj. Á sama tíma í fyrra, 1962, höfðu innlánin aukizt um 730 millj., en útlánin um 640. M.ö.o.: það hefur allt saman farið úr böndunum. Og ef við færum að, — ég skal ekki fara að gera það hér, — en ef við færum að sundurgreina, til hverra þessi útlánaaukning fyrst og fremst hefði runnið, er greinilegt, að það er fyrst og fremst verzlunarauðvaldið í landinu, þ.e. verzlunin í landinu, sem hefur fengið þessi auknu útlán, þótt hins vegar hafi ekki verið komizt hjá því núna í síldarvertíðinni vegna endurlánanna að auka líka nokkuð það, sem fer til sjávarútvegsins. En það, sem er þó sérstaklega greinilegt, þegar farið er að athuga verzlunarskuldirnar, þá kemur í ljós, í hverra þágu raunverulega landinu hefur verið stjórnað þennan tíma. Verzlunarskuldirnar erlendis hafa aukizt í kringum 600 millj. kr. eða eru núna 600 millj. kr. Þær voru í ágústlok 553 millj. Þannig hefur allt, sem ríkisstj. sérstaklega upphaflega þóttist ætla að vinna með sinni verzlunarpólitík, allt saman þetta hefur farið úr böndunum, þ.e. verzlunarjöfnuðurinn, útlána og innlánastarfsemin og verzlunarskuldirnar. Hvernig hefur gengið á sama tíma með fjárfestinguna? Það þarf ekki nema minna á, hvernig verið hefur með bílana. 3500—4000 bílar komnir inn bara það sem af er í ár. Bílaumboðshallirnar hérna í Reykjavík við Suðurlandsbrautina, sem upp hafa risið, sýna því greinilega, hvernig fjárfestingin í landinu fyrst og fremst hefur verið framkvæmd af verzlunarauðvaldinu og miðazt við þess hagsmuni.

Og hvernig stendur svo í því almenna atvinnulífi? Ástandið er þar algert öngþveiti, sem sjálf ríkisstj. nú ræður ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það er öngþveiti í öllu athafnalífinu vegna brasks og uppboðs. T.d. sá iðnaður, sem við fyrst og fremst byggjum á, fiskiðnaðurinn. hvernig er ástandið þar? Að mjög miklu leyti er það þannig, að hraðfrystihúsin eru drifin áfram að mjög miklu leyti af börnum og gamalmennum. Það er ákaflega erfitt með vinnuaflið í þeim. Og sumar niðursuðuverksmiðjur nýbyggðar standa hér tómar, vegna þess að það fæst ekki vinnuafl til þeirra. Á sama tíma sjáum við, af því að það var verið að tala um, að það ætti að afnema öll höft og allan svartamarkað, — á sama tíma sjáum við það, að svartamarkaðurinn í sambandi við t.d. lóðaúthlutun í Reykjavík hefur aldrei verið annar eins og hann er núna. Og þó að bílleyfin þættu jafnvel slæm í gamla daga hvað svartamarkaðinn snertir, þá græðir hver sá maður, sem fær úthlutað lóð í Reykjavík núna, á hverri íbúð, sem hægt er að byggja á þeirri lóð, frá 100 upp í 300 þús. kr. M.ö.o.: það er algert stjórnleysi í atvinnulífinu, þar sem virðist bókstaflega hafa verið miðað að því, að allir ættu að græða á öllum, sem þýðir raunverulega, þegar öllu er á botninn hvolft, að allir eigi að reyna að keppast um að græða á þeim, sem lægst eru launaðir, og fyrst og fremst á verkamönnunum.

Þannig er í mjög stuttu máli ástandið í efnahagslífi Íslands í dag, svo að það er ekkert undarlegt, þó að ráðh. séu ekki viðstaddir, þegar á að fara að ræða þetta. Það væri ekkert skemmtilegt fyrir þá, eftir alla rómantíkina í fyrra hjá hæstv. viðskmrh., að fá nokkrar myndir af því, hvernig ástandið sé nú hjá þeim sjálfum. Hver minnist í dag á þjóðhagsáætlunina? Hver man eftir þessu plaggi, sem var verið að hampa hér framan í þm. allan síðari hluta síðasta þings? Hver man eftir þessu plaggi, sem sent var út rétt fyrir kosningarnar? Ég er hræddur um, að það sé orðin nokkuð ljót Gylfaginning, sem þar hefur verið skráð, enda er nú svo komið, að þeir af hæstv, ráðh., sem hafa kannske eitthvað minnst verið inni í efnahagsmálum, en eru þó sæmilega raunsæir, eru nú farnir að segja eins og hæstv. dómsmrh.: Við verðum nú að hætta þessum ljóta gengisfellingarleik. — M.ö.o.: þeir, sem ekki hafa bókstaflega stjórnað þessum leik, segja, að nú verði að hætta þessu. Það er að vísu mjög gaman að heyra slíkt frá formanni Sjálfstfl., helzta auðmannaflokksins í landinu. En muna má hann það samt, að allur gróði svo að segja auðvaldsins á Íslandi hefur stafað af gengislækkunum, af verðbólgu og gengislækkunum undanfarna áratugi, svo að það færi betur, að það væri þá ekki bara verið að tjalda til einnar nætur með að stöðva gengislækkunarleikinn, og ef nafni minn Sigurðsson hefði enn þá verið hérna á þinginu, býst ég við, að honum hefði ekkert litizt á þennan boðskap frá hæstv. dómsmrh. Og svo er annað, sem verður að athuga um leið, þegar hæstv. dómsmrh. gefur svona yfirlýsingu. Þessi gengislækkun hefur verið það patent, sem allar þær ríkisstj. á Íslandi, sem undanfarna áratugi hafa farið eftir þeim amerísku efnahagsforskriftum, hafa beitt. Þetta var eina patentið, sem amerísku efnahagssérfræðingarnir eða þeir efnahagssérfræðingar íslenzkir, sem sendir voru frá Bandaríkjunum, ráðlögðu Alþingi 1950, þegar gengislækkunarleikurinn byrjaði. Þá stóð í 2. gr. í þeim lögum, eins og þau voru lögð fyrir þingið þá og eins og Sjálfstfl, og Framsfl. voru með þeim framan af í umræðunum, að í hvert skipti, sem kaup yrði hækkað, skyldi Seðlabankinn — eða þá var það Landsbankinn — taka gengisskráninguna til meðferðar. M.ö.o.: það var meiningin af hálfu þeirra amerísku sérfræðinga, sem hafa viljað ráða Íslandi og enn hafa allt of mikil áhrif hér, að það skyldi beitt þessum ljóta gengislækkunarleik til þess að ræna þannig verkamenn jafnóðum kaupinu, þegar þeir hefðu að einhverju leyti bætt það. Nú er hins vegar komið svo langt í þessum leik, að meira að segja lærifeðrunum í New York ofbýður, og þegar 2 af ráðh. hæstv. ríkisstj. fara til Bandaríkjanna nýlega til þess að spyrja, hvort halda megi leiknum áfram, fá þeir það svar, að það geti ekki gengið, nú verði að hætta þessum leik. M.ö.o.: lærifeðrunum í New York ofbýður nú ævintýrið hjá skólapiltunum og lærisveinunum þeirra hérna heima.

