22.10.1963
Sameinað þing: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1964

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hefur gert svo glögga grein fyrir fjárlagafrv. og fjármálum ríkissjóðs, að ég tel ekki ástæðu til að gera þau mál frekar að umræðuefni í þeim orðum, sem ég segi hér. Ég ætla ekki heldur að fara að karpa við stjórnarandstöðuna í tilefni af málflutningi hennar hér í þessum umr. eða í dagblöðunum. Mér finnst tíma mínum hér í kvöld vera betur varið til þess að ræða við ykkur, hlustendur góðir, nokkur mikilvæg grundvallaratriði í stjórnmálum og efnahagsmálum okkar Íslendinga, — grundvallaratriði, sem mér virðast allt of oft gleymast í daglegu argaþrasi.

Íslendingar eru fámennust þeirra þjóða í heiminum, sem komið hafa á fót sjálfstæðu ríki. Íslenzka ríkið er í tölu yngstu fullvalda ríkja í veröldinni. Margs konar erfiðleikar eru því samfara að vera fámenn þjóð í stóru og harðbýlu landi. Og tíminn, sem Íslendingar hafa haft til að koma á fót menningarþjóðfélagi með góðum lífskjörum, hefur verið stuttur. Okkur gleymist það of oft, að um aldamótin síðustu voru Íslendingar fátæk þjóð bænda og fiskimanna, sem erjaði landið og sótti sjóinn með frumstæðum aðferðum. En eftir að stjórnin fluttist inn í landið í byrjun aldarinnar, botnvörpungar og vélskip ollu byltingu í atvinnuháttum og ný skipan komst á peninga- og bankamál þjóðarinnar með stofnun seðlabanka, hófst tímabil örra framfara. Á aðeins 60 árum hefur fámennustu þjóð veraldar tekizt að koma á fót iðnvæddu þjóðfélagi, þar sem borgararnir búa við lífskjör, sem eru hliðstæð því, sem gerist í nálægum Evrópulöndum, en meiri jöfnuður ríkir í afkomu og eignaskiptingu en dæmi munu til annars staðar. En þessi þróun hefur ekki orðið með jöfnum hætti. Hún hefur þvert á móti gerzt í stökkum, en stöðvazt á milli. Fram að heimsstyrjöldinni fyrri var framþróunin ör. Styrjaldarárin voru þjóðinni hins vegar óhagstæð. Áratugurinn frá lokum fyrri heimsstyrjaldar og fram til heimskreppunnar miklu um 1930 var nýtt framfaratímabil. Heimskreppan varð Íslendingum aftur á móti mikið áfall og áratugurinn 1930–1940 erfiður.

Þegar heimsstyrjöldin síðari skall á, voru lífskjör á Íslandi meðal þeirra, sem lökust voru í Vestur-Evrópu. En í heimsstyrjöldinni síðari gerbreyttist efnahagur þjóðarinnar. Lífskjörin bötnuðu stórlega og Íslendingar eignuðust meiri sjóði erlendis en þeir höfðu nokkurn tíma átt fyrr. Um leið fór efnahagskerfi þjóðarinnar úr skorðum, eins og raunar efnahagskerfi annarra Evrópuþjóða, hvort sem þær voru beinir þátttakendur í styrjöldinni eða ekki. Flestar Evrópuþjóðanna voru þó búnar að koma efnahagsmálum sínum í eðlilegt horf um eða upp úr 1950. Hér á landi hafði röskunin hins vegar orðið svo róttæk, að erfitt reyndist að koma á aftur eðlilegum búskaparháttum hliðstæðum þeim, sem tíðkast í þeim lýðræðisríkjum, sem lengst eru á veg komin í iðnþróun og þar sem lífskjör eru bezt. Íslendingar eiga því enn við að etja margs konar efnahagsvandamál, sem beint eða óbeint má rekja til styrjaldaráranna og þeirrar röskunar, sem þá varð á efnahagslífinu öllu.

