12.03.1964
Neðri deild: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

185. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr. og prentað er á þskj. 352, um breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, nr. 66 frá 17. júlí 1946, og er flutt af mér og hv. 3. þm. Sunnl., 5. þm. Austf., 3. þm. Norðurl. e. og 5. þm. Vesturl., felur í sér að rýmka réttindi vélstjóra á fiskiskipaflotanum.

Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt, er hinn mikli skortur á vélstjórum, sem hafa réttindi til að stjórna vélum yfir 400 hestöfl, sem kemur til af því, að meira hefur verið byggt af stærri skipum en áður, og jafnframt því, að vélar fiskiskipa hafa stækkað hlutfallslega miklu meira, og er svo komið, að skip, sem komið hafa til landsins eða hafa verið byggð innanlands s.l. 2—3 ár og eru yfir 60-70 rúmlestir, eru ekkert með minni aflvéi en 400 hö. Hin almennu réttindi, sem vélstjórar öðlast frá mótornámskeiðum Fiskifélags Íslands, hafa tekið þeim breytingum frá 1946, að þeir, sem þá öðluðust réttindi til vélstjórnar við vélar að 50 hö., fengu þau hækkuð með l. frá 1958 í 100 hö., og með þessu frv. er lagt til, að þau verði hækkuð í 150 hö., og þeir vélstjórar, sem öðluðust réttindi skv. l. 1946 til þess að vera vélstjórar við vélar að 250 hö., fengu réttindin hækkuð með lögunum 1958 í 400 hö., og með þessu frv. er lagt til, að þau hækki í 600 hö.

Flm. þessa frv. telja eðlilegt, að lögunum verði breytt með tilliti til hinnar miklu aukningar á stærri fiskiskipum, sem knúin eru aflmeiri vélum, enda er það í framhaldi af því, sem áður hefur verið gert í þessum efnum. Það er skoðun mín, að þeir menn, sem aflað hafa sér þeirrar vélstjóramenntunar, sem þjóðfélagið hefur ætlað vélstjórum fiskibátaflotans, og búnir eru að vinna þessi störf árum saman, eigi þann rétt að fá að halda störfum sinum, þó að fiskibátarnir hafi stækkað og kröfurnar um aflmeiri vélar hafi aukizt stórlega. Hins vegar má ekki gleyma þeirri staðreynd, að í hinum nýju og fullkomnu fiskibátum okkar er fjöldi tækja og margfalt meiri rafbúnaður en áður þekktist í fiskibátaflotanum, sem gerir það að verkum, að nauðsynlegt er að krefjast af vélstjórum meiri þekkingar í rafmagnsfræði, og gerir þetta frv. ráð fyrir, að þeim vélstjórum, sem fá réttindi sín aukin úr 400 hö. í 600 hö., sé sett það skilyrði, að þeir sæki námskeið í rafmagnsfræði, sem skuli haldin á vegum Fiskifélags Íslands, áður en þeir fá út gefin ný vélstjóraskírteini. Þá er í frv. þessu, að slík námskeið skuli haldin í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjum, en að öðru leyti er gert ráð fyrir, að ráðh. setji nánari reglur um fyrirkomulag þessara námskeiða, bæði hvað snertir námsefni og tíma. Með þessum ákvæðum um námskeið ætti það að vera tryggt, að vélstjórar öðlist viðunandi þekkingu í rafmagnsfræði.

Þá þykir mér rétt að geta þess, að á aðalfundi L.Í.Ú., sem haldinn var í nóvembermánuði s.1., var samþ. ályktun þess efnis, að stjórn samtakanna beitti sér fyrir því, að réttindi vélstjóra á fiskiskipum, sem nú hafa vélgæzluréttindi fyrir allt að 400 ha. vélum, verði hækkuð í 600 hö. Enn fremur hafa nokkrir útvegsmenn og margir vélstjórar farið þess á leit við mig og nokkra aðra þm., sem mér er kunnugt um, að frv. um rýmkun á réttindum vélstjóra verði flutt á þessu þingi. Með lögum þeim, er samþ. voru á Alþ. 29. maí 1958, um breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, voru sett þau ákvæði til bráðabirgða, að ríkisstj. léti endurskoða ákvæði laga um menntun og réttindi vélstjóra og skyldi þeirri endurskoðun lokið fyrir næsta reglulegt Alþ. Nú hefur fyrir skömmu verið skipuð nefnd til að endurskoða þessi ákvæði, en þrátt fyrir það tel ég nauðsyn bera til, að þessi takmarkaða breyting, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, nái fram að ganga á þessu þingi, til þess að námskeiðin í rafmagnsfræði, sem þar er gert ráð fyrir, verði undirbúin í sumar og þau geti farið fram að lokinni sumarsíldarvertíð.

Þó að þetta frv. verði samþ., breytir það í engu þeirri staðreynd, að brýna nauðsyn ber til að breyta lögunum um menntun og réttindi vélstjóra, sem eru fyrir löngu orðin úrelt og þurfa gagngerðrar breytingar, eins og það, að vélstjóri, sem lokið hefur námi við bæði meira og mínna mótornámskeið Fiskifélagsins og að auki aflað sér reynslu í starfi, kemst ekki inn í vélskólanu nema byrja til þess undirbúningsnám frá rótum sem iðnnemi í vélsmiði. Sama er að segja um þá, sem lokið hafa námi í vélskólanum og rafmagnsdeild hans, að þeir þurfa að fara í menntaskólanám til þess að komast í háskóla til æðra vélfræðináms.

Allur sá fjöldi vélstjóra, sem nú hefur 400 ha. réttindi og er nú starfandi á skipum, sem hafa vélar allt í 600 hö., þarf að sækja um undanþágu fyrir hverja vertíð. Þetta fyrirkomulag er óviðunandi, að þessir menn þurfi tvisvar til þrisvar á ári að fá sérstaka undanþágu til þess að gegna þessum störfum, þegar menn með meiri réttindum eru ófáanlegir, eins og reynsla síðustu ára hefur margsinnis sannað.

Eins og ég hef áður rakið, felur þetta frv. í sér þessar höfuðbreytingar, að réttindi þeirra vélstjóra, sem nú mega stjórna 100 ha. vélum, verði miðuð við 150 ha. vélarstærð og réttindi þeirra vélstjóra, sem nú mega stjórna 400 ha. vélum, verði miðuð við 600 ha. vélarstærð og þeim ,jafnframt sett það skilyrði að taka þátt í námskeiði í rafmagnsfræði, sem haldið yrði á vegum Fiskifélags Íslands.

Þá vil ég beina þeim tilmælum til þeirrar nefndar, sem frv. verður væntanlega vísað til, að hún taki til athugunar, hvort ekki er tímabært, að lögin um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum verði gefin út, felldar inn í þau þær breytingar, sem gerðar hafa verið á lögunum frá 1946, en þær breytingar eru nú þegar orðnar 5: 1. breytingin er lög nr. 42 frá 1947, um skipstjórnarmenn, 2. breytingin lög nr. 30 frá 1957, einnig um skipstjórnarmenn, 3. breytingin lög nr. 47 1958, um mótorista, 4. breytingin lög nr. 35 1961, um mótorista, og 5. breytingin lög nr. 47 frá 1963, um skipstjórnarmenn, og lögin síðan gefin út í heild, eftir að breytingarnar hafa verið felldar inn í lögin, og það gerir þau aðgengilegri fyrir menn, sem þurfa að kynna sér þessi lög, en það ern, eins og allir vita, mjög margir menn, sem það þurfa að gera.

Ég tel, að ég þurfi svo ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., en að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.