20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af fsp., sem hefur verið fram borin. Ég er sammála hv. 5. þm. Vestf. um það, að það á enginn héraðsrígur eða hreppapólitík að koma til mála, þegar um það er að ræða, hvar eigi að virkja. Og vitanlega mætti okkur Sunnlendingum standa á sama, hvort Dettifoss væri virkjaður eða Þjórsá. Það, sem almenningur í landinu spyr um, er það: Getum við fengið örugga raforku, og hvernig fáum víð hana á hagstæðu verði? Það er þetta, sem landsmenn hljóta að spyrja um, hvar sem þeir eru búsettir, og ég tel, að sú stefna, sem verður mörkuð í okkar virkjunar- og rafmagnsmálum, verði að mótast af þessu og engu öðru.

En viðvíkjandi því, ef að því yrði horfið að tengja saman, gera stóra virkjun á einum stað, hvort þá væri eðlilegt að leggja streng til Vestfjarða eða þá fremur að stækka virkjunina í Arnarfirði, þá hef ég rætt þetta sérstaklega við raforkumálastjóra, og ég get upplýst það, að þeirri athugun er ekki lokið. En við fyrstu sýn er talið eðlilegra að stækka virkjunina í Arnarfirði heldur en tengja saman við landskerfið. Ef hins vegar yrði horfið að því að virkja stórt á einum stað og tengja saman, er talið sjálfsagt að leggja línu yfir öræfin, og sérfróðir menn telja, að það sé ekki mikil hætta á bílunum á öræfunum. Það er t.d. engin ísingarhætta á öræfunum. Ísingarhættan kemur fyrst til greina, þegar komið er niður í byggð og fer að nálgast sjóinn. Og ef yrði tengt saman, hvort sem yrði nú virkjuð stórvirkjun í Laxá, sem býður upp á eitthvað betra nú upp á síðkastíð en áður var talið, og í tilefni af því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, er það rétt, að Laxá virðist hafa ýmsa kosti og meiri kosti en menn höfðu allt fram til þessa gert sér grein fyrir, hins vegar hefur það ekki verið rannsakað til fulls, hvort hún dygði sem landsvirkjun, ef að því yrði horfið, — en hvort sem það væri virkjað við Dettifoss eða Laxá eða Þjórsá, þá yrði það hugsað þannig, að það yrði vitanlega ein lína yfir öræfin, það yrði lína til Austurlandsins, og þá þyrfti ekki að virkja sérstaklega á Austurlandi, og það yrði leitt vestur um, vestur í Húnavatnssýslur, og hér syðra væri leitt vestur í Borgarfjörð, Snæfellsnes og Dali, og þá væri komið landskerfi, að undanskildum Vestfjörðum e.t.v. Ef að því ráði væri horfið, væri skapað meira öryggi en áður hefur verið í rafmagnsmálum landsmanna yfirleitt, og þá væri fenginn grundvöllur til verðjöfnunar á rafmagni, miklu auðveldari en nú. Og eftir því sem út lítur fyrir nú, væri, ef að þessu ráði yrði horfið, grundvöllur fyrir ódýrari orku fyrir alla landsmenn heldur en með því að virkja smátt í hverjum landsfjórðungi. En eins og ég sagði áðan, þá er það vitanlega Alþingis að segja síðasta orðið í því, hvað verður gert í þessum málum. Verður virkjuð landsvirkjun hér syðra eða nyrðra, eða verður haldið áfram að virkja smávirkjanir í flestum héruðum? Það verður að taka ákvörðun um það á þessu þingi, má ekki dragast lengur, eins og ég sagði hér áðan.