13.02.1964
Neðri deild: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

127. mál, efnahagsmál

Eðvarð Sigurðason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr,, stefnir að því, að numið verði úr gildi það ákvæði laganna frá 1960, sem bannar, að vísitala sé greidd á kaup. Till. sama efnis hafa þm. Alþb. flutt á undanförnum þingum, og það lætur að líkum, að að sjálfsögðu munum við fylgja því frv., sem hér er til umr. Með lögunum 1960, efnahagslögunum, var að því stefnt, að þær geysilegu verðhækkanir, sem urðu á öllum vörum og allri þjónustu í kjölfar gengislækkunarinnar, kæmu óbættar yfir á herðar launþeganna. Þá höfðu um áratugi verið þau ákvæði í samningum verkalýðsfélaga við atvinnurekendur, að kaup skyldi hækka, ef verðlag hækkaði. Þetta hafði verið með ýmsu móti, ekki alltaf eins, en þó í grundvallaratriðum þessi ákvæði og það viðurkennt, að launþegar ættu rétt á að fá bætur á kaup sitt, ef verðhækkanir yrðu. En með lögunum frá 1960 var gert ráð fyrir að fara nú aðra leið, þ.e. að banna með lögum, að slíkar bætur væru greiddar á kaupið, og með lögunum voru ógilt öll samningsákvæði í samningum verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur, sem um þetta fjölluðu og að sjálfsögðu voru ein meginstoðin undir þeim kaup- og kjarasamningum, sem verkalýðsfélögin höfðu gert. Ætlunin var sem sagt, að verðhækkanirnar skyldu velta yfir og koma óbættar á herðar almennings.

Það má vera, að stjórnarvöldin hafi reiknað með, að þetta tækist, það væri hægt að framkvæma slíka stefnu. En ég held, að öllum megi nú vera ljóst, að slík stefna er ekki framkvæmanleg í okkar landi, ef verkalýðsfélögin fá að búa við það frelsi, sem þau hafa búið við. Þetta hefur ekki tekizt. Að vísu hefur verkalýðshreyfingunni ekki tekizt fyllilega að halda í við þá gífurlega auknu dýrtíð, sem orðið hefur, eins og síðasti ræðumaður glögglega sýndi fram á. En það er annað, sem hefur komið í staðinn. Menn hafa kannske einhverjir trúað því í raun og veru, að með því að taka úr sambandi vísitöluna og kaupið, þá kæmist á meira jafnvægi og meiri friður, jafnvægi á þann hátt, að verðhækkanir gætu orðið eins og verkast vildi, en kaupið sæti eftir. Það, sem orðið hefur vegna þess, að þessi háttur var á hafður, að afnema eða banna, að vísitala væri greidd á kaupið, er einmitt hið gagnstæða. Í staðinn fyrir meiri frið og meira jafnvægi hafa orðið meiri átök og meiri ófriður á vinnumarkaðinum en nokkurn tíma áður. Þessa sögu þarf ekki að rekja, hana þekkja allir.

Öll met voru slegin á s.l. ári, þegar verkalýðshreyfingin varð þrisvar sinnum að leggja til átaka vegna samninga, og öllum er í fersku minni það, sem gerðist í árslokin. Nú er fram undan alveg á næstunni ný endurskoðun á kjarasamningunum, því að samningar þeir, sem gerðir voru í des., gilda aðeins til 6 mán., og meira að segja æðimörg af félög um í landinu eru enn samningslaus, vinna eftir kauptöxtum. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að einmitt þessi mál eru nú tekin upp hér á Alþ.

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að á undanförnum árum eða undanförnum mánuðum, kannske mætti segja hálfu öðru ári eða svo, þá hefur mjög vaxið skilningur atvinnurekenda og jafnvel stjórnarvalda líka á því, að þetta getur ekki lengur gengið svona. Hér verður að verða á breyting. Það er algerlega útilokað, að verkalýðshreyfingin geti gert samninga til langs tíma, búandi við þau skilyrði, sem verið hafa, með banni við verðtryggingu á kaupi. Það er algerlega útilokað. Allir draumar um vinnufrið og langa samninga eru þess vegna eintómar tálvonir. Þeir, sem í alvöru vilja leggja eitthvað af mörkum til þess, að hér geti verið vinnufriður og hægt að koma á löngum samningum, þeir verða þess vegna að íhuga þessi mái alveg sérstaklega. Það er að vísu ýmislegt annað, sem verður til að koma, en hér er um algert meginatriði að ræða.

