26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

67. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það kom fram hér, sem mig grunaði, að raunverulega var það ekkert, sem frambærilegt gat talizt, sem hv. 3. þm. Sunnl. setti rannverulega fyrir sig hér í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, sem virkilega þyrfti að taka til athugunar varðandi framkvæmdir í þessu máli. Hann nefndi hér tvö atriði, sem hann vildi færa fram sem rök fyrir því, að málið þyrfti frekari athugunar við. Og hver voru þau? í fyrsta lagi, að það hefur áður komið fram áhugi hjá mönnum í Vestmannaeyjum fyrir því að eiga jafnvel sjálfir það skip, sem hér er í förum. Það þarf því að athuga það nánar, hvort sá vilji er fyrir hendi, segir hv. þm. Á ég að trúa því, að Vestmanneyingar líti þannig á það mál, sem hér liggur fyrir, að þeir séu ekki búnir að gera þetta mál upp við sig, að þeir hafi ekki enn þá áttað sig á því, hvort þeir óska eftir að eiga skipið sjálfir og reka það sjálfir eða ekki, og þeir vilji láta standa á úrlausn í málinu á því, að þeir séu enn ekki búnir að gera upp hug sinn í þessum efnum? Nei, þetta er auðvitað hreinn fyrirsláttur. Það er alveg rétt, að þegar Herjólfur var keyptur á sínum tíma, þá eins og fyrri daginn greip það um sig hjá nokkrum mönnum, að af því að ríkisstj. var ekki alveg rétt á litinn, sem ákvað þá framkvæmd, væri kannske rétt að hafa örlitíð annan framgangsmáta á málinu. En í rauninni var aldrei nein krafa um það heima fyrir að eiga þetta skip. Og ég veit það mætavel, að í dag eru málin líka þannig, að Vestmanneyingum er það miklu meira í þessu máli að fá samgöngumálin leyst heldur en að deila um það, hver eigi að vera eigandi að því skipi, sem leysir verkefnið í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er líka gert ráð fyrir því, að ríkisstj. geti falið þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem hér eiga hlut að máli, að hafa rekstur skipsins með höndum. En hér er hins vegar lagt til, að ríkið leggi fram allt fé, sem þarf til byggingarinnar, og byggi skipið og eigi skipið. Nei, það er alveg ábyggilegt, að ef Vestmanneyingar væru virkilega á þeirri skoðun, sem hv. þm. lét hér liggja orð að, en vildi þó ekkert segja um ákveðið, þá hlytu þeir að vera búnir að taka sína ákvörðun og koma henni á framfæri og hefðu enda nægilegan tíma til þess, á meðan málið liggur hér fyrir Alþingi, því að um þetta hljóta þeir að hafa hugsað, svo að ekki þyrfti að tefja fyrir framgangi þessa máls vegna þess, að þetta standi eitthvað í mönnum, hver eigi að vera eigandinn að skipinu. Þetta er að mínum dómi hreinn fyrirsláttur.

Þá vék hv. 3. þm. Sunnl. að því, að í frv. væri gert ráð fyrir því að byggja skip, sem væri fyrir leiðina á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. En í frv. er gert ráð fyrir því, að byggt verði 500-1000 rúmlesta skip. Ekki dettur mér í hug að halda, að hv. 3. þm. Sunnl. búist við því, að það verði byggt skip allt upp undir 1000 rúmlestir, sem verði þannig, að það verði ekki fært um að fara hér milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur til jafns við skip, sem eru helmingi minni. Það er síður en svo, að sjóferðin á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar sé einhver innanskerjasigling. Þetta er hreint ekki góð sjóleið, og ég veit, að það dettur engum manni í hug að smiða það skip af þessari stærð á þessa leið, sem ekki ætti að vera fært um það að sigla einnig á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Og fyrr má nú vera vantraustíð á þeirri ríkisstj., sem við völd er, að ekki sé hægt að fela henni slíka heimild sem í þessum lögum er, þannig að hægt sé þá um leið að treysta því, að hún láti ekki búa til slíkan fljótapramma á þessa leið, að honum sé ekki treystandi á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Slíkt vantraust hef ég ekki á núv. ríkisstj., og ég vænti, að hv. þm. hafi það ekki heldur, að það sé ekki hægt að trúa henni fyrir slíku.

Nei, þessi tvö atriði eru bæði þess eðlis, að þau eiga ekki að vefjast fyrir mönnum, þegar slíkt nauðsynjamál liggur fyrir eins og þetta, og ég efast ekkert um, að þetta sér hv. 3. þm. Sunnl. vel, vitandi manna bezt, eins og hann hefur sagt hér, einmitt um þörfina, sem er á í þessum efnum.

Hv. þm. sagði, að hann hefði tekið skýrt fram í þeim orðum, sem hann lét hér falla, að hann ætlaðist ekki til, að samgöngumál þeirra Hornfirðinga yrðu skert með því að taka Herjólf úr þessum ferðum, vegna þess að hann ætlaðist til þess, að ferðum annarra skipa yrði þann veg háttað, að Hornfirðingar gætu búið við svipaðar samgöngur eftir sem áður. En hv. þm. veit það mætavel, að skipakostur sá, sem ríkið ræður yfir í þessum efnum, er takmarkaður. Hann er fullnýttur. Hornfirðingar og aðrir þeir, sem nú stefna kröfum sínum til ríkisins, biðja í sífellu um bættar samgöngur. Það verður ekki breytt mikið til um ferðir þessara skipa, án þess að það komi niður á einhverjum, og um leið og Herjólfur yrði tekinn út úr þessum ferðum, sem hann er í, án þess þá að leysa vandamál Vestmanneyinga að nokkru ráði, eru auðvitað allar líkur til þess, að slíkt mundi bitna á Hornfirðingum sjálfum, hvað svo sem þeir menn segja, sem till. gera um það að ætla að taka Herjólf út úr þessum ferðum.

Ég skal svo ekki þræta um þetta frekar, en vil endurtaka áskorun mína til hv. 3. þm. Sunnl., sem ég veit að getur ráðið úrslitum í þessu máli og á að þekkja svo vel til um þann vanda, sem hér er lagt til að reyna að leysa, að ég skora á hann að hafa áhrif á það, að nú verði ákvörðun tekin hér á Alþingi einmitt um það, sem lagt er til í þessu frumvarpi.