Þegar núv. stjórnarflokkar tóku við stjórnartaumunum í árslok 1959, var Ísland eina landið í Vestur-Evrópu, sem hafði alrangt gengi á gjaldmiðli sínum og reyndi að draga úr misræminu, sem af því leiddi, með víðtæku kerfi útflutningsbóta og innflutningsgjalda. Ísland var þá eina landið í Vestur-Evrópu, sem bjó við ströng höft í utanríkisverzlun og gjaldeyrisviðskiptum. Ísland var eina landið í Vestur-Evrópu, þar sem allsherjareftirlit var með fjárfestingu og verðlagi. Ísland var eina landið í Vestur-Evrópu, sem hafði ekki dregið úr niðurgreiðslum úr ríkissjóði til lækkunar á verðlagi síðan á styrjaldarárunum. í engu öðru landi Vestur-Evrópu voru eins náin tengsl og hér á milli kaupgjalds og vísitölu framfærslukostnaðar og á milli landbúnaðarverðs og atvinnutekna launastétta.

Um áramótin 1959–1960 bar íslenzkt efnahagslíf enn í grundvallaratriðum þann svip, sem það hafði hlotið í heimsstyrjöldinni síðari, þegar utanaðkomandi breytingar urðu svo snöggar og gagngerar, að grundvöllur framleiðslu- og viðskiptalífsins raskaðist og ríkið varð að láta til sín taka á fjölmörgum sviðum, til þess að allt færi ekki úr böndunum. Á fyrsta áratugnum eftir styrjöldina höfðu allar aðrar nálægar þjóðir leiðrétt þá röskun, sem komst á efnahagsmál þeirra á styrjaldarárunum. En 15 árum eftir lok stríðsins sátu Íslendingar enn uppi með efnahagskerfi, sem hafði mótazt af sérstökum vandamálum styrjaldaráranna, en hlaut að verða heilbrigðri framþróun fjötur um fót á friðartímum. Reynslan varð líka sú, að á þessum 15 árum eftir lok stríðsins urðu efnahagsframfarir hér á landi hægari og minni en í flestum nálægum löndum. Hins vegar höfðu lífskjörin hér batnað mikið á stríðsárunum, samtímis því sem þau höfðu versnað með flestum nágrannaþjóðanna. Ísland var því komið á undan flestum þjóðum Vestur-Evrópu í lífskjörum í styrjaldarlokin. Þess vegna voru lífskjörin hér við upphaf sjöunda áratugsins svipuð því, sem þau gerast yfirleitt í Vestur-Evrópu, þótt framþróunin þar hefði frá styrjaldarlokum verið örari en hér.

Það, sem gert var 1960, var mikið átak til þess að þurrka svipmót efnahagskerfis styrjaldaráranna af íslenzku atvinnu- og viðskiptalífi. Gengið hefur verið skráð rétt, frjálsræði hefur verið aukið mjög í viðskiptalífinu. Þetta hefur stuðlað að því, að framleiðsla hefur aukizt meira og meiri hagkvæmni hefur gætt í framleiðslu og viðskiptum en ella hefði verið. Um leið hefur þetta stuðlað að bættum lífskjörum. Samhliða hefur mikið átak verið gert í félagsmálum og menningarmálum, til þess að gera þjóðfélagið réttlátara og betra.

En á 4 árum hefur ekki tekizt að bæta úr öllu, sem aflaga fór á 5 styrjaldarárum og ekki tókst að lagfæra á 15 árum eftir styrjöldina. Það er skipun launamála og verðlagsmála landbúnaðarins, sem nú er fyrst og fremst áfátt í íslenzkum efnahagsmálum. Afleiðing þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið á þessum sviðum, hefur verið síendurtekin röskun á almennu verðlagi í landinu. Ég held, að sjálft skipulag samtaka launþega og vinnuveitenda eigi verulegan þátt í því ástandi, sem ríkir í þessum efnum.

Það sæti sízt á Alþfl.-manni að bera brigður á þá þýðingu, sem verkalýðshreyfingin hefur haft fyrir þróun nútímaþjóðfélags, eða gera lítið úr því mikilvæga hlutverki, sem hún hefur gegnt og getur gegnt framvegis. Ekki er heldur hægt að draga í efa nauðsyn þess, að vinnuveitendur bindist samtökum sín í milli, eins og launþegar gera. En skynsamlegt skipulag er nauðsynlegt á samtökum launþega og atvinnurekenda eins og öllum öðrum samtökum. Heildarárangur af starfsemi þeirra verður einnig því aðeins hagkvæmur, að um samræmda heildarstefnu sé að ræða.

