18.11.1963
Efri deild: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

69. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á miðju þessu ári fór stjórn Sambands ísl. barnakennara þess á leit, að fjmrh. hlutaðist til um að lög um lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra yrðu endurskoðuð í samráði við stjórn sambandsins og samræmd hinum nýju lögum frá síðasta Alþingi um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Var þar gert ráð fyrir, að frv. um þetta efni yrði lagt fyrir Alþ. á þessu hausti og að endurskoðuð lög fyrir sjóðinn gæti tekið gildi 1. jan. n.k. Fjmrn. varð að sjálfsögðu við þessum tilmælum og fól Guðmundi Guðmundssyni tryggingafræðingi að semja nýtt frv. um lífeyrissjóð barnakennara. Það frv. var svo sent til umsagnar stjórn Sambands ísl. barnakennara og stjórn lífeyrissjóðs barnakennara, og hafa þeir aðilar báðir lýst sig samþykka frv., eins og það nú liggur fyrir þessari hv. deild.

Með lögum frá síðasta þingi var sú breyting gerð á almannatryggingunum, að frá og með 1. jan. 1964 greiða sjóðfélagar lögboðinna lífeyrissjóða fullt persónugjald til almannatrygginganna, en njóta fullra lífeyrisréttinda frá sama tíma. Á síðasta þingi voru einnig, eins og ég gat um áðan, gerðar miklar breytingar á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og eru það nú lög nr. 29 frá 1963. Lög lífeyrissjóðs barnakennara og ekkna þeirra og lög lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins höfðu frá stofnun sjóðanna verið samhljóða, eftir því sem við gat átt. Með frv. því, sem hér er lagt fram, er þessari reglu fylgt, og með því eru gerðar sams konar breytingar á reglum um lífeyrissjóð barnakennara og urðu á lögunum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Tilgangur frv. er að tryggja sjóðfélögum viðhlítandi lífeyri, og má segja, að aðalbreytingarnar séu þessar: Í fyrsta lagi, barnakennarar fái fullan lífeyri hjá almannatryggingunum, sem þeir hafa ekki hlotið. Í öðru lagi: Niður er felld reglan um, að eftirlaun miðist við meðaltal launa síðustu 10 starfsárin. Í stað þess er ákveðið, að eftirlaun skuli miðast við þau laun, sem fylgdu því starfi, sem sjóðfélagi var í, þegar hann lét af því. Að sjálfsögðu er þetta til mikilla hagsbóta fyrir sjóðfélaga, a.m.k. ef gert er ráð fyrir því, að kaupgjald fari hækkandi ár frá ári hér á landi, að maður ekki tali um, ef kaupgjaldið tekur stökkbreytingum, eins og oft hefur verið á síðustu 20 árum. í þriðja lagi er gert ráð fyrir í þessu frv., ath verði almenn hækkun á launum barnakennara, þá skuli elli-, örorku- og makalífeyrir einnig hækka í sama hlutfalli og ríkissjóður endurgreiði lífeyrissjóðnum þá hækkun, sem þannig verður á lífeyrisgreiðslu og segir um þetta í 23. gr. frv.