Og ég er vissulega sammála þeim um það, að tími er til kominn, að þessum leik sé hætt. Þessi vitlausa og ósvífna tilraunastarfsemi, sem gerð hefur verið í íslenzku þjóðfélagi nú í 15 ár, á því sannarlega að fara að hætta, og það er orðið nokkuð dýrt, að menn hafa farið inn á það að leika sér þannig með atvinnulífið og með gæfu þjóðarinnar. En þá gildir um leið, að ríkisstj. fari ekki að fara inn á neinar aðrar brautir, sem menn hafa stundum reynt, þegar slíkt hefur mistekizt, og skal ég koma nánar að því siðar.

En það, sem ég vildi nú koma að, er þetta: Hvernig stendur á því, hverjar eru efnahagslegu orsakirnar til þess, að þetta kerfi hefur brugðizt? Ég vil svara því örstutt. Ísland þolir ekki frjálsa verzlun. Það er alger sjálfsblekking að halda, að eins lítið þjóðfélag og okkar, ef við ætlum að reyna að hafa þar sæmilegt viðurværi fyrir almenning, þoli þessa svokölluðu frjálsu verzlun, og allra sízt þjóðfélag, sem er upp byggt eins og okkar á fiskveiðum, sem sveiflast ár frá ári og þarf þess vegna alltaf að taka tillit til í sambandi við allan verzlunarjöfnuð. Það er óhugsandi. Efnahagslífi okkar er þannig háttað, að við þolum ekki frjálsa verzlun. Og þetta finnst manni nokkurn veginn, að við hefðum átt að læra á undanförnum 30 árum. Við verðum að hafa stjórn á verzlun okkar.