Í þeim samningaviðræðum, sem fram fóru í desembermánuði, voru báðir samningsaðilar, bæði fulltrúar verkalýðsfélaganna og einnig fulltrúar atvinnurekenda, í grundvallaratriðum sammála um, að það bæri að taka upp aftur vísitölugreiðslur á kaup, verðtryggingu á kaupið, — í grundvallaratriðum sammála, — og var meira að segja búið að ræða og koma sér saman um í öllum höfuðatriðum, hvernig þetta skyldi framkvæmt. Í till. ríkisstj., sem hún gerði til lausnar deilunni, var einnig gengið inn á þetta grundvallarsjónarmið. Hins vegar voru á því svo miklir annmarkar, að ekki einn einasti maður úr samningahópi verkalýðsfélaganna taldi viðhlítandi að ganga að þeim kjörum, sem ríkisstj. bauð upp á. En í tili. hennar var þó viðurkennt, að taka bæri upp aftur verðtryggingu á kaupi.

Ég held, að þetta sýni, að það hefur orðið á breyting, alger breyting í afstöðunni til ákvæðanna um vísitölu á kaup, og það er trú mín, að það muni skammt í, að þetta verði viðurkennt í reynd. En eins og ég sagði áðan og fram hefur verið tekið hér, þá er nú skammt til þess, að samningaviðræður hefjist enn á ný, og ég held, að öllum sé ljóst, þegar athuguð er sú verðlagsþróun, sem orðið hefur frá því í desember og við okkur blasir nú, að þeir samningar verði ekki auðveldir, engan veginn auðveldir. En það, sem einna frekast og einna helzt gæti auðveldað slíka samninga, það væri einmitt, að Alþ. núna, meðan enn er þó nokkur friður, stigi það skref að afnema úr lögunum frá 1960 þau ákvæði, sem banna, að verðtrygging sé tekin upp á kaupið að nýju. Það er enginn efi á því, að slík aðgerð af hálfu Alþ. mundi verða til þess að milda að ýmsu leyti það andrúmsloft, sem annars kynni að verða, og ef til vill gera mögulega samninga, sem annars væru ekki mögulegir.

Ég held þess vegna, að hv. alþm. beri að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega, eins og nú standa sakir. Eins og 1. flm. tók fram, standa lögin frá 1960 í vegi fyrir því, að samningsaðilar, fulltrúar verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, geti framkvæmt þann vilja, sem var fyrir hendi í desember. Það er ekki aðeins erfitt fyrir verkalýðshreyfinguna að þurfa að standa í samningum tvisvar og þrisvar sinnum á ári, þetta er einnig erfitt fyrir samtök atvinnurekenda. Og það er slíkt öryggisleysi fyrir allan atvinnurekstur og ég vil segja fyrir þjóðarbúið í heild, að við það er í raun og veru engin leið að una, hvorki fyrir einn né neinn. Ég held þess vegna, að þeir menn. sem í alvöru og af einlægni vilja, að stigin séu skref til þess að koma á meiri friði á vinnumarkaðinum en verið hefur að undanförnu, þeir eigi ekki að hika við að vera fylgjandi því máli, sem hér er borið fram, og ég vildi seg,ja, að Alþ. bæri nú að stíga það skref að afnema þessi ákvæði úr lögunum. Þar með er út af fyrir sig ekki búið að taka upp nýja vísitölugreiðslu á kaup, um það verður að semja, en eins og ég hef lýst, tel ég, að vilji beggja aðila sé fyrir hendi til að gera það, að nýju í einhverri mynd, samkomulag takist um það, og lagaákvæði mega ekki standa í vegi fyrir því, að slíkt verði gert.