Íslenzkir launþegar greinast í fjölmörg félög, flest þeirra smá. Hvert félag gerir samning um kaup og kjör fyrir félaga sína. Af þessu leiðir, að við sama fyrirtæki, jafnvel á sama vinnustað, geta unnið menn úr mörgum verkalýðsfélögum, sem semja hvert á sínum tíma um kaup og kjör og hafa ekki samráð innbyrðis um afstöðu sína, reyna jafnvel hvert um sig að ná hagkvæmari samningum en hin félögin. Vinnuveitendur greinast einnig í mörg samtök, og eru þeir þó að sjálfsögðu miklu færri en launþegarnir. Af þessu hvoru tveggja leiðir, að sífelld hreyfing er á launamarkaðinum. Sérhver lítill hópur hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig, en ekki um heildina. Sérhver lítill hópur álítur, að vel sé hægt að greiða honum verulega hærra kaup en hann fær. En honum vill þá gleymast, að fái allir aðrir hópar launþega ásamt bændum einnig miklu hærra kaup, þá getur það ekki orðið án almennrar hækkunar á verðlagi, sem gerir kauphækkunina gagnslitla eða gagnslausa. Honum vill einnig gleymast, að því aðeins er mikil kauphækkun honum til handa framkvæmanleg, að sú vara eða þjónusta, sem hann framleiðir, sé ekki háð erlendri samkeppni. Að öðrum kosti leiðir kauphækkun langt umfram kauphækkanir í öðrum löndum til samdráttar framleiðslu eða gengisfellingar.

Það er útilokað, að skynsamir menn geri sér ekki grein fyrir, að allir launþegar í landinu að bændum meðtöldum geta ekki á einu ári orðið aðnjótandi raunverulegra kauphækkana, sem eru langt umfram það, sem þjóðartekjur hafa vaxið eða geta með nokkru móti vaxið á einu ári. Ef allir fá slíka kauphækkun, getur afleiðingin ekki orðið önnur en almenn hækkun verðlags. Þetta er það, sem hér hefur verið að gerast svo að segja árlega allar götur síðan á stríðsárunum. Kaupgjald hefur hækkað meir en nemur aukningu þjóðartekna. Þess vegna hefur verðlag hækkað. Það hefur síðan verið talið tilefni nýrra kauphækkana, sem enn hafa leitt til nýrra verðhækkana og þannig koll af kolli.

Ákveðinn hópur manna getur hins vegar orðið mikilla raunverulegra kauphækkana aðnjótandi, án þess að það valdi almennri verðhækkun eða framleiðslustöðvun, ef hópurinn er fámennur og þarf ekki að standast samkeppni erlendis frá. En hætt er við, að svo mikil kauphækkun til ákveðins hóps raski réttlátum hlutföllum í launakjörum launþega. Þó getur slíkt misræmi skapazt á löngum tíma í launamálum, að slík kauphækkun sé talin nauðsynleg. Þannig komst óháður kjaradómur að þeirri niðurstöðu nú á þessu ári, að kaup opinberra starfsmanna hefði dregizt svo mjög aftur úr kaupgreiðslum fyrir hliðstæð störf í atvinnu- og viðskiptalífinu, að mjög mikil hækkun væri nauðsynleg. En opinberir starfsmenn eru svo fjölmennur hópur, að þessi mikla kauphækkun hlýtur að hafa áhrif á verðlag í landinu, bæði vegna aukinnar tekjuöflunar ríkisins til að standa straum af auknum kostnaði og vegna hækkunar á verði þeirrar þjónustu, sem ríkisstofnanir inna af hendi.