Þá vil ég í öðru lagi koma að því : Hvernig stendur á, hverjar eru pólitísku orsakirnar til þess, að þetta fríverzlunarkerfi hér á Íslandi hefur brugðizt? Ég vil svara því með því í fyrsta lagi og gera betur grein fyrir því, að íslenzkt þjóðfélag þolir ekki það efnahagslega alræði verzlunarauðvaldsins, sem í þessu fríverzlunarkerfi felst. Hvorki atvinnurekendur í sjávarútvegi né iðnaði né verkafólkið í landinu getur lifað við þetta fríverzlunarkerfi. Og við skulum athuga nánar alveg raunsætt, hvernig þetta er. Fyrir hverja er hið svo kallaða verzlunarfrelsi? Verzlunarfrelsið er einvörðungu fyrir innflytjendurna, það þýðir: fyrst og fremst fyrir heildsalana. Þetta verzlunarfrelsi er vissulega ákaflega fögur kenning, en það hefur ekki verið framkvæmt að öðru leyti en því, sem hentar hagsmunum innflytjendanna, og það er nauðsynlegt að hafa það fyrir augum, þegar menn eru að sundurgreina þjóðfélagið, eins og er hjá okkur. Þessu verzlunarfrelsi hefur verið beitt í andstöðu og á móti hagsmunum t.d. sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins og jafnvel að ýmsu leyti iðnrekendanna að öðru leyti. Í fyrsta lagi: Allan þennan tíma. hefur gjaldeyrir sjávarútvegsins, gjaldeyririnn, sem sjávarútvegurinn framleiðir, verið einokaður handa verzlunarauðvaldinu. Þetta er því ekki frjáls verzlun í venjulegum skilningi. Það þótti sjálfsagt, á meðan fullt eftirlit var haft með öllum gjaldeyri og yfirstjórn var á honum, þá var eðlilegt að þjóðnýta gjaldeyrinn og sjálfsagður hlutur. Þá var innflutningurinn að meira eða minna leyti þjóðnýttur líka, þá var höfð yfirstjórn á honum. Og öðruvísi er ekki hægt að stjórna Íslandi, svo að nokkurt vit sé í. Að vísu er hægt að stjórna því svo illa, þó að slík yfirstjórn sé, að ekkert vit sé í því heldur. En slíkt eftirlit og slík yfirstjórn ríkis á innflutningi og útflutningi er forsenda fyrir því, að hægt sé að stjórna þessum efnahagsmálum okkar af skynsemi. Þrátt fyrir allt, sem prédikað hefur verið um frjálsu verzlunina, hefur mönnum því aldrei dottið í hug og varla verið farið fram á það, að sjávarútvegurinn ætti að vera frjáls til þess að flytja vöru sína til hvaða landa sem hann vill. Sjávarútvegurinn hefur á þessum undanförnu árum ekki heldur haft þetta frelsi, ekki almennt séð og algert. Hann hefur verið beygður undir verzlunarauðvaldið. Og það er nauðsynlegt, að menn þori að gera þessa skilgreiningu á íslenzku atvinnulífi og íslenzkri atvinnurekendastétt, vegna þess að. þessár mótsetningar, sem þarna eru á milli, hafa afgerandi áhrif um, hvernig í slandi er stjórnað, Það er vitað, að þegar núv. hæstv. ríkisstj. byrjaði starfsemi sína, var meiningin að beygja sjávarútveginn og útflutning hans alveg gersamlega undir alræði verzlunarauðvaldsins, svo gersamlega, að meira áð segja ofstækisfyllstu boðendur verzlunarfrelsisins boðuðu þá, að það ætti helzt að slíta öllum samböndum við þau ríki, sem við þyrftum að hafa jafnvirðiskaup við. Og það var reynt á fyrsta árinu, 1960, — og með hvaða afleiðingum? Með þeim afleiðingum, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna var næstum því farin á hausinn: Af hverju? Af því að þessir menn höfðu ekki athugað það, að viðskiptin við jafnvirðislöndin, þar sem við fengum borgað út í hönd, höfðu gert okkur mögulegt að festa fé, svo að hundruðum millj. kr. skiptir, í Bandaríkjunum, til þess að brjótast þar áfram til að selja vörur ólíkar þar. Og raunverulega höfðu þessi öruggu viðskipti við jafnvirðiskaupalöndin fínanseráð útflutning okkar til Bandaríkjanna og byggt upp fjárfestingu okkar þar, þannig að um leið og við ætluðum að fara að brjóta niður viðskipti við þessi lönd, vorum við að kippa grundvellinum undan baráttumöguleikum okkar í Bandaríkjunum á að ryðja okkar fiski þar til rúms. Því varð líka byltingin í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og því varð Jón Gunnarsson að hætta. Og sjávarútvegurinn sýndi fram á það, staðreyndirnar voru of harðar fyrir ofstækismennina, ofstækisboðendur verzlunarfrelsisins, og það varð að láta þar undan og þarna hefði verið breytt til. M.ö.o.: hver sú stjórn, sem ætlar sér að reyna áð framkvæma þetta verzlunarfrelsi fyrir verzlunarauðvaldið, rekur sig á, að það er ekki hægt, af þeirri einföldu ástæðu, að sjávarútvegurinn, hans útflutningur er grundvöllurinn, er undirstaðan undir öllu okkar atvinnulífi, og ef menn ætla að brjóta þennan grundvöll, brjóta menn sjálfa sig niður um leið. Verzlunarauðvaldið lifir ekki á öðru en því að fá að hagnýta þennan gjaldeyri, vegna þess að Ísland getur einhvers staðar haft markaði fyrir sinn fisk.

M.ö.o.: verzlunarfrelsi verzlunarauðvaldsins hefur verið og er fjötur á sjávarútveginn, sem hefur orðið að vísu nokkuð að slaka á frá því, hvernig átti að framkvæma hann í upphafi, en er enn þá nýr fjötur þannig, að það hefði verið hægt að salta miklu meiri síld, og það er enn þá hægt að selja allt það, sem hægt er að salta núna í haust af síld, þó að ekki sé búið að því, og vinna meira úr fiski okkar en gert er, ef sjávarútvegurinn hefði verið frjáls með að fá að selja þetta til hvaða lands í veröldinni sem hann vildi, og síðan væri séð um, að hægt væri að kaupa frá þessum löndum, og innflutningnum stjórnað í því skyni, sem er það eina, sem vit er í, því að afkoma þjóðarinnar fer fyrst og fremst eftir því, hve mikið hún getur framleitt, hve vel hún getur unnið úr því, og það þýðir, hve víða hún getur selt, en fer ekki fyrst og fremst eftir hinu, hvort silkisokkarnir séu betri frá þessu landinu en öðru. Þess vegna hefur þetta kerfi, sem nú hefur verið prófað og nú er gjaldþrota og nú er brotnað saman, verið efnahagslegt alræði verzlunarauðvaldsins, þar sem raunverulega hefur orðið að taka nokkurt tillit til sjávarútvegsins, af því að það hefur rekið sig svo harkalega á, en engu að síður er þetta kerfi enn í dag fjötur á framþróuninni á Íslandi og framförunum í íslenzku atvinnulífi. Þess vegna er ástandið þannig nú, pólitískt séð, að þetta efnahagslega einræði verzlunarauðvaldsins yfir gjaldeyri sjávarútvegsins og lánstrausti þjóðarinnar hefur leitt okkur út í ógöngur, og þess vegna er það þetta kerfi, sem er að brotna nú fyrir augunum á okkur.