Eins og ég gat um, er eitt meginatriði frv. það, að barnakennarar fái hér eftir bæði lífeyri úr lífeyrissjóði og lífeyri úr almannatryggingunum: Hins vegar er það ekki einfalt mál að leysa þetta, þar sem hér er verið að fella saman tvö óskyld kerfi, annars vegar lífeyrissjóðs, sem byggður er á almennu tryggingakerfi, og hins vegar réttindi og skyldur gagnvart almannatryggingunum, þar sem um er að ræða fast persónugjald borgaranna til stofnunarinnar. Þetta mál er leyst á sama hátt og í lögunum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en það hefur óhjákvæmilega í för með sér, að iðgjöld til lífeyrissjóðsins verði nokkru margbrotnari en áður. Hingað til hafa barnakennarar greitt 4% af launum sínum í lífeyrissjóð, auk þess greiða þeir um það bil 1/3 af persónugjaldi til almannatrygginganna. Sú greiðsla er að sjálfsögðu nokkuð mismunandi prósentutala af launum eftir því hve há þau eru, en algengast er um 0.75%. Eftir frv. verður sú breyting á, að kennarar greiða misjafna hundraðstölu af launum sínum, eins og segir í 8. gr. frv., frá 2¼% upp í 4¼% af launum sínum, og er það mismunandi eftir launaflokkum. En þessi breyting er sem sagt óhjákvæmileg til þess að samræma þessi bæði kerfi. Nú er það meginregla, að eftir 30 ára starfstíma verða lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum og almannatryggingum um 25% hærri en greiðslur lífeyrissjóðsins voru. Og ef við leggjum nú saman þessi 4%, sem kennarar hafa greitt til sjóðsins, og 0.75%, sem er meðaltalsgreiðsla til almannatrygginganna, leggjum 25% ofan á hvort tveggja, þá kemur út rétt tæplega 6%, og niðurstaðan er því sú, að gert er ráð fyrir, að samanlögð iðgjöld barnakennara til sjóðsins og til almannatrygginga ættu að vera um 6% af launum. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Ellilífeyrir er nú að hámarki 60% samkvæmt gildandi lögum, samkv. frv. mundi ellilífeyrir úr sjóðnum og almannatryggingunum til samans verða 75% fyrir einhleypan mann, sem starfað hefur 30 ár í þjónustu ríkisins, hins vegar fyrir hjón, þar sem bæði hafa lífeyrisréttindi, þ.e.a.s. bæði komin á þann aldur, mundi ellilífeyririnn samanlagt verða 85–90% af launum manns, þegar hann lætur af störfum. Það er gert ráð fyrir, að meðaltalið mundi verða um 80%. Flestir mundu fá nokkru hærri heildarlífeyri eftir nýju reglunum samkv. þessu frv. heldur en þeim gömlu. Þó eru nokkrir aðilar, þ.e.a.s. þeir, sem hæstar uppbætur hafa fengið samkv. 18. gr. fjárlaga, sem mundu fá heldur hærri heildarlífeyri eftir gömlu reglunum en þeim nýju, og þess vegna er sett ákvæði í 22. gr. þessa frv. um, að þessir lífeyrisþegar skuli einskis í missa, heldur fá áfram sama heildarlífeyri og áður. Þar segir: „Þeim lífeyrisþegum, sem fengu greiddan lífeyri samkv. 18. gr. fjárlaga og höfðu að honum meðtöldum hærri lífeyri eftir gömlu reglunum en hinar nýju mundu veita þeim, skal greidd uppbót þannig, að þeir haldi sama heildarlífeyri og þeir höfðu áður. Ríkissjóður endurgreiðir lífeyrissjóði barnakennara mismuninn á þeim lífeyri, sem þannig verður greiddur, og þeim lífeyri, sem viðkomandi lífeyrisþegum bar samkvæmt eldri reglum.“

Um örorkulífeyrinn er ákvæðið í 11. gr. frv. Þar eru nokkrar breytingar á gerðar, einkum er rétt að geta þess nýmælis, að örorkulífeyrir á samkv. frv. að verða fleiri hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri en örorkan er metin, ef hún er yfir 50%. Til skýringar er rétt að geta þess, að nú er fyrirkomulagið það, að þegar örorkan er metin í prósentum, þá greiðist öryrkja sama prósenta af hámarksörorkulífeyrinum og örorkan er metin. T. d. ef örorkan er metin 30%, fær maður 30% af hámarksörorkulífeyrinum, ef hún er metin 70%, fær maður 70% af hámarksörorkulífeyrinum. Hins vegar virðist reynsla bæði hér og erlendis benda til þess, að mönnum með mikla örorku gangi tiltölulega verr að nýta þá starfsorku, sem þeir eiga eftir, heldur en þeim, sem hafa lítið skerta starfsgetu. Til þess að bæta um í þessu efni er svo ákveðið í 11. gr. frv., að sé örorka sjóðsfélaga á milli 10 og 50%, þá skuli örorkulífeyrir hans vera sami hundraðshluti af hámarkslífeyri, en ef örorka manns er yfir 50%, þannig að hann hefur misst helming eða meira en helming af orku sinni, þá breytist þetta þannig, að fyrir hvert 1%, örorkunnar yfir 50% greiðast 2% af hámarksörorkulífeyri. Ég skal skýra þetta með dæmi. Ef örorka manns er metin á 40%, mundi hann bæði samkv. núgildandi reglum og samkv. frv. fá 40% af hámarkslífeyri, en ef maður er 60% öryrki, þá fær hann nú 60% af hámarkslífeyri, en mundi eftir frv. fá 70%, vegna þess að út á 50% örorkuna fær hann fyrst 50% af hámarkslífeyri, en fyrir þessi 10% til viðbótar fær hann 20% af hámarkslífeyri. Sá, sem metinn er 75% öryrki eða meira, á samkv. frv. rétt á að fá hámarksörorkulífeyri.

