21.10.1963
Efri deild: 4. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

28. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem nú er tekið til umr., á þskj. 28, er shlj. frv., sem ég flutti í þessari hv. d. á síðasta Alþingi. Það var samþ. hér í d., en dagaði uppi í hv. Nd. Nú er frv. flutt af mér og hv. 8. landsk. þm. í félagi. Það snertir málefni, sem tilheyrir okkar heimahéraði, og við þekkjum báðir málavexti og erum sammála um, að rétt sé, að Alþingi heimili þá ríkisjarðarsölu, sem frv. fer fram á að leyfð verði. Ég gerði í fyrra grein fyrir þessu máli og tel mig þess vegna geta verið stuttorðari nú.

Jörðin Litlagerði er í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún er norðan Fnjóskár í svonefndu Dalsmynni. Þjóðvegurinn í Dalsmynni liggur um land Litlagerðis, svo að ekki getur jörðin talizt illa sett til vegar, en hún er landlítil og tún fremur óþægilega brattlent. Jörðin hefur verið í eyði nú um nokkur ár. Síðasti ábúandi fór þar frá hálfsmíðuðu íbúðarhúsi, eða viðbót við íbúðarhús, og liggja húsin nú undir skemmdum, eins og geta má nærri, þegar engin er þar höndin til að halda við og þessi nýja bygging hálfsmíðaða er háifköruð. Það hefur verið reynt að fá ábúanda á jörðina, en ekki tekizt. Jarðeigandinn er ríkið, og hann hefur heldur ekkert fyrir jörðina gert, hvorki til viðhalds þessi ár né umbóta, enda má segja, að fjárráð jarðeignadeildarinnar hjá ríkinu séu nú þannig, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því, að hún kosti miklu til þeirra jarða, sem ekki eru í byggð.

Nú vill svo til, að Jóhann Skaftason sýslumaður í Þingeyjarsýslu og bæjarfógeti á Húsavík er fæddur á þessu býli og alinn þar upp; foreldrar hans bjuggu þar lengi. Jóhann Skaftason ber hlýjan hug til æskustöðva sinna, og hann vill gera tilraun til „að gera jörðinni til góða“, eins og hann hefur orðað það, svo að hún verði byggilegri, kosta til þess eigin fé og leggja sig fram um að koma kotinu aftur í byggð. Frv. er flutt, bæði í fyrra og núna, samkv. ósk hans. Ekki ætlar Jóhann Skaftason sjálfur að setja upp bú þarna, því að hann hlýtur að hafa sitt setur á Húsavik sem bæjarfógeti, og sumarbústað hefur hann reist sér að Skarði í Dalsmynni, en þar hafa ættmenn hans lengi búið. Engar eru líkur til, að Jóhann Skaftason geti grætt peninga á því að eignast Litlagerði. Hins vegar vill hann fórna peningum fyrir þessar bernskustöðvar sinar. Það er mjög eðlilegt, að hann vilji fá full eignarumráð yfir kotinu, um leið og hann tekur sér fyrir hendur að gera því til góða og reyna að koma því úr eyði í ábúð. Fullur ráðstöfunarréttur er honum auðvitað nauðsynlegur í því sambandi.

Við það er að stríða í þjóðfélaginu, að menn Yfirgefa staðfestu sína í sveltum og jarðir fara í eyði. Flest þykir arðvænlegra nú en verja fé sínu til jarðarkaupa. Ríkið á margt jarða, sem það kemur ekki í búskaparnot. Ég get ekki betur séð en það sé fágætt tækifæri að selja Jóhanni Skaftasyni sýslumanni þessa ríkisjörð, Litlagerði, til þess að hann leggi fram fé sitt til umbóta þar og einnig áhuga sinn til að fá þangað ábúanda. Auk þess er sá ræktarhugur, sem fram kemur hjá honum í því að vilja gera þetta, svo virðingarverður, að hann verðskuldar góðar undirtektir Alþingis. Hvers vegna ætti ríkið ekki að þiggja aðstoð sjálfboðaliðans í þessum efnum?

Á síðasta Alþingi athugaði landbn. þessarar hv. d. frv. og leitaði álits jarðeignadeildarinnar hjá stjórnarráðinu, Landnáms ríkisins og hreppsnefndarinnar í Grýtubakkahreppi. Svör þessara aðila allra voru jákvæð, eins og kemur fram í nál. n. Í nál. segir, með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur leitað umsagnar Landnáms ríkisins og jarðeignadeildar um frv. og fengið þaðan nauðsynlegar upplýsingar um jörðina. Jarðeignadeildin telur ekki ástæðu til að hafa á móti að heimila söluna. Landnámsstjóri telur litlar líkur til, að jörðin byggist, og er því hlynntur, að jörðin sé seld með það fyrir augum, að kaupandi geri á henni umbætur. Í þriðja lagi hefur n. borizt símskeyti frá hreppsnefnd Grýtubakkahrepps, þar sem hún mælir með sölu jarðarinnar án skilyrða af hálfu hreppsnefndar.“

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði eftir 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.