Ef efnahagssérfræðingar ríkisstj. væru staddir hérna hjá okkur, mundu þeir kannske spyrja: Hvað þurfti til þess, að þetta kerfi stæðist? Og ég þykist svo sem vita, að þeir hafi hvíslað því að ríkisstj., hvað þyrfti til þess, og það er alveg rétt að segja það, því að það er aldrei rétt að fordæma eitt kerfi til fullnustu, nema gerð sé grein fyrir, af hverju það hefur misheppnazt. Það eru tveir möguleikar til að láta svona kerfi standast, eins og þetta efnahagslega alræði verzlunarauðvaldsins. Og ég skal dvelja stutt við að segja frá, hverjar þær aðferðir eru. En ég vil um leið taka það fram, að ég býst ekki við, að þjóðin mundi sætta sig við þær aðferðir. Fyrri aðferðin til þess að láta svona kerfi standast er sú að láta ríkið skipuleggja almennt atvinnuleysi og neyð í landinu. Þá er hægt að halda þessu kerfi uppi, þá brotnar það ekki saman. Atvinnuleysi og neyð er mjög sterkt og áhrifaríkt ráð til þess að draga úr kaupmætti almennings. Og það var þetta ráð, sem ríkisstj. Framsóknar og Sjálfstfl, notað 1950. Frá 1950 og fram til 1955- og sérstaklega: 3 fyrri árin af þessu tímabili var þessu ráði beitt með allgóðum árangri. Það var skipulagt atvinnuleysi og neyð um allt land. Það var landlægt atvinnuleysi á þessum árum, og meira að segja í Reykjavík var þetta atvinnuleysi líka 1951–1952. Og meðan svona atvinnuleysi og neyð er skipulagt, er ekki verið að bjóða í menn í eftirvinnu. Þá er ekki verið að gefa mönnum tækifæri til að vinna eftirvinnu og næturvinnu. Á þessum árum var t.d. bannað að byggja hús á Íslandi nema með sérstöku leyfi nefndar í Reykjavík. Ríkið skipulagði samkv. amerískum ráðum atvinnuleysið og neyðina, og þetta ráð, sem dugði svo lengi sem það hélt, þangað til fólkið reis upp á móti því, — þetta ráð er náttúrlega til enn þá, en ég býst ekki við, að það sé nokkur íslenzkur stjórnmálamaður, sem mundi leggja til að beita þessu ráði.

Þá er annað ráð, sem er líka til. Það er að reyna að halda uppi efnahagslegu alræði verzlunarauðvaldsins með harðstjórnarlögum, í staðinn fyrir neyðina og atvinnuleysið sé látin koma harðstjórn. Þetta hefur líka verið reynt. Það var reynt með gerðardómslögum 1942 af ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., og þetta var líka reynt af einni týpískri stjórn verzlunarauðvaldsins í landinu, sem stundum var kölluð Cóca-cóla-stjórnin, — og vissir valdamenn í Framsfl. og Sjálfstfl.. áttu líka hauka í horni í þeirri stjórn, — þegar hún ætlaði sér í sept. 1944 að skera niður allt kaupgjald í landinu um 10%. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. dettur í hug að fara að beita svona aðferðum núna. Ég vildi a.m.k. ef það hefur hvarflað að einhverjum hæstv. ráðh., minna þá á sporin. Þau ættu að hræða, og það væri vissulega mjög slæmt, ef út í það væri farið nú að reyna að endurtaka einhverja af þeim tilraunum, sem hastarlegast hafa mislukkazt í íslenzkum stjórnmálum á undanförnum áratugum. Aldrei hefur nein tilraun farið eins út um þúfur og gerðardómslögin 1942, og var þó reitt hátt til höggs, og sjaldan nokkur stjórn yfirgefið skipið aumlegar en utanþingsstjórnin gerði í sept. 1944, þegar hún ætlaði að fara að fara í sömu áttina. Það er vonlaust að reyna eitthvað slíkt nú. Aldrei nokkurn tíma hefur það verið vonlausara,

Ég held, að það, sem við íslendingar þurfum að gera nú, sé að horfast mjög raunsætt í augu við erfiðleikana og hætta þeim ljóta leik að gera okkar litla þjóðfélag að tilraunadýri fyrir úreltar og steindauðar kenningar, sem aðeins geta orðið þjóðfélagi okkar fjötur um fót. Þau verkföll, sem yfir vofa beinlínis frá hálfu stjórnarstuðningsverkalýðsfélaganna sjálfra, ættu að færa hæstv. ríkisstj. heim sanninn um, að það þýðir ekki að halda áfram í þessa átt. Það er ekki hægt að stjórna þjóðfélagi okkar í þágu verzlunarauðvaldsins, svo framarlega sem þjóðfélagið á að taka framförum. Verzlunarauðvaldið er úreltasti, elzti og lélegasti þátturinn í auðmagninu. Sá hluti, sem í einu auðvaldsþjóðfélagi vísar til framfara, er iðnaðurinn og hjá okkur alveg sérstaklega sjávarútvegurinn. Og efling fyrst og fremst sjávarútvegsins og iðnaðarins, sem á honum byggist hlýtur að vera —höfuðskilyrðið fyrir allri þróun og öllum framförum í íslenzku atvinnulífi, og því aðeins, að verzlunarauðvaldinu sé haldið þannig niðri, að það fái ekki að ráða og helzt engu að ráða um sjálfa þróunina í landinu, því aðeins er hægt að halda áfram sleitulausum framförum á Íslandi og halda sæmilegum friði þar. Þetta er það, sem sérstaklega flokkur auðmannastéttarinnar á Íslandi, Sjálfstfl., þyrfti að gera sér algerlega ljóst. Ég veit, að hann hefur mikið reynt til þess að bræða saman hagsmuni allra þessara mismunandi hluta auðmannastéttarinnar innanlands, en það þýðir ekki til lengdar. Það þýðir ekki að ætla til lengdar að láta verzlunarauðvaldið, þótt það ráði Morgunblaðinu, vera það auðvald, sem ræður stefnunni í íslenzku atvinnulífi. Það er alveg óhjákvæmilegt, ef auðmannastéttin ætlar ekki bókstaflega að setja sjálfa sig úr leik hérna, að þarna verði breyting á.