Það er nú eitt helzta deiluefnið í íslenzkum Stjórnmálum og hefur raunar verið það undanfarin ár, hvort lífskjör launþega hafi farið batnandi eða versnandi, hvort hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum hafi aukizt eða minnkað og hvort þær miklu kauphækkanir, sem átt hafa sér stað undanfarin ár, séu orsök hinna miklu verðlagshækkana, sem átt hafa sér stað, eða hvort verðlagshækkanirnar séu orsök kauphækkananna. Það ætti í raun og veru að vera óþarfi að nefna nokkrar tölur því til sönnunar, að lífskjör þjóðarinnar hafi batnað undanfarin ár. Allir menn, sem hafa opin augu og vilja dæma af sanngirni, hljóta að sjá, að lífskjör hafa farið batnandi. Allar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á þessum efnum, leiða og til sömu niðurstöðu. Samanburður á aukningu raunverulegra tekna launþega og vexti þjóðarteknanna sýnir einnig, að hlutdeild launþega í þjóðartekjunum hefur haldizt að mestu óbreytt um langt skeið, en þó farið ívið vaxandi. Hitt er svo annað mál, að tekjur allra launþega hafa ekki vaxið jafnt. Sumir hafa fengið hlutfallslega meira í sinn hlut af aukningu þjóðarframleiðslunnar en aðrir. Yfirleitt hafa tekjur hinna tekjuhærri launþegahópa aukizt meir en tekjur hinna tekjulægri. Launajöfnuður hefur með öðrum orðum minnkað nokkuð. Sumir telja þetta án efa hafa stefnt í rétta átt, þar eð launajöfnuður hafi hér verið orðinn of mikill. Aðrir telja þessa þróun aftur á móti hafa orðið mjög til hins verra. Ég er þeirrar skoðunar, að hinir lægst launuðu í þjóðfélaginu, verkamenn og verkakonur, hafi undanfarið dregizt meira aftur úr í kauphækkunarkapphlaupinu en réttmætt geti talizt. Úr því verður hins vegar ekki bætt með kauphækkun þeim til handa nema sú kauphækkun sé bundin við þessar stéttir einar. En margendurtekin reynsla er fyrir því, að þetta getur ekki tekizt að óbreyttu skipulagi launa- og verðlagsmála. Lögum samkvæmt eiga bændur rétt á hliðstæðri kauphækkun, og þá hækkar landbúnaðarverðið. Aðrar stéttir, iðnaðarmenn, sjómenn, verzlunarmenn, hafa ávallt siglt fljótlega í kjölfarið og meira að segja fengið fleiri kauphækkun en kauphækkun verkamanna og verkakvenna nam. Loks eiga opinberir starfsmenn samkv. lögum rétt til að verða aðnjótandi almennra kauphækkana.

Þetta veldur því, að ógerningur er að bæta raunveruleg kjör verkamanna og verkakvenna með hækkun á kauptöxtum þeirra. Ef það á að gerast að óbreyttu skipulagi í launa- og verðlagsmálum, verður það að gerast með öðrum hætti.

Það er í raun og veru ekki vansalaust, að um það skuli vera stórdeilur hér á landi, hvort lífskjör þjóðarinnar hafi verið að batna eða versna undanfarin ár, svo augljóst sem það ætti að vera öllum mönnum, að þau hafa verið að batna, og svo óyggjandi skýrslur sem til eru um þessi efni. Hitt má segja að sé skiljanlegra, að menn deili um, hvort kauphækkanirnar séu orsök verðhækkananna eða verðhækkanirnar orsök kauphækkananna, þar eð hér er um flókin orsakatengsl að ræða. Augljóst var, að í kjölfar gengislækkunarinnar 1960 hlaut að sigla nokkur hækkun á verðlagi erlends varnings. Sú hækkun var beinlínis nauðsynleg, þar eð hin ranga gengisskráning hafði valdið því, að erlendar vörur voru tiltölulega ódýrari en innlendar, en það var hins vegar orsök langvarandi greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Dregið var úr áhrifum þessara verðhækkana á lífskjör almennings með aukningu tryggingabóta og lækkun skatta, þannig að hækkun framfærslukostnaðar varð ekki veruleg. En hún hlaut samt að verða nokkur. Ríkisstj. sagði það skýrum stöfum, er hún kom til valda, að nokkur skerðing lífskjara í bili væri nauðsynleg til þess að jafna greiðsluhallann við útlönd og safna nauðsynlegum gjaldeyrisvarasjóði. Hér var ekki farið aftan að neinum. Markmiðið náðist. Það tókst að eyða greiðsluhallanum við útlönd, og þjóðin á nú meira en 1000 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð erlendis.