Um makalífeyrinn er ákvæði í 12. gr. frv. Þar eru verulegar breytingar á gerðar, einkum á þá leið, að makalífeyrir er hækkaður og að makalífeyrir skal fylgja launum í því starfi, sem sjóðfélagi gegndi síðast, og 10 ára meðaltalsreglan er að sjálfsögðu einnig afnumin hér. Eftir 30 ára starfstíma verður makalífeyrir nú 50% af launum hins látna og fylgir svo þessari sömu prósentu af þeim launum, sem fylgja því starfi framvegis. Þetta er sama hundraðshlutahækkun og á ellilífeyrinum.

Ég vil nefna sérstaklega nýmæli í 6. mgr. 12. gr., þar sem segir svo: „Þegar sjóðfélagi deyr, sem verið hefur tvígiftur, og lætur eftir sig tvo maka á lífi, skiptist makalífeyririnn milli þeirra í beinu hlutfalli við þann tíma, sem hvor þeirra hefur verið giftur hinum látna sjóðfélaga á þeim tíma, er hann ávann sér lífeyrisréttindi og/eða naut lífeyris úr sjóðnum. Ef annar hinna eftirlifandi maka giftist að nýju, fellur allur lífeyririnn til hins, en skiptist aftur, sé því hjónabandi slitið, enda veiti síðara hjónabandið ekki rétt til lífeyris úr sjóðnum eða öðrum hliðstæðum sjóði. Hliðstæð regla gildir, séu rétthafar makalífeyris fleiri en tveir.“

Þetta ákvæði, sem er nýmæli, er sett inn sumpart eftir fyrirmynd í norskum og dönskum lífeyrissjóðslögum og sumpart eftir eindreginni áskorun Kvenréttindafélags Íslands, en á 7. fulltrúafundi þess, sem haldinn var 20. og 21. júní 1962, ályktaði Kvenréttindafélagið, að réttur maka til lífeyris eftir fráfall sjóðfélaga eigi ekki að falla niður, þótt hjúskap sé slitið að lögum og sjóðfélagi hafi stofnað til nýs hjúskapar. Lífeyrissjóðsgreiðslur ættu að skiptast hlutfallslega milli eftirlifandi maka sjóðfélaga. Sams konar nýmæli og þetta var tekið inn í l. frá síðasta þingi um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Þá eru ákvæði í 14. gr. frv. um barnalífeyri. Þar segir, að „börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, þegar hann andast, og yngri eru en 18 ára, skuli fá árlegan lífeyri úr sjóðnum, þangað til þau eru fullra 18 ára að aldri” o.s.frv. Einnig er ákveðið, að ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sjái um framfærslu þess, þá skuli samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og lífeyrissjóðnum vera 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginganna. Nú er hins vegar árlegur barnalífeyrir 25% hærri en barnalífeyrir almannatrygginganna.

Í 3. mgr. 14. gr. er einnig nýmæli um það, að börn ellilífeyrisþega skuli fá barnalífeyri, m.ö.o., að barnalífeyri fái ekki aðeins börn, þegar foreldri er látið, heldur einnig ef foreldri, sem verið hefur starfsmaður hjá ríkinu, er komið á elli- eða örorkulífeyri.

Ég hef gert grein fyrir helztu breytingum, sem gerðar eru samkv. þessu frv. frá eldri lögum og miða í þá átt að veita sjóðfélögum hærri og meiri lífeyri og réttindi en nú er. Um ýmsar aðrar breytingar skal ég ekki ræða hér nánar, en vísa til grg. frv., bæði almennt og um hinar einstöku greinar.

Varðandi heildarkostnaðinn af þessu frv. er þess fyrst að geta, að ætlazt er til þess, að sjóðfélagar í heild beri kostnaðinn að sínum hluta, eins og verið hefur, þ.e. 40% af lífeyrisgreiðslum. Ríkissjóður greiðir sinn hluta kostnaðarins, sem er 60%, auk hinna sérstöku uppbóta, sem hvað eftir annað hafa verið veittar vegna launahækkana, sem rætt er í 23. gr., eins og ég gat um áðan.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en vil aðeins undirstrika að nýju, að Samband ísl. barnakennara hefur fylgzt með samningu frv., og þær ábendingar, sem það hefur gert, hafa verið teknar inn í frv., og er sem sagt um frv., eins og það liggur nú fyrir, fullt samkomulag, bæði við stjórn Sambands ísl. barnakennara og stjórn þessa lífeyrissjóðs.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.