Því miður hefur það verið svo, að sjávarútvegurinn og hans menn hafa tiltölulega lítið látið til sín taka í þessum efnum. Það hefur raunverulega verið þannig, að venjulega hafa einhverjir aðrir orðið að taka tillit til þeirra, þegar allt hefur verið komið í strand vegna ævintýra verzlunarauðvaldsins. Og það undarlega við sögu Íslands á undanförnum 20 árum er það, að hvað eftir annað hefur það verið verkalýðshreyfingin, sem hefur orðið að rétta hlut sjávarútvegsins og sjá til þess, að sjávarútvegurinn gæti fengið þá eðlilegu eflingu, sem hann þurfti, meira að segja út frá sjónarmiði íslenzks auðvaldsskipulags, bara vegna þess að yfirráð og þröngsýni heildsalanna hafa verið svo mikil í Sjálfstfl., að þau hafa borið hag sjávarútvegsins fyrir borð. Og það er sá hlutur, sem enn hefur gerzt, þó að þessir menn hafi ekki getað ráðið hins vegar við það, hvernig aflabrögðin urðu hjá okkur á þessum undanförnum tveimur árum, vegna þeirra tæknilegu breytinga og þeirra breytinga, sem af landhelginni stafa, sem þar hafa orðið á.

Það þýðir ekki, — og hvað eftir annað eru menn búnir að reka sig á það í íslenzku þjóðfélagi, — það þýðir ekki fyrir íslenzka auðmannastétt að ætla að stjórna þessu þjóðfélagi einvörðungu í sína þágu og sízt af öllu með því að láta verzlunarauðvaldið ráða ferðinni og fá ljónspartinn af öllum gróðanum. Þetta þyrftu þeir flakkar, sem nú ráða, hreinskilnislega að horfast í augu við að viðurkenna. Vissulega geta verkamenn og bændur ekki heldur stjórnað landinu enn sem komið er, — ekki enn, það kemur að því. Það sáum við í vinstri stjórninni, að það er ekki forsenda fyrir því enn sem komið er. Hvað er þá hægt að gera? Hvernig er hægt að stjórna okkar íslenzka þjóðfélagi, eins og aðstæðurnar eru í því, þannig að við verðum okkur ekki til skammar frammi fyrir öllum heiminum fyrir það stjórnleysi, sem ríkir hjá okkur, eins og núna, og væri stórhættulegt, að farið væri að brjótast út úr með því að fara að gripa til einhverra vitlausra ráðstafana og held, að menn þurfi að horfast í augu við þetta, alveg hreint kalt og rólega. Það er venjulega skilyrði til þess, að menn þori að gera eitthvað í pólitík, sem eitthvert vit er í, að þeir dæmi ekki hringavitlaust um þær aðstæður, sem eru í þjóðfélaginu, og ég vil gera grein fyrir því frá mínu sjónarmiði. Ég vil segja það, að hvaða menn og hvaða flokkar sem á hverjum tíma, eins og íslenzka þjóðfélaginu er hagað í dag, fara með völd, fara með ríkisstj., þá eru það þrennir aðilar í þjóðfélaginu, sem þeir fyrst og fremst verða að miða sína pólitík við, svo framarlega sem þeir ætla að stjórna landinu af einhverju viti og svo framarlega sem það eiga að verða heilbrigðar og stöðugar framfarir í okkar þjóðfélagi. Það þýðir ekki að kjafta um eitthvert jafnvægi, eins og hæstv. ríkisstj. er búin að gera í tvö ár, og skapa mesta öngþveiti, sem nokkurn tíma hefur verið hérna. Menn eiga að geta lært af slíkum staðreyndum.