Þegar verðhækkunaráhrifum gengislækkunarinnar var lokið síðast á árinu 1960, var verðlagið orðið stöðugt. Ríkisstj. vonaði, að sá grundvöllur, sem þá hafði verið lagður, fengi að haldast. Þá hefði framleiðsla getað vaxið og viðskipti blómgazt á grundvelli stöðugs verðlags. En hálfu ári síðar eða á miðju árinu 1961 kom til mikilla almennra kauphækkana í landinu. Kaupgjald allra stétta hækkaði um 13–19%. Gjaldeyrisstaða landsins var þá enn veik, enda skammt síðan breytt hafði verið um stefnu. Verðlag hafði árið áður fallið á mjög mikilvægum útflutningsafurðum, og ekki treystandi á verðhækkanir eða aflaaukningu. Undir þessum kringumstæðum var gengisbreyting óhjákvæmilegt úrræði til þess að koma í veg fyrir stöðvun útflutningsframleiðslunnar og til þess að hindra það, að greiðsluafgangur sá, sem verið hafði að myndast í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd, breyttist aftur í greiðsluhalla. Í kjölfar kauphækkananna og hinnar nýju gengisbreytingar sigldu að sjálfsögðu aftur verðlagshækkanir. Þær komu fljótlega fram, og aftur var verðlagið stöðugt um skeið. En á miðju ári 1962 urðu enn almennar kauphækkanir, sem haldið hafa áfram á þessu ári. Jafnframt hefur verðlag farið síhækkandi. Allar þær almennu kauphækkanir, sem hér hafa orðið undanfarin ár, eins og raunar allar almennar kauphækkanir, síðan styrjöldinni lauk, hafa verið hlutfallslega meiri en nemur aukningu þjóðartekna á því ári, sem þær urðu. Allt frá 1947 til 1952 fóru þjóðartekjur á mann minnkandi. Síðan hefur meðalvöxtur þjóðartekna á mann verið um 3% á ári. Þegar almennar kauphækkanir hafa orðið, hafa þær ávallt numið margfaldri þessari upphæð, og þótt þær hafi ekki orðið á hverju einasta ári, þá hefur kauphækkunin í krónum talið alltaf farið fram úr þeirri aukningu á þjóðartekjum, sem orðin var. Þess vegna hefur verðlagið ekki haldizt stöðugt, heldur sífellt verið að hækka. Það er af þessum sökum, sem telja verður hinar almennu kauphækkanir umfram aukningu þjóðarteknanna orsök þeirrar almennu hækkunar á verðlagi, sem hér hefur átt sér stað allar götur frá styrjaldarlokum.

