21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér sýnist það tilgangslaust að fara að þrátta um það, hvort löggjöfin frá 1960 sé til varnaðar eða ekki. Ég hef áður minnzt á það mál og hef ekki neinu við það að bæta, sem ég sagði áðan um það. En ég vil aðeins benda á það, að niðurstaða þessarar löggjafar er sú, að dragnót hefur verið leyfð síðan 1960 á öllu svæðinu frá sunnanverðum Austfjörðum vestur og norður undir Horn, ekki þó óslitið, að ég ætla, heldur að miklu leyti. En fyrir Norðurlandi og norðanverðum Austfjörðum hefur hvergi verið leyfð dragnót eftir þessum lögum frá 1960. Sýnist mér þá, að vísindamenn og þeir, sem áhuga hafa fyrir því að leiða í ljós gagnsemi þessa veiðarfæris, megi nokkuð vel við una eða hafi mátt nokkuð vel við una, úr því að dragnótin hefur verið í notum á svo stóru svæði við landið. Hins vegar er svo annar hluti strandlengjunnar, sá sem ég nefndi áðan, þar sem dragnótin hefur ekki verið leyfð, og má þá ætla, að reynsla hafi fengizt eða fáist af hvoru tveggja, ef framhald verður á þessu fyrirkomulagi, og að slíkt verði ekki eftir atvikum talið óheppilegt einmitt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja fara rannsóknarleiðina í þessum efnum.

En út frá því, sem hér hefur verið mælt í þá átt að láta í ljós óánægju út af þessari löggjöf, verð ég að segja það, að mér finnst það bera þess vott, að þeim, sem þannig ræða málið, þyki ekki hafa verið nóg að gert. Þeir eru sýnilega óánægðir með eitthvað í sambandi við þessi lög, og það virðist hljóta að vera af því, að þeir telji, að rétt hefði verið að leyfa dragnótina víðar en gert hefur verið. Nú er mér ekki fullkunnugt um það, hvaða afstöðu stofnanir eins og atvinnudeild háskólans og Fiskifélag Íslands hafa haft til hugsanlegrar frekari útfærslu dragnótaveiðanna. Ég minnist þess ekki, að það hafi komið fram, og mér hefði þótt fróðlegt að fá einhverja vitneskju um það, t.d. frá hv. 6. landsk. þm., hvort fyrir hafi legið á sínum tíma einhver afstaða þessara stofnana eða þeirra fræðimanna, sem þær byggja álit sitt á um það atriði, og þá, ef sú afstaða lá fyrir, hvort hún hafi e.t.v. verið á þá leið, að rétt væri að opna firðina fyrir Norðurlandi, Húnaflóa, Skagafjörð, Eyjafjörð, Skjálfanda, Öxarfjörð, Þistilfjörð, Bakkafjörð og Vopnafjörð, hvort það hafi legið fyrir afstaða þess efnis, að talið væri eðlilegt að gera slíkt. Ef svo væri upplýst, kynni það að gefa tilefni til frekari umhugsunar um þessi mái.

Í sambandi við þær óánægjuraddir, sem hér koma fram út af löggjöfinni frá 1960, og það frv., sem hér liggur fyrir, gaf ekki beint tilefni til, skal ég svo ekki hafa fleiri orð, en ég vil aftur benda á það, að allt, sem vísindamenn segja um þessi mál, og það, sem hér hefur verið lesið, er yfirleitt með sama fyrirvaranum að efni til, þó að hann sé orðaður á mismunandi hátt, þ.e.a.s., „eftir því sem fram hefur komið“ eða „eftir því sem vitað er“, og ummæli, sem hv. þm. las hér síðast, voru með þessum fyrirvara: „eftir því sem vitað er“. En það er svo margt, sem ekki er vitað á sviði vísindanna, því miður, þrátt fyrir ýmsar framfarir og það kynni að vera, að þótt mönnum virðist það ekki hafa komið fram á þessum 3 árum, að notkun dragnótar hér í landhelginni hafi skaðleg áhrif, þá gæti það samt átt eftir að koma fram. Það getur vel verið, að það komi ekki fram, en það getur alveg eins átt eftir að koma fram. Ég segi þetta aðeins til þess að benda á, að það er ekki hægt að byggja algerlega á því, sem haldið er fram með slíku fororði. Þess vegna verða menn líka í þessu máli eins og fleirum að byggja nokkuð á sinni leikmannsreynslu.