Ef menn ætla að hafa góða lífsafkomu, heilbrigðar, stöðugar framfarir í okkar atvinnulífi og okkar lífskjörum og sjálfstætt Ísland, eru það þrjár stéttir, þrír aðilar, sem verður að taka tillit til, hvað svo sem þeir flokkar heita eða þeir menn, sem í ríkisstj. eru. Það er í fyrsta lagi verkalýðurinn og aðrar launþegastéttir, það er fyrst og fremst sá verkalýður, sem í framleiðslunni vinnur. Án þess verkalýðs væri framleiðslan ekki rekin. Ég hef áður sagt það hér á Alþingi, og það hefur sýnt sig vera rétt, og ég vil minna á það enn, að það er ekki aðeins illt verk og ranglátt að reyna að stjórna Íslandi með það fyrir augum að reyna að kúga verkalýðinn og hafa af honum hans kaup. Það er líka vonlaust verk til lengdar, alveg sérstaklega vonlaust verk við þær aðstæður, sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Þeim ljóta leik að vera að gera tilraunir með slíkt og ekki sízt gengislækkunartilraunir þarf að hætta. Það eru í öðru lagi atvinnurekendurnir í sjávarútvegi og iðnaði, ekki sízt fiskiðnaði: Það er gefið, að eins og íslenzkt þjóðfélag er í dag, er nauðsynlegt að taka tillit til hagsmuna þessara aðila, og það er nauðsynlegt að hafa yfirumsjón á öllum innflutningnum til landsins með tilliti til þess að geta eflt íslenzkan sjávarútveg og íslenzkan iðnað, vegna þess, eins og ég tók fram áðan, að sjávarútvegurinn er undirstaðan, er grundvöllurinn að öllum lífskjörunum í landinu. Og þetta tillit verður ekki tekið á meðan dansað er eftir pípu verzlunarauðvaldsins í þessum efnum. Og sjávarútvegurinn og iðnaðurinn, sérstaklega fiskiðnaðurinn, verða ekki efldir eins og hægt er, nema um það séu gerðar áætlanir og þær áætlanir framkvæmdar, þannig að lánsfjármálum í landinu og viðskiptamálum landsins sé stjórnað með framkvæmd þeirra áætlana fyrir augum. Og það eru í þriðja lagi bændurnir í landinu, þeir 6 þús. bændur, sem eru í senn — ég vil ekki beint segja atvinnurekendastétt, af því að meginið af þeim er einyrkjar, en í senn sú stétt, sem er sjálfstæð einyrkjastétt og vinnandi stétt, sú sem sér um allan landbúnað og á þar gífurlega möguleika viðvíkjandi atvinnuvegi, sem reka þarf með meiri stórhug en gert hefur verið fram að þessu. Það er til þessara þriggja stétta fyrst og fremst, sem þeir menn og þeir flokkar, hverjir sem það eru, sem ráða á hverjum tíma, eins og ástandið er nú í íslenzku þjóðfélagi, þurfa að taka tillit. Og það er við þessa þrjá aðila, sem ég miða, þegar ég í þessu frv., eins og ég hef breytt því nú í 1. gr., legg til, að áætlunarráðið sé nú skipað 9 mönnum, þar sem allir þessir aðilar eigi fulltrúa líka, fyrir utan þá pólitísku flokka.

Annars, af því að ég hef flutt þetta frv. áður og ekki breytt því svo sérstaklega mikið nú, skal ég skal fara út í frv. sjálft á þessu stigi, en aðeins segja þetta: Fulltrúar þeir, sem kalla sig fulltrúa fyrir einkaframtakið hér á Alþ., eru máske stundum hræddir, þegar þeir heyra talað um áætlunarbúskap. Og vissulega er það svo, að þá er áætlunarbúskapur bezt framkvæmdur, þegar hann er framkvæmdur á grundvelli sósialisma. Um það er ekki að ræða í augnablikinu á Íslandi, því að það er ekki meiri hluti hjá þjóðinni fyrir þeirri framkvæmd að framkvæma hann á grundvelli sósialisma. En hitt vil ég segja við ekki sízt fulltrúa Sjálfstfl. og Alþfl., sem nú eru í ríkisstj.: Þeir þurfa að reyna að læra ofur litið af nágrannalöndum þeirra, þar sem auðvaldsskipulag er, og vera ekki eins hræddir við allt, sem heitir nýjar aðferðir, eins þrælíhaldsamir og þeir eru, að vera að gera enn þá á Íslandi 1962–1963 tilraunir með að framkvæma Manchester-stefnuna frá 1850. Það er svo voðalegt, að það skuli vera hvað eftir annað hægt að fara svona og svona með þjóðina bara vegna þess, að það komi nýir sérfræðingar. Aumingja Benjamín fékk að ganga sér til húðar eftir 1960. Svo eru teknir nýir sérfræðingar og sendir hingað 1959 og jafnvel fyrr, voru látnir jafnvel afvegaleiða vinstri stjórnina líka í efnahagsmálum og viðreisnarstjórnin erfði þá svo, og nú eru þeir búnir að gera allt vitlaust. Ég vil segja það við Sjálfstfl. og Alþfl, sérstaklega, að það er alveg hörmulegt að horfa upp á það, að útlendir menn skuli ekki þurfa annað en senda nokkra skólapilta til þeirra, og svo trúa þeir kenningum þeirra eins og nýju neti og gera allt þjóðfélagið hringavitlaust með því að reyna að framkvæma þær.