Í þessu sambandi er þess einnig að geta, að kaupgjald hækkar ekki aðeins í kjölfar hækkaðra kauptaxta, sem samið er um með launasamningum, það hækkar einnig vegna flutnings launþega milli launaflokka og vegna breyttrar vinnutilhögunar, t.d. í sambandi við ákvæðisvinnu og vegna hlutaskipta í kjölfar aukins afla eða verðhækkunar. Sú aukning raunverulegra tekna, sem hér hefur átt sér stað undanfarin ár, hefur fyrst og fremst átt sér stað í þessari mynd. Sannleikurinn er sá, — það er bitur staðreynd, en óhagganleg, að taxtahækkanir þær, sem félög launþega hafa samið um allar götur síðan í stríðslok, hafa í raun og veru ekki fært þeim neina raunverulega kjarabót, því að aukni krónufjöldinn, sem launþegar í heild hafa fengið í laun, hefur farið til þess að greiða hækkað verðlag. Raunverulega kjarabótin hefur fyrst og fremst verið fólgin í margvíslegum flutningi milli launaflokka, auknum ákvæðisvinnutekjum, auknum hlutaskiptatekjum, auk þess sem miklar bætur úr tryggingakerfinu hafa bætt kjör alls almennings verulega. Af þessu verður aðeins ein rökrétt ályktun dregin. Viðleitni launþegasamtakanna til þess að bæta raunveruleg kjör félaga sinna ber ekki árangur, ef hún er fólgin í almennum hækkunum á öllum kauptöxtum. Launþegasamtökin geta því aðeins bætt kjör ákveðinna hópa launþega með því að fá laun þeirra hækkuð, ef kauphækkunin breiðist ekki út og verður almenn og ef hún snertir ekki greinar, sem standa í beinni samkeppni við erlenda framleiðslu. Þau geta einnig bætt kjör launþega yfirleitt með því að stuðla að ákvæðisvinnu og fylgjast með frumkvæmd hennar. Og þau geta stuðlað að auknu samræmi og réttlæti í launagreiðslum með því að hafa hönd í bagga með flutningi manna og hópa milli launaflokka og með greiðslum umfram samningsbundið kaup, En slíkar greiðslur eru nú, eins og kunnugt er, algengar í mörgum starfsgreinum.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að minnast á reglur þær sem nú eru í gildi og verið hafa í gildi s.l. 20 ár varðandi verðlagningu innlendra landbúnaðarafurða. Þegar rofin voru tengslin milli breytinga á vísitölu framfærslukostnaðar og kaupgjalds 1960, hefði að mínu viti einnig átt að afnema það fyrirkomulag, að kaupgjald bóndans og þá um leið verðlag landbúnaðarafurða breyttist sjálfkrafa í samræmi við breytingar á atvinnutekjum launastétta í bæjum. Það er í sjálfu sér heilbrigð og réttlát hugsun, að samræmi sé í tekjum bænda og vinnustétta við sjávarsíðuna. Ef t.d. verður aukning á þjóðartekjum, vegna þess að verðlag á útflutningsvörum hækkar mjög verulega, þá eiga ekki aðeins þeir, sem við útflutningsframleiðsluna vinna, að njóta góðs af, heldur þjóðin öll og þ. á m. bændur. Ef launþegar við sjávarsíðuna hækka kauptaxta sína miklu meir en svarar til aukningar þjóðartekna, er ekki réttlátt, að afurðaverð bænda haldist óbreytt, því að þá minnkaði hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum. Hins vegar geta atvinnutekjur launastétta við sjávarsíðuna aukizt af ástæðum, sem alls ekki réttlæta hækkun á tekjum bænda og verði innlendra landbúnaðarafurða. Þótt síldarafli aukist eitt sumar og tekjur sjómanna hækki af þeim sökum, ættu bændur ekki að eiga rétt á hækkuðu kaupi og hækkuðu afurðaverði. Þótt tekjur iðnaðarmanna vaxi vegna þess, að tekin hefur verið upp ákvæðisvinna, á kaup bóndans ekki að hækka. Og þótt meiri afli berist á land og verkafólk vinni lengur á dag við verkun hans og fái þess vegna meiri tekjur, þá réttlætir það ekki kauphækkun hjá bóndanum. En nú er það svo samkv. þeim reglum, sem fylgt hefur verið, að aukinn síldarafli, auknar ákvæðisvinnutekjur og aukin atvinna við sjávarsíðuna færa bóndanum sjálfkrafa auknar tekjur og valda hækkun á verðlagi landbúnaðarafurða, Hér er um augljósa rökleysu að ræða, augljóst ranglæti í garð þeirra launastétta, sem fá tekjuauka, sem að réttu lagi ætti að verða raunveruleg kjarabót, en verður það ekki, vegna þess að landbúnaðarafurðirnar hækka í kjölfar hans og nokkur hluti tekjuaukans rennur þess vegna til bænda. Þetta ranglæti kom greinilega í ljós við verðlagningu landbúnaðarafurða nú í haust, þar eð sú tekjuaukning launþega, sem kaup bóndans og hið nýja landbúnaðarverð var miðað við, var sumpart þess konar tekjuaukning, sem að réttu lagi alls ekki á að gefa tilefni til neinnar hækkunar á kaupi bóndans né hækkunar á verði afurða hans.

Að síðustu langar mig til þess að fara nokkrum orðum um þróunina í efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarna mánuði og vandann, sem við er að etja af hennar sökum.