Þær þjóðir, sem eitthvað hafa reynt að læra í þessum efnum, — við skulum taka t.d. Frakkland, og ef einhver vill ekki trúa mér eins og nýju neti, liggur þarna á borðunum hjá ykkur frá OECD hefti frá 4. júní 1960, þar sem er m.a. á bls. 10 frásögn af því, hvernig Frakkland hefur með áætlunarráði verið að vinna sig upp á undanförnum áratugum. Þeir byrjuðu á þessum áætlunarráðum, þegar kommúnistar voru þar í stjórn eftir stríðið, og hafa aldrei fellt það niður síðan . Og hvað hefur gerzt í Frakklandi á þessu skeiði? Ég veit ekki, hvort það eru e.t.v. einhverjir, sem halda, að de Gaulle sé einhver töframaður, sem sé að gerbreyta Frakklandi og afstöðu þess í heiminum. Nei, það, sem hefur breytzt, er það, að með því að notfæra sér að þó nokkuð miklu leyti heildarstjórn á þjóðarbúskap eða áætlunarráð, hefur Frakkland orðið efnahagslega sterkt og voldugt land, að sama skapi sem Bandaríkin hafa verið að minnka hvað álit snertir í efnahagsmálum. Við sjáum það bezt á gullforðanum. Gullforði Frakklands, — ég vitna nú eftir minni, svo að það er kannske ekki alveg rétt hjá mér, — gullforði Vestur-Evrópu a.m.k. hefur um það bil þrefaldazt, mig minnir, að hann hafi hækkað á rúmum síðasta áratug úr eitthvað 700 millj. dollara upp í 2500. En af því að ég hef ekki tölurnar alveg hjá mér, skal ég ekki segja það, en mig minnir nokkurn veginn, að hann hafi þrefaldazt. Á sama tíma hefur gullforði Bandaríkjanna minnkað úr yfir 2000 milljörðum niður í ég held 1500—1600 milljarða. M.ö.o.: efnahagslegt vald Frakka hefur vaxið fyrst og fremst vegna þess, að þeir hafa beitt vissu ráði, áætlunarráði, vissri heildarstjórn á þjóðarbúskap sinum. Það er það, sem er undirstaðan undir efnahagslegu valdi Frakklands, og án þess valds hefði de Gaulle ekki getað gert það, sem hann hefur gert, eða talað eins og hann hefur talað. En Bandaríkin, sem hafa haldið áfram að reka sinn gamla fríverzlunarbúskap að nokkru leyti, hjá þeim hefur gengið hægt. Þau hafa samt haft alveg nægilegt atvinnuleysi til þess að reyna að viðhalda þessu. Það eru um 5 millj. verkamanna atvinnulausir þar, þannig að kerfið er framkvæmt á réttan máta hjá þeim. En enn þá er afturhaldið og þröngsýnin svo mikil í Bandaríkjunum, að hvenær sem minnzt er á eitthvað, sem heitir áætlun og áætlunarráð, halda menn, að það sé verið að koma á sósíalisma í Bandaríkjunum. Og ég vil leyfa mér að vona, að menn smitist ekki af þess háttar vitleysum hér heima. Noregur hefur alveg frá því eftir stríðið framkvæmt slíkt áætlunarráð. Hverju einasta fjárlagafrv. norska Stórþingsins fylgir bók, sem ýmsir okkar hér á þinginu hafa fengið öll þessi ár, alveg nákvæm áætlun um þróunina í norsku atvinnulífi, ekki bara ríkisins, heldur líka einstaklinga.

Það er stóra meinið, að við Íslendingar skulum ekki hafa haldið því áfram, sem við tókum upp eftir stríðið, að reka slíkan áætlunarbúskap. g svona litlu þjóðfélagi eins og okkar er þetta, án tillits til alls annars, alveg óhjákvæmilegt. Við getum ekki haldið Íslandi sjálfstæðu án þess að gera þetta. Þið verðið að gá að því, hvað þjóðfélag okkar er lítið, og í þessum frumskógi villidýranna, þessum frumskógi auðvaldsins, sem við erum staddir í, verðum við að geta varið okkur. Við verðum að gá að því, að bara verkamennirnir hér á Íslandi eru ekki nema um 40 þús., það er eins og er í ASEA, stærsta rafmagnsveri Svíþjóðar. Allur þjóðarbúskapurinn hjá okkur er þannig ekki nema eins og skikkanlega stórt fyrirtæki í öðrum löndum, og svo eigum við að slást á heimsmörkuðunum við risavaxna hringa eins og Unilever eða Findus eða aðra slíka. Það er óhugsandi að gera þetta nema við stöndum sameinaðir, — alveg óhugsandi. Annars værum við trampaðir niður. Enda er það líka rétt hjá þeim hagfræðingum, sem ráðin hafa lagt á um stefnu ríkisstj., að miða að því að innlima þá Ísland, ef það eigi að halda þessari stefnu áfram, sem hrepp í eitthvert annað land nógu stórt, t.d. Efnahagsbandalagið. Það er sú rökrétta afleiðing af þeirra kenningum að drepa efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Innlimunarstefna þeirra er beint áframhald af þessari stefnu, sem nú hefur verið tekin upp. En hins vegar til allrar hamingju er sjálfstæðisviljinn það mikill, líka í stjórnarflokkunum, að menn stinga við fótum, þegar þeir sjá, að þetta er áframhaldið. Þess vegna er það, að ef við eigum að geta haldið efnahagslegum framförum áfram, ef við eigum að geta bætt lífskjör okkar, ef við eigum að geta haldið Íslandi efnahagslega sjálfstæðu, ef við eigum að geta haldið meira að segja atvinnurekendum á Íslandi efnahagslega sjálfstæðum, og þeir eru þeir fyrstu, sem yrðu troðnir niður, svo framarlega sem útlendu hringarnir réðust hér inn, verðum við að taka upp þetta fyrirkomulag, heildarstjórn á þjóðarbúskapnum. Og í svona litlu landi eins og okkar er auðvelt að framkvæma þetta með því að viðhalda öllu því fyrirkomulagi innanlands, sem hér er núna á okkar atvinnurekstri, einkaatvinnurekstri, félagsatvinnurekstri, samvinnuatvinnurekstri, ríkisatvinnurekstri og bæjaratvinnurekstri. Það sýnir sig líka, að það hafa alltaf verið utanaðkomandi áhrif, sem hafa eyðilagt þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að koma á slíkum áætlunarbúskap á Íslandi,þegar þá ekki þröngsýni hjá vissum öflum innanlands hefur verið svo mikil, að þau hafa komið í veg fyrir slíkan áætlunarbúskap, eins og var á tímum vinstri stjórnarinnar, þegar Framsókn kom í veg fyrir slíkt.