Ráðstafanir þær, sem gerðar voru í efnahagsmálum 1960, gerbreyttu aðstöðu þjóðarinnar út á við. Á árunum 1961 og 1962 varð í fyrsta skipti síðan á styrjaldarárunum greiðsluafgangur í viðskiptum við aðrar þjóðir. Samtímis eignaðist þjóðin gilda gjaldeyrisvarasjóði erlendis og lánstraust hennar var endurvakið. Á þessu ári hefur hins vegar aftur sigið á ógæfuhliðina, einkum á síðustu mánuðum. Á fyrra árshelmingi jókst innflutningur um 25%, en útflutningur ekki nema um 6%. Það er fyrirsjáanlegt, að á þessu ári verður ekki greiðsluafgangur í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd eins og tvö undanfarin ár, heldur nokkur greiðsluhalli. Jafnframt mun gjaldeyrisforðinn minnka nokkuð í stað þess að vaxa. Hvers vegna hefur þessi breyting orðið? Ástæðan er sú, að á þessu ári hefur aukning neyzlu og þó einkum og sér í lagi aukning framkvæmda orðið mun meiri en undanfarin ár og jafnframt mun meiri en svarar til aukningar þjóðartekna. Á árunum 1961–1962 notuðum við ekki allar tekjur okkar að viðbættum þeim erlendu lánum, sem tekin voru til langs tíma, heldur lögðum hluta af þeim fyrir í gjaldeyrisvarasjóð. Nú í ár notum við til framkvæmda og neyzlu upphæð, sem er hærri en þjóðartekjurnar að viðbættum erlendum lántökum til langs tíma. Þess vegna er halli á greiðsluviðskiptunum. Þess vegna minnkar gjaldeyrisvarasjóðurinn.

En þá er eðlilegt, að menn spyrji: Hvers vegna hafa framkvæmdir aukizt svona mikið? Hvers vegna hefur neyzla aukizt svona mikið? Svarið er fólgið í því, að vegna hinna miklu breytinga, sem undanfarið hafa orðið á kaupgjaldi og verðlagi, hafa ýmsir farið að óttast, að ekki yrði unnt að halda gengi krónunnar óbreyttu, en ef til gengisfellingar og áframhaldandi verðhækkunar í kjölfar hennar kæmi, þá væri um að gera að vera búinn að ljúka öllum fyrirhuguðum framkvæmdum, um að gera að festa fé í fasteignum eða vörum og um að gera að kaupa sem fyrst erlenda vöru, áður en hún hækkaði. Þetta er undirrót ofþenslunnar í framkvæmdum og innflutningi undanfarna mánuði.

Það hefur oft áður reynzt hagkvæmt og góður gróðavegur að leggja í miklar framkvæmdir og flýta sér að kaupa erlenda vöru, þegar menn fór að gruna, að gengisbreyting væri í aðsigi. Það er sannarlega mál til þess komið, að slík spákaupmennska hætti að vera gróðalind. Og það er enn þá ekki um seinan að koma í veg fyrir, að hún verði það í þetta skipti. Haldi eðlileg framleiðsluaukning áfram og sú hagstæða verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað á útflutningsmörkuðum Íslendinga undanfarið, tel ég útflutningsatvinnuvegina þrátt fyrir tímabundna örðugleika geta greitt það kaupgjald, sem nú er ákveðið í samningum, þótt mér sé að vísu kunnugt um, að málsvarar útflutningsatvinnuveganna telja ekki, að svo sé. Verði hins vegar hækkun á kauptöxtum, þannig að framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuveganna vaxi, þá mun annað tveggja gerast, að útflutningsframleiðsla stöðvist eða gengið falli.