Því er slegið föstu í 7. gr. þessa frv., að það fyrsta, sem Alþ. setji slíku áætlunarráði sem starfssvið á næstu fimm árum, sé það, sem ég mundi vilja kalla eins, konar iðnbyltingu í íslenzkri matvælaframleiðslu. Það er mikið talað um það núna, hvort við munum ekki endilega þurfa að fá t.d. alúminíumhringinn fransksvissneska hér inn í landið og hleypa þannig útlendu auðvaldi hérna inn. Á sama tíma er ástandið þannig, að við höfum möguleika til þess að koma upp stórfelldum iðnaði til niðursuðu og niðurlagningar og þannig fullvinnslu á okkar sjávarafurðum. Okkur er þetta lífsnauðsyn. Það er til skammar fyrir okkur, eins og þetta hefur gengið undanfarið, að við skulum flytja þessa finu vöru, sem akkar vara er, fiskurinn og síldin, út sem hráefni meira eða minna, og það er engum efa bundið, að það er þjóðhagslega séð það langsamlega bezta, sem við getum einbeitt okkur að, vegna þess að afköst okkar í þessum efnum eru þau mestu, sem ég þekki í veröldinni hjá nokkrum verkamanni, í hverju sem er, nema ef væri þá einstaka sjálfvirkar verksmiðjur. Þegar einn sjómaður á íslenzku skipi framleiðir frá 70 upp í 120 tonn af fiski á ári, á meðan sjómaður t.d. í Bandarfkjunum, eins og var seinast, eða Noregi, eins og var 1947, sem kemst næst, er með frá 25 og niður í 10 tonn, þá sjáum við, hve risavaxin afköstin eru einmitt í þessari atvinnugrein, og þessa atvinnugrein verðum við þess vegna að efla og einbeita okkur að henni. Og við erum ekki nema rétt byrjaðir á þessu enn þá. Þess vegna er það iðnbyltingin í þessari matvælaframleiðslu, sem er það langsamlega þýðingarmesta fyrir okkur að framkvæma á fyrsta 5 ára tímabilinu. En alveg eins og við hefðum ekki komið hraðfrystiiðnaði okkar, freðfiskútflutningi okkar svona hátt eins og við höfum gert nema vegna þess, að við höfum getað tryggt markað fyrir svo að segja 2/3 af honum, — lengi vel höfum við verið uppi í 75 þús. tonnum, — þá höfum við getað tryggt fyrir 50 þús. tonn markaði í þeim löndum, þar sem áætlunarbúskapur er, og getað þess vegna barizt á kapítalistísku mörkuðunum með hitt og þolað þau skakkaföll og fjárfest, — eins verðum við að taka okkar niðursuðu- og niðurlagningariðnað. Við verðum að reyna að tryggja okkur, svo að segja baktryggja okkur með stórum fyrirframsamningum til þess að byggja undirstöðuna að fjölda verksmiðja, sem við komum upp á þessu sviði, til þess að vera öruggir um, að þær séu ekki lagðar í rústir af neinum kreppum eða markaðsvandræðum, og geta svo með allmiklum afgangi barizt á þeim kapitalistísku mörkuðum. Þetta er aðferðin, sem við þurfum að hafa til þess að skapa fullvinnslu í okkar íslenzka sjávarútvegi, á sama hátt og við höfum þegar stigið okkar stóra spor í okkar freðfiskútflutningi. En ástandið er þannig í dag, að ég veit ekki betur en hérna í Reykjavík standi tómar niðursuðuverksmiðjur. t sumum þeirra er ekki unnið vegna þess, að það er ekkert verkafólk að fá þangað, og kannske enga markaði heldur, vegna þess, hvernig verzlunarhættirnir eru, og í öðru lagi ekki unnið vegna þess, að þótt markaðirnir séu til, er ekkert fjármagn til til þess að kaupa fiskinn fyrir. Svona er núverandi stjórnleysi fjötur á þróun íslenzks niðursuðu- og niðurlagningariðnaðar.

Ég held þess vegna, að það sé ekki neitt spursmál um, að við þurfum að kalla útlent auðvald hér inn í landið. Við höfum nægan auð, næga möguleika til þess að stórauka framleiðslu okkar úr íslenzkum hráefnum. Við skulum ekki byrja neina innlimun Íslands í erlend stórveldi með því að kalla á hringana á meginlandi Evrópu. Og við höfum ekkert upp úr því heldur. Ef við förum inn á slíkar brautir, þýðir það fyrr eða síðar innlimun Íslands í eitthvert af þessum stóru svæðum. Þetta frv. til laga um áætlunarráð miðar hins vegar að því að tryggja efnahagslegt sjálfstæði Íslands, tryggja sameiningu þjóðarinnar um framkvæmdina á þeim verkefnum, sem eðlilegust eru og liggja bezt við til þess að bæta lífskjörin á Íslandi og til þess að efla það eðlilega atvinnulíf Íslands. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. d. taki þessu frv. nú vel. Skiljanlegt er, að í fyrra hafi hæstv. viðskmrh. verið með rómantískar hugleiðingar um, hve dásamleg þjóðhagsáætlunin væri og hve girnileg hugsjón Alþfl. yrði í framkvæmd. En ekki bara þjóðhagsáætlunin er nú gleymd, heldur líka öll stefnan svo hrunin, að ég býst ekki við, að nokkur ráðh. hæstv. ríkisstj. taki núna upp vörn fyrir þá stefnu lengur. Ég vil þess vegna leyfa mér að lokinni þessari umr. að óska þess, að þetta frv. verði sent til 2. umr. og eigi greiðan gang í gegnum þingið.