En það er ekki nóg, að útflutningsframleiðslan geti haldið áfram. Það verður einnig að breyta þeim greiðsluhalla gagnvart útlöndum, sem verður á þessu ári, í greiðsluafgang á næstu tveimur árum. Gjaldeyrisvarasjóður verður einnig, þegar frá líður, að geta haldið áfram að vaxa í samræmi við vaxandi þjóðarframleiðslu og utanríkisviðskipti. Ef gripið er í taumana nú, þarf ekki að beita gengisfellingu til þess að ná þessu markmiði. Gengislækkunin 1960 var nauðsynleg, til þess að unnt væri að afnema uppbótakerfið og auka frjálsræði í innflutningsverzlun og gjaldeyrisviðskiptum. Þar var um að ræða leiðréttingu á grundvallarmisræmi í verðkerfi þjóðarbúskaparins. Sú leiðrétting var gerð þá. Hana þarf ekki að endurtaka nú. Gengislækkunin í ágúst 1961 fylgdi í kjölfar hinna miklu kauphækkana um sumarið, vegna þess að gjaldeyrisstaða var þá enn veik og útflutningsatvinnuvegirnir þoldu ekki kostnaðarauka vegna undangengins verðfalls og óvissu um framtíðina. Nú er gjaldeyrisstaðan hins vegar sterk. Framleiðsla hefur farið vaxandi og verðlag hækkandi, og vonir standa til þess, að svo verði áfram. Þess vegna er nú ekki þörf á jafnróttækri ráðstöfun og gengisbreytingu til þess að vinna gegn greiðsluhallanum og efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Markmiðinu má ná með samræmdum aðgerðum á sviði peningamála og fjármála. Nokkrar ráðstafanir í þessum efnum hafa þegar verið gerðar. Aðrar eru í undirbúningi. En aðgerðir á sviði peningamála og fjármála einar sér nægja ekki til þess að breyta greiðsluhallanum í hagnað og efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Við verðum öll að staldra við, draga úr framkvæmdum og láta aukningu neyzlu á næsta ári ekki verða jafnmikla og hún var á þessu ári. Þetta getur ekki orðið með skynsamlegri stefnu í peningamálum og fjármálum einni saman. Hér verður einnig að koma til skynsamleg og ábyrg stefna í launamálum, — stefna, sem miðast við það, að launahækkanir séu, þegar á langan tíma er litið, ekki meiri en svarar til aukningar þjóðarteknanna. Við verðum að hafa þann kjark, sem nauðsynlegur er til þess að skipa málum okkar þannig, að við höldum jafnvægi í viðskiptum við aðrar þjóðir og gengi krónunnar sé stöðugt. Þetta er hvort tveggja forsenda þess, að framleiðsla haldi áfram að vaxa og viðskipti að blómgast. Þetta er hvort tveggja forsenda þess, að lífskjörin geti haldið áfram að batna. Þetta er hvort tveggja forsenda þess, að við njótum trausts annarra þjóða og getum sjálfir borið höfuðið hátt.

Herra forseti. Ég hóf mál mitt með því að minnast á, að Ísland er eitt hið minnsta sjálfstæðra. ríkja í víðri veröld. Ýmsir drógu það áður í efa, að jafnfámenn þjóð og Íslendingar gæti haldið uppi sjálfstæðu ríki. Þeir menn eru enn til með öðrum þjóðum, sem hrista höfuðið yfir tilvist lítils sjálfstæðs menningarþjóðfélags hér norður undir heimskautsbaugi. Rökin fyrir réttmæti þess og nauðsyn, að Íslendingar séu og verði sjálfstæð þjóð, eru ekki aðeins þjóðerni þeirra og tunga, menning og saga, heldur verða Íslendingar jafnframt að finna það með sjálfum sér og sýna það heiminum öllum, að þeir kunni fótum sínum forráð í efnahagsmálum. En sú þjóð ein verður talin kunna fótum sínum forráð, sem eyðir ekki meiru en hún aflar og getur haldið gengi gjaldmiðils síns stöðugu. Það er því miklu meira en venjulegt viðfangsefni í efnahagsmálum að lagfæra það misræmi, sem á undanförnum mánuðum hefur orðið í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar, án þess að beita í því skyni gengisfellingu eða höftum. Það er beinlínis þáttur í eilífri sjálfstæðisbaráttu íslenzkrar þjóðar að leysa sérhvern efnahagsvanda á þann hátt, er styrki sjálfsvirðingu hennar og auki traust hennar meðal annarra þjóða. Við skulum sýna sjálfum okkur og heiminum öllum, að við eigum það skilið að vera sjálfstæð þjóð, með því að hafa kjark til þess að fylgja fram þeirri stefnu, sem tryggir vaxandi framleiðslu, heilbrigð utanríkisviðskipti, réttláta skiptingu þjóðarteknanna og stöðugt gengi gjaldmiðilsins.